Morgunblaðið - 24.04.1979, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 24.04.1979, Blaðsíða 24
24 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDÁGUR 24. APRÍL 1979 Sjötugur - Dr. Finn ur Guðmundsson Einn kunnasti og færasti vís- indamaður þessa lands, dr. Finnur Guðmundsson fuglafræðingur, varð sjötugur á súnnudag. Eftir að Finnur lauk doktorsprófi frá há- skólanum í Hamborg árið 1937 starfaði hann í fyrstu sem sér- fræðingur á Fiskideild Atvinnu- deildar Háskólans (síðar Hafrann- sóknastofnun), en á árinu 1947 var hann ráðinn deildarstjóri Dýra- fræðideildar Náttúrugripasafnsins (síðar Náttúrufræðistofnunár), og á þeirri stofnun starfaði hann síðan, lengi sem forstöðumaður, uns hann lét af störfum fyrir aldurs sakir fyrir rúmu ári. Afrek Finns á sviði náttúru- fræðirannsókna og náttúruvernd- armála og við uppbyggingu nátt- úrugripasafnsins eru mörg og mikil, en ekki skal reynt að tíunda þau hér. Frá upphafi hefur Finnur lagt sérstaka rækt við að safna grunngögnum um náttúru Islands og þá sérstaklega um fuglalíf landsins. Hefur hann unnið hér mikið og óeigingjarnt starf og plægt akurinn fyrir þá sem á eftir koma. Mun seint fullunnið úr þeim dýrmætu gögnum, sem Finnur hefur aflað. Það sem Finnur hefur látið frá sér fara á prenti um rannsóknir sínar er unnið af fá- dæma natni og vandvirkni. Hróður Finns sem vísindamanns hefur flogið víða, og munu fáir íslenskir vísindamenn jafnþekktir meðal starfsbræðra sinna út um heim, enda hefur honum verið sýndur margvíslegur sómi erlendis. Alla tíð hefur Finnur verið óþreytandi við að aðstoða aðra og hvetja til dáða, jafnt unglinga sem fullorðna, innlenda sem erlenda. Fyrstu kynni mín af Finni urðu fyrir um 30 árum er ég á ferming- araldri leitaði til hans um ein- hverjar upplýsingar um fugla, en á þeim árum hafði vaknað hjá mér talsverður fuglaáhugi. Heimsóknir mínar og félaga míns, Arnþórs Garðarssonar, til Finns urðu síðan tíðar. Gjarnan litum við til hans á vinnustofu hans í Þjóðminjasafns- byggingunni eftir fuglaskoðunar- ferðir um helgar, en Finnur gerði engan greinarmun á dögum og vann á safninu jafnt um helgar sem aðra daga. Alltaf var okkur vel tekið, alltaf hafði Finnur tima til þess að ræða við okkur um þá fugla, sem við höfðum séð, og fræða okkur og leiðbeina og opna okkur nýja heima. A þeim árum var það manni sem ævintýri að fá að fara í fuglaskoðunarferð með Finni. Fyrir þetta allt saman stöndum við í ómetanlegri þakkar- skuld við Finn. Finnur hefur síðan alið upp marga aðra „fuglastráka" og búið þá ýmsa undir háskólanám í náttúrufræðum, og hygg ég að þeir hafi sömu sögu að segja og við Arnþór. Engum manni hef ég kynnst sem er jafnlagið og Finni að tendra. áhuga hjá öðrum á hugðarefnum sínum. Síðar hefur það verið mér mikill styrkur, að ræða þau fræðilegu viðfangsefni, sem ég vann að, við Finn, og víst er að hið yfirgrips- mikla þekking Finns á náttúru Islands ásamt fræðilegri skarp- skyggni hefur gert fleirum en mér tíðförult til hans. Eg vil svo ljúka þessari stuttu afmæliskveðju með því að færa Finni mínar hjartanlegustu þakkir fyrir gömul og góð kynni, um leið og ég óska honum þreks í barátt- unni við þá erfiðu sjúkdóma, sem hann nú á í stríði við. Agnar Ingólfsson. Sjötugur varð sunnudaginn 22. apríl sl. dr. Finnur Guðmundson, fyrrum deildarstjóri dýrafræði- deildar Náttúrufræðistofnunar Is- lands og forstöðumaður stofnun- arinnar um árabil. Finnur Guðmundsson er fyrir löngu orð- inn þjóðkunnur maður fyrir rann- sóknir sínar á íslenskri náttúru, einkum fuglalífi, og fyrir störf sín að náttúruvernd. Rannsóknir Finns á íslenskum fuglum og störf hans að fuglavernd hafa fyrir löngu aflað honum álits meðal náttúrufræðinga um víða veröld. Störf Finns Guðmundsonar í þágu íslenskra náttúrurannsókna spanna næstum hálfa öld. Oft á tíðum hafa þetta verið brautryðj- endastörf, sem markað hafa var- anleg spor í þróun fræðanna hér á landi, þótt mörg þeirra séu minna kunn meðal aljóðar en æskilegt er. í stuttu máli má draga framlag Finns saman í eftirfarandi atriði, sem að mínu áliti vega þyngst: Hann kom fótunum undir innlend- ar rannsóknir á dýralífi landsins með því að efla vísindaleg söfn Náttúrugripasafnsins (nú Nátt- úrufræðistofnunar íslands), og flytja þannig miðstöð þessara rannsókna frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur. Með gagnasöfnun sinni og með því að samræma störf áhugamanna og annarra hefur Finnur rutt veginn fyrir nútíma- legar rannsóknir í íslenskri fugla- fræði. Jafnframt hefur skapandi vísindamennska hans orðið undan- fari á sviði vistfræðirannsókna hérlendis. Loks hefur Finnur um árabil unnið heilshugar og ótrauður að vernd íslenskrar nátt- úru, og ekki síst að því að koma í veg fyrir eyðileggingu þeirra svæða sem þar bera af á heims- mælikvarða, perlanna tveggja, Mývatns og Þjórsárvera. Finnur Guðmundsson er á margan hátt sérstæðari og litrík- ari persónuleiki en títt er um náttúrufræðinga. Þegar horft er til baka munu margir minnast þess hversu aðsópsmikill hann gat verið og ósmeykur við að breyta eftir eigin sannfæringu og halda fram skoðunum sínum á opinber- um vettvangi, hvort sem þær fóru saman við álit almennings og þjóðmálaskúma eða ekki. Segja má að vísindastörf og safnstörf Finns hafi verið unnin þrátt fyrir langvarandi stefnuleysi og aum- ingjaskap innlendra stjórnvalda í þessum efnum, að maður tali nú ekki um beina andstöðu. Finnur hefur og lagt mikið af mörkum við að halda í skefjum ýmis konar hjáfræði, sem alltaf gýs upp öðru hverju hér í fámenninu, ekki síst þegar um er að ræða skynsamlega nýtingu og vernd fuglastofna. Finnur Guðmundsson er fæddur að Kjörseyri í Hrútafirði 22. apríl 1909. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur G. Bárðarsson nátt- úrufræðingur og Helga Finnsdótt- ir. Náttúrufræði er því Finni í blóð borin, og hann átti því láni að fagna að njóta fræðslu föður síns og kynnast vísindalegum vinnu- brögðum þegar í bernsku. Eftir stúdentspróf 1929 hélt Finnur utan til náms í Þýskalandi, þar sem hann nam dýrafræði, grasa- fræði og jarðfræði við háskólann í Hamborg. Lauk hann doktorsprófi (dr. rer. nat). þaðan árið 1937 og fjallaði doktorsritgerð hans um sjávarsvif við Island. Mun hann þar hafa tekið mið af líklegum atvinnuhorfum þegar heim kæmi. Á námsárum sínum var Finnur þó þegar byrjaður að leggja stund á kerfisbundnar rannsóknir á ís- lenskum fuglum. Hann tók þátt í undirbúningi að fuglamerkingum Náttúrugripasafnsins sem hófust 1932. Að vísu höfðu fuglamerking- ar verið stundaðar hér frá 1921 á vegum danans P. Skovgaard í Viborg, er hélt áfram þeirri starf- semi í allmörg ár eftir að innlend- ar merkingar fóru af stað, en starfsemin er þess eðlis að hún verður tæplega rekin til langframa öðru vísi en af innlendri og rót- fastri stofnun. Sumarið 1931 dvaldist Finnur við rannsóknir á æðarvarpi í Hrútafirði og birti síðan um þessar rannsóknir merka ritgerð, og hefur reyndar ritað síðar undirstöðugrein um æðar- varp og dúntekju á Islandi. Eftir að Finnur kom heim frá námi, réðst hann fyrst sem sér- fræðingur við Fiskideild Atvinnu- deildar Háskólans (nú Hafrann- sóknastofnun) og vann þar við rannsóknir í 10 ár. Á þessum árum vann hann m.a. að vatnalíffræði- legum rannsóknum, þar á meðal á vatnasviði Ölfusár og Blöndu. Merkasta rannsókn Finns á þessu tímabili var þó án efa allsherjar könnun á Mývatni 1939 og 1941. Þessi rannsókn var um margt langt á undan sínum tíma og niðurstöðurnar voru ekki birtar. Hins vegar komu þær að miklu gagni á síðustu árum þegar um- fangsmiklar rannsóknir margra sérfræðinga á Mývatni hófust, og nú þessa dagana er verið að prenta viðamikla ritgerð eftir Finn um stofnbreytingar mývetnskra anda á fyrri helmingi þessarar aldar. Jafnhliða störfum sínum við Fiskideild vann Finnur Guðmund- son við Náttúrugripasafn Hins íslenska náttúrufræðifélags eftir að Bjarni Sæmundsson féll frá 1940. Tók Finnur nú aftur að starfa að skipulagningu fugla- merkinga, en fyrstu árin hafði Magnús Björnsson haft umsjón með merkingunum. Þegar Finnur byrjaði að vinna við safnið var það lítið nema safnið. Sýningasalur var að vísu þokkalegur, en vísinda- leg söfn voru bæði lítil að vöxtum og í óhirðu, fuglahamir mölétnir og spritt gufað úr glösum. Finnur var fyrst um sinn eini starfsmaður safnsins og má nærri geta að í mörg horn var að líta, fyrst við að bjarga því sem heillegt var, síðan við að endurskipuleggja og leggja drög að frekari starfsemi safnsins. I ársbyrjun 1947 afhenti náttúru- fræðifélagið ríkinu safnið til eign- ar og umráða og varð Finnur Guðmundsson þá deildarstjóri dýrafræðideildar þess og gegndi því starfi uns hann lét af því sakir aldurs árið 1977. Á þessum árum tókst Finni að breyta fuglasafni Náttúrufræðistofnunar úr nánast engu í nútímasafn og miðstöð rannsókna í íslenskri fuglafræði. Störf hans við gagnasöfnun hafa verið fádæma mikil og naut hann þar góðs samstarfs við áhugamenn um land allt. Hann var jafnan óþreytandi við að afla og miðla upptýsingum og kom á fót ýmsum verkefnum sem áhugamenn gátu tekið þátt í. Sömuleiðis hefur Finnur haft mikil áhrif á hin margvíslegustu rannsóknarverk- efni sem innlendir vísindamenn og erlendir hafa unnið að hér á landi á síðustu 30 árum. Má segja að flest stærri verkefni sem unnin hafa verið í íslenskri dýrafræði á þessu tímabili hafi verið á ein- hvern hátt tengd Finni Guðmundssyni og oftar en ekki beinlínis átt sér upphaf í Finni. Finnur Guðmundsson hefur jafnan haldið miklu sambandi við erlenda vísindamenn, bæði með bréfaskriftum og vegna persónu- legra kynna. I þessum samböndum er hann ekki síður veitandi en þiggjandi. En hann hefur ekki látið þar við sitja að ráðleggja heimsþekktum snillingum og vís- indamönnum eins og t.d. Julian Huxley, Peter Scott og Jean Baer. Hann hefur verið alveg jafnóspar á kennslustundir fyrir nýfermda stráklinga. Mér er einkum minnis- stæð þolinmæði og örlæti Finns á tíma sinn við að miðla af þekkingu sinni og veita aðgang að vísinda- legum söfnum og ritakosti stofn- unarinnar. Skrifstofa Finns Guðmundssonar varð akademía þar sem ungir menn voru þjálfaðir í agaðri vísindalegri hugsun og forvitni, umfram allt forvitni. Þar varð upphafið að flestum þeim rannsóknum sem nú er unnið að hérlendis á sviði fuglafræði, vist- fræði og þróunarfræði. Á fyrri hluta starfstímabils síns við safnið vann Finnur Guðmundsson ötullega að því að byggja upp starfsemi dýrafræði- deildarinnar og leggja grundvöll- inn að staðgóðri starfsemi deildar- innar í framtíðinni. Þó gafst hon- um einnig nokkur tími til ritstarfa og gaf m.a. út tvær sígildar rit- gerðir, aðra um breytingar á fuglalífi hér á landi m.t.t. lofts- lagsbreytinga og hina um stofn- sveiflur rjúpunnar, auk margra ritsmíða sem beinlínis tengdust aðalstörfum hans við safnið. Áhugi Finns á vistfræði varð þó um síðir til þess að hann hóf viðamiklar rannsóknir á orsökum stofnbreytinga hjá íslensku rjúp- unni árið 1963. Hér er um að ræða langtíma sveiflur sem ekki er hægt að skýra til fullnustu nema með rannsóknum sem taka mjög lang- an tíma (áratugi). Finnur stundaði þessar rannsóknir í alls 15 ár, en vaxandi annir og hrakandi heilsa gerðu honum stöðugt erfiðara fyrir. Er það von mín og margra annarra að Finni megi enn auðn- ast að ljúka úrvinnslu þeirra gagna sem hann hefur safnað um stofnþætti rjúpunnar, en þar er mikið verk fyrir dyrum. Að lokum vil ég fara fáeinum orðum um störf Finns Guðmund- sonar í þágu náttúruverndar. Fyrir nokkru fór fram á Eskifirði Austurlandsmót í skólaskák og tóku sigurvegarar í Suður- og Norð- ur-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu þátt í úr- slitakeppninni. Keppt var í tveimur flokkum. Sigur- vegari 1,—6. bekkjar varð Þorvaldur Logason frá Neskaupstað, annar varð-Bjarki Unnarsson Eskifirði og þriðja Halldóra Ingibergsdóttir, Hornafirði. I eldri flokki, 7.-9. bekk, sigraði Kristinn Bjarnason frá Valþjófsstað, nemandi á Eiðum, annar varð Guðjón Antoníusson frá Vopnafirði og þriðji Jón A. Kjartans- son, Borgarfirði eystra. Þátttakendur sjást á með- fylgjandi mynd Vilbergs Guðnasonar. Finnur átti sæti í Náttúruverndar- ráði frá stofnun þess 1956 þar til 1975 er hann dró sig í hlé frá þessu erilsama starfi. Framlag hans til íslenskra náttúruverndarmála er ótrúlega mikið. Ber þar hæst afskipti hans af Laxárdeilunni, sem lyktaði eins og kunnugt er með lagasetningu um vernd Mývatns og Laxár 1974. Að öðrum ólöstuðum, hygg ég að þekking og sannfæringarkraftur Finns og eld- móður Hermóðs heitins Guðmundssonar hafi þar ráðið ferðinni og forðað þannig þessu einstæða vatnakerfi frá frekari skemmdum af mannavöldum. Finnur var jafnframt aðalhvata- maður að ítarlegri rannsókn Mývatns 1971—74 og lagði drög að stofnun Rannsóknastöðvar við Mývatn sem hóf störf í framhaldi af rannsóknunum 1971—74 og ætlað er að tryggja vísindalega undirstöðu ' verndaraðgerða á svæðinu. Á sömu árum og mest gekk á út af Mývatni og Laxá barðist Finnur ótrauður fyrir verndun Þjórsvera við Hofsjökul, gegn einhliða og að mörgu leyti hæpnum peningasjónarmiðum studdum ötulli áróðursvél. Það mál er ekki unnið ennþá, en þegar það vinnst, verður það ekki síst Finni Guðmumdssyni að þakka. Arnþór Garðarsson Dr. Finnur Guðmundsson, dýra- fræðingur, átti sjötugsafmæli hinn 22. apríl sl. Finnur er löngu þjóðkunnur maður fyrir störf sín að rannsóknum á náttúru Islandi. Hann er og einn helsti brautryðj- andi náttúruverndar á íslandi. Stóð hann m.a. í fylkingarbrjósti náttúruverndarmanna í Laxárdeil- unni svonefndu, þegar náttúru- verndarmál urðu í fyrsta sinn í brennipunkti þjóðmálaumræðu á íslandi. En störf hans á þessum sviðum verða væntanlega tíunduð af öðrum og því óþarfi a- endur- taka það hér. Finnur er óvenju glæsilegur maður að vallarsýn með stór- brotna skaphöfn, alltaf óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljósi umbúðalaust. Samskipti hans við menn og „kerfið" hafa því ekki alltaf gengið árekstralaust og hressandi hvassviðri oft verið í kringum persónu hans. Önnur hlið á Finni, sem færri vita um, er einstök lagni hans og natni við að glæða áhuga ungra manna sem til hans hafa leitað með áhugamál sín varðandi náttúrufræði og náttúru- skoðun. Ég tel það vera eitt mesta gæfuspor ævi minnar að hafa kynnst Finni og notið handleiðslu hans um árabil. Kynni okkar urðu fyrst á þann veg að í 4. bekk í menntaskóla slóst ég í hóp tveggja skólafélaga sem höfðu fuglaskoðun að áhugamáli en það þótti þá mjög óvenjulegt. Það var með nokkrum kvíða og óttablandinni virðingu sem ég fyrst hélt á fund Finns í fylgd með þeim félögum, en sá ótti reyndist með öllu ástæðulaus. Finnur var alltaf reiðubúinn til þess að ræða við okkur „fuglastrákana" um sameiginleg áhugamál og alla fuglastráka síðan, á meðan hann gegndi starfi sínu við dýrafræði- deild Náttúrugripasafns Islands og síðar Náttúrufræðistofnunar. Þær urðu margar stundirnar sem hann ræddi við okkur á skrifstofu sinni eða fór með okkur í geymslur safnsins og sýndi okkur egg og fuglahami. Margar ógleymanlegar stundir hef ég líka átt á ferðalög- um með Finni, hvort heldur var á hriplekum báti á Hrútafirði um miðjan vetur, að vorlagi á heiðun- um beggja vegna Hrútafjarðar, uppi í Þjórsárverum eða austur í Skaftafellssýslum. Ferðalögin með Finni þóttu mér alltaf sem ævin- týri líkust, enda er Finnur óvenju skemmtilegur ferðafélagi. Um leið og ég þakka fyrir margar skemmtilegar og fræðandi stundir á safninu og á ferðalögum, óska ég honum þreks og heilsu til þess að vinna að hugðarefnum enn um nokkra framtíð, nú þegar hann er búinn að koma á kné þeim for- sendingum sem Elli kerling hefur sent honum á undanförnum árum. Lifðu heill. Jón Baldur Sigurðsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.