Helgarpósturinn - 21.11.1985, Blaðsíða 14

Helgarpósturinn - 21.11.1985, Blaðsíða 14
LANDFLÓTTA SONUR RÁÐHERRA í RlKISSTJÓRN SIHANOUKS ER (SLENSKUR RÍKISBORGARI Þegar Kambódíumadurinn ungi, Neak Than, las um Noröurlönd í háskólanum í Phonm Pinh, renndi hann ekki grun í að hann œtti eítir að setjast að í einu þeirra. Hann var lífsglaður og dekraður af auðugum og valdamiklum foreldrum, gekk menntaveginn og varð liðsforingi í flughernum. Áriö 1964 tók faðir hans sœti landbúnaðarráðherra í stjórn Norodon Sihanouks prins. Fjórum árum síðar var líf fjölskyld- unnar lagt í rúst. Stjórninni var steypt af stóli. Neak Than tókst að flýja land til Laos. Um afdrif fjöl- skyldu sinnar, foreldra og sex systk- ina, veit hann ekkert enn í dag. Sautján árum síðar er Neak Than ís- lenskur ríkisborgari. Hann heitir Samáel Samúelsson og býr í íra- bakka í Reykjavík. Sihanouk prins átti ekki von á að hitta fyrir landa sinn þegar hann kom í heimsókn til íslands á dögun- um. Þó segir Samúel að hann hafi kannski orðið meira hissa á að Kambódíumaður gaeti hugsað sér að búa í svo hrjóstrugu landi án trjá- gróðurs. Sjálfur minnist Samúel komu sinnar til íslands 1972: ,,Ég kom með Gullfossi í septemb- er og það var örlítill snjór í fjöllum. Ég man að mig langaði mest að tár- fella, því ég hafði aldrei áður séð land án trjáa. Ég hafði á tilfinning- unni að ísland væri gróðurlaus klettur. Það var rokkið þegar við lögðumst að bryggju síðdegis, og mér virtist Reykjavík litlaus borg. Ég þekkti engan og fyrstu nóttina gisti ég á Hótei City.“ Síðan lagði Samúel land undir fót og skoðaði ísland. Tilgangurinn með þessari ferð var einfaldur; að dvelja hér um hríð og reyna að fá einhvern botn í íslenska tungu. En fljótlega eyddi hann peningunum sem hann átti og varð að leita sér að vinnu. í fyrsta skipti á ævinni þurfti hann að taka hressilega til hendi. Til Singapore eða Hong Kong þegar mér datt í hug Hann fékk vinnu í saltfiskverkun BÚR og komst í kynni við verkstjór- ann; ,,sem varð mér eins og faðir og besti vinur. Líkamlega átti ég auð- velt með að þola vinnuna, en það gekk verr andlega. Ég talaði ekki málið og þess vegna einangraðist ég. Ég man að á þessum árum héldu margir að ég væri Grænlendingur. Vinur minn verkstjórinn gat út- vegað mér íbúð og á kvöldin sat ég heima og las. Auðvitað var ég ein- mana, en það var aldrei ætlun mín að vera lengi á Islandi. Þó hugsaði ég ekkert um hvað kynni að taka við. En skömmu síðar rann gildis- tími vegabréfs míns út. Ég sendi það til Parísar til endurnýjunar, en fékk það aldrei aftur. Þá kyrrsettist ég á Islandi." Samúel er 45 ára. Hann fæddist í Phonm Pinh, höfuðborg Kambódíu, og var skírður Neak Than sem laus- lega snarað yfir á íslensku merkir Konungur sjöhöfða snáksins. Hann hóf skólagöngu sex ára og var dekraður af innfæddum foreldrum sem tilheyrðu yfirstéttinni í Kambódíu. ,,Mér þótti mjög vænt um móður mína og bar virðingu fyrir föður mínum sem var menntaður maður og hafði ferðast víða. Það var alltaf gert ráð fyrir að ég gengi mennta- veginn, að öðru leyti leiddi ég ekki hugann að framtíðinni. Ég settist á skólabekk í háskólanum í Phonm Pinh og þar komst ég í kynni við Skandinavíu í gegnum bækur. Ég fylltist fljótt áhuga á þessum lönd- um, þó ég fengi gleggstar upplýsing- ar um Svíþjóð. Ég lifði í vellystingum ungur mað- ur og gerði það sem mig langaði til. Um helgar stökk ég upp í flugvél ef svo bar undir og flaug til Singapore eða Hong Kong, aðeins til að hafa það huggulegt. Peningarskiptu ekki máli. Það var nóg til af þeirn." Drepa fóllc eins og dýr ,,Ég fór í hagfræðinám í Tókýó, en lauk ekki prófi áður en ég fór aftur til Kambódíu. Faðir minn tók sæti í stjórn Sihanouks árið 1964, og varð landbúnaðarráðherra. Þá hafði Sihanouk verið þjóðhöfðingi í mörg ár. Þegar stjórnin átti eitt ár að baki varð mér að ósk minni; að verða liðsforingi og flugmaður í hernum. Þannig eyddi ég næstu þremur ár- um. Sihanouk var erlendis, mig minnir í heimsókn í Sovétríkjunum, þegar stjórninni var steypt af stóli. Öðrum stjórnarmeðlimum var varpað í fangelsi eða þeir drepnir. I Suður- Asíu er fólk drepið eins og dýr. Ég veit ekkert hvað varð um föður minn. Valdatakan, undir stjórn Lon Nol yfirmanns Kambódíuhers, gerð- ist næstum jafn snögglega og hendi væri veifað. Annað hvort hafa þeir handtekið föður minn heima eða á skrifstofu hans. Sömu örlög hafa ef- laust beðið móður minnar og systk- ina. Sihanouk hafði engar fréttir af þeim heldur þegar hann kom hing- að. Við hittumst og spjölluðum sam- an á Hótel Sögu, en hann vissi ekk- ert um afdrif þeirra. Óvissan er allra verst. Ég bjargaði mér á flótta. Ég hugs- aði aðeins um það að bjarga eigin skinni. Ég átti mér ekki viðreisnar von sem sonur ráðherra í fyrri stjórn. Ef þú ert auðugur og valda- mikill maður í Kambódíu ertu eins og konungur. Ef þú missir hvoru tveggja ertu ekkert. Þá áttu hundalíf fyrir höndum. Ég var líka hræddur um að verða drepinn. Stuðnings- menn Lon Nol innan hersins áttu góða daga í vændum og upphefð. Én þegar mér varð ljóst að hverju dró, flaug ég einn míns liðs í skjóli nætur á einni af flugvélum stjórnar- innar til Laos.“ Erfitt líf á fslandi ,,Þar kom ég mér í samband við lækni sem hafði heimsótt okkur í Kambódíu. Hann hjálpaði mér á all- an máta og kom mér til London. Ég lifði á peningum af bankareikningi sem faðir minn hafði eitt sinn opnað í Frakklandi og þeir dugðu mér vel framan af. Ég dvaldi stutt í London en hélt síðan til Skandinavíu. Ég byrjaði í Danmörku og fór síðan yfir til Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Mig langaði að kynnast menningu og tungumálum þessara landa og sums staðar fékk ég styrk til þess. Svo vann ég fyrir mér með því að taka til hendi við eldamennsku á kínverskum veitingastöðum. Loftslagið í Skandinavíu átti vel við mig, miklu betur en hitinn í heimalandi mínu. Mér leið eins vel og við var að búast, mér var hvar- vetna vel tekið og á nokkrum stöð- um flutti ég fyrirlestra um ástandið í Kambódíu. Og bláu norrænu aug- un! Fyrir mér voru þannig lit augu eitthvað alveg sérstakt. Mér fannst ég horfa inn í draumaland!" Nokkurra ára flakki á milli landa í Skandinavíu lauk þegar Samúel sigldi til íslands. „Alla ævi hafði ég lifað fyrir líðandi stund, án þess að velta vöngum yfir framtíðinni. í Skandinavíu varð mér ljóst að lífs- baráttan getur verið erfið. Það voru viðbrigði að þurfa að vinna fyrir lifi- brauði sínu. Mér finnst lífið á íslandi mjög erfitf." Eftir nokkurra ára starf hjá BÚR var honum boðin vinna við elda- mennsku og annað tilfallandi hjá franska sendiráðinu, og við það starfar hann enn. Auk þess hefur hann gripið í eldamennsku í Kína- eldhúsinu og um hríð vann hann hjá Plastprenti. Meðfram hefur hann stundað nám í frönsku við Háskól- ann. Að vísu er honum franskan töm, því það var tungumál yfirstétt- arinnar í Kambódíu og auk þess ferðaðist Samúel endrum og eins til Frakklands á árum áður. Til dæmis lærði hann franska eldamennsku í kvöldskóla í París og fór þess utan á saumanámskeið. „Ég hanna og sauma fötin mín sjálfur ef svo ber undir.“ Draumurinn að geta snúið aftur Samúel er giftur íslenskri konu og á tvær dætur, 7 og 4 ára. „Draumur minn er að geta einhvern tímann farið með fjölskyldu mína til Kambódíu. Eins og ástandið er í dag get ég það ekki. Sihanouk réði mér frá því. Ég er Kambódíumaður með erlent ríkisfang og vegabréf. Ef ég kæmi þangað mundu þeir telja mig njósnara. Þeir eru tortryggnir. Þeir setja menn í fangelsi án nokkurrar ástæðu, og hver mundi hjálpa? Ég ann landi mínu, og óska þess eins og aðrir Kambódíumenn sem hafa flúið þaðan, að við getum snúið aftur til föðurlandsins. Ég hlýt að verða Kambódíumaður fyrst og fremst, ísland kom númer tvö. Samt líkar mér mjög vel á Islandi. A meðan ég get ekki verið í Kambódíu gæti ég ekki hugsað mér annað land til búsetu. Eg á fáa vini en góða, og hér hefur mér verið tekið vel frá upphafi. Ég hef aldrei orðið var við kynþáttafordóma meðal Is- lendinga. Ég fylgist vel með málefnum lands míns, en get lítið talað um þau. íslendingar skilja ekki aðstæð- ur Kambódíu; Vesturlandabúar og Asíubúar eru ólíkir. í raun og veru er þetta að mörgu leyti eins og biðtími, bið eftir því að okkar fólk fái sjálft að ákvarða sína framtíð. A meðan ætti ég að einbeita mér að því að læra ís- lenskuna betur. Ég skil hana og les auðveldlega, en framburðurinn finnst mér erfiður." 14 HELGARPÖSTURINN Eftir Eddu Andrésdóttur Mynd Jim Smart

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.