Morgunblaðið - 16.07.1989, Side 17
sinnum Castros í marz 1958 tók
hann þátt í töku borgarinnar Santa
Clara, sem átti mikinn þátt í því að
Batista einræðisherra flúði land.
Eftir byltinguna hjálpaði hann
skæruliðum í Venezúela.
Á árunum 1975-1976 var hann
yfirmaður kúbverskra fótgönguliða
í Angóla. Síðan stjórnaði hann sigur-
sælli sókn kúbversks skriðdrekaliðs
gegn Sómölum í Ogaden-stríðinu.
Um tveggja ára skeið var hann yfir-
maður kúbverskra hernaðarráðu-
nauta í Nicaragua og átti þátt í raun-
verulegum sigri sandinista á
kontra-skæruliðum.
í desember 1987 tók Ochoa við
yfirstjórn kúbverska herliðsins í Suð-
ur-Angóla og stjórnaði síðustu orr-
ustum þess við Suður-Afríkumenn.
Skömmu áður höfðu Kúbveijar beðið
mikinn ósigur við ána Lomba, en
Ochoa tókst að hrinda þremur skrið-
drekaárásum Suður-Afríkumanna í
ársbyrjun 1988. Tilgangur árásanna
var að hrekja Kúbverja og Angóla-
menn frá austurbakka árinnar Cuito
og Castro líkti örvæntingarfullri
vörn bæjarins Cuito Cuanavale við
orrustuna um Stalíngrad.
Fílabeinssmygl
í réttarhöldunum viðurkenndu
Ochoa og fleiri sakborningar að þeir
hefðu stundað smygl og svartamark-
aðsbrask í Angóla. Meðal þess sem
þeir smygluðu og seldu voru demant-
ar, fílabein, 'sykur, hveiti; romm,
fágætar viðartegundir og sjónvarps-
tæki. Gróðann notuðu þeir til að
hasla sér völl á sviði eiturlyfjavið-
skipta.
Ochoa kvaðst hafa talið að sam-
vinna hans við kólombísku kókaín-
barónana mundi hjálpa ríkinu. Öll
ólögleg viðskipti hans hefðu þjónað
þeim tilgangi að afla erlends gjald-
eyris til að reisa hótel fyrir skemmti-
ferðamenn í Varadero. „Efling
ferðamannaþjónustu yrði Kúbu lyfti-
stöng,“ sagði hann. Hann bar sig
vel í réttarhöldunum, þótt hann
væri stöðugt auðmýktur, virtist
sannfærandi og játaði allt sem hann
var sakaður um.
Hann héit því fram að Castro
hefði ekkert vitað um eiturlyfja-
viðskiptin. Hann kvað ekkert hæft
í því að hann hefði verið leiddur
fyrir rétt vegna andstöðu við Castro,
neitaði því að hafa unnið gegn bylt-
ingunni og sagðist enn vera „sannur
byltingarmaður". „Ef ég verð dæmd-
ur til dauða mun síðasta hugsun
mín snúast um Fidel og byltinguna,
sem hann hefur fært þjóðinni," sagði
hann.
Yfirmaður leyniþjónustu hersins,
Manuel Fernandez Crespo hershöfð-
ingi, sagði að sakborningarnir ættu
ekki aðeins sök á spillingu í heraflan-
um, þeir hefðu unnið gegn öryggi
landsins með því að hleypa smyglur-
um inn í lögsögu Kúbu. „Við teljum
þetta landráð," sagði hann. „Þeir
hafa svikið landið." Ochoa tók fús-
lega undir það. „Ég sveik landið,"
sagði hann, „og menn verða að
gjalda fyrir það með lífinu . . . ég
fyrirlít sjálfan mig .. . ég hef enga
ástæðu til að lifa.“
Byltingarsamsæri?
Þegar Ochoa var handtekinn 12.
júní stóð hann á hátindi frægðar
sinnar. Til stóð að gera hann yfir-
mann hersins á Vestur-Kúbu, einu
þriggja herstjórnarumdæma lands-
ins. A næstu 25 dögum var hann
sviptur öllum heiðursmerkjum, þing-
mennsku og sæti í miðstjórn komm-
únistaflokksins, rekinn úr hernum
og loks dæmdur til dauða fyrir eitur-
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 16. JULI 1989
Kúbverskir
hermenn í
Angóla: óán-
ægja í hernum.
lyfjasmygl.
Ochoa hafði notið allra þeirra for-
réttinda, sem „byltingaraðlinum"
getur veitzt. Forréttindum sínum og
völdum stefndi hann í hættu fyrir
hlut í þremur og hálfri milljón doll-
ara, sem hann gat ekki eytt á Kúbu
án þess að vekja grunsemdir.
Áður en málið varð uppskátt virt-
ist ræða, sem Raul Castro, bróðir
Fidels og landvarnaráðherra, hélt á
fundi með liðsforingjum, benda til
þess að eitthvað alvarlegt væri á
seyði á Kúbu. Raul sagði að „Fidel
væri pabbi okkar“ og kvaðst mundu
standa með Rússum fram í rauðan
dauðann. Ef einhveijir yfirmenn í
heraflanum væru óánægðir á Kúbu
skyldi hann sjá til þess að þeir fengju
að fara til Ungverjalands eða Pól-
lands.
Ýmsir telja að Ochoa hafi keppt
að því að ná völdunum þegar Fidel
fellur frá (Fidel er 62 ára og hefur
skipað Raul eftirmann sinn). Ekki
er talið ólíklegt að hann hafi ætlað
að nota gróðann af aðstoðinni við
Medellin-hringinn til að gera draum
sinn um að ná völdunum að veru-
leika. Vera má að hann hafi ætlað
að koma á sams konar breytingum
á Kúbu og Míkhaíl Gorbatsjov í Sov-
étríkjunum og Castro-bræður hafi
brotið samsæri hans og stuðnings-
manna hans á bak aftur undir því
yfirskini að þeir hafi stundað eitur-
lyfjabrask.
Ásakanirnar gegn Ochoa eru ein-
kennilegar að sögn brezka blaðsins
Sunday Telegraph. Nafn hans er
hvergi að finna í ítarlegum skýrslum
bandarískra yfirvalda um milli-
göngumenn Medellin-hringsins.
Hins vegar var einn af dómurum
Ochoa, Aldo Santa Maria varaaðmír-
áll, yfirmaður sjóhers Kúbu, ákærð-
ur fyrir eiturlyfjasmygl í Miami að
honum fjarstöddum fyrir fjórum
árum. Sumir telja að það geti bent
til þess að eiturlyfjasmygl hafi ekki
verið ástæðan fyrir réttarhöldunum
gegn Ochoa, heldur alvarlegasta
ógnunin við völd Fidels Castros í 30
ár.
Óánægja í hernum
Einnig er talið hugsanlegt að kúb-
verska leyniþjónustan hafi látið til
skarar skríða, þar sem hún hafi
óttazt að alvarleg óánægja, sem
grafið hefur um sig í hernum, gæti
leitt til uppreisnar. Hins vegar efast
margir um að til uppreisnar hefði
komið nema í neyð, telja að Ochoa
hafi ekki haft nógu mikið fylgi og
benda á að Castro hafi á að skipa
alþýðuherliði, sem á að vega upp á
móti óánægju í hernum.
Heimili Ochoa virðist hafa orðið
fundarstaður fyrrverandi hermanna,
sem barizt höfðu í Angóla og kvart-
að yfir slæmri meðferð, er þeir hafi
sætt síðan þeir komu heim. Þótt
þeim hafi verið vel fagnað við heim-
komuna hefur ekki tekizt að útvega
þeim atvinnu og húsnæði og þeir
hafa aukið mikinn efnahagsvanda
Kúbveija.
Ochoa kann að hafa verið leiðtogi
hóps óánægðra liðsforingja, sem
börðust í Angóla. Fyrir því eru heim-
ildir að Ochoa hafi verið kominn á
fremsta hlunn með að semja ákall
til Castros um bættan aðbúnað heim-
kominna hermanna og ætlað að fá
kunna menn til að skrifa undir skjal-
ið. Perestrojka Gorbatsjovs virðist
einkum hafa fallið í góðan jarðveg
hjá Kúbveijum, sem hafa gegnt her-
þjónustu erlendis og kynnzt því
17
hvernig hugmyndir kommúnisía
hafa brugðizt í Þriðja heiminum.
Vinsæl hetja eins og Ochoa gat
ógnað Castro forseta vegna ákvörð-
unarinnar um að kalla herliðið í
Angóla heim. Því er getum að því
leitt að Castro hafi ákveðið að gera
áhrif Ochoa að engu með því að
bendla hann við tvo eiturlyfjasmygl-
ara, Tony og Patricio de la Guardia.
Um leið hafi Castro viljað friðmæl-
ast við Bandaríkjastjórn og hafa
áhrif á almenningsálitið í Banda-
ríkjunum, einkum í ljósi þess að
nokkrir bandarískir þingmenn beita
sér fyrir endurmati á samskiptunum
við Kúbu og viðskiptabanninu á eyj-
Bætt sambúð?
Kúbustjórn kann að hafa áhuga
á bættri sambúð við Bandaríkin
vegna hinna alvarlegu efnahagserf-
iðleika, sem hafa aukið óvinsældir
hennar. Bætt sambúð gæti byggzt
á baráttu gegn eiturlyfjabarónum
Suður-Ameríku og Noriega hers-
höfðingja og látið hefur verið að því
liggja að um þetta hafi tekizt sam-
komulag. í staðinn verði slakað á
viðskiptabanninu og því jafnvel af-
létt. Ýmsir telja að Noriega, sem
hefur verið ein helzta hjálparhella
Medellin- hringsins, hafi ef til vill
staðið í sambandi við Ochoa hers-
höfðingja.
Réttarhöldin staðfestu það sem
Bandaríkjamenn hafa haldið fram í
sjö ár, að Kúbveijar séu viðriðnir
eiturlyfjasmygl. Castro forseti hefur
þráfaídlega neitað þessu og fáir virð-
ast hafa trúað Bandaríkjamönnum.
Sumir álíta að Castró hafi látið
sem hann hafi ekki vitað um eitur-
lyfjaflutningana, þar sem þeir hafi
skaðað Bandaríkin, erkióvininn, og
aðeins fært Kúbu mikilvægar gjald-
eyristekjur. Síðan hafi spurzt að
Bandaríkjastjórn og Noriega hygð-
ust birta sannanir um þátttöku kúb-
verskra liðsforingja í kókaínsmygl-
inu og Castro hafi ákveðið að verða
fyrri til.
í Havana er því haldið fram að
Fidel og Raul hafi fengið fyrstu
fréttirnar um smyglið þegar Manuel
Solis, sem Noriega hershöfðingi
skipaði forseta Panama í vor, sagði
þeim allt af létta þegar hann var í
Havana fyrir nokkrum vikum. Hafi
Castro ekkert vitað um smyglið fyrr
en þá gæti það bent til þess að völd
hans séu ekki eins mikil og talið
hefur verið eða að skortur sé á ein-
drægni meðal æðstu manna í Ha-
vana.
Mikið áfall
Ein skýringin á hinum þungu
dómum á Kúbu kann að vera aukinn
eiturlyfjavandi á eyjunni. Castro
hefur lengi státað af því að endir
hafi verið bundinn á eiturlyfjaneyzlu
eftir byltinguna, en listamenn og
fleiri hópar hafa haft aðgang að
kókaíni og marijúana og nú hefur
eiturlyfjafíkn breiðzt út til ungs
fólks, blökkumanna og að því er virð-
ist hermanna.
Hingað til hafa*Tieraflinn og inn-
anrikisráðuneytið verið talin ein
helztu tákn „hreinleika sósíalism-
ans“ og verndarar siðgæðis á Kúbu
og réttarhöldin eru túlkuð sem áfall
fyrir „sál byltingarinnar". Þau hafa
afhjúpað spillingu, sem sanntrúaða
óraði ekki fyrir, og hugmyndir um
„óeigingjarna byltingarleiðtoga"
hafa beðið hnekki á sama tíma og
aukinn vöruskortur þjakar almenn-
ing.
Til þessa hefur Castro komið í veg
fyrir að honum og byltingunni hafi
verið kennt um misgerðir með því
að skella skuldinni á breyzka ein-
staklinga. Þannig hefur honum
tekizt að komast hjá því að breyta
„kerfinu“. Nú er talið að hann reyni
að nota eiturlyfjamálið til að vekja
andúð á breytingum í anda perestroj-
ku og glasnost, sem Kúbveijar virð-
ast veikir fyrir, með því að kenna
„neyzlugræðgi" um spillinguna.
Castro berst gegn „hægfara þró-
un til kapítalisma" og hefur meiri
áhuga á hreinsunum í kerfinu en
pólitískum og efnahagslegum um-
bótum. Sambúð hans við Rússa hef-
ur kólnað síðan Gorbatsjov kom til
valda og einangrun Kúbu. hefur
aukizt. En Gorbatsjov er í sparnaðar-
hugleiðingum og Castro mundi ekki
hafna vestrænni efnahagsaðstoð.