Morgunblaðið - 22.11.1983, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 22.11.1983, Blaðsíða 32
40 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 22. NÓVEMBER 1983 Minning: Asa Margrét Aðalmundardóttir Fsdd 5. september 1890. Dáin 9. nóvember 1983. Ása Margrét Aðalmundardóttir, húsfreyja á Þórsgötu 25 hér í bæ, lést á Landakotsspítala þ. 9. þ.m., 93 ára að aldri. Vegna hins háa aldurs og heilsuleysis, sem hún hafði átt við að stríða síðustu misserin sem hún lifði, kom frá- fa.ll hennar fjölskyldu hennar og vinum ekki á óvart. Ása fæddist 5. september 1890 á Eiði á Langanesi. Þremur árum síðar fluttust foreldrar hennar að Eldjárnsstöðum á Langanesi og átti Ása þar heimili til ársins 1917 er hún giftist Ara Helga Jóhann- essyni frá Ytra-Lóni á Langanesi. Ari hafði lokið prófi frá Gagn- fræðaskólanum á Akureyri og vakti þar á sér athygli sem mikill námsmaður enda hugði hann á langskólanám. En vegna heilsu- brests varð hann að hætta námi við Menntaskólann í Reykjavík og hverfa til heimahaga sinna. Eftir það að Ása og Ari gengu í hjóna- band bjuggu þau um skeið á Ytra- Lóni á móti Jóhannesi og Þuríði, foreldrum Ara, en 1930 fluttu þau með börnum sínum, en þau voru fimm að tölu er upp komust, á Þórshöfn á Langanesi. Stundaði Ari þar einkum unglingakennslu ásamt söngstjórn og kennslu i söng og hljóðfæraslætti, en hann var söngvinn mjög. Ása var einnig söngvin og lék vel á orgel. Var hún manni sínum mjög samhent um iðkun tónlistar. 011 voru börn þeirra söngvin og tóku flest þeirra síðar meiri og minni virkan þátt í opinberu tónlistarlífi hér í Reykjavík. Þau hjón fluttust til Reykjavík- ur 1935 og mun tilgangur búferla- flutningsins fyrst og fremst hafa verið sá að greiða fyrir skólagöngu barna sinna, en þrjú eldri systkin- in voru þá komin í framhalds- skóla, dæturnar, Guðrún og Þóra, í Kvennaskólann í Reykjavík og elsti sonurinn, Jóhannes, í Sam- vinnuskólann. En þremur árum eftir að fjöl- skyldan fluttist til Reykjavíkur, eða sumarið 1938, varð hún fyrir því þunga áfalli að heimilisfaðir- inn Ari féll frá, tæplega fimmtug- ur að aldri. Það varð þá hlutskipti Ásu, sem svo margra kvenna annarra er fyrir því hafa orðið að missa menn sína á góðum aldri frá stórum barnahópi, að sjá heimili sínu far- borða eftir því sem kostur var. Nú á dögum gera almannatryggingar þetta hlutskipti auðveldara en áð- ur var, en fyrir 45 árum voru þær lítils megnugar. Eldri systkinin höfðu þá lokið, eða voru um það bil að ljúka skólagöngu sinni, en þá var heimskreppan mikla enn í al- gleymingi, svo að unglingar, þótt lokið hefðu skólanámi sínu, gátu sjaldnast gripið upp góða og ör- ugga vinnu. Með hagsýni og dugn- aði og hjálp góðra manna tókst Ásu þó að halda heimili sinu sam- an og útvega eldri systkinunum viðunandi atvinnu. Dvöldu systk- inin öll á heimili móður sinnar þar til þau stofnuðu sitt eigið heimili. Yngri synina tvo, Þorstein og Jón, sem voru um og innan við ferm- ingaraldur er faðir þeirra féll frá, kostaði Ása til náms við mennta- skóla. Luku þeir báðir stúdents- prófi og hófu að því búnu háskóla- nám. Baráttu Ásu fyrir velferð barna sinna við erfiðar aðstæður lauk þannig með fullum sigri hennar, en miklar fórnir kostaði það hvað snerti vinnutíma og persónuleg lífsþægindi. Sá er þetta ritar kynntist Ásu fyrst fyrir 40 árum, er við Guðrún, eldri dóttir hennar, gengum i hjónaband árið 1943. Var Ása þá komin á sextugsaldur. Allmikið kynslóðabil var auðvitað okkar f milli og viðhorf okkar til ýmissa hluta því mismunandi. Ása var ekki í hópi þeirra sem bera tilfinn- ingar sínar á torg, og var jafnvel dul gagnvart þeim sem henni stóðu næst. En þó hún berði ekki bumbur til að vekja athygli á sér og skoðunum sínum, var jafnan hlustað með athygli á það í hópi vina og vandamanna, sem þessi greinda og hægláta kona hafði að segja. Hún hafði lfka miklu að miðla sökum langrar lífsreynslu og erilsams starfsdags. Þegar ég kynntist Ásu mátti segja að erfið- asti hjallinn f lffsbaráttu hennar væri að baki. En fórnarlund henn- ar, sem börn hennar höfðu í svo ríkum mæli notið og nutu raunar ávallt, kynntumst við sem síðar tengdumst henni þar sem var um- hyggja hennar fyrir barnabörnum sínum. Var hún jafnan til þess bú- in að taka börnin á heimili sitt um lengri tíma, bæði f veikinda- tilvikum og vegna fjarveru for- eldra, og veita þeim þá aðhlynn- ingu er best varð á kosið. Gestrisin var Ása með afbrigð- um og hafði jafnan, allt til hins siðasta, er hún gat vart stigið fram úr rúmi sínu, kaffi á könn- unni og meðlæti til að veita gest- um er að garði bar. Við, sem því láni áttum að fagna að tengjast Ásu fjölskyldubönd- um, erum ríkari af þeirri jákvæðu lífsreynslu, sem því fylgir að kynnast góðu og merku fólki. Blessuð sé minning hennar. Ólafur Björnsson Hinn 9. nóvember sl. andaðist í Landakotsspítala Ása Margrét Aðalmundardóttir. Hún var fædd á Eiði á Langa- nesi 5. september 1890 og var því fullra 93 ára er hún lést. Foreldrar hennar voru þau Guðrún Benja- mínsdóttir og Aðalmundur Jóns- son, dugmikil hjón og ráðdeildar- söm. Stóðu að þeim hjónum báð- um traustar og tápmiklar þing- eyskar bændaættir. Aðalmundur var t.d. orðlagður hreysti- og kjarkmaður. Var karlmennska hans á orði höfð, hvort sem hann þreytti fang við norðlenska miðs- vetrarbylji eða hann knúði árina í hörðum leik við Ægi á hafi úti. f bernsku fluttist Ása með for- eldrum sínum frá Eiði að Eld- járnsstöðum á Langanesi og þar ólst hún upp til fullorðinsaldurs í skjóli foreldra sinna. Þótt skóla- hald væri af skornum skammti á Langanesi í æsku hennar náði hún fyrir dugnað og greind mjög góð- um árangri i þeim námsgreinum sem krafist var til fermingar á þeim árum. Eftir fermingaraldur dvaldi hún um nokkurt skeið á Sauðanesi, hinu víðfræga prests- setri, hjá prófastshjónunum, séra Jóni Halldórssyni og frú Soffíu Danielsdóttur. Mörg hinna fornu prestssetra voru merk menntaset- ur, þar sem aðkomuungmenni nutu tilsagnar og fræðslu, bæði í bóklegum og verklegum efnum og reyndist sú leiðsaga oft hollt vega- nesti síðar í lífinu. Minntist Asa oft með þakklæti og hlýju á þessa dvöl sína á Sauðanesi og taldi hún að sjóndeildarhringur sinn hafi þá stórum víkkað, auk þess sem hún nam þar ýmislegt þarflegt bæði til munns og handa. Innan við tví- tugsaldur fór Ása til Akureyrar og dvaldi þar um tveggja ára skeið við nám í Húsmæðraskóla Akur- eyrar, sem á þeim tima þótti hin merkasta stofnun. Samtimis naut hún tilsagnar i söng og orgelspili hjá hinum víðkunna organista og söngstjóra Magnúsi Einarssyni. Árið 1917 giftist Ása Ara Helga Jóhannessyni á Ytra-Lóni á Langanesi og hófu þau búskap á Ví> jörðinni i sambýli við tengda- foreldra hennar, þau Jóhannes Jó- hannesson og Þuríði Þorsteins- dóttur. Bjuggu þau hjónin á Ytra- Lóni til ársins 1930, er þau brugðu búi og fluttust til Þórshafnar. Ari gerðist þar unglingaskólastjóri, auk annarra starfa sem hann hafði með höndum. Ari var fjöl- menntaður gáfumaður og voru kennslustörfin á Þórshöfn honum langtum hentari en búsýslan. Hann var einnig snjall hljómlist- armaður og söngstjóri, enda orgelleikari í Sauðaneskirkju í fjölmörg ár. Árið 1935 fluttist svo fjölskyld- an frá Þórshöfn til Reykjavíkur. Eftir komuna hingað starfaði Ari á Skattstofu Reykjavíkur meðan heilsa hans leyfði. Hann hafði þá um nokkurt skeið kennt sjúkleika sem ágerðist jafnt og þétt og ekki fékkst lækning við. Hann andaðist 20. júlí 1938, tæplega fimmtugur að aldri. Fráfall hans var reiðar- slag fyrir ástvini hans, eiginkonu, börn og náin skyldmenni fjær og nær. Eins og gefur að skilja stóð Ása í afar erfiðum sporum við andlát eiginmanns síns. En með frábærum dugnaði, ráðdeild og hagsýni, tókst henni að sigrast á mestu erfiðleikunum, enda voru eldri börnin, þó í skóla væru, farin að styðja efnahag heimilisins. Nokkru síðar festi Ása kaup á húseigninni Þórsgötu 25. Þetta heimili sitt gerði hún fyrir með- fæddan smekk og snyrtimennsku bæði vistlegt, hlýtt og fagurt. Þeim hjónunum Ásu og Ara varð 6 barna auðið. Eru það þau: Guðrún, gift Ólafi Björnssyni, prófessor; Þóra, gift Georg W. Sickels, magister; Jóhannes, þulur Ríkisútvarpsins, kvæntur Elísa- betu Einarsdóttur; Jón, lögmaður, kvæntur Margréti Jónsdóttur. Einn son á bernskualdri misstu þau 1925. Meðan ungmennahópurinn var allur heima á Þórsgötu 25 var þar oft glatt á hjalla. Hin lífsglöðu og glæsilegu systkini löðuðu skólafé- laga og vini að heimilinu og þar hljómaði oft hljóðfærasláttur og fjörugur söngur. Og húsfreyjan gladdist með æskunni, hún var sjálf söngelsk og naut þess að heyra hljómlist og bjartar raddir á heimili sínu. Ása var kona sem seint mun gleymast þeim er kynntust henni. Hún var frfð kona, einörð og sköruleg. Það var ávallt sérstök reisn og tiginn virðuleiki yfir henni. Viðmót hennar og klæða- burður vitnaði um smekk og hátt- vísi. Þótt efnahagur hennar væri fremur þröngur framan af, var heimili hennar alþekkt fyrir rausn og risnu, enda var hún gestrisin og naut þess að fá heimsókn vina sinna. Heimili hennar bar órækt vitni um fegurðarsmekk hennar, snyrtimennsku og reglusemi. Blómagarðurinn hennar bak við húsið var talandi vottur um natni hennar, nákvæmni og kunnáttu þegar blóm voru annars vegar. Ása var prýðilega greind og góð um margt frá fyrri tíð, enda lærð í Iöngum og viðburðaríkum skóla lífsins. Lífsreynsla hennar hafði gert hana raunsæja og glögg- skyggna á menn og málefni. Oft minntist hún á óhóf og tildur nú- tímans, sem henni fannst augljóst fráhvarf frá fornum og hollum dyggðum, sem höfðu verið kjöl- festa þjóðarinnar í ólgusjó þjóð- lífsins á liðnum öldum. Ása var skapföst kona, einlæg og trygg. Hún var traustur vinur vina sinna og naut þess að ræða við þá, ýmist um dægurmálin eða atburði lið- inna ára. Hún var alla ævi and- lega sterk og kjarkmikil. Kom það skýrast í ljós síðasta tímann er þróttur hennar var að þrotum kominn, og hún vissi að hverju dró. Það var birta og friður yfir ásjónu hennar þar til yfir lauk. Hún efaði heldur ekki að bjartur morgunn æðra lífs rynni upp eftir dauðans dimmu nótt. Síðasta tímann naut hún frá- bærrar og einstæðrar ástúðar og umhyggju barna sinna og nánasta skylduliðs. Það er bjart yfir minningum mínum um Ásu mágkonu mína. Þegar í æsku minni tengdust þau vináttubönd okkar á milli, sem aldrei rofnuðu, en urðu því traust- ari eftir því sem árin liðu. Ég kveð kæra mágkona mína með hjartans þökk fyrir órofa tryggð og vináttu og hugljúfar samverustundir fyrr og síðar. Friður Guðs og handleiðsla fylgi henni til ljóssins heima, þar sem lífið er sigur og eilíf náð. Þorsteinn Jóhannesson. Minning: Benedikt Jóhann- esson Saurum Fæddur 14. janúar 1914 Dáinn 25. október 1983 Dagur er að kvöldi kominn. Kvöld er einnig komið og dagur lífsins liðinn hjá kærum vini, sem við fylgdum síðasta spölinn í dag, 4. nóvember. Nú þegar ég er komin heim get ég ekki orða bundist og vil minn- ast þess góða og mæta manns, Benedikts Jóhannessonar. Hann lést 25. október og var útförin gerð frá Dalabúð að ósk hans sjálfs, en jarðsett var í Hjarðarholtskirkju- garði. Benedikt Jóhannesson var fæddur 4. janúar 1914 og hefði því orðið sjötugur á næsta ári. En tíminn var liðinn, stundaglasið út- runnið. Sá sjúkdómur sem erfitt reynist að sporna við hafði búið um sig og þegar svo er komið að þjáningin ein er eftir er lausnin best. Benedikt var fæddur og uppal- inn Dalamaður og bjó á Saurum alla tíð. Hann kvæntist Steinunni Gunnarsdóttur, móðursystur minni, frá Grænumýrartungu. Þau eignuðust 3 börn. Þeim frændsystkinum mínum sendi ég og fjölskylda mín innilegar sam- úðarkveðjur. Alla tíð hef ég átt ánægjulegar stundir hjá þeim elskulegur Saurahjónum, Steinu frænku og Benna. Ekkert sumar hefur mér fundist vera ef ég hef ekki getað farið vestur í Dali. í mínum huga er þar alltaf sól og sumar, ef ekki úti, þá inni. Þar kemur Steina frænka út á hlað og tekur á móti mér með opinn faðminn, og Benni með hlýtt bros og þétt handtak. Margt var nú spjallað og spaugað í eldhúsinu á Saurum í rökkri síð- sumarskvöldsins. Það verður ekki rifjað upp hér en það er geymt en ekki gleymt. Það var sama hvað ég dvaldi lengi og hvað fjölskylda mín stækkaði, aldrei var ég nógu lengi og alltaf sögðu þau Steina og Benni að ég væri rétt nýkomin. Aldrei verður hin sanna vinátta metin til fjár, aldrei þökkuð sem skyldi, né í orð færð. Benni var með búskap á Saurum, en var smiður að aðalstarfi, og hann var meira en smiður eins og það starf er þekkt í dag. Því tæki hann að sér byggingu húss, þá byrjaði hans starf með því að mæla fyrir bygg- ingunni, oft jafnvel velja staðinn, slá upp timbri, steypa, og svo stig af stigi, uns húsið var fullbúið utan sem innan. Benni var formaður bygginga- nefndar við félagsheimili Dala- manna, Dalabúð, og vann hann mikið að því frá upphafi. Var það hans hugsjón að sjá það rísa og að það yrði sem best úr garði gert. Mér er óhætt að fullyrða að af öll- um þeim sem þar lögð hönd á plóginn þá á Benni flest handtökin í Dalabúð, og öll eru þau góð og vel gerð. Eins og að framan greinir var það að ósk Benna sjálfs að út- förin færi fram frá Dalabúð, sök- um þess hve Hjarðarholtskirkja rúmar fáa. Þvi hafði hann svo oft kynnst á liðnum árum, en hann var meðhjálpari í Hjarðarholts- kirkju um árabil. Það lýsir Benna vel að hugsa fyrst og síðast um hag samferða- mannanna. Þau eru ófá trúnað- arstörfin sem Benni gegndi um dagana, m.a. oddviti, fulltrúi Brunabótafélagsins, formaður sóknarnefndar, ásamt fleiru. Hann bar hag kirkjunnar og starfsins innan hennar mjög fyrir brjósti og vann að sífelldum endurbótum á þeim vettvangi. Það má með sanni segja að á Saurum væri um þjóðbraut þvera að fara. Mér finnst, er ég hugsa til baka, að alltaf hafi verið stöðugur straumur manna heim að Saurum til að hitta Benna. Ræða málin, og b'gKÍa góð ráð. Þar var sá maður sem mátti treysta og leysti hvers manns vanda með öryggi og festu og ekki var djúpt á spauginu, því húmorinn var alltaf til staðar. Margir eru þeir menn sem hafa verið í vinnu hjá Benna í hans ævistarfi við smíðar í sveitinni og alltaf var hann jafn vinsæll og margur maðurinn batt bönd traustrar og ævilangrar vináttu í starfi hjá Benna, hvort heldur það voru fullorðnir menn eða ungl- ingar. Þetta segir allt sem segja þarf um diplómatíska hæfileika Benna. Verkin sýna merkin. Elsku Steina mín, innilega votta ég þér samúð mína, þinn andlegi styrkur skyldi vera öðrum til eft- irbreytni. Alla daga var yndislegt að koma að Saurum til ykkar hjóna. Góður Guð leiði Benna nú um nýja vegu, um nýja Dali, nýtt að starfa Guðs um geim. Ingunn Ragnarsdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.