Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2023, Page 243
Sérstakur kafli er helgaður letra- og dulrúnasöfnum frá 16. og 17. öld. Þar er
fjallað um handrit úr Flatey (AM 687d 4to) og Rúnareiðslu Jóns Ólafssonar
Grunnvíkings. Þá er enn vikið að Ole Worm og heimildarmönnum hans á Íslandi
og loks greint frá Rúnaþáttum Björns á Skarðsá og Jóns Eggertssonar. Í fimmta
kafla er fjallað um norræn rúnakvæði og vekja þar einkum athygli rúnakvæði í
útgáfu Páls Eggerts Ólasonar, annað íslenskt en hitt norskt. Í því samhengi er
sagt frá niðurstöðum sem enski fræðimaðurinn Ray heitinn Page komst að um
þessa texta. Þótt höfundur geti þess ekki er Page m.a. frægur fyrir að hafa sett
fram „Fyrsta lögmál rúnafræðinnar“ sem hljóðar svo: Fjöldi túlkana hverrar áletr-
unar skal jafngilda fjölda fræðimanna sem rannsaka hana. Þessi meinlega full-
yrðing á þó tæplega við um um íslenskar rúnir, nema e.t.v. þær allra elstu, sem eru
ærið brotakenndar.
Í kaflanum þar á eftir er farið í saumana á rúnum í yngri handritum og fjallað
um handrit frá Vesturlandi (Lbs 977 4to), frásagnir um fornaldarleifar og rúna -
stúss séra Ásgríms Vigfússonar sem kallaður var Hellnaprestur; enn fremur er þar
minnst á handrit frá Austurlandi og ýmis letrasöfn frá Norður- og Suðurlandi.
Afar fróðleg umfjöllun er þar líka um skyldleika íslensks leynileturs við letur í
Noregi og Svíþjóð.
Í kafla um rúnir á gripum er fyrst fjallað um rúnakefli úr ýviði frá lokum 9.
eða byrjun 10. aldar þar sem á eru ristar elstu þekktu rúnir á Íslandi — en því
miður er merking þeirra óráðin. Því næst er rætt um gripi frá 11. öld til 19. aldar.
Þar er m.a. sagt frá áðurnefndu rúnakefli frá Viðey, rúnum á reku sem fannst við
Indriðastaði í Skorradal, rúnum á brýni frá Hvammi í Dölum og munum sem
komið hafa í ljós við uppgröft á Alþingisreitnum. Gripir frá seinni öldum eru
sumir hverjir líka áhugaverðir, t.d. rúnir á látúnshylki utan um íslenskt rímtal og
rúnir á „vatnsdýri“ í ljónsmynd frá Vatnsfirði; hvor tveggja gripurinn er frá 17.
öld.
Í lokakaflanum er greint frá rúnum á legsteinum og öðrum ristum í stein frá
13. öld og fram til 19. aldar, m.a. legsteininn frá Grenjaðarstað sem fyrst vakti
áhuga höfundar á íslenskum rúnum, eins og fyrr er getið. Að auki má nefna
umfjöllun um rúnir í Bjarnarhelli við Hítarvatn og Paradísarhelli undir Eyja -
fjöllum. Nákvæm skrá yfir rúnaristur á Íslandi er afar greinargóð. Þar eru annars
vegar taldar upp ristur á legsteinum og aðrar ristur í stein og hins vegar ristur á
gripum. Þá fylgja skrár yfir nöfn og orð í rúnaristum, handritaskrá og ritaskrá. Í
blálokin er svo útdráttur á ensku.
Enginn vafi er á því að bók Þórgunnar Snædal um rúnir á Íslandi er frumlegt
og mikilvægt framlag til íslenskra fræða almennt og rúnafræða sérstaklega sem
varpar ljósi á afar fróðlegt efni sem hingað til hefur ekki hlotið þá athygli sem það
verðskuldar.
Þórhallur Eyþórsson
Háskóla Íslands
tolli@hi.is
Ritfregnir 243