Helgarpósturinn - 20.03.1986, Blaðsíða 22

Helgarpósturinn - 20.03.1986, Blaðsíða 22
Guðrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri BSRB, meinatæknir og listunnandi í HP-viðtali Það vakti athygli margra í verkfalli BSRB haustid 1984 ad formadur verkfallsstjórnar var kona. Kona, sem stód sig svo vel aö eftir var tekid. Guörún Árnadóttir, meinatœknir, hafði lengi starfað að verkalýðs- og kjaramálum þegar verkfallið frœga skall á og mun örugglega halda því áfram um hríð, því hún tók nýlega við starfi framkvœmdastjóra Bandalags starfsmanna ríkis og bœja. Þess utan er Guðrún einnig húsmóðir, tveggja barna móðir, áhugasöm um leikhúslíf og listir og stundaði eitt sinn nám í arkitektúr í Bandaríkjunum. Blaðamaður hitti Guðrúnu Árnadóttur að máli á lokadegi atkvæðagreiðslu BSRB-manna um nýgerða kjarasamninga. í húsakynnum fé- lagsins bar mikið á veggspjöldum, sem minntu menn á að greiða atkvæði, og það leyndi sér ekkr að mikið var um að vera. Álls staðar var fólk á þönum, símar hringdu án afláts, ljósritun- arvélin var rauðglóandi, en af og til komu salla- rólegir menn inn af götunni til þess að panta dvöl í orlofshúsum félagsins. Stungu þeir mjög í stúf við hið rafmagnaða andrúmsloft á skrifstof- unni. Hinn nýi framkvæmdastjóri virtist ósnortinn af spennunni í umhverfinu — hún kom brosandi og afslöppuð á móti mér. Það voru ýmsir mein- bugir á því að við gætum rabbað saman á skrif- stofu Guðrúnar, m.a. vegna þess að þar var fólk saman komið við að bera saman skjöl og ráða ráðum sínum. Hún var hins vegar fljót að finna litla, mannlausa skrifstofu innar á ganginum og þar komum við okkur fyrir, fjarri öllum skark- ala. Viðtalið snerist fyrst um verkefni líðandi stundar, atkvæðagreiðsluna, samningalotuna og álagið sem fylgir því að þurfa helst að vera á mörgum stöðum í einu. ,,Hér er allt á bólakafi vegna samninganna, skal ég segja þér. Það hefur verið óskaplega mik- ið að gera undanfarið. Það fylgir þessu meira en að skrifa nafnið sitt undir samninginn! Maður þarf að hendast út og suður til að kynna þetta, svo þarf að fara yfir kjörgögn og kjörskrá og annað slíkt. Atkvæðagreiðslunni lýkur í kvöld og þetta er þess vegna mesti annadagurinn, þó auðvitað eigi eftir að telja líka. Þá kemur í ljós hver úrslitin verða, en það er komin mikil spenna í loftið eftir að fréttist um félög, sem hafa fellt samningana." Er af söngættum — Svo við beinum kastljósinu frá vinnunni og að þér sjálfri, þá tek ég eftir því að þú talar með norðlenskum hreim." ,,Já, ég er Akureyringur — fædd í KEA.“ — Þú munt vera af „söngœttum". Geturðu skýrt það fyrir mér? „Ja, afi minn var söngstjóri karlakórsins Geys- is. Hann hét Ingimundur Árnason og var mjög þekktur. Það var mikill kraftur í honum við sönginn. Amma mín var líka af miklu söngfólki komin, Guðrún Árnadóttir, sem var gift Ingi- mundi. Faðir minn hefur síðan einnig stjórnað karlakórnum fyrir norðan. Hann heitir Árni Ingimundarson." — Hefur þú erft eitthvað af þessum tónlistar- gáfum? „Ekki nema þá helst hávaðann! Hins vegar hef ég mjög gaman af að hlusta á tónlist, er eig- inlega alæta á því sviði. Mér finnst jass mjög skemmtilegur, en með árunum hef ég líka fengið aukinn áhuga á þyngri, klassískri tónlist. Ég hlusta mikið á óperutónlist og Bach og Hándel." — Þú setur þá gjarnan plötu á fóninn að lokn- um erfiðum vinnudegi? „Það geri ég svo sannarlega. Annars hlusta ég einnig mikið á útvarp — ég er mikil útvarps- manneskja. Mér finnst útvarpið vinna mjög gott starf hvað tónlist varðar og ég held að það hafi aðallega verið útvarpið sem kom mér á bragðið, a.m.k. hvað varðar klassíska tónlist. Ég hlustaði t.d. alltaf á óperukynningar Guðmundar Jóns- sonar á sunnudagseftirmiðdögum hér áður fyrr.“ Lærði arkitektúr í Bandaríkjunum — Tónlistin ersem sagt áhugamál, en þú vald- ir þér meinatœknina að atvinnu. Varstu snemma ákveðin í að fara þá braut? „Nei, ég byrjaði á því að fara í háskólanám í Bandaríkjunum eftir að hafa tekið stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1965. Ég fór í arkitektúr og ætlaði mér að verða arkitekt. Sumarið eftir þennan fyrsta vetur minn í því námi, kom ég hins vegar heim og hitti þá eigin- manninn tilvonandi. Eg fór þess vegna ekki aft- ur til Bandaríkjanna, þó það stæði alltaf til að fara seinna. En maðurinn minn veiktist og þá skellti ég mér bara í meinatækni í Tækniskólan- um.“ — Hefurðu dvalið lengi erlendis, fyrir utan veruna í Bandaríkjunum? „Ég hef nú ferðast mikið, en aldrei verið neitt að staðaldri erlendis nema þarna í Bandaríkj- unum. Ég kunni afskaplega vel við mig, en við það að fara þangað opnuðust samt sem áður augu mín fyrir ágæti íslands og mörgu, sem hér er. Bandaríkin eru vissulega „land tækifær- anna“, en ekki myndi ég vilja verða gömul þar.“ — Hvað kom til að þú fórst þangað, en ekki til einhvers annars lands? „Ég sótti einfaldlega um og fékk styrk. Ég ætl- aði að vera þarna áfram. Heimkoman átti bara að vera um stundarsakir, en svo breyttist það nú. Maður er nú eiginlega ósköp feginn að yera ekki arkitekt, þegar ekið er um götur borgarinn- ar!“ Síðustu setningunni bætti Guðrún snögg- lega við og hló innilega á eftir. — Hvar hefurðu unnið sem meinatœknir? „Ég hef verið á Rannsóknarstofu Háskólans, sem heitir það nú víst ekki lengur. í dag heitir þetta Rannsóknarstofa Landspítalans í sýkla- fræði og það er Arinbjörn Kolbeinsson, sem er yfir þeirri stofnun. Ég hef unnið samfleytt hjá honum frá því að ég lauk námi árið 1970 og þar til ég tók við framkvæmdastjórastöðunni hérna fyrir rúmum mánuði. Hins vegar hef ég verið virkur félagsmaður í BSRB í tólf ár. Ég hef verið í ýmsum stjórnum, ráðum og nefndum í gegnum árin — var m.a. formaður meinatæknifélagsins um skeið. Sem sagt, alltaf á kafi í félagsmálum." Afskaplega félagslynd — Hefurðu lengi haft áhuga á verkalýðsmál- um? „Ég er nú í fyrsta lagi afskaplega félagslynd manneskja og hef starfað mikið í ýmsum félags- skap. Síðan hef ég alltaf haft mikla samúð með þeim, sem eru minni máttar. Þetta tekur breytingum, þegar maður kemur út á vinnumarkaðinn og verður að berjast fyrir þá, sem minna mega sín. Þá verður þetta barátta fyrir þá sem verr eru settir á vinnumarkaðnum. Ég held að þetta hafi þróast svona.“ — Blandast pólitík inn í þetta? „Nei. Mér finnst að þeir, sem eru í verkalýðs- baráttu ættu ekki á sama tíma að vera flokks- bundnir. Það er mín skoðun. Það fer ekki saman að vinna bæði að hagsmunum pólitískra flokka og verkalýðsmálum í einu. Fólk má ekki hafa flokkshagsmunina að aðal- markmiði, þegar það er að vinna fyrir stéttarfé- lög. Ég hef heldur aldrei fundið fyrir því að það hái mér neitt að vera ekki pólitísk. Auðvitað hlýt ég samt að vera pólitísk, það segir sig sjálft. Ég hef hins vegar aldrei verið flokksbundin, þó fylgdi ég að vísu O-flokknum á sínum tíma!“ Aft- ur braust fram hinn dillandi hlátur og viðmæl- andi minn bætti við: „Ég veit nú ekki hvort það er mér neitt til framdráttar... Mér hefur þótt gott að vera óflokksbundin við þessa vinnu að verkalýðsmálum. Algjörlega óháð.“ — Gefur verkalýðsbaráttan þér mikið, per- sónulega? „Já, ég hef afskaplega gaman af öllum mann- legum samskiptum og að vinna að félagsmál- um. Það hefur alltaf höfðað til mín. Samt sem áður hef ég aldrei sóst eftir neinum frama og hef í raun og veru aldrei sóst eftir embættum. Jú, einu sinni sóttist ég virkilega eftir því að verða varaformaður í félagi og var kolfelld! Það var nú fyrir löngu síðan. Á einhvern hátt hafa embættin hins vegar borist upp í hendurnar á mér á þann veg að ég hef verið beðin um að taka eitthvað að mér og hef gert það. Það hefði ég auðvitað ekki gert, nema af því að ég hafði áhuga á því.“ Mikið álag í verkfallinu — Þú varst formaður verkfallsnefndar í BSRB- verkfallinu 1984, var það ekki? „Jú. Það var svolítið kvíðvænlegt að taka það að sér, en fólkið þarna var alveg afspyrnugott. Öll stærstu félögin í BSRB áttu fulltrúa í nefnd- inni. Ég man ekki til þess að nokkurn tíma hafi komið til leiðinda eða illinda. Við höfðum einhvern veginn lag á því að slá aðeins af þegar fór að gæta á spennu. Þessi vinna fór fram undir mjög miklu álagi og tók oft nærri allan sólapferinginn. Þegar skipin fóru að stöðvast og olían þvarr, varð þetta gífur- legt álag. Síminn lokaði fyrir telex-samband við útlönd og annað í þeim dúr skeði." — Fannstu fyrir mikilli andúð í þinn garð á meðan á þessu stóð? „Já, það var ekki laust við það. Verkföll eru alltaf til óþæginda. Maður fer ekki út í slíkar að- gerðir nema hafa áhrif og þáh skapa óþægindi. Eg fékk alveg að heyra þetta — fékk upphring- ingar og annað. Það þýddi hins vegar ekkert að láta það bíta á sig og verða of tilfinninganæmur." Nú hafði það uppgötvast hvert framkvæmda- stjórinn var flúinn og kona nokkur kom í gætt- ina og sagði Guðrúnu eiga áríðandi símtal frammi. Þessu varð að sjálfsögðu að sinna. Þegar Guðrún mætti aftur til leiks, spurði ég hana að því hvort hún kæmist nokkuð heim í mat á svona dögum. „Jú, jú. Ég á líka heima hérna skammt frá, svo ég get skotist þetta." — Þá erum við komnar að fjölskyldunni. Verð- ur hún ekki að vera afskaplega skilningsrík? „Auðvitað ber maður þetta mikið með sér inn á heimilið, ekki síst í verkfallsátökunum. Þá var líka allt undirlagt heima hjá mér, nótt sem nýtan dag. Ég bý hins vegar við svo ágæt fjölskyldu- skilyrði að það taka þessu allir með þolinmæði." — Hefur eiginmaðurinn líka áhuga á þessum málum? „Nei, hann hefur það ekki,“ sagði Guðrún og kvað sterkt að orði. „Ég er gift heildsala og þetta er ekki alveg hans lína!“ Nú náði hláturinn aftur yfirtökunum um stund, enda fór ekki á milli mála að viðmælandinn leið ekki af húmorskorti. „Maðurinn minn var einn af þeim sem kvart- aði sáran í verkfallinu yfir því að missa telex- samband við útlönd. Hann heldur því fram, að þetta hafi haft slæm áhrif á fyrirtækið." — Þú hefur sem sagt orðið áþreifanlega vör við afleiðingar verkfallsins? „Já, það má segja það. Verkfallið bitnaði auð- vitað jafnt á mínum nánustu og öðrum." Það eru gefnar út dagskipanir — Áttu mörg börn? „Ég á tvö börn, átján ára strák og tólf ára stelpu. Þau eru orðin mjög vön þessu tilstandi öllu — þekkja nánast ekki annað. Þetta er eigin- lega eðlilegt ástand heima hjá mér, þ.e.a.s. að ég sé á kafi í félagsmálum." — Hefurðu einhverja húshjálp? „Nei, við hjálpumst að. Það eru gefnar út dag- skipanir! Við höfum töflur uppi á vegg og neðan- máls á þeim stendur að öllum sé leyfilegt að breyta eða skipta innbyrðis. Þannig leysum við þetta." — Hefurðu stundum áhyggjur að því að þú vanrœkir heimilið? „Það kemur fyrir. Þó finna allir á mínu heimili, að ég er miklu ánægðari ef ég fæ að stunda mín áhugamál. Það hlýtur að vera svo með alla menn. Ég hef annars alltaf reynt að hafa þetta í hófi og eyði öllum mínum frítíma með fjölskyldunni. Þess vegna finn ég ekki mikið fyrir hinni títt- nefndu sektarkennd, þó hún láti kannski á sér kræla í jólaundirbúningnum og við slík tæki- færi, þegar manni finnst maður ekki hafa allan þann tíma, sem maður þarf.“ Vakin oa beðin um að koma á slysavarðstofuna — Það var mikil lífsreynsla fyrir þig, þegar sonur þinn slasaðist í bílslysi. Finnst þér kannski erfitt að rœða það? „Það var vissulega mikil lífsreynsla. Þetta átti sér stað í fyrrasumar, þegar þeir voru á ferð saman fjórir félagar úr Austurbæjarskólanum og ein stúlka með þeim. Þessir piltar höfðu verið saman í skóla frá því að þeir voru smákrakkar og spiluðu þar að auki fótbolta í sama félagi. Þetta var óhugnanleg reynsia. Maður heldur alltaf að þetta gerist ekki hjá manni sjálfum — að vera vakinn upp um miðja nótt og beðinn um að koma upp á slysavarðstofu. Okkur var sagt að við mættum búast við hverju sem er og að þetta liti illa út. Einn strákanna dó — einn besti vinur sonar míns.“ — Voruð þið lengi í óvissu? „Já, hann var meðvitundarlaus í tíu sólar- hringa og það var alveg óvíst hvernig ástandið yrði, er hann kæmi til meðvitundar. Óvissan var mjög erfið þessa fyrstu daga og ég verð að segja eins og er, að þá fannst mér stundum eins og dauðinn væri ekki versti kosturinn. Það var á hinn bóginn alveg einstakt að upp- lifa það hve margt fólk kom til okkar og hringdi, og sýndi okkur mikla vinsemd. Við fengum bæði aðstoð og styrk frá fjölda fólks. Þessa fyrstu daga vorum við meira og minna á gjör- gæslunni og það er mér ógleymanlegur tími — að vera þarna og upplifa allt, sem var að gerast á deildinni. Við nánast fluttum þarna upp á gjörgæslu- deildina og þá sá maður það svo skýrt, hvað allt annað skipti litlu máli. Maður veltir sér upp úr peningaáhyggjum og öðru, sem manni virðist síðan svo nauðaómerkilegt við þessar aðstæður. Allt annað verður innantómt hjóm. Mér finnst ég hafa breyst svolítið við þessa reynslu. Eftir þetta hefur maður allt annað verðmætamat. Það kemst enginn hjá því að verða fyrir áföll- um, en ég held að ég hafi lifað sérlega áfalla- lausu lífi þar til þetta skeði. Þetta kippir aðeins í mann og sýnir manni að það gengur ekki allt eftir einhverri formúlu, sem maður setur sjálfur fram.“ — Hvernig líður syni þínum núna? „Hann er að ná sér alveg ótrúlega vel og er farinn að stunda skólann aftur. Það hafa verið gerðar á honum miklar aðgerðir, en við eigum sem betur fer orðið svo góða lækna og hjúkrun- arlið." — Þetta hlýtur að hafa verið hrikaleg reynsla fyrir hann. „Já, þetta er nokkuð, sem maður óskar börn- unum sínum ekki að lenda í. Þetta er hlutur, sem maður vildi geta verndað þau fyrir, en það er ■ auðvitað ekki hægt. Svona nokkuð er hrikaleg lífsreynsla, bæði fyrir þá sem í því lenda og alla aðstandendur. Þessir strákar voru allir í knattspyrnufélaginu Val og það var alveg einstakt hvað bæði jafn- aldrar þeirra þar og framámenn í félaginu sýndu okkur mikinn stuðning og styrk. Það var alveg einstakt!" Sérstakleaa hrifin af Alþýðuleíkhúsinu — Svo við tökum upp léttara hjal, þá langar mig að vita hvort einhver tími sé til að sinna öðr- um áhugamálum en þeim sem tengjast beint fé- lagsmálum? „Já, reyndar er það. Við hjónin höfum mikinn áhuga á leikhúslífi og höfum t.d. verið með fasta miða í Þjóðleikhúsinu og Iðnó. Sérstaklega er ég nú samt hrifin af uppfærslum Alþýðuleikhúss- ins. Við erum líka með fasta miða hjá Tónlistar- félaginu og höfum reynt að sækja tónleika eftir mætti. Við förum einnig mikið á myndlistarsýningar, þó mér finnist nú margt í þeim efnum vera farið að minna á nýju fötin keisarans. Fólk á oft erfitt með að hafa sjálfstæða skoðun á því, sem boðið er upp á. Síðan höfum við afskaplega gaman af að fara í bíó. Ég hef alltaf verið mikil bíó-manneskja og reynt að fylgjast með því sem er að gerast þar.“ — Eru fleiri klukkustundirnar í sólarhringn- um hjá þér en öðrum? Guðrún skellihlær, en segir svo: „Það er nú skrítið, en eins og margoft er búið að segja, hef- ur maður tíma til að gera það sem maður hefur áhuga á. Það er staðreynd. Ég finn þó að ég hef ekki nægan tíma til að lesa. Það er sáralítill tími til þess.“ Konur geta líka „plottað" — Er framkvœmdastjórastaða hjá verkalýðs- félagi ekki mikið karlastarf, með miklu,,plotti" og tilheyrandi? „Ég held að við kvenfólkið getum nú alveg eins „plottað"! Félagsmenn BSRB eru að meirihluta kvenfólk og það er bara tímanna tákn að hér eru að koma inn kvenmenn í framkvæmdastjórastöður og aðrar áhrifastöður. Þetta er að breytast. Konur eru að koma meira til starfa. Þó finnur maður það mætavel, að útvinnandi konur hafa lítinn tíma aflögu. Það eru viss for- réttindi að geta starfað að félagsmálum, ef mað- ur er líka með heimili. Láglaunakonur hafa eng- an tíma aflögu og geta ekki neitað að vinna yfir- vinnu eða annað, því þær hafa hreinlega ekki efni á því. eftir Jónínu Leósdóttur mynd Jim Smartl

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.