Dagblaðið Vísir - DV - 24.10.2008, Page 20

Dagblaðið Vísir - DV - 24.10.2008, Page 20
FÖSTUdagUr 24. OKTÓBEr 200820 Helgarblað „Af hverju gerði enginn neitt þegar viðvaranir komu úr öllum áttum?“ Þannig spyr Lars Christensen, hagfræðingur hjá greiningardeild Danske Bank, en hann er aðalhöf- undur frægrar skýrslu um ofhitn- un íslenska bankakerfisins sem birt var snemma árs 2006. Christensen segir í samtali við DV að nú gagnist ekki að horfa til fortíðarinnar og þess sem sagt var árið 2006. Mest sé um vert fyrir Ís- lendinga að semja sem fyrst um aðstoð og ráðgjöf Alþjóðagjald- eyrissjóðsins til þess að koma höktandi íslensku hagkerfi í gang. „Það er óumflýjanlegt og bráð- nauðsynlegt úr því svona fór. Ég má ekki til þess hugsa hvað gæti gerst ef þið farið ekki rétt að. Þið verðið líka að semja við Breta. Það er ekki þeim að kenna hvernig fór. Tjónið í Bretlandi stafar af íslensk- um banka í einkarekstri sem ís- lensk yfirvöld leyfðu að hegða sér stjórnlaust og án eftirlits. Ábyrgð- in hlýtur að vera hjá íslenskum stjórnvöldum, Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu sem leyfðu bönkunum að vaxa eftirlitslaust þrátt fyrir viðvaranir úr ýmsum áttum. Skilmálar eru alls staðar Ég vil sérstaklega taka fram að ég hef engan áhuga á að vera með umvandanir og vísa til viðvar- ana í skýrslu okkar frá árinu 2006. Það vill enginn að Ísland sökkvi í botnlausa kreppu og skuldafen en þið þurfið að hlusta á þá sem vilja rétta hjálparhönd. Sumar þjóðir bjóða aðstoð af því að þær hafa hagsmuna að gæta vegna tjóns sem einstaklingar og fyrir- tæki hafa orðið fyrir í viðskiptum við íslensku bankana. Þetta á tæp- lega við um Norðurlöndin. Þar er tjónið ekki mikið í viðskiptum við bankana sem nú hafa verið þjóð- nýttir. Þau vilja hjálpa vegna þess að Norðurlöndin eru frændþjóðir. En það væri barnaskapur að ætla að enginn setji skilyrði. Það skrif- ar enginn ávísun og réttir öðrum skilmálalaust.“ Stjórnvöld bera ábyrgð „Mest er um vert að viðurkenna mistök, bregðast við vandanum og finna lausnir. Ef ég ætti að gefa rík- isstjórninni ráð væri það að semja í hvínandi hvelli við Alþjóðagjald- eyrissjóðinn. Það má ekki dragast á langinn vegna ágreiningsmála um skilyrði. Þeir sem hafa hagað sér illa og gert mistök með svo al- varlegum afleiðingum verða að bregðast við eins og um stóráfall sé að ræða. Auðvitað er enginn ánægður með ástandið. En því má líkja við rússneska rúlettu ef Ís- lendingar bregðast ekki hratt við og semja við Alþjóðagjaldeyris- sjóðinn. Og staðan er þannig að sá sem hefur hagað sér illa verð- ur að gangast við því og taka sig á,“ segir Christensen og vísar enn til íslenskra stjórnvalda og mistaka stofnana sem vinna við að stjórna peningamálum þjóðarinnar og hafa eftirlit með fjármálastofnun- um. Í skýrslu Lars Christensens og samstarfsmanna hans um Ís- land, sem út kom árið 2006, var dregin upp dökk mynd af fram- tíðarhorfum íslenska efnahags- lífsins. Ástandinu var jafnað við aðdraganda kreppunnar í Taí- landi árið 1997 og Tyrklandi fimm árum síðar. Íslenska hagkerfið sýndi mörg einkenni ofhitnunar og hætta væri á ferðum hjá bönk- unum. Greiðsluþol þeirra kynni að minnka með hertri peninga- málastefnu og gengisfall krón- unnar gæti dregið mjög úr neyslu og fjárfestingum. Á þessum tíma voru stýrivextir að skríða yfir 10 prósenta markið, launaskrið var mikið og verðbólgan yfir 4 pró- sentum þrátt fyrir sterka krónu. Í skýrslunni, sem ber heitið Ice- land: Geysir Crisis, var spáð að þjóðarframleiðslan gæti fallið um 5 til 10 prósent innan tveggja ára og líklega færi verðbólgan yfir 10 prósent samfara falli krónunnar. Á það var einnig bent að lánakjör bankanna færu versnandi og stór lán væru á gjalddaga næstu þrjú misserin. Ástandið svartara en spáð var í skýrslunni „Þetta reyndist því miður vera vanmat. Verðbólgan er nú 15 pró- sent á Íslandi og ég tel líklegt að hún verði 50 prósent innan tíðar eins og ástatt er. Krónan og gjald- eyrismálin eru ekki í viðunandi horfi og atvinnuleysi eykst hratt,“ segir Lars Christensen sem vænt- anlegur er til landsins á mánudag. Eins og margir muna var skýrslu Lars Christensens og fé- laga fyrir Danske Bank illa tekið hér á landi bæði af stjórnvöldum en ekki síst forsvarsmönnum út- rásarbankanna. „Sumt sem kemur fram í skýrslu Danske Bank er dramat- ískara en við höfum séð lengi,“ sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, á fjölmennum fundi hjá Félagi viðskiptafræð- inga og hagfræðinga í byrjun apr- íl, nokkrum vikum eftir að skýrsla Christensens og félaga hjá Danske bank kom út. Stöðugleikinn sem ekki varð Athyglisvert er að í maí 2006 kom út skýrsla um fjármálalegan stöðugleika á Íslandi. Skýrslan var gerð af Frederic Mishkin, víðfræg- um hagfræðiprófessor og síðar seðlabankastjóra í Bandaríkjun- um, ásamt Tryggva Þór Herberts- syni, sem þá var forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Ís- lands. Skýrslan kostaði milli 15 og 20 milljónir króna á núvirði en hún var kostuð af Viðskiptaráði Ís- lands. Í skýrslunni segir meðal annars að þótt áhyggjur af hættunni sam- fara hröðum vexti bankanna á nýj- um sviðum viðskipta sé ekki með öllu ástæðulaus sé gott til þess að vita að Fjármálaeftirlitið sé með- vitað um slíka hættu. Einnig ætti það að hafa róandi áhrif að vita til þess að Íslendingar ráði yfir vönd- uðum ríkisstofnunum sem fáist við öryggi og heilbrigði íslenskra bankakerfisins. Meðal þess sem Mishkin og Tryggvi Þór lögðu til var að yfir- umsjón fjármálastjórnar yrði sam- hæfð í höndum Seðlabanka Ís- lands. Þá voru viðskiptabankarnir hvattir til þess að efla upplýsinga- gjöf enda væri hagsmunum þeirra best borgið með þeim hætti. Einn- ig var lagt til að ekki yrði tekið mið af þróun húsnæðisverðs í mæling- um Seðlabankans á verðbólgu. Loks var mælt með að fylgt yrði fjármálastefnu sem stutt gæti við peningamálastefnuna. Skýrslunni lýkur með eftirfar- andi orðum: „Við teljum að með því að fylgja fjórum tillögum okk- ar, sem eru á engan hátt tæmandi, muni stöðugleiki íslenska efna- hagslífsins aukast, trúverðugleiki peningamálastefnunnar styrkj- ast og draga úr líkum á fjölþætt- um ógnum við jafnvægið. Ef þessu marki verður náð teljum við að al- þjóðleg tiltrú á íslenska fjármála- kerfið muni styrkjast.“ „Nú þarf að horfa fram á veginn og semja strax við Alþjóðagjaldeyris- sjóðinn.“ SEMJIÐ Í HVÍNANDI HVELLI Lars Christensen, sérfræðingur hjá Danske Bank, var úthrópaður hér á landi árið 2006 fyrir svarta skýrslu um íslenskt efnahagslíf og bankaútrás. En ástandið er verra en spáð var í skýrslunni. Hann segir stjórnvöld bera mesta ábyrgð og að líkja megi því við rússneska rúllettu ef Íslendingar semja ekki hratt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Jóhann haukSSon blaðamaður skrifar: johannh@dv.is Lars Christensen „Tjónið í Bretlandi stafar af íslenskum banka í einkarekstri sem íslensk yfirvöld leyfðu að hegða sér stjórnlaust og án eftirlits.“ Frederic Mishkin Hann og Tryggvi Þór Herbertsson sömdu skýrslu um efnahagsstöðugleika í kjölfar skýrslu Christensens. Hún kostaði Viðskiptaráð Íslands 15 til 20 milljónir króna.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.