Helgarpósturinn - 23.07.1987, Blaðsíða 33

Helgarpósturinn - 23.07.1987, Blaðsíða 33
Minna flokksblað — meira dagblað Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn. Hjónaband í áratugi. Óvígð sambúð á síðustu árum — Tekur því varla að kveikja á henni fyrir minna en 30 þúsund ein- tök. Einhver fullkomnasta prentsmiðja í Evrópu, prentsmiðja Morgunbiaðsins. ,,Morgunbladid hefur verid mál- svari sömu grundvallarhugsjóna í þjóðmálum og Sjálfstœdisflokkur- inn hefur verid á vettvangi stjórn- málanna." Þessa tálkun á tengslum flokks og blaðs setti Styrmir Gunn- arsson fram í viðtali viö BSRB-blað- ið fyrir rúmu ári. I dag veltum við þessum tengslum fyrir okkur og rifj- um aðeins upp samband Sjálfstœð- isflokksins og Morgunblaðsins síð- ustu þrjá áratugi. Við reynum að svara því hvort, og þá hvernig og hvers vegna, sambúð þessara stofn- ana hafi breyst á síðustu 30 árum. Er Morgunblaðið flokksblað? Hugtakið flokksblað missir marks ef því er hvortveggja ætlað að ná yfir Morgunblað ársins 1957 og Morgunblað dagsins í dag. Fyrir þrjátíu árum voru ritstjórar Morgun- blaðsins jafnframt þingmenn Sjálf- stæðisflokksins. Á þeim tíma þjón- aði blaðið sem einskonar ræðustóll starfandi stjórnmálamanna í fremstu víglínu. Pólitískur vandi þeirra var pólitískur vandi Morgun- blaðsins. Sem dæmi um þessi tengsl og ekki síður um það hve mikilvægu póli- tísku hlutverki Morgunblaðið var talið gegna má nefna að þegar Bjarni Benediktsson, þá varafor- maður Sjálfstæðisflokksins, fór úr ríkisstjórn eftir nærri áratugs setu árið 1965, settist hann beint í rit- stjórastól á Morgunblaðinu. Sam- fara þingmennsku rak hann síðan pólitík flokksins í gegnum blaðið næstu 3 árin, eða þar til Sjálfstæðis- flokkur og Alþýðuflokkur mynduðu Viðreisnarstjórnina. Þá tók Bjarni aftur sæti í ríkisstjórn en hélt þó áfram að rita Reykjavíkurbréf, jafn- vel eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra af Ólafi Thors árið 1963. Ritskodunin Allan Viðreisnaráratuginn var Morgunblaðið það sem kalla mætti hreinræktað flokksmálgagn. Rit- stjórar voru þá þeir Sigurður Bjarnason frá Vigur, Matthías Johannessen og Eyjólfur Konráð Jónsson. Fyrir kosningcur leit blaðið út eins og það væri skrifað á flokks- skrifstofu en ekki ritstjórn óháðs dagblaðs. Fyrir kosningar 1963 birt- ust slagorð á forsíðu þar sem menn voru hvattir til að fjölmenna á kosn- ingafund flokksins og kjósa aldrei aftur vinstri stjórn. Blaðið var lagt undir viðtöl þar sem stuðnings- menn flokksins voru fengnir til að vitna um ágæti Sjálfstæðisflokksins og í forystugrein blaðsins sagði m.a.: „Morgunblaðið treystir þvi að heil- brigð dómgreind ráði og þjóðinni endist gæfa til að styrkja Sjálfstæðis- flokkinn." Á þessum árum var Morgunblað- ið mjög tregt til að birta greinar og sjónarmið andstæðinga Sjálfstæðis- flokksins. Greinar sem andstæðar voru áróðurshagsmunum Sjálfstæð- isflokksins fengu einfaldlega ekki rúm í blaðinu. Gerðist það hins vegar, birtust þær gjarnan mjög seint og illa. Þær voru illa upp settar og oft margar vikur liðnar frá þvi að höfundar lögðu þær inn á blaðið. Málin sem þær vörðuðu voru gjarn- an komin af dagskrá þegar þær loksins birtust. í anda fámennis- valdsins Fyrir kosningar 1967 bar Morgun- blaðið sama yfirbragð flokksblaðs- ins og áður. Á forsíðu voru slagorð í stað lesmáls: „Kjósum ekki glund- roða, kjósum varanlega velmegun — XD.“ Allt blaðið er morandi í hvatningarviðtölum við stuðnings- menn og forystugrein endar á orð- unum: „Kjósum D-listann.“ Við þessa upprifjun er nauðsyn- legt að hafa í huga að þjóðfélagið var hvergi nærri eins opið og það er í dag. Það var í raun ekki fyrr en í byrjun sjöunda áratugarins sem losna tekur um fámennísvald stjórn- málaforingjanna. Fyrir þann tíma, eða allt frá þriðja áratugnum, höfðu foringjar stærstu flokkanna hreint ótrúleg völd í samfélaginu. Auk þess að stýra sínum flokkum, stýrðu þeir ráðuneytum sínum og dagblöðum. Þeir höfðu meiri tök á réttarkerfinu, Háskólanum og lánastofnunum en þekkist i dag. Stofnanir eins og Rík- isútvarp og verkalýðshreyfing voru mun háðari vilja þeirra en síðar varð. Á þessum áratugum sátu flokksforingjar jafnvel í áhrifamestu stöðum þessara stofnana. Hvað Morgunblaðinu viðvíkur má til dæmis nefna að á sama tíma og Sig- urður Bjarnason sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, ritstýrði hann Morgunblaðinu og sat í útvarpsráði sem var ólíkt áhrifameira en það útvarpsráð sem við nú þekkjum. Þótt einhverjum kynni að virðast hagsmunir Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins fara vel saman, hefði mátt ætla að blaðið og Ríkisút- varpið væru í einhverri — a.m.k. lít- ilsháttar — samkeppni. Þjódfélagsbreytingar þrýsta á Á sjöunda áratugnum fer sérhæf- ing vaxandi hér á landi. Samfara henni dreifist talsvert hið efnahags- lega vald, ekki síst með tilkomu nýrra lánastofnana sem heyrðu ekki beint undir hið flokkspólitíska vald. Hér var þó einungis um að ræða byrjun á þróun sem síðar átti eftir að verða örari. Á miðjum sjöunda ára- tugnum kemur sjónvarpið til sög- unnar. Flokksmálgögn urðu nú að lúta þeirri staðreynd að í landinu voru starfandi ljósvakamiðlar, að vísu ríkisreknir, sem höfðu um margt forskot á dagblöð flokkanna. Vaxandi fjöldi hlustaði á frásagnir þeirra. Fréttaflutningur þeirra var öðruvísi en menn áttu að venjast og náði fyrr eyrum áheyrenda. Fólk treysti þessum miðlum mun betur en flokksblöðum. Að þessum aðstæðum varð Morg- unblaðið með góðu eða illu að laga sig, ef það á annað borð ætlaði sér að ná til fjöldans. Af lestri Morgun- blaðsins í byrjun áttunda áratugar- ins er ljóst að mikil áherslubreyting hefur átt sér stað. Fyrir alþingis- kosningarnar í júní 1971 ersvipmót blaðsins annað en áður. Á forsiðu eru ekki slagorð heldur fréttir. Raunar er einnig frásögn af ávarpi formanns Sjálfstæðisflokksins, Jó- hanns Hafstein, á kosningafundi flokksins. í forystugrein er ekki eins sterkt kveðið að og áður. En sterk- ust staðfesting á þeim breytingum sem eru að ganga yfir blaðið er lík- lega sú staðreynd að annar ritstjóri blaðsins, Eyjólfur Konráð Jónsson, lætur af störfum um leið og hann er kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokk- inn. I stað hans kemur Styrmir Gunnarsson sem áður hafði tekið þá ákvörðun að hætta formlegri þátt- töku í stjórnmálum og helga sig blaðamennskunni. Greinilegt er að á Morgunblaðinu þykir ekki lengur eðlilegt að menn ritstýri blaðinu á sama tíma og þeir sækjast eftir póli- tískum trúnaði kjósenda. Hollustan við Geir Þegar líða tekur á áttunda áratug- inn kemur nokkurt bakslag. Fyrir kosningar 1974 og þó sérstaklega 1978 fer blaðið nánast hamförum í stuðningi sínum við Sjálfstæðis- flokkinn. Á kjördag birtist á forsíðu hálfsíðuávarp í sérstökum hátíðar- ramma þar sem nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir Hallgríms- son, brýnir fyrir lesendum nauðsyn þess að styðja flokk sinn. Kosning- arnar 1971 virðast þvi hafa verið undantekning. En hvað olli? Nærtækasta og raunar eðlilegasta skýringin er sú að nú var kominn til forystu í Sjálfstæðisflokknum einn af eigendum Morgunblaðsins og for- maður útgáfustjórnar þess til margra ára. Pólitískt og persónulega stóð hann nær ritstjórum Morgun- blaðsins en Jóhann Hafstein hafði gert. Þessi pólitíska og persónulega nálægð ritstjóra við formann Sjálf- stæðisflokksins setti mikið mark á umfjöllun blaðsins um stjórnmál þau 10 ár sem Geir Hallgrímsson gegndi formennsku í flokknum. Fyrir kosningar 1978 kemur þetta hvað greinilegast fram. Þá gekk Morgunblaðið jafnvel enn lengra í áróðri sínum en 1974. Fréttum og pólitiskum áróðri var miskunnar- laust ruglað saman. Á kjördag birt- ist á forsíðu stórt ávarp þar sem for- maður Sjálfstæðisflokksins hvatti þjóðina til að kjósa flokk sinn. Efst á forsíðu var tilvísun í viðtal við fráfar- andi borgarstjóra: „Reykjavík og Róm einu höfuðborgir Evrópu sem lúta stjórn kommúnista." Morgunblaðið breytist Eftir kosningar 1978 fer Morgun- blaðið aðeins að hægja á þessum flokkspólitísku áherslum en þó ekki verulega fyrr en 1983, árið sem Geir Hallgrimsson lætur af formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Faglega virð- ast formannsskiptin hafa verið nokkur léttir fyrir ritstjóra Morg- unblaðsins. Þeir fara nú í vaxandi mæli að setja fram skoðanir sem virðast á skjön við áróðurshags- muni þingflokks Sjálfstæðisflokks- ins. Annað slagið fara líka að birtast athugasemdir við málflutning æðstu forystumanna flokksins. Er þetta mikil breyting frá því sem les- endur til margra áratuga áttu að venjast. Önnur mjög mikilvæg breyting, sem raunar tók talsvert að gæta á áttunda áratugnum, var að nú fóru andstæðingar Sjálfstæðisflokks og Morgunblaðs að fá aukið rúm í blað- inu. Greinar þeirra voru nú birtar fyrr og mun betur upp settar en áð- ur. Ennfremur lagðist af sá plagsiður blaðsins að hnýta sífellt aftan við greinar einhverjum athugasemdum frá ritstjórum —• athugasemdum þar sem oft var gert mjög lítið úr grein- arhöfundum og sjónarmiðum þeirra. Öllum fyrir bestu Þessi þróun Morgunblaðsins hef- ur haldist í hendur við þróun sam- félagsins. Með opnara og upplýstara þjóðfélagi kemur krafan um heiðar- legri og trúverðugri fjölmiðlun. 1 þessu breytta samfélagi er það hlut- verk fjölmiðla að upplýsa fremur en að prédika, að opna fyrir umræðu i stað þess að þagga niður. Þegar horft er á hagsmuni flokka og blaða er spurning hvort gleggri aðskilnaður þessara stofnana sé að- eins í þágu blaðanna. Líklegt er að þegar til lengdar lætur séu það einn- ig hagsmunir flokkanna sjálfra að blöðin losni undan þeim. Vinsam- legt en trúverðugt dagblað gerir stjórnmálaflokki meira gagn en hið hefðbundna flokksblað. Til vitnis hér um er við hæfi að enda þessa umfjöllun á tilvísun í áðurnefnt við- tal við Styrmi Gunnarsson í BSRB- blaðinu: „Það fer best á því bæði fyrir Sjálf- stæðisflokkinn og Morgunblaðið að hæfileg fjarlægð sé á milli blaðsins og forystumanna Sjálfstæðisflokks- ins. Eftir sem áður vinna þessir að- ilar að framgangi sömu grundvallar- hugsjóna." -G.Sv. KERASIASE 'FRÁ L’ORÉAL PARÍS ÁTT ÞÚ í ERFIÐLEIKUM MEÐ HÁRIÐ. LEITAÐU RÁÐA HJÁ HÁRGREIÐSLU- MEISTARANUM. SPURÐU HANN UM KERASTASE. FÆST AÐEINS Á HÁRSNYRTISTOFUM. HELGARPÓSTURINN 33

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.