Eintak

Tölublað

Eintak - 24.02.1994, Blaðsíða 29

Eintak - 24.02.1994, Blaðsíða 29
ur, ótótlegur, þá er skáldið skund- aði í matsalinn með fylgisveini. Mátti sjá að þeim hinum digra yrði allmikið um samfundi þá, en rudd- ist þó áfram og fylgdu sveinar margir. Meðan setið var að snæð- ingi, í góðum fagnaði og sögur sagðar, mátti sjá sveina þessa koma í dyrnar, æja og jæja, kveina og emja og fylgdu grettur stórar. Lauk svo málsverði og sneru íslenskir til herbergis. En síðar þann dag var undirritaður boðaður á fund, voru þar saman komnir forkólfar stofn- unarinnar og heldur daprir, virtust margir hnípnir, nokkrir æstir, sum- ir jafnvel hræddir. Eftir nokkurt hik tók sá til máls er einna mestur þótti bógur og kvað illt í efni, hér hefði verið á ferð höfðingi stór, forseti alls Komsomols og hefði honum mætt maður ófrýnilegur, líktist sá mest anarkistum þeim og óþjóða- lýð er um þær mundir trylltu vest- urheimsk ungmenni. Þótti foringja sovéskrar æsku skörin færast upp á bekkinn er þeirra æðsta mennta- stofnun hýsti slíkan dólg og yrði að gera bragarbót hið bráðasta. Þegar skilningur minn á þessurn ófögn- uði reyndist takmarkaður, brá einn sá viðmótsþýðasti þeirra öldunga mér á eintal og kvað þeim öllum hafa verið hótað brottrekstri, gott ef ekki Síberíuvist, léti skáld þetta íslenskt ekki skerða hár sitt hið bráðasta. Ég taldi að vísu öll tor- merki á að fengi nokkru ráðið hár- vöxt félaga míns, en gat þess þó honum og hans kumpánum til huggunar að þar sem vor þyti í lofti og hlýnaði óðum gæti komið til þess að skáld léti skera hár sitt öumbeðinn. Hýrnuðu menn þá nokkuð, töldu að vísu illmögulegt að segja skáldum fyrir verkunr og vitnuðu í Majakovskí heitinn, en slíkir væru elskir að vorgyðjunni og kæmi hún máski til hjálpar og frels- aði frá Síberíuvist. Lauk svo fundi með nokkrum taugatitringi. En vorgyðjan bregst ekki þeim er til hennar leita og nokkrum dögum síðar sprangaði skáldið um bursta- klippt, þó aldrei hefði heyrt af áhyggjum stórmenna. Það varð því enginn órói í Moskvuborg vorið 1968. Og nú er Græningi Grænjaxls ekki meir og fullorðinsvandamálið óleyst. Ég er að sofna EGILL HELGASON Eitt sinn, þegar Dagur var nánast þrotinn að kröftum og átti ekki í nein hús að venda, ákvað hann að gera sér að góðu að setjast upp hjá manni sem ég kallaði Sigurvalda, þótt hann hafi sjálfsagt heitið eitt- hvað allt ai\nað. Degi fannst þetta allt í lagi, svona í bili, enda var hann hættur að eiga séns í ungu og sætu stelpurnar og stelpurnar sem voru sætar í hans ungdæmi voru allar orðnar gamlar og ógeðslegar, fannst honum. Sigurvaldi hafði hins vegar aldrei átt séns, nema einu sinni og þá kom barn undir. Síðan hafði hann verið skilvís meðlagsgreiðandi og það sett skarð í fjárhag hans. Dagur skuldaði hins vegar meðlög með ótal börnum og borgaði aldrei neitt. Þeir sátu oft saman við drykkju úti á Nesi, í leiguíbúð Sigurvalda, hættu sér við og við í bæinn og á Mokka, en stundum fór Sigurvaldi einn á Rauða ljónið. Þangað inn fékk Dagur ekki að korna. Oftast nær sat Dagur og talaði, en Sigurvaldi hlustaði og þá sjaldan að langlundargeð hans (sem var mikið) var á þrotum, dormaði hann og sagði upp úr eins manns hljóði: „Ég er að sofna.“ Langvinn brennivínsdrykkja og kamelreykingar gerðu hann oft syfjaðan og slappan. En þrátt fyrir fjörutíu ára ólifnað var Dagur innst í eðli sínu hraust- menni. Honum fannst Sigurvaldi oft óþarflega seinn í svifum, lítill, feitur og heilsulaus. Dagur var hins vegar langur, mjór og með óseðj- andi matarlyst; hann tæmdi ísskáp- inn jafnóðum og Sigurvaldi fyllti hann. Sigurvalda þótti ekki gott að eyða af drykkju- og sígarettupen- ingunum til að kaupa mat handa Degi, en lét sig hafa það. Báðir áttu þó sameiginlegt að vera síhóstandi, stundum þurrum og grönnum hóstum, stundum djúpum, blautum og þrálátum hóstum. Munurinn var bara sá að þeir vissu báðir að ef Dagur hætti að sukka væri öruggt að hóstinn hyrfi. Sigurvaldi átti hins vegar ekki afturkvæmt úr hóstalandinu. Góa er tekin við ELÍAS MAR Dagur var einhver sérstæðasti karakterinn sem ég kynntist á Laugavegi ellefu forðum tíð. Það var haustið ‘53, og hann var 16 ára. Hann skálmaði mikinn á götu og steig upp á tána, gekk jafnan með hendur djúpt í vösum, setti í herð- arnar og hallaðist fram. Sumum þótti það merki um einbeitni og dugnað; aðrir sögðu það stafaði af taugaveiklun. Rödd hans var nokkuð veik, þó ekki skræk. En honum lá jafnan hátt rómur, og stafaði af því, að hann var vanur að hrópa í eyrun á heyrnarsljórri ömmu sinni sem hann umgekkst fremur en annað fólk alla sína bernskutíð. Andlitsdrættir hans voru á þess- um árum ómótaðir, og honum spratt ekki grön fyrr en eftir tvítugt. Engu að síður var hann mjög bráð- þroska líkamlega, og fjarri því að vera náttúrulaus; hugsaði reyndar um fátt annað fremur en mannleg- ar náttúrur í þeirra margbreytilegu mynduni. í mótsögn við sterklegan þroska líkamans voru hendurnar: þær voru infantil, fingurnir stuttir, og rithönd hans þroskaðist aldrei upp úr því að vera smámunaleg skrift fermingardrengs. Það varð annmarki hans sem myndlistar- manns síðar meir, hve handbragðið var ómarkvisst, línuteikningin hik- andi og ófullburða. Það sem var að- al hans var á sviði bókmennta. Skopgáfa hans var sérstæð og féll ekki í kramið hjá öllurn. En hún naut sín oft vel í dæmigerðustu ljóðum hans; og í þeim prósa, sem einna helzt má flokka til ævintýra. Sumt af því sem hann orti mun lifa lengur en obbinn af íslenzkri ljóða- gerð síðustu áratuga, og í bók- menntum okkar á hann sinn sér- stæða sess, sem enn hafa ekki verið gerð nein skil af faríseum og spá- mönnum; það bíður síns tíma. Lífsviðhorf Dags er auðvelt að skilgreina sem heimspeki bóhems- ins, og þó væri slík einkunn hvergi nærri nógu víðtæk. Hann varðveitti barnið í sér furðu vel; sumum þótti það jaðra við vanþroska. Aðrir vissu, að þetta var samofið því út- haldi og seiglu, sem entist honum ævilangt og var í eðli sínu skylt samlíðaninni með öllum sem áttu bágt. Ef hann eignaðist peninga, leið honum ekki vel fyrr en hann var búinn að eyða þeim í gleðskap með öðrum sem ekkert áttu og ekki voru líklegir til að geta fjárfest í dýrari veigum en molakaffi. Óbeit hans á borgaralegri meðal- hegðun var slík, að þegar ég slysað- ist til þess fyrir mörgum árum að segja sem svo, að æðsti draumur minn í lífinu væri sá að eignast þak yfir höfuðið, þá snögghvarf brosið af andliti hans, og aldrei þessu vant varð röddin að hvísli: „Et tu...“ Við minntumst ekki á það fram- ar. í gamla daga hlustuðum við oft á Bach saman. Og það var sá sami Bach sem lokaði hringnum, þegar hann heimsótti mig í siðasta skipti á liðnu hausti. Þá hlustuðum við m.a. á Passacaglíu og fúgu í c-moll BWV 583. Það var ógleymanleg stund; ekki sízt fyrir það, að í ljós kom að hann hafði aldrei heyrt þettá verk áður. Svo skálmaði hann sæll og rór út í haustnóttina. Og nú hefur honum tekizt að þreyja þorrann. Góa er tekin við, og ýmsir vilja meina að hún sé skárri. Karamasov- bræðurnir og kapall EINAR ÓLAFSSON Dag einn um sumarið 1977 þegar ég bjó í Osló, stóð sjópoki við dyrn- ar þegar ég kom heim milli nóns og miðaftans. Á miða sem hafði verið smeygt milli stafs og hurðar, stóð: „Er í bænum. Dagur.“ Ég kippti pokanum inn og keypti svo mat og helling af bjór. Skömmu seinna birtist Dagur og urðu fagnaðar- fundir og þarf ekki að orðlengja það. Ég bauð honurn bjór, en hann afþakkaði og bað um mjólk. Hafði verið á ferðalagi í Kaupmannahöfn, Þýskalandi og Italíu og ekki fengið mjólk síðan um vorið. Hann var hjá nrér í þrjár vikur eða svo, og drakk bara rnjólk í tvær vikur. Ég hafði, þegar þetta var, ekki annað húsgagna en tvær dýnur, eitt borð og einn stól. Ég vann sem nætur- vörður nótt og nótt og skúraði í stjórnarráðinu seinnipartinn, ann- ars var ég að lesa Karamasovbræð- urna eftir Dostójevskí á norsku. Ég hef alltaf verið lélegur við langar bækur og áttum við Dagur það sammerkt, enda hafði hann bara lesið hálfa bókina fyrir löngu. Við eyddum kvöldunum og þeim nótt- um sem ég var ekki á vakt þannig að Dagur sat við borðið og lagði kapal og drakk ntjólk en ég sat á dýnu upp við vegginn og las og sneri prófílnum að Degi. Ég las hægt og effir tæpa viku spurði Dag- ur: „Er þetta ekki leiðinlegt?“ Eitt- hvað mun hafa umlað í mér. Tæpri viku seinna þegar ég var langt kom- inn með seinna bindið, leit Dagur aftur upp frá kaplinum og sagði: „Hún er kannski ekki sem verst.“ Ég svaraði því til að hún væri bara nokkuð góð. „Hann er að skána á þér prófíllinn,“ sagði Dagur. Nokkrum dögum seinna gekk kap- allinn upp, ég lauk við bókina og Dagur varð fertugur. Þá fengum við okkur bjór. Bardagi við grábirni EINAR KÁRASON Gæinn var að upplagi kurteis, víðsýnn og siðmenntaður og það reyndi hann aldrei að fela á bak við fatalarfana og úfið skeggið. Þótt hann væri yfirburðamaðurinn í röðum utangarðsskálda sem eðli málsins samkvæmt gefa skít í allt var hann alltaf elskulegur viðræðu, einlægur og hlýr í viðmóti, alveg óháð því hvort hann væri að rukka mann um fimmhundruð króna vegatoll fyrir að ganga Laugaveginn eða ekki. Ég held hann hafi skrifað mjög lítið sjálfur síðustu árin, lifn- aðarhættirnir. buðu varla upp á það. Ýmsir í þeirri stöðu fara að bera nokkurn kala til þeirra sem alltaf eru að gefa eitthvað út, nota tækifærið og stela athyglinni með- an hinir sem hefðu gert miklu bet- ur, hafást ekki að, en aldrei varð ég var við slíkt hjá Degi. Hann af- greiddi sískriftaráráttuna sem hálf- gerðan sjúkdóm, grafómaníu; „þú ert grafóman,“ sálgreindi hann með hrjúfri röddu. Og af því ég var grafóman þá settist hann einu sinni að mér á krá síðla kvölds og fór með langa sögu sem hann sagði mér að færa einhvern tíma í letur „af því þú ert í þeim bissness." Ég hef haft hálfgerðan rnóral yfir því síðan, að hafa verið búinn að drekka of mikið þetta kvöld til að muna söguna í smáatriðum, en einhvern tíma á ég eftir að rekons- trúera hana eftir minnisbútum, því þeir eru magnaðir. Hann ákvað að prófa sýru. Fékk lánaða íbúð fyrir trippið, og tók inn skammtinn. Svo komu grábirnir inn í íbúðina, risa- vaxin skrímsli, gengu uppréttir, og hugðust murka lífið úr skáldinu. Hófst bardagi upp á líf og dauða og stóð í sólarhring; húsgögn brotn- uðu, traustir hurðakarmar nreð öll- um umbúnaði rifnuðu úr í heilu lagi. Loks tókst Degi að reka óvætt- ina af höndum sér og hann sofnaði. Og er hann vaknaði var hann ósár, en mublur eins og hráviði, dyra- FIMMTUDAGUR 24. FEBRÚAR 1994 29

x

Eintak

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Eintak
https://timarit.is/publication/309

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.