Helgarpósturinn - 23.04.1986, Blaðsíða 24

Helgarpósturinn - 23.04.1986, Blaðsíða 24
KVIKMYNDIR „Alsino og gammurinn er undurfögur og heillandi lýsing á lífi 12 ára drengs. . . myndin er hreinn pólitískur áróður en engu að síður þarfur sem slíkur," segir ÓA í umfjöllun sinni um myndina. Hjartnœmt Regnboginn: Alsino y el Condor (Alsino og gammurinn) ★★★ Nicaragua, Kúba, Mexíkó og Costa Rica. Árgerd 1982. Leikstjórn: Miguel Littin. Handrit: Miguel Littin, Isadora Aguirre og Tomás Turrent. (SKuikmyndun: Jorge Herrera/Pablo Mar- tinez. Tónlist: Leo Brouver. Adalhlutverk: Alan Esquivel, Dean Stock- well, Carmen Burster, Marcelo Gaete o.fl. Það er ekki a hverjum degi sem hérlend- um kvikmyndaunnendum bjóðast sýnishorn af því sem suðuramerískir kvikmyndagerð- armenn hafa verið að fást við á síðari árum, og hljótum við því að fagna framtakssemi að- standenda Regnbogans, þegar okkur er boð- ið upp á gullkorn á borð við Alsino og gamm- ,inn. Kvikmyndahefð Nicaragua á sér það sam- eiginlegt með þeirri íslensku, að hún nær sér ekki almennilega á strik fyrr en eftir 1979. Fljótlega eftir að Somoza hafði verið steypt af stóli, tóku sandinistar til við að byggja markvisst upp kvikmyndaiðnað landsins, sem fram til þess tíma hafði nær einvörð- ungu einskorðast við framleiðslu áróðurs- mynda um ,,ágœti“ einræðisstjórnar Somoza. Sama ár og Kvikmyndasjóður ís- lands var stofnsettur, komu Nicaraguamenn á fót kvikmyndastofnun, sem líkt og okkar eiginn kvikmyndasjóður hefur svo um munar hleypt blóðinu í þarlenda kvikmyndagerð. Og árangurinn lét heldur ekki á sér standa: Árið 1983 var Alsino oggammurinn tilnefnd til þriggja Óskarsverðlauna, þar á meðal sem besta erlenda kvikmynd, og sama ár vann hún til gullverðlauna á kvikmyndahátíð í Moskvu. Alsino og gammurinn er undurfögur og heillandi lýsing á lífi 12 ára drengs, sem býr ásamt aldurhniginni ömmu sinni í litlu fjalla- þorpi í Nicaragua. Meirihluti karlmannanna hefur flúið upp í fjöllin undan ofsóknum og of- beldisverkum stjórnarhers Somoza og sleg- ist í lið með skæruliðum andspyrnuhreyfing- arinnar. Eftir í þorpinu eru nær einvörðungu konur, börn og gamalmenni. Alsino á sér draum: Hann dreymir um að geta flogið líkt og fuglar himinsins, og eina nóttina þegar stormurinn hvín í greinum gömlu eikarinnar klifrar hann upp í efstu grein hennar, breiðir út litlu hendurnar sem vængi og varpar sér síðan út í storminn. Hann lifir af fallið, en skaðast svo alvarlega á baki, að upp frá því er hann krypplingur. Dag nokkurn sendir amma drenginn af stað á markaðstorgið til að selja hestinn, svo að þau hafi peninga fyrir nauðþurftum. Á þeirri ferð sinni verður Alsino vitni að óhugnanleg- um fjöldamorðum stjórnarhersins og verður það, ásamt kynnum hans af meðlimum úr andspyrnuhreyfingunni, til þess að vekja pólitíska meðvitund hans. Þegar hann um síðir snýr aftur heim til litla þorpsins, er amma hans látin og hann stendur því ein- samall eftir... berskjaldaður gagnvart ógnum þess þjóðfélagslega raunveruleika, er hann svo nýverið varð sér meðvitaður um. Hann er því knúinn til að taka afstöðu. Hann brennir allar brýr að baki sér, horfist í augu við raunveruleikann og segir skilið við draumóra æsku sinnar: Hann tekur sér vopn i hönd, réttir það út í storminn um leið og hann réttir úr bognu bakinu og heldur til fjalla. Styrkur myndarinnar (ásamt hinu ægi- fagra myndmáli) er hversu vel höfundum hennar hefur tekist að halda hinum ljóðræna blæ frásagnarinnar út alla myndina, án þess þó að missa sjónar á þvi þjóðfélagslega markmiði, sem henni er ætlað að þjóna í heimalandi þeirra. Jú, myndin er hreinn póli- tískur áróður, en engu að síður þarfur sem slíkur, í landi, þar sem ólæsi er útbreitt og sem nýverið hefur brotist undan ógnarstjórn harðsvíraðs einræðisherra, hvers málaliða- her enn í dag býður færis í landamærahéruð- unum til Hondúras, að ráðast inn í landið. Undir fátœktar- mörkunum Regnboginn, Innrásin (Invasion USA): 0 Bandarísk, árgerö 1985. Framleidendur: Golan (£ Globus. Leikstjóri: Joseph Zito. Handrit: James Burner. Kvikmyndun: Joao Fernandes. Tónlist: Jay Chattaway. Adalleikarar: Chuck Norris, Richard Lynch og Melissa Prophet. Þessi mynd á ekki skilið langa umsögn. Hún er afleit. Chuck Norris hefur jafnan verið slappur, en hér fer hann það langt niður fyrir fátækt- armörk í leik sínum að fundið er til með hon- um. Og takmarkanir handritsins eru ekki minni. Þvílíka endemis þvælu hefur unnend- um slagsmálamynda ekki verið boðið upp á um langt, langt skeið og fer þar þó sennilega sá hópur kvikmyndahúsagesta sem hefur þurft að sætta sig við hvað mesta einhæfni, eftiröpun og einföldun í þessum afþreyingar- iðnaði. í sem skemmstu máli gengur þessi vitleysa út á innrás hryðjuverkahóps frá vonda austr- inu inn í vinalega vestrið og hann virðist ætla að hafaða, allt þangað til Norris fer með mónólóginn sinn í myndinni: Ðis is enöff, hir æ komm . . .! Og svo er djöflast á bílum, drit- að á báða bóga, bang-bang. Þetta er sautjánda myndin með Chuck Norris á sjö árum. Svipbrigðunum hefur fækkað að sama skapi og söguþráðurinn hef- ur einfaldast. Hann er farinn að hjakka í sama farinu og Bronson. Og því sem Stallone nálgast en Eastwood náði sér upp úr. Köllum það bara samanbitið borgardrit! -SER. Fánýtt glingur Bíóhöllin: A Chorus Line. ★★ Bandarísk. Árgerd 1985. Framleiðendur: Cy Feuer og Ernest H. Martin. Leikstjórn: Richard Attenborough. Handrit: Arnold Schulman eftir svidsupp- fœrslu Michael Bennets. Tónlist: Marvin Hamlisch. Söngtextar: Edward Kleban. Höfundur dansa: Jeffrey Hornaday. Aðalhlutverk: Michael Douglas, Cameron English, Alyson Reed, Terrence Mann, Jan Gan, Vicky Frederick o.fl. Veturinn 1975-76 var söngleikurinn A Chorus Line frumsýndur á Broadway. Við- tökur bæði áhorfenda og gagnrýnenda voru yfirþyrmandi og þegar Tony-verðlaunin voru veitt það árið, hlaut verkið ekki færri en níu viðurkenningar og ekki af ósekju, því A Chorus Line ber á margan hátt af þeim söng- leikjum, sem áttundi áratugurinn hafði uppá að bjóða. Söngleikurinn, sem Michael Bennet samdi, í samvinnu við handritshöfundana James Kirkwood og Nicholas Dante og tón- skáldið Marvin Hamlisch, fjallar um val leik- stjóra nokkurs á dönsurum, sem fram eiga að koma í ónefndri uppfærslu söngleiks á Broadway. í upphaflegu sviðuppfærslunni, sem Bennet leikstýrði sjálfur, tókst honum einstaklega vel að koma til skila bæði spenn- unni, dansgleðinni og hinni harðneskjulegu samkeppni, er óneitanlega fylgir slíkum prófum. lnn í þetta höfuðþema söngleiksins fléttast siðan saga þeirra einstaklinga, er standa í þessari grimmúðlegu baráttu. . . þ.e.a.s. aðdragandi þess að þeir eru saman komnir á þessu nánar tiltekna leiksviði á Broadway, til þess að berjast harðsvíraðri baráttu fyrir lifibrauði sínu. Það sem er einna athyglisverðast við kvik- myndun Attenboroughs á verki Bennets er hversu gjörsamlega honum hefur mistekist að koma framangreindu grunnþema verks- ins til skila. Áhorfendur myndarinnar fara t.d. algjörlega á mis við þá kaldhæðnislegu staðreynd, að þessi grimmúðlega barátta nokkurra fullmótaðra og þroskaðra lista- manna snýst um það eitt að hreppa sæti í dansflokki, sem á að þjóna hlutverki ,,hreyf- anlegrar leikmyndar“ fyrir upptroðslu ónefndrar stórstjörnu, sem er ætlað að ljóma í forgrunninum. . . og það þarf varla að taka það fram, að slíkur bakgrunnur þjónar ekki tilgangi sínum fyrr en hin persónulegu sér- einkenni hinna einstöku dansara hafa verið gjörsamlega þurrkuð út, svo að ekkert stend- ur eftir nema taktföst og steingeld samstaða heildarinnar. Og það er einmitt þess vegna, sem hópurinn er látinn æfa upp og að lokum flytja sönglagið „One", sem undir lokin trónir yfir hinni stórbrotnu kóreógrafíu lokasen- unnar. f stað þess að leggja aðaláhersluna á fjöl- breytnina og margbreytileikann í persónu- sköpun hinna ýmsu umsækjenda (sem upp- hafleg handritsgerð verksins hefur upp á að bjóða), þá hefur Attenborough illu heilli val- ið að einbeita sér að þeim persónum verks- ins, sem eru hvað minnst athyglisverðar með hliðsjón af framangreindu markmiði Michael Bennets; nefnilega Ieikstjóranum Zack (Michael Douglas) og ástkonu hans fyrrverandi (Alyson Reed). Hinar tíðu tilvitn- anir í löngu liðið ástarsamband þeirra bæta ekki upp verkið að neinu leyti, heldur draga í þess stað úr þeirri fádæma spennu og lífs- þrótti, sem upphafleg handritsgerð verksins hafði uppá að bjóða. Þó svo að ýmsir brestir séu á handritsgerð myndarinnar, þá hefur hún þó margt til síns ágætis, sem vert er að taka upp hér. Ber þá fyrst og fremst að nefna frábæra frammi- stöðu einstakra dansara, þó svo að list þeirra njóti sín oft á tíðum ekki sem skyldi sökum skipulagslausrar klippingar myndarinnar. Að auki er leikur í flestum hlutverkum með ágætum og þó einkum Michaels Douglas í hlutverki Zacks, og óhætt er að fullyrða að þetta hlutverk henti honum betur en hin farsakenndu tilþrif hans í Nílarsteininum. En hvað sem öðru líður, þá verður maður óneitanlega fyrir töluverðum vonbrigðum með frammistöðu leikstjóra á borð við Richard Attenborough, þegar ekki tekst bet- ur til en raun ber vitni, því A Chorus Line býður upp á mun djúpstæðari túlkun á hlut- skipti einstaklingsins í nútíma vestrænu þjóðskipulagi en títtnefndum leikstjóra hefur tekist að koma til skila i verki sínu. Ó.A. Getuleysi Austurbœjarbíó: Elskhugar Maríu (Maria’s Lovers): ★★ Framleiðendur: Golan <£ Globus. Leikstjórn og handrit: Andrei Konchalovsky. Kvikmyndun: Juan Ruiz Ancia. Tónlist: Gary S. Renal. Aalleikarar: John Savage, Nastassia Kinski, Robert Mitchum og Keith Carradine. Elskhugar Maríu er um margt einkennileg mynd, þó ekki væri nema fyrir sakir að- standenda hennar. Þar eru á ferðinni jafn ólíkir menn og gróðabrallarinn Menahem Golan og leikstjórinn Andrei Konchalovsky: Annarsvegar einhver hæpnasti og sannar- lega einn umdeildasti framleiðandi bíó- mynda og hinsvegar eitt besta leikstjórnar- efni Rússa um langt skeið; sumir segja svo langt skeið að orðið stöðnun eigi vel við! En Andrei er kominn vesturyfir. Og leggur talsvert undir. Handritið, sem hann skrifar sjálfur, er býsna metnaðarfullt, leikaraliðið ekki af lakara taginu og tæknin traust. Sagan hefur á sér blæ Hjartarbanans, einkanlega í byrjun þar sem John Savage (lék reyndar í Deer Hunter) kemur heim úr seinni heims- styrjöldinni í gamla stáliðnaðarbæinn sem er mistri hulinn, utan hvolfþak rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar sem gnæfir yfir stað- inn. Savage leikur Ivan Bosic sem fyrir stríð var afar hrifinn af Maríu, sem Nastassia Kinski leikur. Að stríðsárunum liðnum er hann næsta gleymdur í hennar huga og aðrir gaurar komnir til sögunnar. Samt fer svo að lokum að Bosic vinnur hjarta hennar á ný. Þau gifta sig, en hroðaleg reynsla hans í fangabúðum Japana og löng ár vonbrigða þar sem María var aðeins fjarlægur draumur bakvið rimlana gera hann ófæran um að full- nægja þessari ungu, ástríðufullu brúði sinni. Þetta er að mörgu leyti sterk saga sem Andrei tekst að skila til áhorfenda þannig að hrifningar gætir. Hún er samt alltof lítið brotin upp, áhersluþungann vantar í nokkur atriðanna þannig að þau verði trúverðug, auk þess sem heildaryfirbragðið virkar helst til of máttlítið. Risið vantar í þessa mynd, jafnt í kvikmyndalegum sem líffræðilegum skilningi! Fókusnum er alltof mikið beint að klofi Kinski miðað við aðdragandann og uppbygginguna sem lögð er að þeim atrið- um. Savage nær sér, aldrei þessu vant, ekki full- komlega á strik í þessari kvikmynd. Hann er vandræðalegur á köflum, sömuleiðis Kinski sem nálgast æ meir Silviu Kirstel ímyndina með hverri nýrri mynd sem hún leikur í. Robert Mitchum og Keith Carradine komast áreynslulaust í gegnum þetta verk sem líður fyrir takmarkanir í handriti og nokkurt ráð- leysi í framsetningunni, einkanlega undir lokin þegar leikararnir svo gott sem dóla fyrir framan myndavélarnar án sýnilegs til- gangs. -SER 24 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.