Morgunblaðið - 11.08.1985, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 11.08.1985, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 11. ÁGÚST 1985 B 15 EINAR THORODDSEN, LÆKNIR, SEGIRFRÁ EINU ÁHUGAMÁLA SINNA „Þa5 þarf oft að bera í bætifláka fyrir vín Hann er dellukarl. Eitt af aðaláhugamálum hans eru vin. Þá aðallega rauðvín. Og þó. Hann hef- ur líka lagt sig eftir að kynna sér eðli hvítra vína, kampavína og púrtvína. Hann talar um vín eins og vini sína og ræðir „persónuleika" þeirra eins og þau væru í nánasta ættingjahópi. Einar Thoroddsen, háls-, nef-, og eyrnalæknir, hefur nú í tólf til fjórtán ár lagt sig eftir þess- um fræðum, sem þykja meðal göf- ugri fræða í Frakklandi, og þangað hefur hann meðal annars sótt sína vitneskju. „Það voru þau hjónin Susan og Ingólfur Guðjónsson, sálfræðing- ur, sem vöktu áhuga minn á þessu. Þau töluðu oft um „per- sónuleika" vína, nokkuð sem ég hafði ekki velt fyrir mér áður. Hennar uppáhald var Claret, Bordeaux-vín, sem dregur nafn sitt af ljósum lit, sem var á þeim fyrr á tímum. Ég fór þá að velta því fyrir mér hvers vegna sum rauðvín væru svona mikið dýrari en önnur, rauk í ríkið og keypti mér dýrasta vínið, Cos d‘ Est- ournel — síðan hefur ekki sést tangur né tetur af því,“ segir Ein- ar Thoroddsen er hann rifjar upp hvernig á þvi stóð að hann fór að velta þessum málum fyrir sér yf- irleitt. „Það er mikið atriði í þessu eins og svo mörgu öðru að lesa sér til. Lesa allt sem maður kemst yfir og fara svo í gang með smakkið. Þá er aðalatriðið að fara eftir smakkformúlunni. Nota skynfærin. Horfa-þefa- smakka-tala. Þetta síðastnefnda hljómar kannski furðulega, en það er ekkert varið í þetta ef ekki er hægt að' ræða hlutina fram og aftur. Það þarf til dæmis oft að bera í bætifláka fyrir vín. Stund- um hefur vín leyfi til að vera verra en það á að sér — það getur t.d. verið vegna þess að það er of ungt eða of gamalt. Þá lifir það á frægðinni," segir Einar. „Nú, svo er það alltaf viss íþrótt að sjá fyrir um framtíð vínsins. Fínustu rauðvínin, svo ekki sé talað um portvínin, eru oft með öllu ódrekkandi í byrjun miðað við það sem þau eiga eftir að verða," segir hann af mikilli innlifun um leið og hann bregður sér fram til að huga að tveimur rauðvínsflöskum sem hann opnaði fyrir stundu síðan. Önnur þeirra, Hospices de Beaune árg. 1971 er frá Búrgundarhéraðinu, en hin Chateau Léoville-Las Cas- es, árg. 1976, er frá Bordeaux- héraðinu. Einar segist fyrst hafa einbeitt sér að rauðvínum, en siðan einnig farið að huga að hvítvínum með tímanum. „Það er meiri munur á rauðvinum en hvítvínum og það eru fleiri góð rauðvín en hvítvín," fullyrðir hann. Hann hefur i gegnum tíðina sótt nokkur nám- skeið í vínsmökkun í Frakklandi. Frést hefur af honum þar sem hann hefur geyst á mótorhjóli um það land þvert og endilangt í öðr- um erindagjörðum en flestir sem ferðast um á slíkum farar- tækjum. Hann segir að það sé geysilega skemmtilegt að kynn- ast vínræktarhéruðunum á þenn- an hátt, en oftast halda svokall- aðar vínnefndir héraðanna þessi námskeið. Háskólarnir halda líka mikið af námskeiðum í þessum fræðum, en í Frakklandi og víðar njóta þau mikillar virðingar. „Það er feikigaman að sækja svona námskeið. Þau sækja yfir- leitt vínkaupmenn og kjallara- meistarar fyrir utan áhugafólk. Á hverju námskeiði eru yfirleitt um 30—35 manns og fær maður tilsögn í öllum mögulegum atrið- um er þessu tengjast. Annars er sama hvað maður æfir sig mikið, maður gerir alltaf mistök. Það er til dæmis gjarnan sögð sagan af þeim fimm vínframleiðendum í Bordeaux sem framleiða bestu vínin. Þeir komu saman og smökkuðu blint, eins og það er kallaö, þ.e. þeir vissu ekki hvaða vín þeir voru að bragða hverju sinni. Þegar allt kom til alls þekktu þeir ekki sitt eigið vín frá hinum,“ segir Einar, en nú er komið að því að huga að vínunum frammi í eldhúsi á ný. Hann hellir Búrgundarvíninu Hospices de Beaune fyrst varlega yfir í karöflu eftir kúnstarinnar reglum. Flaskan er borin upp að ljósi til að athuga það sem sest hefur til og síðan er öllu haldið hátt á lofti og hellt yfir í karöfl- una með ljósgeislann í gegn. Á þennan hátt hreyfist gruggið sem minnst í flöskunni og auðveldara er að vera viss um að ekkert af því fari með i karöfluna. Borde- aux-vínið reynist ekki vera það gamalt að það sé farið að setjast til i þeirri flösku og er því ekki hellt á milli, eins og það er kallað á fagmáli sérfræðinganna. Þá er komið að hátíðlegustu stund vínsmakkarans og þeirri sem beðið hefur verið eftir. Fyrst er að virða fyrir sér útlit vínsins, tærleika, lit og litadýpt. Glasinu er lyft upp, það borið upp í ljósið og vegið og metið vandlega. Þá er að þyrla vininu í glasinu, það eyk- ur ilminn af því og er fyrsta stig lyktgreiningar oft að reyna að skilja á milli hvort um er að ræða berjalykt eða blóma (bouquet). „í upphafi er oft um að ræða berja- lykt af vínum, sem breytist svo yfir í blóma með aldrinum," segir Einar áður en hann bragðar á. „Aðalatriðið er að taka nógu stóra sopa til að enginn bragð- laukur verði útundan. Og það Búrgundarvíninu Hospices de Beaune hellt yfir í Karöflu. MorgunblaöiA/Árni Sæberg þýðir ekkert að bjóða þeim upp á eitthvert smálag. Þetta verða að vera almennilegir sopar," segir Einar sposkur og veltir víninu um munninn áður en hann gefur upp álit sitt eftir fyrsta sopann. Einar leikur síðan sama leikinn með Bordeaux-vínið og niðurstöðuna er skömmu síðar að fá. „Búrgundarvínið er mýkra, meiri fylling. Það er súrt en mað- ur finnur ekki fyrir því vegna þessarar miklu mýktar og af því er meira jarðarberjabragð en af Bordeaux-víninu. Þar situr meira sólberjabragð í fyrirrúmi og það er stamara í munni vegna þess hve ungt það er. Búrgundar-vínin eru gjöfulli, þau koma til dyranna eins og þau eru klædd. Maður finnur þetta jarðarberjabragð af þeim meðan þau eru ung, en það breytist síðan yfir í nokkurs kon- ar reykbragð, sem er þyngra," segir Einar. Hann bendir á hversu mikil- vægt sé að drekka vín úr réttum glösum. „Glösin eiga að mjókka upp og vera á fæti þannig að maður þurfi ekki að taka um belginn og káma glasið út. Glösin verða líka að vera nógu stór og mikið atriði er að fylla ekki glös- in um of eins og oft vill brenna við á veitingahúsum. Þá er ekki hægt að velta víninu um glasið til að fá almennilega angan upp úr glasinu. Nú, svo er mikið atriði að glösin séu tær og helst ekki mikið útskorin, þó því sé ekki að neita að það er visst gaman að drekka vín úr útskornum kristalsglösum, segir Einar. Einar hefur verið félagi í Vín- og matarklúbbnum sf. frá stofn- un hans skömmu fyrir síðustu áramót, en hann er eini opni klúbburinn hér á landi sem þjón- ar fólki með vín sem áhugamál. Svo eru nokkrir minni klúbbar starfandi, og er Einar meðlimur í einum slíkum. „Við hittumst á tveggja mánaða fresti, borðum góðan mat og smökkum vín. Þetta er skemmtilegt og hvetj- andi,“ segir Einar, en hann hefur skrifað um vín fyrir tímaritið Storð. „Það er takmarkað úrval af góðum vínum í Áfengis- og tób- aksverslun ríkisins, en það er hægt að sérpanta aðrar tegundir í gegnum hana ef áhugi er fyrir því,“ segir Einar en bætir við: „Ég reyni hins vegar að leita uppi ákveðnar tegundir vína þegar ég er á ferðinni erlendis og borga þá toll af þeim þegar ég kem inn í landið." Hann segir að undanfar- ið hafi vín frá Ástralíu, Kali- forníu, Chile og Argentfnu verið að sækja mjög á og sé spennandi að fylgjast með þeirri þróun. „Það er hægt að ræða fram og aftur um vín og „persónuleika" þeirra. Það má segja að þetta sé alveg eins og með bílana. Þeir hafa líka sinn „persónuleika", hver um sig. Sumir þýskir bílar eru t.d. að mínu mati alveg dauðhreinsaðir og fara um eins og hvítir stormsveipir. Sömu sögu má segja um suma japanska bíla, þeir hafa bara einum takka meira en aðrir bílar, en vantar „per- sónuleika“. Þeir eru gerðir með fjöldann í huga sem þýðir oft að þeir eru sviplausir en ekkert ósmekklegir í útliti," segir Einar hugsandi og víkur talinu að smekk. „Hann hefur auðvitað mikið að segja í þessum efnum, en þeir sem hafa kannað þessi fræði segja einfaldlega að góð vín falli betur í smekkinn. Eg veit ekki hvort ég er nokkuð að reyna að bæta um betur í þessu sam- bandi,“ segir Einar að lokum. EJ Fyrst er að hella ... Svo er að horfa og þyrla víninu í glasinu. Lyktin getur sagt manni margt. Einar bragðar á hugsandi á svip. Og svo er að draga ályktanirnar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.