Morgunblaðið - 11.10.1991, Side 33
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 11. OKTÓBER 1991
33
Minning-:
Elín G. Ólafsdóttir
frá Austurhlíð
Fædd 4. seplember 1909
Dáin 30. september 1991
Tveir hestar, brúnn og grár,
nösluðu í hlaðvarpanum, lambær
voru dreifðar um túnið, hljóð
heyrðist í hrossagauki, lóu og
stelki, eitt og eitt lambsjarm kvað
við. Það var vorangan úr jörðinni.
Ég var að koma að Austurhlíð
í fyrsta sinn. Ég hafði verið ráðinn
til að leita grenja með manni Elín-
ar, Guðmundi Magnússyni, og var
fullur eftirvæntingar. Ég var að
kynnast nýju fólki og bauð mér í
grun að ég ætti eftir að hafa tölu-
verð samskipti við heimilisfólkið
allt.
Elín og Guðmundur tóku vin-
gjarnlega á móti mér í bæjardyrum
og buðu mér til stofu. Þar stóð
borð hlaðið kræsingum sem bar
gestrisni húsbænda ótvírætt vitni.
Bað Elín okkur að njóta vel því
það gæti orðið bið á að við mötuð-
umst við dúkað borð. Ég fann flótt
hversu notalegur andi ríkti á heim-
ilinu þar sem góðlátlegri kímni og
alvöru var blandað saman á einkar
viðfeldinn hátt. Síðan söðlaði
Guðmundur grenjahestana og við
héldum út í vorið. Ég var að heíja
kynni mín af þeim manni sem
reyndist einhver skemmtilegasti
maður sem ég hef kynnst og því
fólki sem sýnt hefur mér og mínum
meiri ræktar- og elskusemi en
hægt er að ætlast til af nokkrum
manneskjum. Ég ætla að erfitt sé
að þakka slíkan heimilisbrag einum
fjölskyldumcðlimi alveg, en hlutur
Élínar var stór- og mótandi á þann
góða anda sem ríkti á heimilinu.
I sambandi við vinnu mína átti
ég athvarf í Austurhlíð um margra
ára skeið, jafnt á nóttu sem degi,
á stundum hrakinn og svangur.
Allt slíkt hvarf eins og dögg fyrir
sólu við meðferð Elínar, því þar*
réðu ríkjum eðlislæg gestrisni og
umhyggja fyrir öðrum.
Elín var fædd í Tortu i Biskups-
tungum en alin upp í Upphólum í
sömu sveit. Ung giftist hún Guð-
mundi Magnússyni frá Austurhlíð
og eignuðust þau fjórar mannvæn-
legar dætur. í Austurhlíð bjuggu
þau alla ævi.
Þegar ég kom þar fyrst hafði
Sigríður, ein af dætrum þeirra,
nýlega hafið þar búskap ásamt
manni sínum, Kristni Ingvarssyni
frá Hvítárbakka. Þau voru til að
bytja með í gamla húsinu ásamt
þeim Elínu og Guðmundi. Fljótt
fann ég hversu Kristinn féll vel inn
í þetta létta andrúmsloft og fór
því vel á með þeim.
I lífi allra skiptast á skin og
skúrir. Það fékk Austurhlíðarfólkið
að reyna. Varðar þá miklu að fjöl-
skyldan sé samhent þegar á móti
blæs. Snemma árs 1973 lést
Guðmundur yngri Kristinsson eftir
langvarandi veikindi. Seinna á
sama ári lést svo Guðmundur
Magnússon. Þessi dauðsföll á sama
ári voru mikið álag á einu og sömu
fyölskyldu.
Á seinni árum átti Elín við
slæmsku í mjöðm að stríða. Með
vel heppnuðum uppskurði og að-
gerð náði hún sér furðu vel. Þar
vó þungt sterkur vilji hennar og
heilsteypt lundarfar.
Elín var hamhleypa til verka og
verklagin. Oft hvíldi búskapur allur
og sauðburður á hennar herðum
þar sem Guðmundur var oft lang-
dvölum að heiman á vorin við
grenjavinnsluna. Kom það sér þá
vel að „sjaldan fellur eplið langt
frá eikinni”, svo ég noti tilvitnun
Guðmundar sjálfs. Þær voru ekki
háar í loftinu dæturnar þegar þær
fóru að létta undir með móður
sinni.
Elín var gæfukona. Sá sem strá-
ir jafnmiklu gulli á vegferð ann-
arra eins og Elín gerði hlýtur að
vera það. Elín og Guðmundur
koma ekki lengur út á hlað að
fagna gestum. Að því er mikill
söknuður. En fjarskalega eru þau
oft nærri mér í huganum. Við hjón-
in vottum Austurhlíðarfólkinu
djúpa samúð við fráfall Elínar. Nú
eru þau heiðurshjón bæði, Elín og
Guðmundur; horfin til annars til-
verustigs. Ég á auðvelt með að
ímynda mér að í kringum þau nú
ríki eilíft vor.
Ásgeir Pálsson
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem)
Hún amma mín er dáin. Það
hljómar einkennilega í eyrum þó
að ég ætti reyndar von á þessari
fregn á hveijum degi í u.þ.b. mán-
uð. Sjúkdómslega hennar var stutt
en ströng.
Elín Guðrún Ólafsdóttir frá
Austurhlíð eða Ella í Austurhlíð,
eins og hún var ætíð kölluð, var
amma okkar barnanna í túninu.
Ég var svo heppin að fá nánast
að alast upp við hlið ömmu minnar.
Það var ekki langt að skokka yfir
túnið til hennar ömmu sem alltaf
tók á móti mér eins og ég væri
að koma í heimsókn til hennar í
fyrsta skipti. „Ertu nú komin,
nafna mín?” sagði hún alltaf. Síðan
náði hún í kökur og drykk og
stundum sælgæti sem ég raðaði í
mig.
Hún amma hafði ætíð nægan
tíma til að spjalla um alla hluti þó
að hún væri yfirleitt alltaf önnum
kafin við hin ýmsu verk, enda féll
henni sjaldan verk úr hendi. Amma
var fastur punktur í tilverunni hjá
okkur krökkunum þegar við vorum
að vaxa úr grasi. Oft fengum við
barnabörnin hennar ömmu að leika
okkur í einni kös hjá henni þegar
fullorðna fólkið þurfti að fara út á
lífið. Þá var nú margt brallað og
oft var hávaðinn í okkur ærandi
þegar loftgeymslunni stóru var
breytt í skip. Á eftir hélt hún-
amma okkur heljarmikla veislu
með fínum kökum. Og amma var
alltaf aðalmanneskjan í þessu öllu.
Já, ég á margar ljúfar minning-
ar um hana ömmu mína. Þær vil
ég nú þakka.
Hún amma var mikill kvenskör-
ungur og ætíð langt á undan sinni
samtíð. Hún var hjúkrunarkona af
guðs náð, sjálfmenntuð því hún sat
ekki á skólabekk. Hún tók á móti
mér er ég kom í heiminn. Það
þurfti ekki ljósmóður þar sem hún
amma mín var til staðar. Og það
var ekki eingöngu hjúkrunarhæfi-
leikinn sem ömmu var gefinn. Hún
var einnig hinn besti hárskeri og
kom það sér vel í sveitinni í þá
daga þegar langt var að fara í slíka
snyrtingú.
Amma var rómuð fyrir mikla
snyrtimennsku. Aldreið leið sá
laugardagur að ekki væri allt hvíts-
kúrað út úr dyrum í Austurhlíð.
Hún var ætíð smekklega klædd,
um það hugsaði hún fram til síð-
asta dags. Ef fermingarveisla eða
önnur teiti voru í aðsigi var hún
strax farin að huga að því í hvetju
hún ætti að vera. Á síðustu árum
sat ég oft með ömmu í herberginu
hennar þar sem við skipulögðum
saman fatamálin og rifum allt út
úr fataskápnum!
Amma varð töluvert snemma
ekkja því að afi minn, Guðmundur
Magnússon, dó rétt rúmlega sjö-
tugur en hún var allmiklu yngri
en hann. Þau áttu fjórar dætur,
en hún ól upp miklu fleiri börn.
Hún ól upp barnabörnin sem voru
henni við hlið og barnabarnabörnin
þar á eftir. Það voru ætíð tvær
fjölskyldur í Austurhlíðarbænum
og þótti ekki mikið í þá daga. Ég
vil nota tækifærið og þakka henni
Rósu Paulsen sem var þar með
henni ömmu siðustu 16 árin.
Það var aldrei nein lognmolla í
kringum ömmu og aldrei man ég
eftir að hafa séð hana sitja auðum
höndum. Ég þakka Guði fyrir að
hún Áslaug Rut, dóttir mín, fékk
að njóta þess að vera í námunda
við hana langömmu sína síðastliðin
sumur en þá dvaldi hún hjá foreldr-
um mínum í sveitinni. Það var erf-
itt að segja henni að Ella amma
væri dáin. En lífið heldur áfram
og minningin um ömmu lifir. Ég
vil þakka henni fyrir allar stundir
sem við áttum saman, þakka fyrir
allt sem hún gerði fyrir mig og
fjölskylduna. Við eigum henni svo
ótal margt að þakka.
Blessuð sé minningin um hana
ömmu mína.
Elín Margrét Hárlaugsdóttir
í dag verður jarðsungin amma
okkar, Elín Ólafsdóttir, fædd 4.
september 1909, dáin 30. septem-
ber 1991.
Við frændurnir urðum þeirrar
gæfu aðnjótandi að eiga þessa ein-
stöku manneskju fyrir ömmu. Erf-
itt er í fáum orðum að lýsa kostum
hennar svo að vel sé. hennar ævi-
starf einkenndist af mikilli ósér-
hlífni og óeigingimi. Alltaf var hún
tilbúin að hjálpa öðrum og hlífði
sér ekki við það. Viljinn til allra
verka hvort sem það var við inni-
eða útiverk var svo mikill að því
gleymir enginn. Fórnfýsi hennar
og gjafmildi við okkur ömmubörnin
verður alla tíð eftirminnileg. Væri
henni einhvern tíma gerður greiði
var ekki um annað að ræða en að
við fengjum hann margfalt til
baka. Amma var alla tíð mjög
gestrisin og eru þeir margir sem
hafa komið að Austurhlíð þau 60
ár sem hún bjó þar og fengið að
kynnast móttökum hennar. Þær
voru alltaf stórmannlegar og ekki
um annað að ræða en að allir færu
mettir til baka. Öllum skyldi líða
vel eftir heimsókn til Elínar í
Austurhlíð. Það þurfti enginn að
búast við öðru frá henni ömmu.
Þeir sem þekktu hana fundu að
þar fór sterk kona, bæði andlega
og líkamlega. Hugurinn var óbi-
landi alla tíð, léttleikinn og viljinn
ofar öllu.
Munum við barnabörnin og
barnabarnabörnin aldrei gleyma
ástúð og góðvild hennar í okkar
garð.
Blessuð sé minning hennar.
Ingvar Ragnar Hárlaugs-
son og Guðmundur Ingi
Sumarliðason.
Ó, leyf mér þig að leiða
til landsins fylla heiða
með sælusumrin löng.
Þar angar blómabreiða
við blíðan fuglasöng.
Þar aðeins yndi fann ég,
þar aðeins við mig kann ég,
þar batt mig tryggðaband,
því þar er allt sem ann ég.
Það er mitt draumaland.
(Jón Trausti)
Mig langar að kveðja ömmu
mína með fáeinum orðum.
Ég á ákaflega notalegar minn-
ingar um hana, enda var ég hjá
henni á hveiju sumri öll mín upp-
vaxtarár. Alltaf hlakkaði ég jafn-
mikið til á vorin að fá að koma til
hennar i hennar hlýju og notaleg-
heit. Ég er þakklát fyrir að hafa
fengið að njóta hennar og einnig
að dætur mínar skyldu hafa fengið
að kynnast góðmennsku hennar,
gestrisni og hlýju. Þær sakna þess
að Ella amma sé ekki í Austurhlíð
til þess að taka á móti þeim og
gefa þeim góðgæti. En minning-
arnar um hana ylja okkur og eru
þær margar og góðar.
Megi elsku amma hvíla í friði.
Rósa Kristín Gísladóttir
Ó Jesús, gef þinn anda mér,
allt svo verði til dýrðar þér
upp teiknað, sungið, sagt og téð,
síðan þess aðrir njóti með.
(H. Pétursson)
30. september sl. andaðist í
Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi
Elín Guðrún Ólafsdóttir á 83. ald-
ursári. Elín fæddist á bænum Tortu
í Biskupstungum 4. september
1909, en fluttist á barnsaldri með
foreldrum sínum að Hólum í sömu
sveit og ólst þar upp í fjölmennum
systkinahópi.
Ekki er ólíklegt að hörð lífsbar-
átta í uppvextinum í stórbrotnu
og heillandi umhverfi hafí markað
síðari vegferð Elínar, sem ein-
kenndist af skilningi á högum
þeirra sem minna máttu sín, gest-
risni, tryggð við nágranna og
vandamenn og ástfóstri við heima-
byggðina.
Arið 1932 giftist Elín Guðmundi
Magnússyni, bónda í Austúrhlíð,
og tók við húsfreyjustörfum þar.
Þau Guðmundur og Elín eignuðust
4 dætur. Guðrún, fædd 1932, Sig-
ríður Ólöf, fædd 1934, Eygló, fædd
1935, og Sólveig fædd 1938. Ekki
er hægt að minnast Elínar án þess
að upp komi í hugann sú einlæga
gestrisni sem einkenndi hana og
heimili þeirra Guðmundar. Þau
hjónin voru ákaflega vinsæl og
vinamörg og Austurhiíðarheimilið
sá möndull, sem heimsóknir ætt-
ingja, vina og vandamanna snerust
um.
Árið 1972 lést Guðmundur og
brá Elín búi skömmú síðar. Við
búinu tóku þá dóttursonur hennar,
Magnús Kristinsson og eiginkona
hans, Rósa Poulsen. Ungu hjónin
fluttu til Elínar og stofnuðu þar
heimili sitt og dvaldi hún hjá þeim
óslitið þar til hún veikíist í ágúst
sl. Umhyggja þeirra Magnúsar og
Rósu var einlæg og einstök og
taldi Elín það eina mestu lífsgæfu
sína að geta dvalið hjá þeim á
heimaslóðum.
Þá var nábýli tveggja elstu
dætra Elínar og fjölskyldna þeirra
henni ákaflega kært og samvinna
og samgangur heimilanna í
Austurhlíð og Hlíðartúni mjög
náin. Þegar tvær yngri dætur Elín-
ar og fjölskyldur þeirra byggðu
sumarhús í landi Austurhlíðar var
það henni einlægt gleðiefni og þau
eru ótalin sporin hennar vestur
fyrir túnið til þess að fylgjast með
ástandi þessara sumarhúsa í fjar-
veru eigendanna og til þess að
bjóða þeim til sín að þiggja góð-
gerðir þegar einhvern var þar að
finna.
Ekki mun Elín hafa verið í vafa
síðla ágústmánaðar þegar hún hélt
á sjúkrahúsið, að nú væri hún að
kveðja Biskupstungurnar hinstu
kveðju. Þá bað hún þess að kveðja
hennar yrði flutt til allra við hlíð-
ina.
Síðustu vikurnar naut hún frá-
bærrar umönnunar starfsfólks
Sjúkrahúss Suðurlands og návistar
ástvina sem dvöldu við sjúkrabeð
hennar.
Blessuð sé minning hennar.
S.Ó.
„Guð launar fyrir hrafninn” var
hún amma mín vön að segja, ef
menn undruðust elju hennar að
ganga upp fyrir tún til þess eins
að færa þessum svarta fugli eitt-
hvað í svanginn. Og hún lét ekki
af þeim sið fyrr en hún mátti til.
Ekki fyrr en heilsan setti henni
endanleg takmörk. En einmitt þessi
tryggð og umhyggja fyrir þeim sem
minna máttu sín, lýsa henni ömmu
minni svo vel. Alltaf með hugann
við velferð annarra en sjálfrar sín.
Tryggðin var eitt af hennar aðals-
merkjum. Hún amma mín var
tryggðartröll. Og hún amma mín
var höfðingi. Enda var hún af þeirri
kynslóð sem státar af fjölmörgum
höfðingjum. Ekki forríkum stór-
eignamönnum heldur höfðingjum í
anda og gerðum. Allir sem þekktu
ömmu mína og sóttu hana heim
hafa fundið fyrir þessum höfðings-
skap. Bæði Jón og séra Jón áttu
greiðan aðgang að hennar hirslum.
I hjartalaginu fannst ekki mismun-
un á fólki. Höfðingjar eins og hún
amma mín hjálpuðu öðrum af löng-
un til að verða að liði og létta þraut.
Betur væri að við sem yngri erum
tækjum þetta fólk oftar til fyrir-
myndar. I dag gera allt of fáir öðr-
um greiða án þess að vænta ein-
hvers í staðinn, og fáir þiggja að-
stoð án þess að bjóða greiðslu á
móti.
Hún amma í Austurhlíð var miklu
meira en venjuleg amma fyrir okk-
ur krakkana í túninu. Við nutum
þeirra forréttinda að eiga tvær
mæður, því amma ól okkur upp við
hlið foreldra okkar. Hún veitti okk-
ur hlýju, bjó okkur leikföng, kenndi
okkur góða siði og rak okkur áfram
ef þess þurfti með. Því einn sá versti
löstur sem amma gat hugsað sér í
fari fólks var leti eða undansláttur
frá skyldum. Þó stundum kæmu
skammir þá sparaði hún ekki hrós-
ið ef einhver stóð sig vel. En þetta
var hennar eðli. Iðjusemi og skyldu-
rækni voru henni í blóð borin. Við
kunnum svo sannarlega að meta í
dag allt það sem hún kenndi okk-
ur. Og ekki bara við krakkarnir í
túninu, því á sumrin hafði hún auk
þess í umsjá sinni önnur ömmu-
börn. Það var alltaf nóg pláss í
hjartanu hennar sem og húsinu.
Líka fyrir óskylda krakka. Og alltaf
kölluðu þau hana ömmu og gera
enn í dag. Það segir okkur hvað
hún var þeim.
I heyskapnum fylgdi því alveg
sérstök „ömmutilfinning” að koma
inn til hennar seint að kvöldi eftir
langar hirðingar og finna ilminn
af heitu kakói og nýbökuðum vöffl-
um fylla vitin. Þá var gott að setj-
ast lúin við boðið og þiggja veiting-
ar. Og amma naut þess að gera
vinnulúnu fólkinu vel.
Á nýliðnu sumri nutum við þessa
í síðasta sinn. Einn heyskapardag-
inn hafði hún heyrt mig tala um
hversu gott hefði alltaf verið að
koma í kakóið hennar ömmu að
loknum hirðingum. Þó hún væri þá
farin að heilsu og átti að vera löngu
sofnuð, bauð hún okkur um kvöldið
óvænt í vöfflur með tilheyrandi.
Þannig vildi hún standa undir nafni
þó þrekið leyfði vart það sem henni
tókst. Lýsandi dæmi um stolt og
styrk þessarar konu.
Með fráfalli ömmu er ákveðnum
þætti í lífi okkar lokið. Það verður
aldrei eins án hennar. Mest er þó
breytingin fyrir Rósu og Magga og
þeirra börn, sem hún bjó hjá seinni
hluta ævinnar. Þeim verður seint
fullþakkað fyrir að gera henni kleift
að búa heima svo lengi sem raun
ber vitni.
En þó við kveðjum jarðneskar
leifar ömmu í dag, þá lifir hún
áfram í hugum okkar. Við eigum
gnótt minninga og búum vel að
öllu sem hún gaf okkur af sjálfri
sér. Öllu sem hún kenndi okkur og
innrætti. Við geymum í hjörtum
okkar þann ómælda fjársjóð og
færum börnum okkar.
Við erum þess fullviss að nú launi
Guð ríkulega fyrir hrafninn og taki
á móti ömmu eins og höfðingjum
sæmir.
Við þökkum elsku ömmu og
langömmu fyrir að hafa notið nær-
veru hennar og erum stoltar af að
vera komnar frá svo sterkum stofni.
Stína og Melkorka.