Morgunblaðið - 29.12.1984, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 29.12.1984, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 29. DESEMBER 1984 33 Elín Kristjáns- dóttir - Minning Fædd 8. september 1915 Dáin 15. desember 1984 Ef ég sjúkleik þjáður þreyi þungt ef styn ég dag og nátt Guðsson mælir „Grát þú eigi, græða vil ég sár þín brátt, gegnum neyð þér ætlað er inn að ganga í dýrð hjá mér.“ (H. Hálfd.) Strangri sjúkralegu er lokið, ævigangan á enda hjá vinkonu minni Elínu Kristjánsdóttur. Það er margt sem á hugann leit- ar þegar vinir og ættingjar kveðja okkar jarðneska heim, liðnar sam- verustundir koma upp í hugann ein af annarri, þannig varð mér innanbrjósts þegar mér barst fregnin um andlát Ellu, en svo var hún ávallt kölluð af ættingjum og vinum. Til er málsháttur, „Bragð er að þá barnið finnur" og oftast hafður á orði er börn aðlagast einhverj- um. Börnum er það sérlega mikils virði að þeim sé sýnd einlægni, réttlæti og hlýja af fullorðnum sérstaklega, og á því hafði Ella í ríkum mæli skilning á, enda löð- uðust mörg börn að henni, skyld og vandalaus. Málshátturinn er að framan greinir segir kannski í rauninni flest það í fáum orðum er ég rifja upp með mörgum frá kynnum okkar EUu, en sem lítil hnáta utan af landsbyggðinni eru mínar fyrstu Reykjavíkurferðir með foreldrum mínum tengdar EIlu og Jóa. En hún gekk að eiga eftirlifandi eigimann sinn, Jó- hannes Hannesson bifreiðastjóra, 10. desember 1938 og eignuðust þau þrjú börn, Guðlaugu, Hannes og Svavar. Ég man er ég kom fyrst til þeirra hjóna á Rauðarárstíginn þar sem þau bjuggu þau, en síðar byggðu þau sér hús að Blönduhlíð 22 og þar stóð heimili þeirra í 36 ár, og er mér skýr fyrir hugskots- sjónum hlýjan og gleðin er þar ríkti alla tíð, og ávallt var það gleðiefni hjá þessari litlu hnátu að fá að verða eftir, er heim átti að halda frá Reykjavík, og dvelja næturlangt hjá þeim hjónum og þar sem Guðlaug var þar að auki jafnaldra og elskuleg stúlka í alla staði var ánægjan enn meiri. Og það var þungur harmur þeim hjónum að sjá á eftir einkadóttur- inni, en hún andaðist á besta aldri fyrir þremur árum frá elskulegum eiginmanni og þremur dætrum eftir erfitt en þungbært sjúk- dómsstríð sem hún barðist við af hetjulegum og óskiijanlegum mætti, en varð að lokum að lúta í lægra haldi fyrir, og hefur henni þá trúlega verið, mitt í þjáningum og angist, hugsað til þess að hlýtt skjól stæði opið fyrir dætrum hennar hjá ömmu og afa í Blöndu- hlíðinni og hefur það skjól þeirra líka verið umvafið kærleika og ástúð. En nú er amman kölluð frá þeim líka, en afinn heldur áfram að vera fasti punkturinn í Blöndu- hlíðinni börnum, barnabörnum og tengdabörnum. Heimilið var vettvangur Ellu og því helgaði hún alla krafta sína, og þar var alltaf tekið vel á móti þeim er að garði bar, hvort sem þeir voru stutt að komnir eða lengra frá og ótalin eru þau mörgu spor og snúningar er óneitanlega voru því samfara, ásamt því að annast sín börn, og hafa um lengri tíma í sinni umsjá á heimilinu tengdamóður sína og svo móður, en alltaf var viðmótið hið sama glaða og hlýja, og boðin og búin var hún að leysa úr hvers manns vanda ef hún bara mögu- lega gat og reyndi ávallt að sjá jákvæðu hliðar málanna. Það er ljúft að eiga góðar minningar frá liðnum æskudögum til að ylja sér við er árin færast yfir, og þá verða oftast björtu minningarnar ofar öllu dagsins amstri. Elín var fædd að Minna-Núpi í Vestmannaeyjum og ólst þar upp, og hafði djúpar og hlýjar tilfinningar til æskustöðv- anna og fann ég það best er hún nú í haust sársjúk rifjaði upp liðna tíð í eyjunum sínum með okkur Guðnýju, systur minni, er við sátum við sjúkrabeð hennar, og var sem æskuljóma brygði yfir andlitið er hún rifjaði upp ýmis- legt, og minntist þakklát forsjón- inni fyrir að þau hjónin skyldu hafa haft tækifæri til að dvelja með niðjum sínum og vinum ógleymanlegar stundir í síðustu ferð á Þjóðhátíð, og hafði á orði hversu ótrúlega mörgu.væri hægt að halda með sama sniði og áður fyrr þrátt fyrir ýmsar nýjungar sem voru bara til bóta. En fyrir þessa ógleymanlegu ferð var hún þakklát öllum sem hún var sam- vistum við þá. Eins var hún þakklát fyrir hversu starfsfólk og læknar sem önnuðust hana á Landspítalanum voru full umönnunar og vildu allt fyrir hana gera. Þá kemur sú hugsun upp í huga manns, hversu gott væri að hafa að leiðarljósi þetta jákvæða hugarfar og væri mörgum ævigangan léttbærari svo ekki sé talað um er sjúkleiki fer að taka heljartökum á mannfólknu. Ég er þakklát fyrir að hafa átt þess kost að hafa kynnst henni og átt hana að vin bæði sem barn og alla tíð síðan. Ég votta eigin- manni, sonum, tengdadóttur, barnabörnum og langömmu- drengnum, aldraðri móður og systrum innilega samúð mína og bið góðan Guð að styrkja þau öll. „Far þú í friði friður Guðs þig blessi hafðu þökk fyrir allt og allt.“ Halldóra V. Steinsdóttir Einar Magnús- son — Kveðja Fæddur 10. september 1933 Dáinn 9. desember 1984 Langir eru dagar, enn lengri nætur geigurinn og beygurinn grípa um hjartarætur — marbendill situr í sölvafjöru og grætur. Þung er sú þögn í landi — álfar ugga um sinn hag Þá horfið er af heiminum brott það Ijúflingslag — lindin spyr vindinn hví syngur hann ekki í dag? Segðu mér að sunnan, ó sæli öðlingur fljóða sem heillaðir allra harm og fögnuð í hjartað þitt góða: er þögnuð dýr þín lýran Ijóða? (Úr Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum.) Nú, þegar leiðir skilur, rifjast svo ótalmargt upp sem vert er að minnast. Því langar mig til að bregða upp nokkrum svipmyndum af samskiptum mínum við Einar frænda minn. Fyrst kemur mér í hug bangs- inn sem Einar gaf mér þegar ég var ungbarn og ekki farin að tala. Bangsinn sá situr enn á rúminu mínu, eilítið þreyttur, og er af annar fóturinn, en samt — alltaf jafn hlýlegur. Ekki leið á löngu þar til ég fór að tala og þótti þá mörgum nóg um. Einar var greini- lega í þeim hópi, því eitt sinn taldi hann mér trú um að við hefðum öll nokkurskonar málbein, sem eydd- ist við notkun. Ég get enn hlegið við tilhugsunina um hvað ég varð óskaplega hrædd um að verða mállaus fyrir aldur fram. Fyrstu árin mín leigði Einar hjá okkur á Austurgötunni heima í Stykkishólmi og frá þeim tíma er ýmislegt að finna í handraða minninganna. Mér dettur t.d. í hug skipti sem báturinn hans hafði siglt og herbergið hans var, að því er mér fannst, fullt af „út- lensku gotti". Ég naut auðvitað góðs af og var ekki svo lítið stolt af því að eiga frænda sem var ný- kominn frá útlöndum, þegar ég veifaði góssinu framan í krakkana í nágrenninu. Svo kynntist Einar konunni sinni, henni Guðnýju. Hafi ég haldið að við það myndi ég tapa frændanum kom fljótt annað á daginn, því nú átti ég þau bæði að, hann og Guðnýju. Svo fæddust strákarnir, Magnús og Éinar Þór, og var alltaf spennandi að fá að passa. Enn liðu árin og ég fór að vinna í skelfiski undir verkstjórn Ein- ars, hvar ég vigtaði og pakkaði. Ég gleymi því seint þegar hann tók sig til og vigtaði fyrir mig. Afköst- in voru slík að aldrei tókst mér að hafa undan þó ég hamaðist sem ég mátti. En það var nú líka alltaf svolítið gaman að spreyta sig. Nú síðustu árin einkenndust samskipti okkar Einars öðru fremur af líflegum samræðum um landsins gagn og nauðsynjar. Því fór fjarri að við værum alltaf sammála, en hann kunni að hlusta og bar alltaf virðingu fyrir skoð- unum mínum þó ég væri bara „litla frænkan hans“. En það var líka eins gott að rökstyðja mál sitt almennilega, því sjálfur var Einar rökfastur í málflutningi sinum. Það vill til að það var ekkert til í þessu með málbeinið. Þetta síðasta árið breyttist margt. Barátta hins daglega lifs varð að baráttu fyrir lífinu. í henni stóð Guðný við hlið hans og tók við öilum ágjöfum með honum. Þrátt fyrir þessa erfiðleika var hann alltaf sami gamli góði Einar, og ótrúlegur styrkur hans breytt- ist aldrei í hörku. Ef eitthvað var, fann maður fyrir meiri hlýju i fari hans en áður. En stríðinu er lokið. Lýran hans hljómar ekki lengur i eyrum okkar, en hún heldur áfram að hljóma í sálum okkar meðan lífs- neistinn okkar logar. Guðný, Magnús og Einar Þór, megið þið öðlast styrk til að standa án hans í brúnni og stýra fleyinu, ykkur til heilla. Sigurborg Kveðja: Ásgrímur Páls- son Eyrarbakka Er hylur ljórann hélurós og herðir frost... Þá berst okkur sú harmafregn að Ásgrímur Pálsson vinur okkar og ferðafélagi sé lát- inn. Við stöndum eftir svo hjálp- arvana og hnípin. Minningarnar hrannast upp i hugann, hver annarri bjartari og fegurri, því þannig var hann: Hvers manns hugljúfi, sem aldrei mátti vamm sitt vita, yfirvegaður og traustur, en fyrst og fremst fágætt ljúfmenni. Það var gott að eiga hann fyrir félaga og vin, sem hægt var að leita til, þegar á þurfti að halda. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast slíkum manni og gleðjast með honum á ótal stundum. í desembermánuði fyrir nokkr- um árum gengum við saman um snæviþakið landið okkar, baðað tunglskini og tignarlegir jöklar gnæfðu allt í kring. Þá var bjart sem á degi, aðeins örlítið blárra og eins og að ganga í undraheimi úr silfri. Þar kom okkur saman um að vetrarferðir væru ekki síðri kostur, jafnvel betri, enda hentaði sá timi Ásgrimi betur til ferðalaga söknm anna á sumrin. Hann hefur nú lagt upp í sína hinstu ferð á þessum sama árstíma undir skini norðurljósa og stjarna og allar góðar óskir fylgja honum. Eiginkonu og ástvinum öllum sendum við samúðarkveðjur. Guð gefi þeim styrk og honum góða ferð. Ferðafélagar SVAR MITT eftir Billy Graham Trú og stjórnmál Presturinn okkar er „frjálslyndur". Hann segir, að prestar eigi að taka þátt í stjórnmálabaráttunni, enda sé Daníel fyrirmynd úr Riblíunni. Segir hann, að Daníel hafi rutt sér braut inn í stjórnmál- in til þess að velta Nebúkadnesar úr sessi, en hann hafi verið spilltur konungur. Eruð þér á sama máli? Hugsanlegt er, að þér hafið misskilið prestinn yðar. Lesið rit Daníels með athygli. Þá sjáið þér, að Daníel hafði ekki stjórnmál í huga, þegar hann fékk manna- forráð. Satt er það, að Nebúkadnesar var vondur kon- ungur á margan hátt, en hvergi vottar fyrir því, að Daníel hafi viljað kollvarpa honum né ætlað sjálfum sér eða þjóð sinni pólitísk forréttindi. Barátta Daníels var fyrst og fremst trúarleg. Eini tilgangur hans var að sýna konungi og þjóðinni, að goð Babýlóníumanna væru falsgoð og að Drottinn Guð hans væri hinn eini, sanni Guð. Ég lít svo á, að þetta sé einmitt skylda sérhvers prests og kristins manns. Heimurinn dýrkar skurðgoð í jafnríkum mæli nú og þeir Babýlóníumenn, og það er meginhlutverk okkar, eins og Daníels, að bera sönnum Guði og syni hans, Jesú Kristi, vitni. Ég skal ekki skera úr um það, hvort kristinn maður eigi að hafa stjórnmál að ævistarfi. En æðsta verkefni okkar er að sýna í orði og verki, að Guð sé hinn eini, sanni Guð. Páll postuli lifði í heimi, þar sem ranglætið í þjóðfé- laginu var skelfilegt, en hann sagði: „Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar nema Jesúm Krist og hann krossfestan." ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og minn- ingargreinar verða að berast blaðinu með góðum fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í mið- vikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. í minn- ingargreinum skal hinn látni ekki ávarpaður. Þess skal einnig getið, af marggefnu tilefni, að frumort ljóð um hinn látna eru ekki birt á minningarorðasíð- um Morgunblaðsins. Handrit þurfa að vera vélrituð og með góðu línubili.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.