Helgarpósturinn - 21.11.1985, Blaðsíða 28

Helgarpósturinn - 21.11.1985, Blaðsíða 28
LEIKLIST Okurlánarinn og jólin eftir Reyni Antonsson Leikfélag Akureyrar. Jólaœvintýri byggt á sögunni ,,A Christmas Carol", eftir Charles Dickens. Leikgerd: Leif Pedersen og Jesper Jensen. Tónlist: Allan Andersen. Stjórnandi tón- listar: Roar Kvam. Þýðing: Signý Pálsdóttir; þýðing söngtexta: Kristján frá Djúpalœk Leikmynd: Hlín Gunnarsdóttir. Búningar: Una Collins. Lýsing: Ingvar Björnsson. Leikstjóri: María Kristjánsdóttir. „Margur verður af aurum api.“ Þetta er fornt spakmæli en sígilt. Það hefur meðal annars sýnt sig að þetta spakmæli er í fullu gildi á Islandi í dag, að minnsta kosti ef marka má fréttir fjölmiðla síðustu vikurnar. Og það kostar einatt bágindi einhverstaðar þegar auðsöfnun einhvers verður að ástríðu. Eina slíka sögu segir sá ástsæli Charles Dickens í hinni frægu jólasögu sinni „A Christmas Carol“, en nafnið merkir „Jóla- söngur'* og vísar til þeirrar ensku siðvenju að börn syngi jólasöngva á götum úti eða í verslunum og þiggi gjafir fyrir. Saga þessi er upphaflega samin sem ádeilusaga gegn barnaþrælkun síðla árs 1843, og naut hún þegar mikillar hylli almennings, hylli sem hún enn nýtur. Sagan fjallar um karlfausk einn, Scrooge að nafni, sem auðgast hefur á verðbréfabraski, okurlánum, vörusvikum og ýmsu öðru svona miður fallegu (kannist þið nokkuð við þessa persónu úr dægurmálaum- ræðunni?). Svo mikil er auðsöfnunarástríða hans orðin að hann hefur algjörlega slitnað úr sambandi við hið mannlega samfélag. Hann er meðal annars búinn að glata hæfi- leikanum til að gleðjast á jólunum, og auðvit- að veitir auðurinn honum enga gleði, ekki fremur en brennivínið manni sem orðinn er sjúklega háður því. Scrooge er þó inn við beinið ekki svo slæmur karl, og hann var að- eins venjulegur ungur maður áður en hann ánetjaðist þessari fíkn sinni þar sem voru peningarnir. En áður en augu hans opnast fyrir þessum hlutum á margt eftir að gerast. Eftir þessari hugljúfu en jafnframt hár- beittu sögu Dickens hafa verið unnin mörg sviðsverk, sjónvarpsmyndir og kvikmyndir, enda býður þessi einfalda en þó margbrotna saga upp á marga möguleika. Hana má túlka hvort heldur sem drama, gamanverk, ádeilu, eða þá skrautsýningu með tónlist. Sú leik- gerð sem Leikfélag Akureyrar notar mun vera dönsk að uppruna, og óneitanlega ber hún mestan keim af hinu síðasttalda. Og i slíkri uppfærslu er dálítið hætt við að hinn hárbeitti boðskapur sögunnar drukkni í glysi og prjáli, en þessari gildru hefur Maríu Krist- jánsdóttur blessunarlega tekist að sneiða hjá. Það er að sönnu nóg af glansi og glysi, fögrum litum og tónlist í sýningunni, en boð- skapurinn og ádeilan skila sér að mestu. Þó hefði fyrir mína parta mátt leggja þyngri áherslu á eymd Cratchit-fjölskyldunnar, helstu fórnarlamba nirfilsins, en t.d. stytta iokaatriðið eilítið. Þessi eymd Cratchitfjöl- skyldunnar verður nefnilega að skoðast ásamt hinni sjúklegu, tilgangslausu auðsöfn- un Scrooge, sem þungamiðja verksins. Þá virðist handrit þessarar leikgerðar ekki .bjóða upp á mjög mikla persónusköpun, en einnig þar hefur leikstjóri víða gert mjög góða hluti. Öll umgjörð sýningarinnar er með hinum mestu ágætum. Leikmynd Hlínar Gunnars- dóttur er haganleg og hæfileg blanda raun- sæis og draums, og hið sama má einnig segja um lýsingu Ingvars Björnssonar. Leikmynd, lýsing og hin einkar áheyrilega en einfalda tónlist Allan Andersens sem samin er undir auðheyranlegum áhrifum frá enskum jóla- söngvum, og útsett er af smekkvísi frá hendi Roars Kvam, mynda einkar skemmtilega heild sem stundum er hrein unun að horfa á, til dæmis í upphafsatriðinu. Og ekki má gleyma enn einu augnayndinu þar sem eru hinir litskrúðugu búningar Unu Collins sem ljá sýningunni einkar skemmtilegan enskan svip. Það er vitaskuld Árni Tryggvason sem ber höfuð og herðar yfir aðra leikara sýningar- innar í hlutverki nirfilsins Scrooge, og bætir hér enn einni persónunni í sitt litríka safn. Árni fer hér þá leið að túlka nirfilinn fyrst og fremst sem skoplega, jafnvel á köflum tragi- kómíska persónu, og er það vissulega leið út- af fyrir sig til að túlka fólk af þessu tagi. Af- leiðingin verður auðvitað sú að manni fer að þykja hálfgildings vænt um karlangann, og vorkenna honum. Hið eina sem maður gat fundið að þessari persónusköpun, var það að „Árni Tryggvason f hlutverki nirfilsins Scrooge bætir enn einni persónunni við í sitt litríka safn," segir Reynir Antonsson m.a. f umfjöllun sinni um sýningu Leikfélags Akureyrar á Jólaævin- týrinu. manni fannst hann ekki alveg nógu sannfær- andi í þeim atriðum þar sem sjálfsblekking hans er smátt og smátt að hrynja. Það hlýtur nefnilega að valda ekki litlum sálrænum þjáningum hjá jafn eðlisgóðum manni eins og Scrooge er þarna gerður þegar slíkt gerist. Theódór Júlíusson leikur hinn arðrænda, útþrælkaða skrifara Cratchit. Þessi persóna mun, að minnsta kosti í sumum leikgerðum, hafa verið sýnd í skoplegu eða að minnsta kosti kaldhæðnislegu ljósi. Hér er hann fyrst og fremst sýndur sem hinn guggni, yfir- keyrði vinnuþræll sem arðránið hefur næst- um svipt mannlegum tilfinningum — ekki alveg þó. Virðingin fyrir helgi jólanna og fölskvalaus ástin á fötluðum syninum er enn eftir. Theódór túlkar þetta hlutverk af ein- stakri nærfærni og skilningi. Þá er Þráinn Karlsson stórgóður í hlutverki Marleys sálu- félaga Scrooge, en í hlutverki luktarberans er hann líkari því sem við eigum að venjast. Ekki má gleyma þeim Jóhanni Ögmundssyni og Björgu Baldvinsdóttur, en hún birtist nú aftur á leiksviði eftir nokkurt hlé. Þau leika meðal annars Fezzewighjónin, og er ekki að efa að þau hafa hér enn einu sinni brætt hjörtu einhverra Akureyringa með hjarta- hlýju sinni, sem svo oft hefur einkennt sam- leik þeirra. Af óðrum leikurum ber sérstak- lega að nefna Barða Guðmundsson sem leik- ur Friðrik, kaldhæðinn systurson nirfilsins. Hjá honum bregður fyrir þessum frábæra húmor sem er sérstakt aðalsmerki Breta. Börnin gefa einnig sýningunni léttan, hug- næman blæ, og söngur þeirra er á stundum unaðslegur, og sjálfsagt mun betri en jóla- söngur enskra krakka á götum úti. Þessi viðamikla sýning er enn einn sigur- inn fyrir Leikfélag Ákureyrar. Hér er á ferð- inni einkar falleg, hugnæm sýning, rétt eins og sjálf jólahátíðin sem í vændum er. Og boð- skapur sá sem verkið flytur kemur okkur öll- um við. Að minnsta kosti á meðan nirfillinn Scrooge og hans nótar eru enn á meðal vor. Og ef þessi sýning getur hrært hjarta, þó ekki væri nema eins okurlánara svo hann skilaði einhverju sinna aðþrengdu fórnar- lamba því sem hann hefur af því haft, eða hjarta eins embættismanns svo hann skili einstæðu móðurinni sem hann ætlaði að fara að svipta aleigunni vegna skulda, því sem hún á — þá hefur þessi sýning náð að gera eitthvað gott. POPP Fimm ára medganga — steinbarn IN SQUARE CIRCLE - Stevie Wonder Útgefandi: Motown/Skífan I heil fimm ár — hálfan áratug — hefur Stevie Wonder haft eina og sömu hljómplöt- una í smíðum. Við hverju býst maður svo, þegar slíkur gripur er gefinn út? Vitaskuld meistaraverki, hvorki meira né minna. Sér í lagi þegar stórpoppari og fyrrverandi undra- barn eins og Stevie Wonder á í hlut. Því miður er In Square Circle langt frá því að vera snilldin uppmáluð. Wonder kann vitaskuld vel til verka í stúdíói. Hljóðfæra- leikari er hann prýðilegur og fjölhæfur að auki. Hann getur samið áheyrileg lög, eins og hundruð dæmi sanna, en í þau vantar að þessu sinni allan þann neista, sem einkenndi tónlist Wonders á síðasta áratug. Þau eru hryllilega miðlungs. Kannski væntir maður of mikils af plötu, sem var heil fimm ár í smíðum. Kannski var Wonder of lengi að verki, missti sjónar á end- anlegu markmiði, — gekk of lengi með. Það getur stundum borgað sig að snara hlutun- um af. Stevie Wonder hefur reyndar ekki unnið baki brotnu við plötu sína í fimm ár sam- fleytt. Ýmis önnur verkefni hafa skotið upp kollinum. Hann samdi tónlist við kvikmynd- ina Woman In Red, sem kom út á hljómplötu í fyrra. Aðallag þeirrar plötu, I Just Called To Say I Love You, færði honum Oscarsverð- laun. Þá hefur Wonder leikið á plötum ým- issa tónlistarmanna og hljómsveita og staðið sig þannig, að eftir verður tekið. Vegna allra þessara afreka til viðbótar fornri frægð bjóst maður við meiru af In Square Circle en raun varð á. Sjálfsagt er til of mikils ætlast, að nokkur tónlistarmaður sé sífellt á toppnum. Þó svo að Stevie Wonder hafi verið undrabarn og sent á síðasta áratug frá sér hljómplötur, sem flokkast til þess besta á þeim tíma, er kannski ekki hægt að ætlast til þess, að hann dæli út eintómum snilldarverkum. Og vita- skuld er In Square Circle enginn gallagripur, sé samanburði við fyrri verk Wonders sleppt. Til alls er vandað eins og kostur er. En án neistans kveikir enginn bál. Því er ég hræddur um, að In Square Circle verði seint talin til bestu platna Wonders. Vonandi verð- ur hans næsta verk leiftrandi af hugmynda- flugi gamla snillingsins, — og vonandi verð- ur meðgangan ekki svo löng, að afkvæmið verði að steinbarni. PS Einhverra undarlegra hluta vegna gleymd- ist að fjalla í þessum dálki um tvær íslenskar plötur, sem komu út í sumar. Báðar komu þær út hjá stúdíói Mjöt, því ágæta hljóðveri, sem þar með steig sín fyrstu spor á klettótt- um vegi hljómplötuútgáfu. Plötur þessar eru Skemmtun með hljómsveitinni Með nöktum og Fásinna með samnefndri hljómsveit. Á hvorri plötu um sig eru sex lög. Þær telj- ast því báðar til svokallaðra mini LP platna. Helmingur laganna á Skemmtun var hin besta skemmtun. Hin þrjú hef ég ekki gripið enn og á tæpast eftir að gera úr þessu. Með nöktum er hljómsveit eða vinnuhópur, sem ber þess merki, að hann er að leita fyrir sér á tónlistarsviðinu. Ef ég mætti óska mér ein- I lög Stevie Wonders „vantar að þessu sinni allan þann neista sem einkenndi tónlist Wonders á síðasta áratug. Þau eru hrylli- lega miðlungs," segir Ásgeir Tómasson um nýja plötu gamla meistarans eftir Ásgeir Tómasson hvers um framtíðarstefnuna á þeim bæ, þá væri mér ákaflega að skapi að unnið yrði meira út frá Emotional Swing, — frumleg- asta og skemmtilegasta lagi plötunnar. Fásinna skilst mér að heyri nú sögunni til. Hún starfaði um nokkurra ára skeið austur á landi, fyrst í Eiðaskóla. Hún sigraði í hljóm- sveitakeppninni í Atlavík um verslunar- mannahelgina ’84. Ég heyrði hins vegar fyrst í henni í Músíktilraunum Tónabæjar síðast- liðið vor. Þar lenti hljómsveitin í þriðja sæti og hefði að skaðlausu mátt vera að minnsta kosti einu sæti ofar. Þó svo að platan Fásinna sé ekkert meist- arastykki er hún ágæt sem fyrsta plata hljómsveitar, hressileg og dálítið öðruvísi en annað, sem hefur verið gefið hér út að und- anförnu. Sennilega nýtur Fásinna þess að koma all ómenguð úr öðrum landsfjórðungi en þeim, sem mest er áberandi á dægurtón- listarsviðinu. Fyrir austan geta ekki allir ap- að eftir öllum. Það má sem sagt segja að hljómplötuút- gáfa hljóðversins Mjöt við Klapparstíginn fari bara vel af stað. Það er ánægjulegt, að einhverjir treysti sér til að vaða í slaginn á sama tíma og gömlu hljómplötuútgáfurnar eru að draga saman seglin eða fella þau al- veg. Stúdíó Mjöt fær baráttukveðjur. 28 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.