Tíminn - 24.12.1951, Qupperneq 33
JÓLABLAÐ TÍMANS 1951
33
§ó£in luúmct
Lengi hefir verið sagt að jólin
væru hátíð barnanna, sem mun
rétt vera. Börnum hefir alltaf virzt
eðlilegt að hlakka til jólanna. Sú
tilhlökkun, eða jólagleði hefir ætíð
byrjað löngu fyrir jól og orðið svo
sterkari og innilegri, því nær sem
hefir dregið þeim.
En þessi gleði nær til fleiri en
barnanna. Hún gegntekur og hina
fullorðnu svo, að eigi mun nein
fjarstæða, þó sagt sé, að um jólin
verði allir börn, að á jólunum gríp-
ur alla barnsleg gleði, sem á öðrum
tímum er eigi tiltæk. Þá hverfur
allur kuldi og kergja úr hugum
manna. Þá gleymist og hverfur öll
óvild tii meðbræðra vorra, sem á
öðrum tímum kann að gera vart
við sig. Þá vilja menn allt gera hver
fyrir annan. Allar hendur eru þá
útréttar til hjálpar hvar sem henn-
ar er þörf. Menn óska hver öðrum
gleðilegra jóla og ég hygg, að þeirri
ósk fyigi oftast allur hugur þess,
Sem óskina ber fram.
Svona eru menn bljúgir og góðir
um jólin. Þau hafa gert menn betri
en venjulega. Þau hafa gert menn
barn í annað sinn. Þau hafa opnað
hugi vora fyrir öllu fögru og góðu,
svo vér erum meðtækilegir fyrir á-
hrif þeirra, sem vér finnum allir til,
en skynjum þó ef til vill ekki til
fulls hvers eðlis eru.
Varla dylst það samt okkur, sem
gamlir erum orðnir, að nútíma jól
eru þó nokkuð með öðrum hætti en
áðúr var. Prangaraeðli nútíma-
mannsins lætur um of á sér bera í
sambandi við jólin. Það er allt of
mikið að því gert, að gera þau að
auglýsinga og markaðshátíð. Koma
þeim sem mest undir áhrif fjáröfl-
unar á aðra hliðina, en óhóflegrar
eyðslu á hina. Þetta hvorttveggja
eru þó vafasamar dyggðir og heyra
alls ekki til hinni sönnu jólahyggju.
En það var ekki þetta, sem ég
ætlaði að gera hér að umtalsefni,
heldur það, að rifja upp gömlu jól-
in eins og þau gerðust í sveitinni
minni fyrstu þrjá tugi líðandi ald-
ar. Jólin heima.
Áður en lengra er haldið vil ég
þó taka það fram, að þó ég segi hér
frá jólunum heima á Hafranesi, er
það ekki vegna þess, að þau hafi
verið neitt sérstaklega frábrugðin
því, sem almennt gerðist. Jólahug-
urinn og löngun til þess að gera
þau sem hátiðlegust, mun hafa ver-
ið líkt á flestum heimilum, þó ýms-
ar aðstæður réðu því, að í fram-
kvæmd urðu jólin nokkuð misjöfn
á þeim. Það sem mestu réði þó í
þessu efni, að minni hyggju, voru
húsakynni og fólksfjöldi. í þeim
efnum var Hafranesheimili alltaf
vel sett.
Það var ætíð mikið annriki fyrir
jólin, en þó mest síðustu vikuna.
Var þetta þó einkum á kveimhönd-
ina, þó karlmenn reyndu á ýmsan
hátt að létta því verkin.
Húsin, sem búið var í, voru öll
þvegin hátt og lágt, og hreingerð á
allan hátt, jafnvel þó hrein mættu
heita áður. Svo var verið að búa út
jólagjafir, sem ekki mundu nú
þykja ríkmannlegar. Lengi fram-
eftir árum eitthvað heima unnið,
en breyttist svo á seinni árum í að-
keyptan varning að nokkru leyti.
Var öllum gefið eitthvert lítilræði
til gamans þeim.
Á þorláksmessu var oftast smal-
að til að ná í jólakindina, sem kall-
að -var og henni lógað. Var þá ætíð
lokið allri brauðgerð og jólabakstri,
sem var mikið verk á mannmörgu
heimili, þar sem jafnan var og
margt góðra og velkominna gesta.
Ávallt var reynt aö stilla svo til
á aðfangadag jóla, að lokið væri
öllum heimilisstörfum kl. 4—5 síð-
degis. Fóru þá allir að búast spari-
fötum og reyndu að vera búnir að
því fyrir kl. 6, því þá var lesinn
húslestur. Var hann ætíð lesinn í
Péturs hugvekjum á þessu kvöldi
þangað til húslestrabók Haraldar
Níelssonar kom út. Eftir það var
lesið í henni. Ég, sem þetta rita,
las húslestra heima í 30 ár. Minn-
ist ég nú, þegar ég hugsa um liðna
daga þeirra stunda, sem fólkið safn-
aðist saman til að lilýða á lestur og
lesturinn fór fram, meðal hinna
allra ánægj ulegustu í lífi mínu.
Á aðfangadagskvöld var ávallt
sunginn undan lestri sálmurinn:
„Nú eru byrjuð blessuð jól.“ En
þessi látlausi en innilegi sálmur er
nú ekki lengur 1 sálmabókinni og
þykir mér það furðu sæta.
En það mun nú trauðla þörf
neinna sálma til söngs við guðs-
þjónustu í heimahúsum. Sá fagri
og góði siður mun nú víðast lagður
niður, til ómetanlegs tjóns fyrir
siðferðis- og trúarlífið í landinu.
Þegar búið var að lesa, þökkuðu
allir fyrir lesturinn með handar-
bandi. En lesarmn sagði við hvern
og einn: „Guð blessi þig.“ Var þetta
að ég hygg ekk-i þýðingarlaus at-
höfn, að þakka lesturinn með
handatengingu.
Meðan húslesturinn fór fram,
mallaði steikin og annað góðgæti
matarkyns yfir eldinum. Söfnuðust
nú allir saman til máltíðar. Tóku
menn til matarins með misjöfnum
dugnaði, en flestir vel. Var jafnan
fábrotinn og lítill miðdegisverður á
aðfangadag og flestir því listargóð-
ir að kvöldi.
Þegar máltíð var lokið, dreyfðust
menn um bæinn og fór hver sínu
fram.
Aldrei skemmtu menn sér heima
þetta kvöld, nema við söng. Söfn-
uðust allir, sem hug höfðu á, þang-
að sem hljóðfærið var og þar var
sungið. Voru það aðallega jólasálm-
arnir. Söngkraftar voru ætíð sæmi-
legir og stundum góðir, eftir því,
sem viö er hægt að búast á sveita-
heimili, enda mikið iðkaður söng-
ur.
Ég vil geta þess, að allt af var
tvíbýli á Hafranesi meðan ég bjó
þar. En það var hlýtt sameiginlega
á húslestra frá báðum heimilunum
og eins fóru allar skemmtanir fram.
Þarna ríkti alger eining.
Kl. um 10 á aðfangadagskvöld var
aftur sezt að borði og þá drukkið
kaffi og með því bornir fram alls
kyns bakningar. Fóru menn svo úr
því smátt og smátt að ganga til
hvílu.
Fyrstu ár mín á Hafranesi hélzt
þar sá siður, sem áður var á hafð-
ur, að kl. 5—6 á jóladagsmorgun
var lesinn húslestur. En sá siður
lagðist niður 1913.
Eftir það voru lesnir tveir lestrar
á aðfangadagskvöld. Annar á þeim
tíma, er fyrr greinir, en hinn kl. 12.
Byrjaði jóladagurinn eftir það með
því, að fólkinu var borið kaffi með
brauði um kl. 8.
Þeir, sem þess óskuðu, gátu svo
fengið hrísgrjónagraut með rúsín-
um í og sj'kur og kanel.
Miðdegisverður var kl. 12. .Var
það jafnan kaldur matur, svo sem
hangikjöt, saltkjöt, kartöflur og
brauð ásamt einhverjum heitum
rétti..Oft höfðu þeir, sem það kusu
skemmt sér við spil fyrir miðdag.
Ef fé var komið á gjöf, var reynt
að gefa því alla dagsgjöfina fyrir
miðdag og þá haft heldur í rífara
lagi, sem skammtað var. í fjósi
varð aldrei breyting vegna hátíðar-
halds.
Húslestur var lesinn milli mið-
dagsverðar og eftirmiðdagskaffis,
ef því varð við komið. Var það gefið
kl. 3—4. Oftast voru þá komnir ein-
hverjir gestir ef færj var veður
bæja milli. Var það oft milli 10 og
20 manns og stundum fleira. Þótti
það góður fengur, að fá sem flesta
gesti. Þess meiri urðu möguleikar
til skemmtana.
Að loknu eftirmiðdagskaffi fóru
menn svo aö skemmta sér eitthvað.
Var oftast dansaö fram að kvöld-
verði af hinu yngra fólki, en það
eldra sat og spilaði. Tók þó margt
af því þátt í öllu því, er til skemmt-
unar var haft og lét sitt ekki eftir
liggja.
Veitingum til gesta, var skipt að
mestu jafnt milli búanna (útenda
og framenda, sem kallað var).
Þegar lokið var kvöldmjöltun í
fjósi og þar með öllu dagsins striti,
fóru menn óskiptir og af fullum
krafti að skemmta sér. Var þá farið
í alls konar leiki svo sem: jólaleik,
(biðilsleik) gjafaleik, axarskafta-
leik, pantaleik, þegjandaleik, sjö-
orðaleik, sögð ferðasaga, leiknir
málshættir, leikin bókarheiti o. fl.
í þessum leikjum tóku allir þátt,
ungir og gamlir, hver eftir löngun
sinni og getu.
Þótti þetta ágæt skemmtun í
sveitinni á þessum árum. Voru
þarna oft að leikjum 40—50 manns,
gestir og heimafólk, einhuga um,
að njóta vel þeirrar skemmtunar,
sem hægt var að veita.
Reynt var eftir megni, að hafa
heldur hljótt viö, eftir að leið á
nótt og gamalt fólk og börn var
gengið til náða. En sjaldan var hætt
við gleðskapinn fyrr, en kl. 4—5 að
morgni. Héldu þá gestir heim til
sín, en heimafólk gekk til hvílu.
Á annan dag jóla gekk allt eins
til og á jóladag, nema það, að oft-
ast var þá færra af gestum. Þó kom
það fyrir að gestir voru þá fleiri, ef
vont veð'ur var á jóladag.
Það var alltaf siöur heima, að
bjóða til kaffidrykkju um jólin
heimafólki á milli búanna. Var
þ.essi samdrykkja venjulega á jóla-
dag hin fyrri, en sú seinni á annan
dag jóla, eða þá ekki fyrr en á ný-
ársdag. í þessu þótti og var nokkur
tilbreyttni frá því venjulega og
varð því til skemmtunar þeim, er
þess nutu.
Ég hefi hér að framan reynt að
bregða upp mynd af jólum í sveit-
inni, þar sem ég var á þeim tíma,
sem um getur í upphafi máls míns
hér aö framan.
Þótt ég nefni í því sambandi eitt
tiltekið heimili, er það vegna þess,
að það er mér kunnast. En engu
síður tel ég þessa jólalýsingu eiga
almennt við á þessum árum. Þó
með þeim afbrigðum, sem ýmsar
misjafnar aðstæður heimilanna
hlutu að skapa.
Eins vil ég taka það fram, að þar
sem ég tala um Hafranesheimili, á
ég þar við bæði búin. Þarna ríkti
svo mikil eining, að aldrei brá út
af og líktist í öllu góðu fjölskyldu-
lífi.
Ég vil svo að endingu tjá mínar
beztu þakkir öllum þeim, bæði gest-
um og heimafólki, sem ár eftir ár
hjálpuðu til aö gera jólin heima
svo skemmtileg, sem raun bar vitni.
Sérstaklega þakka ég þó okkar
ágæta heimilisfólki, sem ætíð á all-
an hátt, af kostgæfni og trú-
mennsku, vann að velferð og gengi
heimilisins bæði í skemmtun og
starfi.
Gleðileg jól.
Einar Friðriksson.
frá Hafranesi.
| Munið....
i ]
að vér erum ætíð þjónar |
viðskiptavinarins
I
Þökkum viðskiptin
i
i
| GLEÐILEG JÖL! !
j Farsælt komandi ár! j
i
1 S
! KAUPFÉLAG AUSTFJARÐA j
SEYÐISFIRÐI
c
! i