Morgunblaðið - 12.06.1983, Qupperneq 22

Morgunblaðið - 12.06.1983, Qupperneq 22
70 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 12. JÚNÍ 1983 Þættir úr sögu íslenskra sakamála: HROLLVEKJA FRÁ LIÐINNIÖLD Frásögn af Skárastaðamálinu í Húnaþingi I sakamáli því sem hér verður fjallað um, Skárastaðamálinu svokallaða, fara saman þau afbrot sem mestan sess skipa á sakaskrám Islendinga frá liðnum öldum, sauðaþjófnaður og hórdómur. Reyndar minnir það okkur á, að landið sjálft og fólkið sem það byggði var æði frábrugðið því sem nú er. I>á var vorsveltan hjá mannfólkinu næstum eins ófrávíkjanleg og helgidagar kirkjunnar og í Ijósi þess verða afbrot á borð við sauðaþjófnað skiljanlegri en ella. Um siðferðið gegnir ef til vill öðru máli, en oft þótti löggjafarvaldinu ástæða til að grípa í taumana og þannig var því háttað um Stóradóm, er dæmdur var á Alþingi 1564, og síðan staðfestur af konungi. Hann var um legorðsmál, sifjaspcll og hórdóm, og þótti harður mjög. Með Stóradómi var lögð dauðarefsing við mörgum slíkum brotum, og skyldu karlmenn hálshöggnir en konum drekkt. Voru íslendingar tregir mjög til að samþykkja þennan dóm en þeim var engu að síður þröngvað til þess, og gekk hann síðan sem lög í landi fram á 19. öld. Með Stóradómi sannaðist þó, eins og svo oft áður, að þótt náttúran sé lamin með lurk þá leitar hún út um síðir, og fór siðferðið í engu batnandi, þátt fyrir harðýðgina. Afstaða þorra landsmanna til dómsins og þeirra afbrota, sem hann var lagður við, virðist hafa verið blandin léttúð og fyrirlitningu sem ef til vill kemur skýrast fram í eftirfarandi kviðlingi, er landfleygur varð á sínum tíma: — „Stóridómur fær af flett,/ fé og eigur gunna./ En það er mannlegt meyjunum að unna.“ — En í kjölfar hinna ómannúðlegu refsinga, sem lagðar voru á forboðin mök karla og kvenna, fylgdi oft það sem verra var: útburður og fóstureyðingar. Það var því að vonum, að um allar sveitir íslands þóttust menn heyra útburðarvæl, þegar ókennileg veðurhljóð bárust að eyrum úr holtum og kvíaveggjum. I Skárastaðamálinu komu vissulega fyrir hinir klassísku þættir íslenskrar afbrotasögu, en áður en yfír lauk hafði málið þó tekið á sig svip hrollvekju, þar sem mannlegur harmleikur og mannleg grimmd fóru saman í þéttriðinn hnút. aga okkar hefst sumarið S1863 á bænum Skárastöð- um í Húnaþingi. Bóndinn, Jón Einarsson, er með jörðina á leigu, en eigandi hennar býr suður á landi. Þegar hér er komið er Jón bóndi sextug- ur að aldri og tvígiftur. Fyrri kona hans er látin, en með henni átti hann fimm börn: Margréti, Einar og Guðmund, sem eru milli tvítugs og þrítugs, og svo Þóreyju 18 ára og Mildríði 15 ára. Seinni kona Jóns er Guðrún Ulugadóttir, rúm- lega fertug að aldri, og með henni á hann tvær dætur á barnsaldri. Öll eru börnin enn í föðurgarði nema Margrét, sem er ráðskona á Gilsbakka, sem er afbýli frá Skárastöðum. Á Skárastöðum eru einnig tvær vinnukonur, Margrét Gunnlaugs- dóttir, 28 ára, og Guðbjörg Guð- mundsdóttir, 26 ára, og koma þær báðar mjög við þessa sögu. Þá má einnig telja hjónin Jóhann Jóns- son og Ingibjörgu Markúsdóttur, sem voru þar { húsmennsku, vinnumennina Árna Árnason og Klemenz Bergmann Bjarnason og svo niðursetninginn á heimilinu, Guðna, sem var 11 ára þegar saga þessi gerðist. Af þessari upptaln- ingu á heimilisfólkinu á Skára- stöðum má ráða, að þar er ekkert kotbýli, þótt búið sé ef til vill ekki fyrirferðarmikið miðað við stór- býli þeirra tíma. En þótt Jón bóndi Einarsson megi teljast bóndi í betra meðallagi hefur hann þó fyrr á ævinni verið bendl- aður við sauðaþjófnað, og sama máli gegnir um Guðmund son hans. Skárastaðamálið hófst reyndar á sauðaþjófnaði þótt til stærri tíðinda bæri þar áður en yfir lauk. Grunur hús- freyju vaknar Jón bóndi er að búa ferð sína suður á land, til að greiða leigu af ábýlisjörð sinni og haft er fyrir satt að hann hafi jafnvel í hvggju að semja um kaup á henni. I ferð sem þessa er vissara að fara vel nestaður og Jón segir konu sinni að hann ætli að fá sauð að láni hjá Einari syni sínum og skera sér til nestis. Guðrún húsfreyja skeytir þessu ekki nánar og um kvöldið kemur Einar með sauðinn brytj- aðan. Sýður Guðrún kjötið um nóttina og í býti morguninn eftir leggur Jón upp í ferð sína suður. Seinna þann sama dag færði Einar stjúpmóður sinni haus kind- arinnar og innyfli og tók hún til við að svíða hausinn. Þegar hún var að skafa af honum sótið tók hún eftir því að nýgerð sneiðing var á eyrum skepnunnar og við nánari athugun sá hún gamalt mark, sem hún vissi að var ekki fjármark Einars Jónssonar. Grun- ur hennar varð að vissu, þegar hún tók að hreinsa ristilinn úr kindinni því að þá sá hún að krókasteik var við ristilinn og varð henni þá ljóst að þetta var gimbur en ekki geldingur. I sömu svifum gekk Einar fram hjá eldhúsdyrunum og kallaði Guðrún til hans að það „væri fyndilegur sauður að tarna, fyrst í honum hefði verið krókasteik“. Einar svaraði þessu engu og gekk burtu. Seinna um sumarið, eftir að Jón var kominn heim úr suðurför sinni, kom Guðrún húsfreyja að þeim feðgum og Margréti vinnu- konu þar sem þau sátu yfir ný- skorinni kind. Sá hún strax á öðr- um kjammanum að hnífsbrögð á eyranu höfðu sýnilega verið gerð á kindinni dauðri, því brjósk var hlaupið upp úr skinninu við suð- una. Var Guðrún nú ekki í neinum vafa um hverju fram fór og féll henni það þungt. En það var fleira sem vakti athygli húsfreyjunnar á Skárastöðum þetta sumar. Hún tók einnig eftir því, að báðar vinnukonurnar höfðu gildnað und- ir belti, og brátt varð henni ljóst, að á Skárastöðum var ekki aðeins framinn sauðaþjófnaður. Þar gekk einnig á með hórdómi. Ástir Jóns og Guðbjargar Guðbjörg Guðmundsdóttir kom að Skárastöðum á krossmessu vor- ið 1862. Hún var þá 24 ára gömul og hafði verið víða í vinnu- mennsku, en sem barn hafði hún verið í fóstri á ýmsum stöðum. Með komu Guðbjargar að Skára- stöðum var friðurinn úti á heimil- inu. Bóndinn, Jón Einarsson, var sextugur að aldri, Guðrún, kona hans, 16 árum yngri, en þegar hin unga vinnustúlka er komin á heimilið, halda karlinum engin. bönd. Á grasafjalli um sumarið leggst vinnukonan með húsbónda sínum, og frá þeirri stundu er Guðrún Illugadóttir hornreka á heimili sínu. í frásögn um Skárastaðamálið í bókinni „Fýkur í sporin" greinir Sverrir Kristjánsson nánar frá at- burðum þessum, en heimildir að frásögn sinni sótti hann í dóms- málabækur frá þessum tíma. Er þess getið að Guðrún hafi jafnvel sætt líkamlegum meiðingum og segir þar m.a.: „Eitt kvöld um haustið, þegar Jóhann Jónsson húsmaður var genginn til rekkju, kom Þórey, dóttir Jóns bónda, til hans og bað hann að hjálpa Guð- rúnu, því að faðir sinn sé að berja hana. Hljóp Jóhann þá á fætur og út og sá, hvar Guðrún lá flöt á götu suður af túninu, en maður hennar, Jón Einarsson, stóð yfir henni og var að sparka í hana. Hin forsmáða eiginkona er þög- ull áhorfandi að ástarleik sextugs bónda síns og hinnar ungu vinnu- konu. Hún segir aldrei neitt, en hefur augun hjá sér. Þegar líða tekur á haustið, taka hin alsjáandi augu hennar eftir því, að Guð- björg er farin „að gildna eftir náttúrulegu eðli“ svo sem hún komst síðar að orði í réttarhöld- unum. Á jólaföstu trúir Guðbjörg húsmóður sinni fyrir því, að hún geti svarið fyrir alla karlmenn nema Jón bónda Einarsson á Skárastöðum. Heimur íslensku sveitabaðstof- unnar á 19. öld var ekki stór, ásta- líf manna fór ekki fram með mik- illi leynd. Þær sofa allar þrjár í einu rúmi, heimasæturnar Þórey og Mildríður og Guðbjörg vinnu- kona. Dætur Jóns Einarssonar hafa tekið eftir því oftar en einu sinni, að faðir þeirra læðist að næturlagi undir sængina hjá Guð- björgu, og einu sinni gerist það slys, að ástmaður hinnar ungu vinnukonu spyrnir hælunum í nef- ið á Mildríði, dóttur sinni, sem sef- ur til fóta, svo að hún fær óstöðv- andi blóðnasir. Dæturnar vita vel, að Guðbjörg er ólétt eftir föður þeirra, og þær segja þetta kaupa- manninum að sunnan, Klemenz Bergmann Bjarnasyni, og hafa í flimtingum." Þungaðar vinnukonur Það hefur heldur ekki farið framhjá heimilisfólkinu á Skára- stöðum að Einar, sonur Jóns bónda, gerir sér mjög dælt við hina vinnukonuna á bænum, Mar- gréti Gunnlaugsdóttur, og dvelur oft næturlangt undir rekkjuvoðum hennar. Svo fer líka, að báðar vinnukonurnar fara að gildna undir belti, hér um bil um sama leyti. í níundu viku sumars árið 1863 ól Margrét Gunnlaugsdóttir sveinbarn, fullburða, vó það 14 merkur. Drengurinn var vatni ausinn og hlaut nafnið Jón Sigurð- ur, og lýsti móðirin Einar Jónsson föður að barninu. Ekki vildi bóndasonur gangast við faðerninu og stóð við svo búið um nokkra hríð. Drengurinn föðurlausi dafn- aði hins vegar vel og bar heimilis- fólkinu saman um að móðirin hafi hugsað vel um barnið og haft yndi af því. Nokkrum mánuðum áður hafði Guðbjörg vinnukona rætt það við húsmóður sína, „undir rós“, að hún kynni að vera ólétt eftir Jón bónda. Um svipað leyti lagðist bóndi veikur og lá í þrjár vikur. Þegar Guðrún kona hans vildi hjúkra honum og bera honum mat og drykk hreytti hann í hana fúk- yrðum og þoldi hann engum að vaka yfir sér eða hjúkra nema Guðbjörgu. En eftir að hafa hjúkrað húsbónda sínum i sjúkra- legunni, bregður svo við, að Guð- björg harðneitar því í samtali við húsfreyju að hún gangi með barni. Eftir þetta reyndi Guðbjörg að klæða af sér þunga sinn og láta líta svo út sem hún væri kona heil. Guðrún húsfreyja tók einnig eftir því að krukku með kálfsblóði hafði verið komið fyrir í skáp yfir rúmi þeirra hjóna og smáminnkaði í krukkunni eftir því sem líða fór á vorið. Vaknaði nú grunur hennar um að Guðbjörg vinnukona mundi nota blóðið til að rjóða með nærföt sín svo fólk héldi, að hún væri kona, er hefði á klæðum. f maí- mánuði var þó enginn á Skára- stöðum í rninnsta vafa um, að Guðbjörg væri komin langt á leið. Á hjúaskildögum þetta sama vor er vistráðum Guðbjargar lokið á Skárastöðum, og hún ræðst vinnukona að Ytri-Reykjum. Ber nú fátt til tíðinda þar til um miðj- an júní er Guðbjörgu skýtur aftur upp á Skárastöðum ásamt öðrum kvenmanni frá Ytri-Reykjum. Voru þær á leið til grasa og vildi Jón bóndi Einarsson óður og upp- vægur slást í för með þeim. Það sem vakti þó mesta athygli heim- ilisfólksins á Skárastöðum var, að vinnukonan, sem borið hafði þunga sinn frá bænum nokkrum vikum áður, var nú orðin tággrönn og kvik í spori. Enginn minntist á að Guðbjörg hefði orðið léttari og er Guðrún húsfreyja gekk á hana svaraði hún út úr og gekk síðan út í fjós og dvaldi þar nokkra stund. Þaðan kom hún út hnuggin og grátbólgin og var ekki meira minnst á mál þetta í það skiptið. Daginn eftir lagði hún af stað á grasafjall ásamt stöllu sinni frá Ytri-Reykjum og Jóni bónda Ein- arssyni. Um haustið þetta sama ár sat þessi unga vinnustúlka á saka- mannabekk í Húnavatnssýslu ásamt fimm öðrum heimilis- mönnum frá Skárastöðum: Jóni Einarssyni, Einari Jónssyni, barnsmóður hans, Margréti Gunnlaugsdóttur, Guðmundi Jónssyni og systur hans, Margréti Jónsdóttur, bústýru á Gilsbakka. Sakargiftir þessa fólks voru barnsmorð og þjófnaður. Dauði Jóns Sigurðar Við skildum síðast við Margréti vinnukonu þar sem hún lét blíð- lega að barni sínu nýfæddu. Þegar Jón Sigurður var fimm vikna gam- all fékk hann kvefþyngsli fyrir brjóst en ekki fylgdi því hiti eða andarteppa. Kvöld eitt fór Mar- grét móðir hans fram á kvíastekk ásamt öðru kvenfólki á bænum til að mjólka ærnar og bað hún Jó- hann Jónsson, húsmann á Skára- stöðum, að hafa ofan af fyrir barninu á meðan. Margrét var rúma klukkustund í burtu, en er hún kom heim aftur, hafði barnið verið flutt í rúm hennar og lá þar andað. Samkvæmt frásögn Sverris Kristjánssonar má rekja atburða- rásina á þessari klukkustund, sem leið, meðan Margrét vinnukona var að mjöltum á þessa lund: „Um það bil er kvenfólkið fór til kvíaánna, kom Einar Jónsson inn i norðurenda baðstofunnar, þar sem Jóhann húsmaður sat á rúmi sínu og hugaði að barninu. Einar hafði verið að slætti úti á túni, og nú

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.