Morgunblaðið - 24.12.1981, Blaðsíða 7

Morgunblaðið - 24.12.1981, Blaðsíða 7
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 24. DESEMBER 1981 7 Jólahugvekja Jötuvaggan Og þá eru þau loksins komin. Blessuð jólin eru ekki lengur langt í burtu. Ekki heldur í fjarlægð fárra daga. Þau eru komin. Kannski er klukkan ekki orðin sex að kveldi 'að- fangadags, þegar þú færð blað- ið í hendurnar, þar sem þessi orð mín eru letruð, en hver hefur getað stillt sig um það, um leið og svefnmók nætur- innar var rofið, að láta hugann andartak dvelja við þá miklu staðreynd, að þau eru komin. Aðfangadagur. Hin hæsta há- tíð runnin upp. Og kveðjan dýrlega ómar um allt: Gleðileg jól. Og ég læt mína ósk þá líka vera flutta í þessum orðum til ykkar allra: Gleðileg jól. Töfrar fylgja þeim. Yndi endurminninga. Stöðugur ferskleiki, þrátt fyrir endur- tekningu. Að sjá í öldungsaug- um glampa endurskin stjörnu himins á jólum er að líta upp- hafningu tímans. Aldur skiptir ekki máli. Öldungur sem barn, allir lúta mætti þeirra. Og þeir, sem eiga við einhvern vanda að stríða, finna enn sterkar fyrir því, að einhvern veginn þarf að komast undan því, að slíkt eyðileggi jólin fyrir þeim og öðruin. „Mér finnst ómögulegt að halda há- tíð með þetta óleyst," heyrði ég sagt í síðustu viku. Nálægð jól- anna þrýsti á með það að horf- ast í augu við raunveruleik- ann, viðurkenna vandann, og ef nokkur leið væri að leysa hann, áður en hátíðin hæsta krefðist þess, svo að friður fengi að ríkja og aðeins birta gleðinnar að móta svipinn. Já, hver getur hugsað sér að halda hátíð, ef myrkrið ríkir í hjart- anu? Það er í sjálfu sér ekki hægt, í það minnsta ekki, ef hátíðin er gleði jólanna. „í hjarta mínu er hátíð," sagði skáldið, og hvernig getur þá hátíðin fengið að ríkja, ef hjartað er þungt? Krefjast þau ekki þess, að brosið ríki, að gleðin ómi í röddinni, að friður sé undirstaða alls? En nú var enginn friður á hinum fyrstu jólum í Betle- hem. Ólga og mannfjöldi, eins og niðri í bæ á Þorláksmessu næstum því. Og undirbúningur fyrir komu jólabarnsins hefur verið í algjöru lágmarki. Að- eins reifar til þess að skýla því með fyrst eftir fæðingu. Meiri kvíði í augum móður en til- hlökkun, áhyggjur út af að- stöðuleysinu. Þau hafa varla verið þess umkomin þarna í fjárhúsinu, María og Jósef, að halda hátíð. Það var svo margt, sem var að. Erfiðleikar, öngþveiti, jafnvel nagandi ásökun vegna fyrirhyggjuleys- is og húsnæðisskorts. En skyndilega ljómaði í kringum þau dýrð himna, þegar Guð gaf son sinn, svo að allir mættu vita, að sá var tilgangur sköp- unar, að himnar skyldu einnig gróðursettir á jörðu niðri: I litla barninu, sem var lagt í jötu og sveipað reifum, og fékk ekki einu sinni inni í manna- bústöðum. Já mikill var munur á hinum fyrstu jólum og því, sem við teljum eðlilegt og sjálfsagt í dag. Eða gleymist okkur kannski tilefni hátíðarinnar i öllu annríkinu við að undirbúa hana og njóta hennar? Gerum við okkur dagamun, af því að slíkt er gott og hollt, ekki sizt í svartasta skammdeginu en látum hitt liggja milli hluta, hvort tilefnið sé slíkt, að við kærum okkur um að tileinka okkur til varanlegra áhrifa boðskap jafnt sem barn? Ég hef staðið frammi fyrir mörgum hópum í kirkjunni minni þessa jólaföstu. Ekki að- eins við messur á sunnudögum, heldur virka daga líka. Það eru svo margir, sem vilja tengja daga jólaföstunnar kirkju, og það er gott. Einum slíkum hópi gleymi ég sjálfsagt aldrei, þótt fleiri væru eftirtektarverðir. Þar áttu sumir erfitt með að komast inn í kirkjuna, tröpp- urnar eru ekki heppilegar hjólastólum. En allt gekk það nú samt. Sum áttu líka erfitt með að tjá sig. Já gátu hvorki tekið undir söng né túlkað í orðum önnur viðbrögð við boðskap. En augun leyndu ekki gleðinni. Þau ljómuðu, og birta þeirra hefur mér fundizt svo dýrmæt, af þvi að þar sá ég sanna birtu hátíðarinnar. En önnur börn og unglingar gátu svo sannarlega sungið, og sungið alveg merkilega hátt og vel. Uppáhaldssálmurinn reyndist vera hinn yndisfagri jólasálmur séra Einars Sig- urðssonar „Nóttin var sú ágæt ein,“ og þau kunnu þennan sálm, börnin, og þau nutu þess að syngja hann. Og þau túlk- uðu viðlagið með hreyfingum sínum: „Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. Með vísnasöng ég vögguna þína hræri." Og mig langaði til að vita, hvort þau fyndu nokkuð einkennilegt við þetta viðlag. Fyrst kom ekkert svar. Síðan sagði ein telpan: „Jú, engin vagga þá.“ Og allir vissu, hvað hún var að fara, hún sá fyrir sér fjárhúsið og Jesú-barnið. Og ég fylgdi þessu eftir með því að spyrja, hvort skáldið væri þá að leika á okkur með viðlaginu sínu fagra. Og þá sagði einn drengurinn, sem sat í fremstu röð og hafði átt erf- itt með að sitja kyrr. Ekki af því að hann vildi vera óþægur, heldur vegna þess að hann réð ekki við hreyfingar handleggja og fóta: „Vagga núna, jata þá.“ Og hann flutti okkur á þennan einfalda hátt boðskap jólanna. Hann var lagður í jötu, barn jólanna. Og við höfum séð margar myndir, þar sem lista- menn túlka atburðinn fyrir okkur. Og það er gott. kannski jafnvel of gott, af því að sumir staðnæmast við þetta. Finnst það alveg nóg. En þá erum við að gera okkur dagamun en ekki að eiga hátíð jóla, sanna hátíð trúarlegrar opinberunar. Þá fyrst, þegar við erum þess umkomin, eins og drengurinn, að færa Jesú úr jötunni i vögg- una, eða með öðrum orðum, úr helgimynd sögunnar inn í raunveruleikann eins og við kynnumst honum í dag, erum við að eignast Jesúm öðru vísi en sem tilefni tyllidags; þá er- um við að búa honum stað í hjörtum okkar til mótunar lífi öllu. Guð er okkur góður, það sannar okkur svo margt, fátt betur en boðskapur jóla. En barnið þarf að vaxa, þarf að verða fullorðinn Jesús frá Naz- aret og ávarpa okkur sem slík- ur, já, leiða okkur með sér gegnum alla lífsreynslu sína án þess krossinn sé undanskil- inn og hin tóma gröf. Það er að færa hann úr jötunni í þann raunveruleika, sem er þáttur þess að vera maður í dag. Og því aðeins verða jólin annað en vin á ferðinni, sem hressa and- artak en hverfa síðan í sort- ann, að hann fái að vaxa, hann, sem var lagður í jötu, en þarf að lifa með okkur í raunveru- leika dagsins. Þá gefur hann friðinn, sem hátíðinni hæfir, þann frið, sem færir mannin- um farsæld og þjóðum köllun. Þessi er því bæn jólanna, að gleði þeirra spretti frá honum, sem Kristur er kallaður, frels- ari mannanna. Hann gefi okkur öllum gleðileg jól. MF - Perkins - Claas Viðskiptavinir athugið Varahlutaafgreiösla okkar er lokuð vegna vörutaln- ingar 28.—31. desember nk. Vegna varahluta er neyöarþjónusta á skrifstofunni þessa daga. Z>AcL££a/tve£a/L. A/ SUÐURLANDSBRAUT 3? • REYKJAVlK • SIMI S6500 1 x 2 - 1 x 2 17. leikvika — leikir 19. des. 1981 Vinningsröö: 1 1 1-X X 2-X X 2-X 1 1 1. vinningur: 12 réttir — kr. 143.685,00 11869 2. vinningur: 11 réttir — kr. 6.842,00 2810 15370 19610 47650 3480+ 18567+ 32918 59376(2/11) Kærufrestur er til 11. janúar kl. 12 á hádegi. Kærur skulu vera skriflegar. Kærueyðublöö fást hjá umboðsmönnum og á skrifstofu Getrauna í Reykjavík. Vinningsupphæöir geta lækkað, ef kærur verða teknar til greina. Handhafar nafnlausra seðla(+) verða að framvisa stofni eða senda stofninn og fullar upplysingar um nafn og heimilisfang til Getrauna fyrir lok kærufrests. GETRAUNIR - íþróttamiðstöðinni - REYKJAVÍK Óskurn viðskiptcMnwn okkar gleðilegtujóla oqfarsœls kowiandi árs medþökkfyrir ánœgjuleg víðskipti. of London «irtjus

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.