Morgunblaðið - 10.04.1979, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 10.04.1979, Blaðsíða 34
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 10. APRÍL 1979 34 Kristín Pálmadóttir frá Hnausum níræð Mér finnst það með ólíkindum, að Kristín fyrrverandi húsfreyja á Hnausum sé að verða níræð. Eg sé hana fyrir mér unga og glæsta stjórna búi sínu á umsvifamiklu heimili og sé ekki á henni nein ellimörk. En það var fullyrt við mig fyrir nokkrum dögum, að hún væri fædd að Hvammi í Langadal þann 10. apríl 1889, svo ég verð að láta í minni pokann. Sem kornabarn fluttist hún með foreldrum sínum að Vestur-A í Laxárdal, og þar sleit hún barns- skónum. Foreldrar Kristínar voru Pálmi Erlendsson Guðmundssonar frá Móbergi, sem átti 20 börn. Frá honum er runnin hin mikla Móbergsætt, sem er mjög kunn í Húnavatnssýslu og telur margt mætra manna. Móðir Kristínar var Skagfirðingur, Jórunn Sveins- dóttir frá Starrastöðum í Skaga- firði. Laxárdalurinn er grösug og vinaleg sveit að sumarlagi, en mikið vetrarríki er þar og búskaparskilyrði erfið. Nú er þessi dalur að mestu kominn í eyði. Sjálfsagt hefur Kristín snemma verið tápmikH og dugleg við að bjarga sér. Tólf ára gömul er hún lánuð að Hvammi í Langadal til að gæta barna þeirra hjóna, Frímanns og Valgerðar. Um þetta leyti fer að losna um búendurna á Vestur-A, og flytjast þau hjón með bú og börn til Sauðárkróks. Kristín minnist oft veru sinnar á Króknum; það voru góð umskipti að sjá fyrir sér fagran og víð- feðman Skagafjörð og komast í fjölmennið í stað þess að búa í þröngri og afskekktri fjallabyggð. Frá Sauðárkrókskirkju er Kristín fermd og minningarnar úr Skaga- firði eru henni ljúfar. Eftir fárra ára dvöl á Sauð^irkróki flytur fjölskyldan til Reykjavíkur. Kristín tók þegar að vinna fyrir sér þegar til höfuðstaðarins kom og þótti liðtæk til þeirra starfa, sem hún réðst til. Hún átti jafnan góða húsbændur, er hún minnist með ánægju og þakklæti. Þar ber einna hæst Harald Árnason kaupmann og konu hans en hjá þeim var hún um skeið í vist. Þá starfaði hún einnig á helsta veitingahúsi Reykjavikur, Hótel Island, bæði við matreiðslu og framreiðslu. Telur hún, að Reykja- víkurdvölin hafi reynzt sér nota- drjúg, þega hún sjálf stofnaði bú. Árið 1910 missti Kristín föður sinn, en þær mæðgur dvöldust áfram í Reykjavík, en vorið 1912 urðu hjá henni þáttaskil. Þá réðst hún kaupakona norður að Hnausum í Austur-Húnavatns- sýslu. Það vor höfðu frændur tveir keypt þetta fornfræga höfuðból. Jakob Guðmundsson frá Holti í Svínadal, bróðir Magnúsar Guðmundssonar ráðherra, og Sveinbjörn Jakobsson frá Sólheimum í sömu sveit. Svein- björn var Möðruvellingur, hafði fengizt við kennslu og síðar stund- að um nokkurt skeið skrifstofu- störf hjá Sláturfélagi Suðurlands. Nú stóð hugur hans til búskapar. Hnausar eru sem kunnugt er með mestu jörðum í Húnavatnssýslu og því álitleg til búsetu. Er ekki að orðlengja það, að kaupavinnan var framlengd, og vorið 1916 þann 4. júní giftust þau Kristín og Sveinbjörn. Síðan stjórnaði Kristín búi þar meira en hálfa öld með miklum skörungs- skap. Mann sinn missti Kristín haustið 1958, og tók þá Leifur sonur hennar við búskapnum, en móðir hans hafði áfram alla stjórn innanbæjar. Þar til Leifur giftist og hún flutti með Svövu dóttur sinni til Reykjavíkur 1969. I mörg horn var að líta á þessu stórbýli, en ofan á það bættist, að Kristín annaðist símavörzlu, sem var ekki lítið álag ofan á það, sem fyrir var. Hér var um að ræða símaþjónustu fyrir tvær fjölmenn- ar sveitir, Þing og Vatnsdal og oft var leitað síma frá fremstu bæjum í Torfalækjarhreppi. Þegar ég fluttist að Þingeyrum 1923, kom margt á daginn, sem ég hafði ekki gert mér fyllilega grein fyrir, og var þar á meðal síma- leysið. Heima á Akureyri hékk síminn á þilinu, svo að hægt var að grípa til hans hvenær sem var, en í sveitum var því öðruvísi farið. Frá Þingeyrum þurfti til dæmis að fara 6 km leið og hefur víst ekki þótt mikið miðað við aðra og þó aðeins á vissum tímum dags. Eftir að ég hafði dvalizt um tíma á Þingeyrum tók mig að lengja eftir fréttum heiman frá Akureyri. Ég kveið fyrir þessum símaleiðangri, öllum ókunnug og vissi naumast hvernig ætti að bera upp erindið. En Jón, maðurinn minn, sagði, að ekki væri mikið að óttast í Hnausum, slíkt fólk byggi þar, sem yrði ekki lengi að greiða úr hverjum vanda. Ég lagði af stað á Funa mínum og ferðin gekk að óskum. Þá hitti ég Kristínu í fyrsta skipti, fallega og glaðlega. Hún var fljót að ná sambandi við mömmu og svo beið kaffið frammi í stofu. Ekki spillti Sveinbjörn þessari fyrstu heimsókn minni í Hnausum verður mér ávallt minnisstæð, hvorttveggja var að heyra í mömmu og svo að eignast slíka vinkonu í sveitinni, þar sem ég var öllum ókunnug og fávís um hætti manna. Mörg ár liðu, þar til sími kom að Þingeyrum, og margar urðu ferðirnar að Hnausum á þeim árum til að komast í síma, og aldrei brugðust viðtökurnar. Það var raunar mikil tilbreyting að koma að Hnausum; þar var iðulega fjölmenni úr þessum símalausu sveitum, og þarna varð oft góðra vina fundur, því að annasamt var og biðin gat orðið nokkuð löng. Og svo var veitt kaffi eins og maður væri kominn á Hótel ísland, en ekki veit ég til að reikningum hafi verið framvísað. Ef biðin tók að lengjast verulega skauzt ég stundum inní baðstofu til gömlu konunnar, móður Krist- ínar og spjallaði vð hana, því að ég hef alltaf haft dálæti á gömlu fólki og hún var ekki undantekning. Þegar ég hugsa til þess, hvílíur ágangur fylgdi símaþjónustunni á Hnausum og hversu frábærlega hún var af hendi leyst, þykir mér það undarlegt, að síminn, þetta mikla fyrirtæki, skuli ekki hafa veitt þeim hjónum einhverja viðurkenningu fyrir sitt óeigin- gjarna starf. Símaafgreiðslan fór fram í litlum gangi, sem gekk inn úr bæjargöngunum. Skiptiborð og sími voru á baðstofuþilinu og á kistu þar fyrir framan sat sá, er símans gætti. Viðskiptamennirnir voru inni um allt. Þetta þætti víst ekki góður aðbúnaður í dag. Mér er Kristín minnisstæð fyrir margt annað en viðtökurnar í Hnausum. Hún var meðal stofn- enda Kvenfélags Sveinsstaða- hrepps og var formaður félagsins um langt árabil. Tók hún við formennsku af Steinunni Jósefs- dóttur á Hnjúki, þegar hún fluttist til Reykjavíkur, en Steinunn var fyrsti formaður félagsins. Þótt kvenfélagið okkar væri hvorki fjölmennt né auðugt, vann það gott starf. Konurnar í sveitinni kynntust, deildu saman geði og urðu betri vinir en orðið hefði, ef hver hefði húkt í sínu horni. Félagið reið á vaðið með að halda jólaskemmtanir bæði fyrir börn og gamla fólkið í sveitinni. Þá stóð það fyrir öðrum skemmtisamkom- um_innan sveitar. I fábreyttu sveitalífi þótti það ekki lítil tilbreyting, þegar kven- félagskonur tóku að sýna leikrit og sömdu þau jafnvel sjálfar. Þá æfðu þær söng. Alltaf verður mér minnisstætt eitt leikritið, heima- tilbúið, Kvöldvaka í sveit. Það var sýnt við mikinn fögnuð áhorfenda. Þegar tjaldið var dregið frá, sást baðstofa, þar sem fólkið svaf í rökkrinu, og hrutu sumir hressi- lega. En svo birtist húsfreyja í baðstofudyrum með ljós í hendi og sagði um leið: „Skárri er það nú rökkursvefninn". Við það vaknaði fólkið og tók til óspilltra málanna við tóvinnu. Húsbóndinn kom með bók og las söguna fallegu, Rauð- brystinginn, eftir Selmu Lagerlöf. Ljóð voru lesin, rímur kveðnar auk þess, sem fólkið í baðstofunni ræddi saman. Kristín lék húsfreyj- una og tókst vel. Þegar húsfreyja birtist eins og áður var minnzt á, heyrðist veik barnsrödd úr áhorf- endahópnum: „Nei, þarna er mamma." Ekki þótti þetta innskot spilla ánægjunni. Það var táknrænt fyrir Kristínu að vekja fólk til starfa, því hún hefur alltaf verið vökukona, sí- starfandi, létt og glöð í lund, á henni var ekkert dauðamók. Hún gekk vafningalaust að hverju starfi á bæ sínum og vildi láta verkin ganga. Allur amlóðaháttur var eitur í hennar beinum. Sveinbjörn, maður Kristínar, var alinn upp hjá föðurbróður sínum, Ingvari Þorsteinssyni í Sólheimum og Ingiríði Pálmadótt- ur konu hans. Þóttu þau hjón mestu mætismanneskjur. Svein- björn var góðum gáfum gæddur og gekk á Möðruvallaskóla eins og áður var nefnt. Þótti það merk fræðslustofnun og í þá daga gengu yfirleitt ekki aðrir í skóla, en þeir, sem áhuga höfðu og ræktu vel námið. Sveinbjörn var vammlaus maður, einlægni hans og háttprýði hans var við brugðið. Jafnframt var hann mikill starfsmaður og vann ötullega við bú sitt. Skrifari var hann frábær. Dáðist ég mjög oft að því, þegar vinnulúin hönd hans snerti á penna, hvernig skrif- færin léku í höndum hans. Hjónin í Hnausum eignuðust 6 börn, eitt misstu þau í bernsku, en 5 lifa, öll myndarfólk, og eru þau búsett í Reykjavík, nema Leifur, sem býr í Hnausum. Kona hans er Elna Thomsen frá Ólafsvík. Hin börnin eru Guðrún, gift Dýrmundi Ólafssyni varðstjóra, Jakob, starfsmaður við bifreiðaeftirlitið, kvæntur Ingu Þorsteinsdóttur, Jórunn gift Hafsteini Hjartarsyni lögregluþjóni og Svava, sem býr með móður sinni að Fellsmúla 2 og hefur reynzt henni með ágætum, en mjög kært hefur jafnan verið með þeim mæðgum. I Hnausum var ávallt tvíbýli, eftir að Kristín og Sveinbjörn hófu þar búskap. Þegar ég man fyrst eftir bjó á móti þeim Erlendur Erlendsson, sunnlenzkur að ætt og Sigurbjörg Þorsteinsdóttir frá Grund í Svínadal. Þau hjón áttu mörg börn, en tekið var til þess, hve gott sambýlið var. Segir það sína sögu. Á þessum merka afmælisdegi langar mig til að færa Kristínu beztu óskir og þakkir fyrir góða samfylgd á langri leið. Hún verður með börnum sínum í dag. Hulda Á. Stefánsdóttir. Níræður: Ólafur Bjarnason á Brimilsvöllum „Spyrjið bara Ólaf á Völlum,“ sagði mér góður Snæfellingur, að hefði verið orðtak á Nesinu, þegar eitthvað bjátaði á í hans ungdæmi. „Og hans orð voru lög,“ bætti hann við. Þannig er álit sveitunga Ólafs á honum, en þessi myndarlegi höld- ur fyllir nú níunda áratuginn. Þessi skoðun kemur reyndar engum á óvænt, sem talar við Ólaf, því enn í dag er hann óvenju skýr og greinagóður, stálminnugur og hefur yndi af að fjalla um liðna tíma. Nefnir hann þá gjarnan ártal og stað og skeikar ekki mörgum dögum, þótt rætt sé um atburði fyrir aldamót. Magnús Sigurðsson fv. oddviti í Miklaholti lýsir honum sem héraðshöfðingja, merkis- og úr- valsmanni og mjög vinsælum. Guðlaugur Jónsson fv. lögreglu- þjónn lýsir honum þannig, að hann hafi verið með allra myndarleg- ustu mönnum, vel skýrum og ljúfmenni í viðkynningu. Eins og títt er um Islendinga er Ólafur ekki ættlaus maður og með hjálp Sigurgeirs Þorgrímssonar, ættfræðings, skal nú skyggnst nokkuð þar um. Ólafur er fæddur á Hofi á Kjalarnesi, sonur hjónanna Vig- dísar Sigurðardóttur og Bjarna Sigurðssonar, bónda þar og síðar hreppstjóra á Brimilsvöllum í Fróðárhreppi. Þau hjón áttu þrjú börn: Ólaf, Guðrúnu, gifta Jóni Proppe, verslunarmanni, og Láru, gifta Jóni Gíslasyni, póstaf- greiðslumanni í Ólafsvík. „Bjarni var mikill dugnaðar- maður, myndarlegur á alla lund, stór og gjörvilegur, gerði út stórt skip og var sjómaður mikill," segir Magnús Sigurðsson. Sigurður faðir Bjarna var Ólafs- son og var óðalsbóndi í Þerney í Kollafirði. Var ætt hans öll af Mýrum, afkomendur þess fræga Kolbeins Jöklaskálds sem kvaðst á við sjálfan myrkrahöfðingjann, eins og Jón Helgason gerði frægt í Áföngum sínum. Kona Sigurðar og amma Ólafs var Guðrún Sigríður dóttir Þorsteins hreppstjóra og skálds Gíslasonar á Stokkahlöðum í Eyjafirði og konu hans Sigríðar Árnadóttur frá Vöglum. Af þeim er mikill ættbogi kominn og nægir að nefna dótturson þeirra, séra Valdimar Briem, sálmaskáld og vígslubiskup á Stóra-Núpi, og dótturdótturdótturson, Davíð Stefánsson, þjóðskáld frá Fagra- skógi. Þá sakar ekki að geta þess að afabróðir Þorsteins var séra Jón Kristinsson á Myrká en hann var sem kunnugt er langaiangafi Gríms Thomsens þjóðskálds. Móðir Ólafs var sem áður segir Vigdís Sigurðardóttir. Var hún dóttir hjónanna Agötu Guðmunds- dóttur og Sigurðar Ólafssonar frá Flekkudal í Kjós. Bjuggu þau á Sandi, föðurbýli hennar. Voru ættir hans af góðbændum Kjós- verja fram í aldir. Guðmundur á Sandi var meðal bestu bænda í Kjósinni. Hans kona var Kristín Guðmundsdóttir. Varð þeim tíu barna auðið og komust sjö til aldurs. Meðal afkomenda þeirra má nefna Loft ljósmyndara, Guðbjörgu konu Páls Kolka lækn- is, Guðríði móður Guðmundar Vignis hrl, Sigurbjörn í Vísi og Magnús prófast í Ólafsvík. Sem áður segir fæddist Ólafur á Hofi á Kjalarnesi, en fluttist ungur með foreldrum sínum að Brimilsvöllum. Hefur hann sagt mér margar sögur frá bernsku sinni á Kjalarnesinu. M.a. man hann vel eftir því þegar útlendir togarar voru að hreinsa upp hina gjöfulu fiskislóð í Faxaflóa og innfjörðum. Nærri má geta þvílík- ur vágestur það hefur verið lands- mönnum, sem þá treystu eingöngu á segl og árar í glímunni við Ægi konung. Hinn 11. júli 1915 giftist Ólafur Kristólínu Kristjánsdóttur frá Haukabrekku í Fróðárhreppi. Hófu þau brátt búskap á föðurleifð hans að Brimilsvöllum. Varð heimili þeirra hið mesta rausnar- heimili og þegar mest var í búskap og útgerð líktist það frekar kaup- túni en býli. Fjöldi barna var einnig alltaf hjá þeim í sveit, sem eiga hlýar minningar þaðan. Hlóðust nú trúnaðar- og for- ystustörf á Ólaf ásamt jjeirri miklu drift sem þarna var. Utgerð rak hann allt til ársins 1937, þegar hún fluttist til kauptúnanna Ólafsvíkur og Sands, sem þá voru í örum vexti. Ólafur var í hreppsnefnd sveitar sinnar í 36 ár og hreppstjóri frá 1924 —1965. Sýslunefndarmaður I varð hann 1922 og formaður sókn- arnefndar 1920. Umboðsmaður þjóðjarða í Arnarstapa og Skógar- strandarumboði frá 1926 til 1950. Formaður búnaðarfélags sveitar- innar frá stofnun þess 1927 og lengi fulltrúi á búnaðarsambands- fundum. Margar sögur hefur Ólafur sagt mér frá þessum tíma og margs hefur þurft við. Ferðir til Reykja- víkur til innkaupa og í embættis- erindum voru margar og var þá farin sjóleiðin. Einnig þurfti reglulega að fara yfir umboðs- svæðið á Snæfellsnesi og komu þá gæðingar í góðar þarfir. Dylst engum, sem sér Ólaf umgangast hross, að þar fer kunnáttumaður og ekki bregst honum gæðings- matið með augsýn einni saman. Með þeim hjónum Ólafi og Kristólínu var jafnræði, en faðir hennar Kristján á Haukabrekku var Þorsteinsson frá Skriðukoti í Haukadal. Kona Þorsteins var Sigurlín Þórðardóttir bónda í Bár, Einarssonar. Kristólína hafði numið í Kvennaskólanum í Reykjavík og verið á kennaranámskeiði. Kenndi hún bæði í Snæfells- og Hnappa- dalssýslu og einnig í Dalasýslu einn vetur. Formaður skólanefnd- ar sveitar sinnar var hún árin 1946 — 1956. Hún lést 29.nóv. 1960. Skömmu síðar brá Ólafur búi og fluttist til Reykjavíkur. Kristólínu og Ólafi varð sjö barna auðið. Sigurður, lyfsali í Reykjavíkurapóteki, kvæntur Þor- björgu Jónsdóttur. Rögnvaldur, frystihússtjóri á Hellissandi, kvæntur Jónu Ágústsdóttur. Hrefna, hún lést um fermingu. Björg, húsfrú í Reykjavík, gift Sigurjóni Sigurðssyni útibús- stjóra. Bjarni, stöðvarstjóri í Ólafsvík, kvæntur Mörtu Kristjánsdóttur. Kristján, hann lést um tvítugt og Hlíf, húsfrú í Reykjavík gift Magnúsi Hall- grímssyni, verkfræðingi. Snæfellsnesið er yndislegt hér- að. Þar brýna himinhá fjöll tind- um yfir sveitablóma og gjöfulli fiskislóð. Einn stendur vörð, Jökullinn, hærugrár, heitur við hjartað og þjóð mænir til höfð- ingjans. Hingað hafa þúsundir leitað og fundið björg. Á þessum hátíðisdegi lífs síns leggur Ólafur vafalaust hugann til vesturs. Fer á kostum um Kjalar- nesið og Borgarfjörð á gamlar slóðir. Hann heyrir „álengdar hófadyninn" og hvar „gjálpinn á snúðinni hamast". Bóndinn, útvegsmaðurinn, hreppstjórinn og konungsmaðurinn getur verið ánægður. Þjóðinni vegnar vel og þá veit ég að hann er ánægður. Guðlaugur Tryggvi Karlsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.