Morgunblaðið - 18.03.1980, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 18. MARZ 1980
15
— Þarna rignir 2—4 sinnum á
ári. Þá er hann á norðan, annars
alltaf ferskur sunnan vindur frá
pólnum. Eftir einn slíkan norðan-
vind, fórum við tveir út. Urðum að
flytja bátinn til á bíl til að komast
út, því aldan var svo mikil. Þá
lentum við á torfu. Annar dró og
hinn tók við fiskinum og rotaði.
Fengum 72 stóra fiska á hringn-
um, en þá var báturinn svo
hlaðinn að sjór gekk inn. Það fóru
miklar sögur af þessu. Af 200
bátum vorum við einir úti og þótti
mikið þrekvirki. Það gaf líka
miklar tekjur. Það komu blaða-
menn frá Valpariso til að fá að
fara með mér út. En þeir voru svo
sjóveikir, að þeir urðu að biðja
okkur um að setja túnfiskinn
aftur í sjóinn, þegar nær dró
landi, svo að þeir gætu tekið
myndir af okkur að draga hann.
— Ég var með vél á bátnum,
eiginlega sá fyrsti með utan-
borðsmótor þar á staðnum.
Sænski ræðismaðurinn var með
Archimedes vélaumboð og ég seldi
einar 14 vélar í Valpariso, svo ég
hefi líklega haft áhrif á véivæð-
inguna á staðnum, bætir Einar
við.
Þáhéldu
engin bönd
En hvers vegna yfirgaf hann
þennan ágæta stað? — J-a, ég var
í félagi við norskan fiskifræðing.
Við vorum að hugsa um lýsis-
framleiðslu úr verðfiskhausum.
Ég var raunar um skeið í borg í
Norður Chile og bræddi lýsi úr
sverðfiskhausum. En það varð
ekkert úr þeim verksmiðjurekstri.
Hráefnið var víst ekki nógu gott,
en það var notað sem saumavéla-
olía. Þetta fór semsagt út um
þúfur.
— 1939 skall stríðið á og þegar
ég kom til Valpariso 1941 voru öll
blöð full af frásögnum af því að
Bretar hefðu tekið ísland. Dag
eftir dag voru af því frásagnir. Og
þar leit út fyrir að ísland lenti í
stríðinu, hér yrði barist. Þá héldu
mér engin bönd. Ég varð að fara
heim. Það var hægara sagt en
gert, því ég varð að fara um
Bandaríkin, en sem Evrópumaður
átti ég ekki að fá að fara þar í
gegn. Þá komu Thorsbræður enn
einu sinni til sögunnar. Thor
Thors var aðalræðismaður í New
York. Ég skrifaði honum og eftir
nokkra daga var ég kallaður til
bandaríska ræðismannsins. Þar
var skeyti, undirritað af Cordell
Hull, utanríkisráðherra Banda-
ríkjanna, sem sagði: Þar sem
ísland tilheyrir nú hinum vest-
ræna heimi, þá getur Einar Eg-
ilsson ferðast fyrirstöðulaust
gegnum Bandaríkin." Roosevelt
hafði þá víst haldið einhverja
ræðu í Boston og sagt að íslend-
ingar tilheyrðu vesturhveli jarðar.
Þar með lagði Einar af stað til
Bandaríkjanna á 26 þúsund tonna
farþegaskipi. — Þetta var ákaf-
lega skemmtileg sigling, segir
hann. Við fórum um Panama-
skurð. Walt Disney var á skipinu
og seinna sá ég kvikmynd, sem
hann hafði verið að gera í And-
esfjöllum. Þegar við sigldum inn í
höfnina í New York eftir 18 daga
siglingu, varð mér litið niður á
sjóinn og kom auga á lítinn dall
með Eimskipafélagsmerkinu.
Þarna var Lagarfoss að koma frá
íslandi. Þótt ég vissi það ekki, þá
var konan mín tilvonandi um
borð. Hún var að koma frá íslandi
og ég frá Chile og þarna vorum við
bæði á sömu stundu á leið inn í
höfnina í New York. Daginn eftir,
sem var laugardagur, hittumst við
af tilviljum á ræðismannsskrif-
stofunni íslenzku og Agnar Kl.
Jónsson, bauð okkur báðum út í
hádegisverð. Síðan hefur Agnar
sagt í gamni að þetta hjónaband
okkar Margrétar sé hans verk. En
hvað um það, það var góð byrjun.
Einar hélt nú heim til Islands,
en Margrét var í tvö ár í Banda-
ríkjunum. — Thor eggjaði mig á
að gerast starfsmaður hjá George
A. Fuller og Merritt Chapman
Scott, sem voru verktakar hér á
Keflavíkurflugvelli og í Hvalfirði,
útskýrir Einar. Hjá þeim var
ekkert annað starf laust en sem
bryggjusmiður og ákveðið að ég
byrjaði á því. Ég fór til þeirra út í
herskipalægið Quonset Point á
Road Island og þurfti þar að taka
próf til að fá starfið. Prófið var í
því fólgið að hnýta pelastikk
(sjómannahnút) og það kunni ég
eftir að hafa verið á togara, og
reka fjögurra tommu nagla, sem
ég kunni líka. Svo ég var ráðinn
fyrir 82 dollara laun á viku og
komst strax á launaskrá. Þarna
var ég í 3 vikur og var síðan
sendur með Goðafossi til íslands.
Við vorum 29 daga á leiðinni í
skipalest. Þetta var besta ferða-
lag, sem ég hefi farið í. Við
fengum útborgað þrisvar sinnum
á leiðinni. Hér heima var ég hjá
þessum verktökum í 8 mánuði en
starfaði að mestu leyti sem verk-
stjóri og túlkur. Þá tók herinn við
framkvæmdunum og þeir hættu.
Á logandi
farþegaskipi
Ekki sat Einar þó um kyrrt. —
Ég átti farið mitt til Bandaríkj-
anna inni hjá þeim, útskýrir hann,
og við fórum með ensku skipi til
Skotlands, þar sem skipt var yfir í
annað skip, Wakefield, eitt
stærsta farþegaskip Bandaríkja-
manna. Á því voru 800 farþegar,
en margir þeirra höfðu komist af
þegar skipi þeirra var sökkt í
skipalest í Miðjarðarhafinu og
voru illa farnir. Nú vorum við í
skipalest og 11 herskip í kringum
okkur til varnar, að mig minnir.
En á leiðinni kom upp eldur í
skipinu.
— Ég var staddur fram á. Var á
skyrtunni með 25 cent í vasanum
og einn vasaklút. Okkur var sagt
að reyna að komast aftur á um
gang einn, en logarnir komu þar á
móti okkur. Ég man að það kom
maður hlaupandi þar í gegn kol-
svartur og skinnið flagnaði af
honum í flekkjum. Skotfærin voru
undir framdekkinu og sjóliðarnir
byrjuðu að varpa skotfærunum
fyrir borð. Þeir voru hræddastir
um að skipið mundi springa í loft
upp. Aftur á var miklu fleira fólk.
Skipið var alelda. Við komumst
um borð í tundurspilli og með
honum til New York. Seinna sá ég
kvikmynd, sem einhver hafði tekið
um borð. En allt var þetta þá
mikið hernaðarleyndarmál. Ég
frétti að skipstjórinn hefði neitað
að láta sprengja skipið i loft upp
og að það hefði brunnið í tvo
sólarhringa. Þá var allt brunnið,
sem brunnið gat, og það var dregið
inn til Halifax og notað sem
kolageymsla.
— Hvað ég gerði í NY? Ég fór
að gera það sem ég hafði ætlað
mér, stunda innflutning til ís-
lands og verzlunarviðskipti. Hitti
fljótt Sigmund heitinn Jóhanns-
son og við slógum okkur saman og
gerðum það gott. Ég var úti við
innkaupin í eitt ár. Þar hittumst
við Margrét aftur. 1943 fór ég
heim og eftir að Margrét kom 1944
giftum við okkur.
Innleiddi
Canada Dry
í fyrstu var Einar sjálfstæður
atvinnurekandi á íslandi eða til
1947, er hann gerðist skrifstofu-
stjóri hjá Ölgerð Egils Skalla-
grímssonar. Kom þangað með
patentið af Canada Dry upp á
vasann.
— Það olli svo enn einum
straumhvörfum í lífi mínu árið
1950, heldur Einar áfram. Af því
að ég hafði verið í Suður-Ameríku
og þekkti framleiðslu Canada Dry
var mér boðið að taka við rekstri
Canada Dry verksmiðjanna í Mex-
ico, sem voru í Aquas-Calentis.
Við fórum og vorum þar í hálft
fjórða ár. Þá áttum við orðið 3
börn. Einn sonur fæddist í Mexico
og fimmta barnið eftir að við
komum aftur heim. Þetta eru allt
mannvænleg börn sem við erum
stolt af og okkur til mikillar
ánægju.
— Jú, við kunnum vel við okkur
í Mexico. Umdæmi mitt var stórt
og ég þurfti mikið að ferðast um.
En nú var skólaganga barnanna
hafin og við ákváðum að fara heim
til Íslands, og koma svo kannski
aftur í heimsókn eftir 5—10 ár, en
ekki hefur orðið úr því ennþá.
Síðustu 13 árin, síðan 1967 hefi ég
starfað hjá Rafmagnsveitum
ríkisins þar af 2 síðastliðin ár sem
Innkaupastjóri stofnunarinnar og
fer að líða að því að maður setjist
í helgan stein.
Þetta var í mjög stuttu máli
lífshlaup Einars Egilssonar, býsna
viðburðarríkt og hann hefði ekki
viljað hafa það neitt öðru vísi.
- E.Pá.
Haukur Eggertsson:
Bjórinn
og Davíð
Það risu hátt öldurnar út af
bjórhiálinu, þegar Davíð Sch.
Thorsteinsson keypti kassann á
Keflavíkurflugvelli á dögunum.
Það var eins og öll þjóðin yrði
„rasandi". Sumir fögnuðu, aðrir
fordæmdu, en flestir hafa senni-
lega látið sig málið litlu skiþta,
þótt þeir fylgdust með framvindu
þess. Það lá við, að hin óvenjulega
staða á stjórnmálasviðinu hyrfi í
skuggann af bjórnum. Bjór hefur
ávallt verið vinsælt umræðuefni
hafi hann á annað borð komizt á
dagskrá.
Nú eru tveir mánuðir liðnir
síðan upphlaupið varð og öldurnar
því að lægja. Hins vegar er ekki að
öllu séð fyrir endann á máli þessu,
þar sem sýnilegt er, að ekki verður
lengur hægt að láta eina eða tvær
„forréttindastéttir" sitja að bjórn-
um. Eitt og hið sama hlýtur hér
eftir að ganga yfir alla, sem á
annað borð hafa aðstöðu til að
njóta.
En efni greinar þessarar er ekki
að taka afstöðu með eða á móti
bjór, heldur að reifa lítilsháttar
þær umræður, sem orðið hafa á
opinberum vettvangi, sérstaklega
í blöðum. Ég hef undir* höndum 40
greinar og styttri athugasemdir
um málið, frá einstaklingum og
félögum. Flestar eru þær málefna-
legar, með eða á móti, en nokkrar
hafa farið verulega út fyrir þau
mörk. Við sumar þeirra vil ég gera
athugasemdir.
Tveir ágætismenn, Páll V. Dan-
íelsson og Árni Helgason í Stykk-
ishólmi, miklir bindindismenn og
andstæðingar bjórsins, skrifa
greinar í Morgunblaðið, Páll 2.
febrúar sl. en Árni 9. s.m. Báðum
verður þeim það á að fara út fyrir
efni málsins með svigurmælum í
garð Davíðs fyrir það, að hann
hafði það meira framtak og áræði
en við hin að krefjast þess, að það
sama skyldi ganga yfir alla, sem
um tollhlið flugvallarins færu. Ég
fullyrði það, að fyrir honum vakti
ekkert annað en að vekja athygli á
því vansæmandi ástandi, sem
þarna ríkti. Hann tók þá áhættu
að fá á sig dóm fyrir svokallaða
tilraun til tollsvika en sá dómur
hefði þó aðeins orðið dómstólanna
en ekki meginhluta þjóðarinnar.
Hvort menn hafi efni á því að fara
oftar til útlanda en aðrir eða þurfi
þess annarra starfa vegna, kemur
málinu ekki við. Það eru ekki
orðin nein forréttindi að fara til
útlanda. Páll segir: „Jafnréttis-
mál“ Davíðs Scheving ætla ég ekki
að ræða. Að sá eigi réttinn, sem er
svo efnaður að hann geti farið
nokkrar ferðir á ári hverju til
útlanda til að geta keypt í Frí-
höfninni áfengan bjór, er ekki
jafnrétti að mínu geði og ekki er
það svo vel, að þeir sem ekki hafa
efni á að fara til útlanda hafi það
mikinn rétt, að þeir geti skroppið
til Davíðs og fengið kassa af
Tropicana á heildsöluverði." Árni
segir: „Eitt veldur mér heilabrot-
um. Hvaða sérþekkingu hefur ald-
insafabyrlarinn á áfengismálum?"
Þetta sæmir ekki góðum bindind-
ismönnum. Halldór Kristjánsson
frá Kirkjubóli segir hins vegar:
„Það er gott að Davíð hefur komið
hreyfingu á þetta mál.“ (Tíminn
23. jan. sl.). Þannig eiga bindind-
ismenn að tala.
Þá kemur fram á ritvöllinn
maður að nafni Skúli Einarsson,
Morgunbl. 9. febrúar. Hlýtur að
vera sjómaður, en tæplega er hægt
að segja, að hann sé hógvær í
málflutningi. Grein hans ber yfir-
skriftina „öfund á öfund ofan“.
Hún hefst svona: „Nú er öfund
kerling heldur betur farin að spila
í stóriðnrekandanum Davíð
Scheving Thorsteinssyni, þegar
þessi stórgrósser er farinn að
ólátast út í að þjóðfélagsþegnum
sé mismunað. Jú, þeim er sko
mismunað, því ég geri ráð fyrir að
Davíð fái nógan gjaldeyri til að
spila með á sínum ferðalögum og í
sínu braski." Svo litlu síðar virðist
hugurinn snúast að eigin málum.
Án beins samhengis við fyrra efni
kemur „... svo koma tollverðir og
ganga allt að því berserksgang oft
á tíðum í leit að smygli en
afraksturinn verður oft á tíðum
lítill og mikið starf unnið fyrir
gýg“. Síðar: „Því ekki að búa svo
vel að sjómönnum að þeir þurfi
ekki að drýgja tekjur sínar með að
kaupa nauðsynjar. Tel 3—4 kg af
smjöri og svipað af kjöti aðeins til
heimilisnota en allt er bannað, svo
er talað um hlunnindi, já ekkert er
of gott fyrir blessaða sjómennina
okkar eins og kerling sagði ...“
Mér er spurn, eru þetta skrif um
bjórmálið?
En mál þetta vekur upp fleiri
spurningar. Hefur fólk almennt
gert sér grein fyrir, hvort sala á
bjór yrði mesta áfengisbölið? Það
gæti verið, að minna væri bruggað
í heimahúsum, ef bjórinn væri
fáanlegur. Ég fullyrði það, að
bruggun er víða orðin stór-vanda-
mál hjá mörgum fjölskyldum.
Bruggun býður alltaf heim meiri
drykkjuskap. Hvernig var ástand-
ið orðið á bannárunum? „Jafnrétt-
ið“. Dettur nokkrum lifandi
manni í hug, að það sé hægt að
tryggja öllum sama rétt í öllu. Það
er óraunsæi og orðhengilsháttur
að ætla sér að nota slíkt sem rök.
Er það t.d. jafnrétti, þegar „...
skip er orðið heimili manna" eins
og Skúli Einarsson segir í grein
sinni, og „þegar menn dvelja þar
vikum og mánuðum sarnan", að þá
gætu þeir drukkið bjór alla daga
um borð, og það meira að segja
tollfrjálsan. Samt öfundum við þá
ekki neitt.
Sem lokaorð í grein þessari vildi
ég hvetja menn til þess að ræða
líka jafn opinskátt önnur vanda-
mál þjóðfélagsins, eins og það
hvort allir geti fengið bjor á
Keflavíkurflugvelli eða ekki.
Vandamálin eru miklu fleiri og
stærri. En sú umræða þyrfti að
fara fram án persónulegs nags og
níðs. Er það ekki fráleitt að láta
sér detta það í hug, að menn fljúgi
til útlanda til þess að geta keypt
12 bjórflöskur á heimleiðinni?
Haukur Eggertsson