Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2023, Síða 241
Ritfregnir
Þórgunnur Snædal. 2023. Rúnir á Íslandi. Stofnun Árna Magnússonar í
íslenskum fræðum, Reykjavík. 320 bls.
Þessi efnismikla bók byggir á áratuga rannsóknum höfundarins, Þórgunnar
Snædal, á rúnaristum á Íslandi. Miklu efni er bætt við fyrri skrif hennar og munar
þar mestu um nýja og ítarlega umfjöllun um rúnir í handritum. Bókin er fallega
myndskreytt og ljósmyndir af fræðikonunni við rúnastörf í sænskri og íslenskri
sumarblíðu vekja sérstaka athygli.
En hvað eru rúnir? Í sem stystu máli má segja að rúnir séu hljóðtákn eins og
í latnesku stafrófi sem voru notuð á germönsku málsvæði til forna. Höfundur
telur líklegt að rúnirnar hafi þróast eftir að Germanar kynntust norður-ítölskum
letrum og latínuletri á öldunum fyrir og um Krists burð en hafi svo bætt við tákn-
um eftir þörfum (bls. 26). Flestar rúnaristurnar hafa fundist á Norðurlöndum,
þær elstu eru frá 2. öld. e.Kr. en þær frægustu frá 4.–5. öld.
Þekking á rúnum barst með landnámsmönnum til Íslands og hér virðast þær
hafa verið í samfelldri notkun fram á 19. öld, eins og sýnt er fram á í bókinni.
Margir fræðimenn hafa fjallað um rúnir á Íslandi, meira að segja sjálfur Jónas
Hallgrímsson, sem teiknaði upp og lýsti þeim rúnalegsteinum sem urðu á vegi
hans svo nákvæmlega og las rúnirnar svo vel — „að ég hef sjaldan þurft að breyta
neinu,“ segir Þórgunnur. „Nokkrir steinar eru aðeins þekktir af teikningum
hans“ (bls. 14). Eins og höfundur rekur gerði Anders Bæksted rúnum á steinum
og gripum býsna góð skil í riti sínu Islands Runeindskrifter frá 1942. Með hliðsjón
af nýjum rannsóknum hefur Þórgunnur bætt ýmsu efni við rúmlega áttatíu ára
gamla umfjöllun Bæksteds og hún skoðar margt á annan hátt í samræmi við
breytt viðhorf í rúnafræðum. Frumlegasta framlag hennar felst í rannsóknum á
handritum með rúnafræðilegu efni sem varðveitt eru í handritadeild Lands bóka -
safns og víðar. Hún segist í raun hafa verið „alveg óviðbúin að þurfa að fást við
allan þann aragrúa handrita með rúnafræðilegu efni“ sem til er og hafa skoðað og
skráð um hundrað handrit (bls. 13).
Í bókinni eru skráðar 108 tölusettar íslenskar rúnaristur, 55 á legsteinum eða
í hellum og 53 á gripum af ýmsu tagi, auk rúna í handritum. Ein elsta rúnarista á
Íslandi er á spýtubroti úr rúnakefli frá 10.–12. öld sem fannst í Viðey 1993. Rún -
irnar eru óræðar að öðru leyti en því að síðasta orðið virðist vera ást. Yngstu rist-
urnar eru frá síðari hluta 19. aldar. Eins og sýnt er á dreifingarkortum á bls. 247
og 269 dreifast risturnar, bæði á steinum og gripum, nokkuð jafnt um alla lands-
hluta en eru fæstar á Austurlandi. Af eldri munum er aðeins einn austfirskur,
Valþjófsstaðahurðin fræga.
Íslenskt mál 45 (2023), 241–243. © 2023 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.