Morgunblaðið - 26.06.1983, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 26.06.1983, Blaðsíða 22
70 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 26. JÚNÍ 1983 [X 1 s [ i il □ > * Svipmynd af Ray Charles sem væntanlegur er til íslands „I okkar bransa er aðeins til einn snillingur, Ray Charles,“ sagði Frank Sinatra eitt sinn og þessi orð hins ókrýnda konungs skemmtiiðnaðarins segja meira um listamanninn Ray Charles og óumdeilda hæfileika hans en flest annað. Og það má vissulega til sanns vegar færa, að orðið „snillingur“ er það sem oftast er notað í umfjöllun tónlistargagnrýn- enda um þennan heimsfræga hljómlistarmann, sem fyrir löngu er orðinn lifandi goðsögn í hugum milljóna aðdáenda um víða veröld. Ray Charles er nú væntanlegur til íslands og sjálfsagt eru þeir fjölmargir sem líta á þann viðburð sem einn hinn merkasta í samanlagðri sögu tónlistar- og skemmt- analífs hér á landi. Ray Charles, sem verður 53 ára á þessu ári, á að baki óvenju glæsiiegan feril í bandarísku tón- listarlífi og virðist ekkert lát þar á. Síðan hann ruddi sér fyrst braut til frægðar með laginu „I Got A Woman" árið 1956, er það almennt álit manna í heimi dæg- urtónlistarinnar að fáir einstakl- ingar hafi þar haft meiri áhrif, mark hans sé óafmáanlegt í öllum stefnum dægurtónlistar, hvort sem um er að ræða „blues, country, jazz eða rokktónlist". Og velgengni hans virðist varanleg eða eins og eitt blaðanna orðaði það: „Ray Charles hefur aldrei farið troðnar slóðir, hann markar stefnuna og aðrir fylgja á eftir og þannig er það enn í dag.“ Hann hefur hlotið flestar þær viðurkenningar sem bandarískur tónlistarmaður getur gert sér von- ir um að hljóta og raunar hefur honum verið margvíslegur sómi sýndur á öðrum vettvangi. Tíu sinnum hefur hann hlotið „Grammy-verðlaunin" og mun oftar verið útnefndur til þeirra verðlauna, sem í heimi dægurtón- listarinnar samsvara óskarsverð- iaunum í kvikmyndaheiminum. í gegnum árin hefur hann marg oft borið sigur úr býtum í hvers kyns vinsældakosningum á vegum hinna ýmsu tímarita og blaða og einnig í kosningum gagnrýnenda, oftast sem „blues og jass-söngv- ari“ en einnig sem lagahöfundur og píanisti. Ray Charles hefur komið fram í fjölda kvikmynda og árið 1979 kom út sjálfsævisaga hans, „Brother Ray“, sem varð metsölubók í Bandaríkjunum. Þá má nefna að 16. desember 1981 fékk hann nafnið sitt áletrað í eina stjörnuna á hinu þekkta Hollywood Boulevard „Walk of Fame“, en þann heiður hlotnast aðeins listamönnum, sem taldir eru hafa skapað sér ódauðlegt nafn í bandarískum kvikmynda- og skemmtiiðnaði. Á þessari upp- talningu má sjá, að hér er enginn meðalmaður á ferðinni og er þó fátt eitt talið af öllum þeim viður- kenningum, sem Ray Charles hef- ur hlotið í gegnum árin. Dimmir bernskudagar Ray Charles fæddist hinn 23. september 1930 í Albany í Georgia. Hann var elsti sonur Bailey og Arethu Robinson og bjó fjölskyldan jafnan við kröpp kjör svo sem vænta mátti af fátækri svertingjafjölskyldu í Suðurríkj- unum á kreppuárunum. Ray Charles Robinson lifði með öll skilningarvit sín óskert fyrstu ár ævinnar og fyrsta skuggann sem bar á líf hans var þegar hann á fimmta ári horfði á yngri bróður sinn, George, drukkna í þvotta- brunni skammt frá heimili þeirra og hafði sá atburður mikil áhrif á hann og hefur hann aldrei liðið honum úr minni. Þegar hann var á sjöunda ári fékk hann augnsjúk- dóm, sem talið er að hafi verið gláka, en vegna fátæktar og ef til vill sumpart vegna þeirra félags- legu hindrana sem því fylgdi að vera negri í Suðurríkjunum á þeim tíma, fékk hann ekki lækn- ingu við sjúkdóminum og smátt og smátt dapraðist sjónin uns hann varð umlyktur hinu eilífa myrkri blindunnar. Engum getum skal að því leitt hvernig litlum dreng hefur liðið eftir slík áföll, en sjálfur hefur Ray Charles sagt, að dauði bróður síns sé eitt það fáa sem hann muni eftir úr lífi sínu sjáandi. Hins veg- ar hefur hann alla tíð gert lítið úr þeim erfiðleikum sem fylgir því að vera blindur og eitt sinn sagði hann í viðtali: „Fólk á aldrei að vera biturt. Menn verða bara að taka lífinu eins og það er og læra að lifa við þær aðstæður sem það býður upp á.“ Þessa heimspeki hefur Ray Charles eftir móður sinni, sem eitt sinn sagði við blindan, sjö ára gamlan son sinn: „Þú ert blindur, en þú ert ekki heimskur. Þú misstir aðeins sjón- ina, ekki vitið.“ Eftir að Ray Charles hafði misst sjónina að fullu var honum komið fyrir á blindraskóla í St. Augustine í Florida þar sem hann gekk undir nafninu „Lappi“ (Foots) meðal skólafélaganna þar eða hann hafði komið skólaus á stofnunina. Hann hafði kynnst pí- anóleik hjá gömlum nágranna sín- um, en í skólanum tendraðist eld- legur áhugi hans á tónlist og þar hlaut hann þá undirstöðu sem seinna átti eftir að skipa honum á bekk með fremstu hljómlistar- mönnum heims. Hann lærði að lesa og skrifa nótur og lærði einn- ig að leika á næstum hvert einasta hljóðfæri í skólahljómsveitinni og duldist fáum að hér var á ferðinni næmur listamaður með óvenju mikla tónlistarhæfileika. Árið SVMTUR 1969 kom Ray Charles í heimsókn í skólann þar sem hann var heiðr- aður sem „fremsti sonur stofnun- arinnar". Þegar Ray Charles var tíu ára dó faðir hans og það sama ár fann hann fyrst til þess að hann er svertingi. „Hvítur strákur, sem ég var að leika mér við í skólanum, kailaði mig „niggara" og þótt ég vissi ekki almennilega hvað orðið þýddi, fann ég að í því fólst ein- hver niðurlæging. Ég varð brjál- aður af vonsku og tók strákinn eins og hveitipoka og kastaði hon- um í gólfið." Síðan hefur Ray Charles verið mikill áhugamaður um réttindi kynbræðra sinna og hefur lagt mikið af mörkum í þeim efnum. Fimm árum eftir dauða föður síns sá hann einnig á bak móður sinni í gröfina, en til henn- ar hafði hann alla tíð sótt styrk til að komast yfir erfiðieikana sam- fara blindunni. Fimmtán ára gamall stóð nú Ray Charles uppi, einn og umkomulaus í heiminum, og hafði ekkert til að halla sér að nema tónlist sína. Hann hætti í skólanum og reyndi að hasla sér völl í jasslífinu í Georgiu og Florida en honum tókst ekki að vekja á sér verulega athygli enda vart af barnsaldri. Hann fékk tímabundið starf í danshljómsveit í Jacksonville í Florida en afkoma var ótrygg og í hönd fór tímabil rótleysis, sultar og seyru. Hann svalt oft heilu hungri en neitaði að gefast upp. Móðir hans hafði kennt honum að sjálfsvorkunn væri einhver versti eiginleiki í fari manna og þrátt fyrir allt var Ray Charles fullur sjálfstrausts. Með stolt sitt að vopni og reisn yfir því að vera manneskja, bauð hann erfiðleik- unum byrginn og hann neitaði að láta fötlun sína buga sig. Að vísu kom það fyrir að hann söng á götuhornum og þáði framlög sem vegfarendur létu falla í blikkdós- ina hans. En hann betlaði ekki, hann gaf í staðinn það sem hann átti dýrmætast, söng sinn og tón- list. Sautján ára gamall ákvað hann að freista gæfunnar í Seattle og honum tókst að öngla sama 600 dollurum fyrir farinu. Hann stytti nafn sitt úr Ray Charles Robinson í Ray Charles, „til að forðast að vera ruglað saman við boxarann Sugar Ray Robinson", eins og hann útskýrir það sjálfur. Honum tókst fljótlega að ná fótfestu í blues- og jasslífinu í Seattle og upp frá því fór hagur hans að vænkast Leiðin til stjarnanna í Seattle var honum sagt að hann syngi eins og Nat King Cole og út á það fékk hann vinnu. „Ég var peningalaus og reyndi því að stæla þá (Cole og Charles Brown), en þetta var ekki ég sjálfur. Að lokum gerði ég mér grein fyrir því að þetta var að eyðileggja mig sem skapandi tónlistarmann og ég sagði við sjálfan mig: Héðan í frá verður fólk að taka mig eins og ég er sjálfur, hvort sem því líkar bet- ur eða verr.“ Ray Charles stofnaði Maxim Trio árið 1953, en hljóm- sveitin vakti talsverða athygli, í norðvesturríkjunum og þeir félag- ar voru fyrstu svörtu skemmti- kraftarnir sem fengu fastan sjón- varpsþátt þar um slóðir. Ray Charles hóf nú að leika inn á hljómplötur og stofnaði sjö manna hljómsveit, sem varð vísirinn að hinni heimsfrægu hljómsveit hans, „Ray Charles Orchestra". Árið 1955 léku þeir félagar lagið „I Got A Woman" inn á hljómplötu, sem seinna náði miklum vinsæld- um og lagði grundvöllinn að goð- sögninni Ray Charles. Með því lagi náði Ray Charles eyrum hvítra Bandaríkjamanna, einn hinna fyrstu úr hópi svartra blues- söngvara, en allt fram á sjötta áratuginn voru hinir hvítu haldnir miklum fordómum gagnvart blues-tónlist, sem þeir kölluðu „tónlist hins illa“. Þegar Ray Charles söng lagið „Georgia On My Mind" inn á hljómplötu árið 1959 varð hann á augabragði dýrlingur í bandarísku dægurtónlistarlífi, jafnt meðal hvítra sem svartra, og síðan hafa plötur hans selst í milljónum ein- taka víða um heim. Skömmu eftir 1960 náði hann fyrst kjöri sem besti karlsöngvarinn í gagnrýn- endakosningum tímaritsins „Down Beat“, titill sem hann hef- ur margoft borið síðan og 1961 hlaut hann „Grammy-verðlaunin" í fyrsta skipti. Eitt þekktasta lag Ray Charles, „I Can’t Stop Loving You“, kom fyrst út á hljómplötu árið 1962 og náði slíkri útbreiðslu að þess eru fá dæmi. Síðan hafa fjölmargir þekktir söngvarar sungið lagið inn á plötur og má þar nefna stórstjörnur á borð við Elvis Presley og Tom Jones. Ekki er ástæða til að rekja hér nánar glæsilegan listamannsferil Ray Charles en þess má geta að þrátt fyrir velgengnina hefur einkalif hans ekki alltaf verið dans á rósum og leiðin til stjarn- anna þyrnum stráð. Ungur kynnt- ist hann eiturlyfjum og þeim af- leiðingum sem neysla slíkra lyfja hefur í för með sér. Hann var um skeið ofurseldur neyslu hins hættulega eiturlyfs heróíns og var af þeim sökum lagður inn á St. Francis Hospital í Lynwood í Kaliforníu í ágústmánuði 1965. Eftir þriggja mánaða meðferð á spítalanum og árs hvíld í umönn- un lækna og sálfræðinga tókst honum að yfirvinna eiturlyfja- fíknina og byggja sig aftur upp andlega og líkamlega. Ray Charles er jafnan fáorður um þessa reynsiu sína en svo mikið má skilja af orðum hans, að menn ættu að halda sig sem allra lengst frá þeim vítiskvölum, sem neysla slíkra lyfja hefur í för með sér. Ray Charles hefur búið í Los Angeles í rúm tuttugu ár og hefur jafnan haldið einkalífi sínu að- skildu frá opinberu lífi og ef til vill er þar eitthvað að finna sem hann sjálfur vill ekki flíka um of. Eitt er það þó í einkalífinu sem hann hefur alltaf verið stoltur af og aldrei haldið leyndu, en það eru synir hans þrír, sem hann hefur komið á legg og eru nú uppkomnir menn, Ray yngri, David og Robert. Ray Charles er í rauninni um margt stórmerkur maður og hefur afrekað og lært margt sem aðeins er ætlandi alsjáandi mönnum. Sagt er að hann geti stjórnað flugvél og vanti ekkert annað en sjónina til að fá skírteinið. „Það er þetta sem kallað er blindflug," segir hann. Hann hefur staðið frammi fyrir ótrúlegum erfiðleik- um og sigrast á þeim. Allt hans líf, með gleði, þrautum og sorg, endurspeglast í tónlist hans, þeirri tónlist sem hefur reist honum ævarandi minnisvarða í sögu skemmtiiðnaðarins. Að vera einlægur I marsmánuði árið 1970 birtist viðtal við Ray Charles í banda- ríska tímaritinu „Playboy" og vakti það mikla athygli á sínum tíma, eins og raunar mörg viðtöl, sem birt hafa verið í því ágæta blaði. Viðtalið er upp á tíu þéttskrifaðar síður og gefur glögga mynd af manninum Ray Charles, skoðunum hans á hinum ýmsu málum og viðhorfum til lífs- ins og tónlistarinnar. Til gamans skulum við birta nokkrar glefsur úr þessu viðtali ef það mætti verða til að varpa örlítið skýrara ljósi á persónuleika þessa merka tónlist- armanns. í upphafi viðtalsins er Ray Charles spurður að því, hvort hann hafi einhverjar sérstakar skýringar á hinum víðtæku vin- sældum sínum jafnt meðal hvítra sem svartra: Charles: „Til að fá svar við þess- ari spurningu verður þú að spyrja fólkið sem kaupir plöturnar mínar og kemur á tónleikana, bæði hina hvítu og svörtu. Ég get aðeins sagt að ég er einlægur í því sem ég er að gera. Ég gef allt sem ég á til. Með þessu er ég ekki að segja að þetta sé endilega svarið við spurn- ingunni því þeir eru fjölmargir sem eru ekki síður einlægir en ég, en hafa þó aldrei komist neitt áleiðis. Hver veit hvers vegna? Ég held að tilfinning mín ráði mestu um hvernig ég syng hverju sinni. Stundum þegar ég syng blues er ég í fullkomnu jafnvægi, en svo kannski þegar ég syng sama lagið kvöldið eftir get ég varla haldið aftur af tárunum. Þetta fer eftir hugarástandinu. Ég reyni þó allt- af að forðast það að vera vélrænn í tjáningu eða bregðast áheyrend- um á annan hátt og gildir þá einu, MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 26. JÚNÍ 1983 71 hvort um er að ræða hundrað manns eða hundrað þúsund.“ Sp.: Meðal aðdáenda þinna geng- ur þú undir nafninu „séníið" (The Genuis) og Frank Sinatra gekk jafnvel svo langt að kalla þig „eina snillinginn í bransanum". Charles: „Já, Frank sagði þetta og þótt ég sé vissulega þakklátur fyrir fallegu nöfnin sem fólk gefur mér er ég heldur ekki laus við að vera kallaður ljótum nöfnum líka. Á vissan hátt er ég hræddur við þessa nafngift, snillingur. Snill- ingur merkir að viðkomandi er á toppnum og ef menn gæta sín ekki í þeirri stöðu getur það þýtt að þeir fara að hjakka í sama far- inu.“ Sp.: Þú hefur oft sagt, að þú vilj- ir að fólk skynji þfna eigin sál. Hvers vegna er þessi óskaplega þörf hjá þér til að opna þinn innri mann og það fyrir fólki sem er þér gjörsamlega ókunnugt? Charles: „Ég vil fyrst taka það fram að ég elska tónlistina og þennan bransa sem ég er í. Raun- ar er ég bara að sinna áhugamáli mínu og það vill svo vel til að ég fæ greitt fyrir það. Þar fyrir utan brýndi mamma það alltaf fyrir mér að vera einlægur í öllu sem ég tæki mér fyrir hendur í lífinu, hvort sem það væri að bursta skó fólks, hella úr ruslafötunum fyrir það eða lina þjáningar þess með söng mínum. I mínu starfi er afar þýðingarmikið að ná sambandi við fólk. Eg verð að ná til áheyrenda og fá þá til að trúa því í raun og veru að stúlkan, sem ég er að syngja um, hafi stolið öllum pen- ingunum mínum og stungið af með besta vini mínum. Ef mér tekst það ekki er ég illa á vegi staddur og get ekki orðið langlífur í þessum bransa. Ég næ best til fólks með tregablöndnum lögum vegna þess að þegar fólk er sorg- bitið, sem oftast er raunin, vill það heyra eitthvað sem rennur saman við þeirra eigin sorg, eitthvað sem kemur þvf til að gráta enn sárar. Síðan, þegar það hefur fengið út- rás, veitist því léttara að bera sorg sína og lifa daginn til enda. Þetta er skýringin hvers vegna svona margir hafa hallað sér að blues- tónlist í gegnum árin. Blues-inn verður alltaf við lýði, þangað til fólk hættir að særa hvert annað. En til þess að geta sungið blues verða menn að þekkja þjáninguna af eigin raun. Ef fólk fær á tilfinn- inguna að einhver blues-söngvari viti í raun og veru ekkert um hvað hann er að fjalla, eru dagar hans taldir í þessum bransa." Þegar hér var komið upphófust miklar umræður um uppruna „svartrar tónlistar", vaxandi áhuga hvitra manna á blues- og soul-tónlist (sem Ray Charles tel- ur vera eitt og sama fyrirbrigðið) og um það hvort hvítir menn geti yfirleitt sungið blues á sama hátt og svertingjar. Ray Charles dró það stórlega í efa, en dró samt nokkuð í land seinna í umræðunni og sagði meðal annars: „Hver veit, þegar allt kemur til alls er blues fyrst og fremst tónlist um erfið- leika fólks og allir eiga við ein- hverja erfiðleika að etja.“ Síðan barst talið að réttindabaráttu svertingja og pólitík og svo aftur að tónlistinni og hann var m.a. spurður hvað honum fyndist um alla þá söngvara sem gera sér far um að stæla hann. Charles: „Þessir menn skemma ekkert fyrir mér og það skiptir mig engu hversu vel þeir líkja eft- ir mér því þeir geta aldrei náð mínum innra manni. I rauninni geta þeir ekkert gert fyrr en ég hef sjálfur gert það við lagið sem ég vil gera, svo að þeir hljóta allt- af að verða að feta í fótspor mitt. Engin eftirlíking getur tekið fyrir- myndinni fram. Þegar allt kemur til alls er ég bara hreykinn af þessu því þetta fólk er aðeins að heyja sína lífsbaráttu og ef það telur að þeim málum sé best kom- ið með því að líkja eftir mér er það bara stórfínt." Sp.: Hverjir eru helstu áhrifa- valdar þínir í tónlistinni? Charles: „Ég geri ráð fyrir að sá fyrsti hafi verið Nat Cole. Þegar ég var unglingur, átján eða nítján ára, gerði ég nokkrar plötur með tríóinu mínu og af þeim má heyra að ég reyndi mjög að líkja eftir honum. Síðan reyndi ég að líkja eftir Charles Brown sem var mjög vinsæll meðal blökkumanna á sín- um tíma. Art Tatum, sem var reyndar ekki söngvari heldur pí- anóleikari, hafði mikil áhrif á mig þótt ég spili ekkert líkt honum. Hann var að mínum dómi einhver besti píanóleikari og einhver besta manneskja sem lifað hefur á þess- ari jörð. Auðvitað voru margir aðrir sem höfðu áhrif á mig og þar á meðal fjöldi fólks sem ekki var í músíkbransanum því eftir að ég fór að gera mína eigin músík þurfti ég ekki á neinni slíkri fyrir- mynd að halda. Þetta var bara fólk sem ég bar virðingu fyrir og þótti vænt um. Efst á þeim lista er móðir mín og í rauninni hefur engin haft meiri áhrif á mig en hún. Hún var ómenntuð á bókina en samt var hún skynsamasta og besta manneskja sem ég hef þekkt um dagana. Hún hafði svör við öllu og gat útskýrt það á þann hátt að ég skildi það. Eftir að ég varð fullorðinn hefur runnið upp fyrir mér hvílíkur vísdómur fólst í öllu sem hún sagði mér. Þegar ég varð blindur hjálpaði hún mér frá því að falla í sjálfsmeðaumkun og kenndi mér að treysta á sjálfan mig. Hún lét mig halda áfram að gera allt sem ég hafði gert áður en ég missti sjónina þótt það kostaði oft blóð, svita og tár. Allt það fólk sem ég hef dáð um ævina er fólk sem hefur tekist að gera eitthvað úr hlutum sem flestir taka sem sjálfsagða." Ég sé ekki eftir neinu Á næstu síðum viðtalsins er meðal annars fjallað um það hvernig það atvikaðist að Ray Charles ákvað að gerast tónlistar- maður, launamál, og ennfremur um hljómleikaferðir og allt stússið í kringum þær og hann er spurður hvort eitthvað sé hæft í því að hann þyki skapmikill og erfiður húsbóndi. Því svarar Ray Charles á þann veg að hann geri ekki meiri kröfur til annarra en sjálfs sín, en viðurkennir jafnframt að þær kröfur séu talsverðar. í umræðu um önnur áhugamál hans en tón- listina kemur fram að hann er áhugamaður um skák og flug og hann lýsir því hvernig hann, blindur maðurinn, hafi lært að fljúga og hafi raunar haldið um stjórnvölinn í flugvél sinni enda treysti hann sér vel til að lenda ef svo bæri undir. Um það hvernig blindir menn skynja tilveruna segir hann m.a.: „Þó að þú missir sjónina þýðir það ekki endilega að önnur skyn- færi verði sjálfkrafa næmari. Skilningarvit blinds manns verða aðeins næmari með þjálfun og maður sem hefur fulla sjón gæti þjálfað heyrnarminni sitt og snertiskyn upp í það sem blindir menn hafa venjulega, en auðvitað hafa menn með óskerta sjón ekki séð ástæðu til að leggja á sig það auka erfiði. Þar sem ég hef misst sjónina, en vil samt vera öðrum óháður, hef ég lagt þetta á mig.“ Sp.: Telurðu að þú, sem blindur maður, sért eins meðvitaður um veröldina og þeir sem hafa fulla sjón? Charles: „Vegna þess að ég get ekki séð og skoðað hlutina held ég að athyglisgáfa mín sé á margan hátt skarpari á öðrum sviðum. Ef við tökum fólk sem dæmi þá hefur útlit þess ekkert að segja fyrir mig en hins vegar reyni ég að komast að hinum innra manni. Á meðan aðrir eru uppteknir af útliti mannsins er ég að velta fyrir mér öðrum atriðum í fari hans sem viðkomandi hefur enga hugmynd um, eins og t.d. hvernig hann nálg- ast mig, um hvað hann talar og ýmislegt annað sem segir mér miklu meira um persónuleika hans en útlitið getur gert. Af þess- ari ástæðu held ég að ég sé fljótari að átta mig á manngerðinni en maður, sem lætur sjónina trufla sig. Sp.: Þetta hljómar eins og þér finnist sjónleysið ekki vera nein fötlun. Charles: „Ég get ekki sagt að ég sakni nokkurs andskotans ef út í það er farið. Ég á bæði Cadillac og Volkswagen og að aka í öðrum þeirra er eins og að aka í hinum fyrir mér. Ég fylgist með því sem er í sjónvarpinu af hljóðinu, eins og ég raunar geri í sjálfu lífinu. Það sama gildir um kvikmyndir, nema þær þöglu að sjálfsögðu. Ég fæ eins mikið út úr því að vera með börnunum mínum, hlusta á þau, snerta þau og fylgjast með þeirra innri manni, og flestir aðrir foreldrar. Og ég veit að konan mín er falleg." í öðru samhengi í viðtalinu hafði Ray Charles sagt m.a. um fötlun sína: „Ég finn ekki svo mik- ið fyrir því að ég er blindur. I viss- um skilningi má kannski segja að það sé meiri fötlun að vera svartur en blindur." Sp.: Þú hefur verið blindur mestan hluta ævinnar, frá því þú varst sjö ára. Hvað manstu eftir miklu af veröldinni? Charles: „Ég man eftir litum, t.d. rauðu, grænu og bláu. Ég man eft- ir tunglinu, stjörnunum og sól- setrinu. Ég man hvernig mamma leit út og ég veit hvernig flest það, sem ég syng um, lítur út.“ Sp.: Telurðu að koma hefði mátt í veg fyrir að þú misstir sjónina ef þú hefðir fengið rétta læknismeð- ferð á sínum tíma? Charles: Það er hugsanlegt, ef við hefðum átt næga peninga. Læknar sem síðar hafa skoðað mig telja það hugsanlegt. Hins vegar vil ég ekki skella skuldinni á það eitt að ég var negrastrákur í Suðurríkjunum. Ég hefði alveg eins getað verið hvítur og samt misst sjónina vegna fátæktar. Við skulum samt ekki gleyma því að peningar eru ekki trygging gegn öllu ef forlögin ákveða annað. Kennedy-bræður eru gott dæmi um slíkt." Sp.: Á þínum yngri árum þótt- irðu talsvert djarftækur til kvenna og áttir í útistöðum við yf- irvöld vegna barnsfaðernismála. Er það ekki rétt? Charles: „Jú, því miður. En þótt ekkert hafi verið sannað í þeim efnum eru öll þessi mál í góðu lagi núna.“ Sp.: Á sama tíma varst þú kall- aður fyrir rétt vegna lífernis þíns, þú varst forfallinn eiturlyfjaneyt- andi. Samt er það kunn staðreynd, að eiturlyfjaneysla leiðir til kyn- deyfðar. Hvernig tókst þér að stunda hvort tveggja af svona miklu kappi? Charles: „Ekkert, þar með talin eiturlyf, hefur nokkurn tíma dreg- ið úr ást minni á konum eða virð- ingu minni á kvenþjóðinni. Mér er sagt að aldurinn eigi eftir að gera það fyrr eða síðar. Ef ég hefði fundið fyrir því að dópið minnkaði kynorku mína hefði ég hætt á stundinni." Sp.: Hvers vegna byrjaðir þú að nota eiturlyf? Charles: „Ég vil helst ekki tala um það.“ Sp.: Nú vita margir að þú varst heróínsjúklingur í nokkur ár. Finnst þér ekki að þú gætir ef til vill komið í veg fyrir að aðrir lentu í því sama með því að tala hreint út um málið? Charles: „Kjaftæði. Það vita all- ir að sígarettureykingar geta vald- ið krabbameini, en hversu margir heldurðu að myndu hætta að reykja fyrir það eitt að lesa ein- hver aðvörunarorð frá Ray Charl- es um sigarettureykingar. Ég get aðeins sagt að eiturlyfjaneysla er leiðin til glötunar. Hún er nokkuð sem ég ráðlegg öllum að forðast, því hún hjálpar engum til að verða betri maður heldur þvert á móti. En ég held að fólk hlusti ekki á svona aðvaranir um sígarettur eða dóp. Við skulum orða þetta öðru- vísi: Segjum svo að þú myndir sjá mig reykja sígarettu og tveimur árum síðar myndir þú hitta mig aftur og þá væri ég hættur. Þú myndir spyrja mig hvort ég sæi ekki eftir þessu með sígarettuna og ég myndi svara þér: Nei, fari það í helvíti. Ég naut þess á meðan á því stóð og þar með er það út- rætt mál.“ Sp.: Getum við þá ályktað sem svo, að þér finnist allt í lagi að menn noti vanabindandi lyf svo framarlega sem þeir viti hvað þeir eru að gera? Charles: „Ályktaðu bara það sem þér sýnist. Fram að þessu hef ég haft gaman af að spjalla við þig, en ég er orðinn þreyttur á að tala um þennan þátt í lífi mínu. Jesús Kristur gæti ekki fengið mig til að minnast einu orði á þetta meira.“ Sp.: En er þá hægt að fá þig til að segja eitthvað meira um kyn- þáttamálið? Charles: Það er allt annað mál.“ Hér er ekki rúm til að rekja þetta viðtal nánar, en lokaorðin voru þessi: Sp.: Sérðu eftir einhverju í líf- inu? Charles: „Allt það sem hefur borið fyrir mig í lífinu, bæði gott og slæmt, hefur kennt mér eitt- hvað. Ég hef reynt að halda í það góða og losa mig við hið illa um leið og ég uppgötvaði skaðsemi þess. Ég fæddist fátækur strákur í Suðurríkjunum. Ég er svartur, ég er blindur og var eitt sinn ofur- seldur eiturlyfjum. En öllu þessu má líkja við það að ganga í skóla, og ég hef reynt að vera góður nem- andi. Ég sé ekki eftir nokkrum sköpuðum hlut.“ (Sv.G. tók saman.)

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.