Morgunblaðið - 27.01.1993, Síða 32
32
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 27. JANÚAR 1993
Jóhann Anton Bjarna-
son — Minning
Fæddur 11. ágúst 1914
Dáinn 16. desember 1992
Lengst af um mína daga hefur
mig furðað á því hversu auðveldlega
flestir sem á vegi mínum verða eiga
með að henda reiður á tilfmningum
sínum; ég aftur á móti botna sjaldn-
ast neitt í mínum, finn þeim iðulega
hvorki orð né meiningu, kenni þeirra
þó sem bjargfastrar vissu fyrir
brjósti mér sem fremur en annað
ræður lífsstefnu minni frá einni
stund til annarrar og þá til móts við
óþekkta framtíð. Þetta sambandsrof
leiðir af því hvernig skiptum mínum
við föður minn var háttað sem ég
nú kveð — og heilsa.
Anton Bjamason málarameistari
lést 16. desember síðastliðinn á 79.
aldursári eftir stutta sjúkdómslegu;
hraustleika karl sem stokkið gat
flikk-flakk aftur yfir sig sextugur
og bar lítil frekari ellimerki undir
ævilokin en hann gerði þá. Sjálfum
sér trúr fram til þess síðasta og að
sama skapi óbilgjarn gagnvart hveij-
um þeim sem í vegi hans varð á lífs-
leiðinni, jafn okkur börnum hans sem
öðrum. Ég átti minnst saman við
hann að sælda af okkur sex. Samt
urðu áhrif hans á líf mitt ekki minni
en á hin systkinin þar sem hann réð
mestu um þau uppeldiskjör sem mér
voru búin og þótt með óbeinum
hætti væri. Mér var oft ögrað í fóstr-
inu með því, þegar ég var sérlega
ódæll, að ég væri líkur föður mínum.
Ekkert þótti mér fráleitara á þeim
tíma. Líkur þessum snaggaralega
manni með hreggkamsinn í mál-
hreimnum sem vó sig upp á tær og
hæla meðan hann talaði sína
hljómmiklu skagfirsku og sat helst
aldrei nema þá helst undir stýri í
bíl; á markvissu ferðalagi gegnum
líf sitt, til móts við efnalegt sjálf-
stæði. Hið eina gildi sem hann mat
á manndómsárum sínum.
Og nú sit ég uppi miðaldra maður
með þá sannfæringu að ég sé líkast-
ur föður mínum af öllum systkina-
hópnum. Það hefur reynslan sýnt
mér. Einkum reynsla undanfarinna
vikna. Að ég hafi lítið gert annað
síðan ég fór að geta borið hönd fyr-
ir höfuð mér en leysa úr banni þá
þætti skapgerðar minnar sem eru
frá föður mínum komnir. Allan tím-
ann verið að reyna að sættast við
hann og þar með sjálfan mig. Óvit-
andi jafnvel um ófriðarefnið.
Lífið er skrítið. Hann var allur í
efninu, ég í andanum, fórum hvor
sinn veg og hittumst sjaldan, og
ófum þó úr lífi okkar svo keimlíkan
vefnað að nú, þegar líf hans liggur
opnara fyrir mér en nokkurn tíma
fyrr, greini ég varla mun. Þessi and-
úð á smámunum sem blandin er ótta.
Leitin að lífskjarnanum sem er skap-
gerðareinkenni fremur en að hún
ráðist af nokkurri skynsemi. Fælnin
þegar kemur að tilfinningamálum,
þijóskan og langræknin. Og þó eink-
um ástríðan að má út slóð sína um
fáfarna stigu.
Það var undarleg reynsla eftir
veturlanga setu á handritadeild
Landsbókasafnsins yfir ættartöflum
og morknu pappírsmori að uppgötva
að karlinn á myndinni sem mænt
hafði yfir öxl mér allan tímann var
langalangafi föður míns; með lagni
gat ég meira að segja greint sömu
harðneskju og þijósku í svip Gísla
gamla Konráðssonar sagnritara og
föðurfólksins sem ég hafði séð
bregða fyrir endrum og sinnum á
lífsleiðinni, en ekkert þekkti. Og
hvað var ég að gera sjálfur í blóra
við atferli alls þess ættfólks míns
sem ég vissi nokkur deili á? Ég var
að semja sanna skáldsögu þarna á
handritadeildinni. Þetta er þá ætt-
lægur fjandi, hugsaði ég.
Eftir því sem ég best veit talaði
Anton aldrei um einkamál sín við
nokkum mann. Upp úr því að ég
fann fyrst kræla á þessu skyldleika-
marki fór ég að tína saman það sem
fyrir lá um upprunann í skagfirskum
ritum. Hann fæddist að Hólkoti á
Hegranesi í Skagafirði 11. ágúst
árið 1914. Foreldramir, Bjarni Odds-
son og Filippía Þorsteinsdóttir, voru
efnalítið sveitafólk sem reyndi fyrir
sér um búskap á þremur jörðum í
Skagafirðinum um þetta leyti, en
settust svo að í Sjóbúð við Sauðár-
krók, eign Jóhanns, bróður Bjama.
í Sjóbúð fæddist yngsti bróðir Ant-
ons og voru bræðumir þá orðnir fjór-
ir. Elst var hálfsystir, dóttir Filippiu
sem ólst upp hjá fósturforeldrum.
Anton flutti níu ára gamall úr Sjó-
búð til Siglufjarðar með föðurbróður
sínum, Jóhanni, sem þá tók hann í
fóstur og hóf búskap við Siglufjörð
austanverðan. Jóhann var auk bú-
skaparins hákarlaformaður og harð-
lyndur svo að orð fór af. Hann bjó
við sæmileg efni og naut Anton þess
í daglegu viðurværi og jafnframt
góðs atlætis blíðlyndrar fóstm, Önnu
Sveinsdóttur frá Miðsitju, ráðskonu
Jóhanns.
Nokkrum árum eftir að Anton
fluttist að heiman færðu foreldrar
hans einnig aðsetur sitt og bræðr-
anna þriggja, sem eftir höfðu orðið
í föðurhúsi, til Sigluijarðar. Settust
að í Siglufjarðarbæ þar sem Bjami,
faðir Antons, stundaði það sem eftir
lifði ævi sinnar almenna verka-
mannavinnu og var til sjós. Til þess
var tekið þegar Bjarni reri eitt sinni
sem oftar hjá Jóhanni bróður sínum
og voru komnir fram í Ijarðarmynn-
ið, er Bjami sagður hafa bent Jó-
hanni á með hægð að veiðarfærin
öll hefðu orðið eftir í landi. Þótti
báðum mönnunum vel lýst með þess-
ari frásögn. Bjarni var orðlagt ljúf-
menni en þó fastur fyrir. Kona hans,
Filippía, þótti aftur á móti skapmik-
il svo að stundum keyrði úr hófí.
Þegar nálgast tók fullorðinsárin
var Anton meira heima við hjá for-
eldrum sínum í Siglufjarðarbæ. Þá
hjálpuðust þeir bræður að við að
byggja yfír foreldra sína og sjálfa
sig tvílyft steinhús, Túngötu 12 þar
í bæ, sem þótti veglegt á þeirrar
tíðar vísu. Anton var þá tekinn að
nema málaraiðn hjá Steingrími Sig-
urðssyni málarameistara. Anton
dvaldi svo vetur í Kaupmannahöfn
við frekara nám í greininni. Árin
eftir dvaldi hann enn á Siglufírði og
nú í foreldrahúsum. Þá voru hálf-
systir hans og móðir teknar að reka
greiðasölu í Túngötu 12. Á þessum
síðustu árum á Siglufirði kynntist
Anton Guðríði Guðmundsdóttur frá
ísafirði og eignaðist með henni son,
Guðmund. Nokkrum mánuðum síðar
og eftir að hann fluttist suður eign-
aðist hann annan son, mig, með
annarri konu og varð sú eiginkona
hans. Sigurrós Lárusdóttur, kaup-
manns, Björnssonar úr Þingi og Sig-
urbjargar Sigurvaldadóttur frá
Gauksmýri í Línakradal. Anton hafði
þá lokið námi í Reykholtsskóla í
Borgarfirði, auk iðnnámsins, og
hafði kostað sig sjálfur til hvors
tveggja. Til þess var tekið á skólatíð
hans að hann kom efnaðri úr Reyk-
holtsskóla en í hann fyrir þá útsjón-
arsemi sína að hann kom sér upp
handklippum og klippti skólabræður
sína og aðra nábýlinga. Með þessu
sama verkfæri klippti hann bræður
mína fram eftir aldri. Mér sagði
hann að hann hefði étið hund í Reyk-
holtsskóla, bara til að komast að því
hvort hann gæti það.
í sem stystu máli sagt: Anton lét
sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Og
hann átti það til að hæðast að öðrum
fyrir ótta þeirra, ef einhver var, og
ósjálfstæði. En eftir því sem helst
er útlit fyrir hitti hann fyrir ofjarl
sinn þar sem tengdamóðir hans var
sem beinlínis hirti upp úr slóð hans
og þeirra hjóna hjónabandsfrum-
burðinn á fyrsta ári til að bæta sér
um sonarleysi. Antoni líkaði það
ekki verr, en móður minni mjög
miður sem lagði allt annan skilning
í slíkt fóstur en hann gerði. Þar af
lagðist honum til togstreita snemma
í hjúskapnum sem ásamt því hve
ólík þau hjón voru gerði hjúskaparlíf-
ið að tilfinningastríði með nokkrum
vopnahléum ýmist í eða utan sam-
búðar. Fjögur systkini bættust við
uns slitnaði upp úr sambúðinni að
fullu.
Anton var athafnamaður, stóð í
fasteignaviðskiptum á starfstíð
sinni, ekki síður en að hann ástund-
aði iðngrein sína. í málarastarfínu
fór af honum mjög gott orð og hann
vann mikið fyrir hið opinbera; hann
var góður kennari á sínu sviði, reifur
og gat verið skemmtilegur meðal
vina og undirmanna sinna. Ná-
kvæmur og vandvirkur. Vildi sífellt
vera að einhveiju verki.
Hann þoldi ekki kyrrstöðu. Hann
var mikill útivistarmaður, öræfafari
og veiðimaður hvort sem var með
byssu eða stöng. Hann hafði engan
áhuga á að safna kringum sig per-
t
Systir okkar,
ELÍNBORG PÉTURSDÓTTIR,
Vestmannabraut 59,
Vestmannaeyjum,
andaðíst á heimili sínu þriðjudaginn 26. janúar.
Jónína Pétursdóttir, Sigríður Pétursdóttir.
t
Elskulegur eiginmaður minn og faðir okkar,
GUÐJÓN MAGNÚSSON
trésmíðameistari
frá Kjörvogi,
Furugerði 1,
Reykjavík,
lést í Borgarspítalanum 25. janúar sl.
Guðmunda Þ. Jónsdóttir
og börn.
t
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi,
GEIRS. BJÖRNSSON
prentsmiðjustjóri,
Goðabyggð 4,
Akureyri,
verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju fimmtudaginn 28. janúar
kl. 13.30.
Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir.
Anita Björnsson,
Barbara Maria Geirsdóttir, Magnús Garðarsson,
Gunnhildur Geirsdóttir, Arthur McDonald,
Sigurður O. Björnsson, Kristbjörg Eiðsdóttir
og barnabörn.
+
Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir og afi,
HAFSTEINN BERGMANN HALLDÓRSSON,
Fálkagötu 34,
er látinn.
Sævar Hafsteinsson,
Þóra Berglind Hafsteinsdóttir,
Heiðrún Hafsteinsdóttir,
Sigurvin Bergmann Hafsteinsson,
Henný Helga Hafsteinsdóttir,
tengdabörn og barnabörn.
+
Ástkær eiginkona, móðir og amma,
AUÐUR SAMÚELSDÓTTIR,
Hellisgötu 16,
Hafnarfirði,
verður jarðsungin fimmtudaginn 28. janúar kl. 13.30 frá Víðistaða-
kirkju, Hafnarfirði.
Sverrir Lúthers,
börn og barnabörn.
+
Systir mín,
ÁSTA KRISTJÁNSDÓTTIR,
Austurbrún 4,
Reykjavik,
verður jarðsungin frá Áskirkju fimmtudaginn 28. janúar
kl. 13.30.
Blóm vinsamlegast afþökkuð, en þeim, sem vildu minnast henn-
ar, er bent á Krabbameinsfélagið.
Fyrir hönd aðstandenda,
Guðrún Kristjánsdóttir.
sónulegum munum eða óarðbærum
eignum yfirleitt, en þaðan af meiri
áhuga á ferðalögum sem hann veitti
sér einkum þegar líða tók á ævina
og fór þá á framandi slóðir, í aðrar
álfur. En hugarfarið dró alla tíð dám
af upprunanum, fátækt, grimmu
aðhaldi harðúðugs fóstra, þröngu
sjónarhorni dreifbýlismanns fyrri
tíðar sem ekki nýtur þeirrar menn-
ingar sem sveitin gat lagt mönnum
til. Hann var allt fram á elliár barns-
lega hrifínn af ósnortnu landslagi,
sólgliti á fjöllum, víðerni heiðríkju-
dags við Veiðivötn eða Herðubreið-
arlindir. Hann stóð nær hringrás
náttúrunnar en margur annar, jafn-
vel á hans reki, samspili lífs og dauða
sem bóndanum er í blóð borið þar
sem ást og eyðilegging fara saman;
sá hinn sami sem hlúði að nýbær-
unni að vori fellir afkvæmi hennar
að hausti án nokkurra sinnaskipa í
millitíðinni.
Síðustu ár fór hann í daglegar
fjörugöngur út á Seltjarnarnes og
yngri mönnum þótti undarlegt út-
hald að geta farið sömu slóð svo oft
innan um svo fábreytilega stað-
hætti. En karl faðir minn var læs á
ljóð fjörunnar þótt ekki færi sögum
af því að hann læsi annan skáld-
skap. Ég hef lesið einhvers staðar
að þar liggi fyrir nýtt ljóð á hveijum
degi. Sjálfur kann ég ekki frekari
skil á því máli.
Hann var gerður að heiðursfélaga
í Framsóknarflokknum árið 1984.
Hann þótti svo góður ökumaður að
í mörg ár þurfti hann ekki að borga
iðgjöld fyrir bíltrygginguna. Ég ætla
ekki að tína til fleira af veraldlegum
metorðum, þótt kunni að hafa verið
einhver, en nefni þetta tvennt vegna
þess að mér fínnst það sjálfum
merkilegt og vissi ekki fyrr en ég
fór að grúska í pappírunum hans. I
þeim hirslum rakst ég á minnispen-
ing sem á stendur: Vertu sjálfum
þér trúr.
Þessi orð hefur hann gert að sín-
um. En spurningin er hversu langt
eigi að ganga til að framfylgja metn-
aði sínum um trúnað við sjálfan sig.
Ég veit það ekki, en það kann að
vera úrelt umhugsunarefni. Önnur
spurning er alltént nærtækari í eftir-
mælum. Með orðum Sigurbjarnar
Einarssonar biskups í sjónvarpsvið-
tali nú um áramótin: „Spurningin
er ekki hvað tekur við heldur hver.“
Þetta eru vísdómsorð. En það hefur
heldur en ekki sneyðst um orðaforð-
ann þegar tala skal til þess einhvers
sem við tekur.
Einhveijar hinar fyrstu minningar
mínar eru um ferðir með föður mín-
um út fyrir bæinn, ungum manni
sem kom heim þar sem ég var í
fóstri og svo fórum við tveir í öku-
ferð. Það var alltaf sólskin. Svo féllu
þessar ferðir niður og ég man eftir
þessum sama manni tvístígandi í
dyragættinni heima; brosið var orðið
að glotti, hann var kominn í ófrið
við konurnar báðar. Eitthvert afl
hafði smeygt sér inn í líf okkar
beggja og tekið af okkur ráðin.
Kannski hafði það búið í honum all-
an tímann. Seinna þegar ég kom
fram á unglingsár vaknaði viðlíkt
afl í mér sjálfum sem dró ný ský á
þessa sólardaga frumbernsku
minnar.
En ég vænti að við eigum eftir
að hittast þar sem meira samræmi
ríkir. Og eiga saman einn sólskins-
dag í viðbót.
Þorsteinn Antonsson.
Mklrykkjur
Glæsileg kaffi-
hlíMllxirð Megir
sídir og mjög
góð þjóiiustíL
Upplýsingar
ísínia22322
FLUGLEIDIR
IÍTEL LOFTLEIIIK