Morgunblaðið - 16.11.1993, Qupperneq 39
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. NÓVEMBER 1993
39
■+
Jakobína Bjarna-
dóttir - Minning
Fædd 5. október 1906
Dáin 6. nóvember 1993
Hún Bína mín er dáin, háöldruð
á áramælikvarða, en hún var ung í
anda og á þeim aldri sem viðmæl-
andinn var. Hún þekkti ekki kyn-
slóðabil frekar en hégóma eða til-
gerð og hún var afskaplega hrein-
skiptin og heiðarleg. Svo hafði hún
hlýjasta hjartað af öilum þessum
góðu konum í Vesturbænum og
ekki síst átti hún ómældan sjóð af
hnausþykkum brauðsneiðum sem
hún var óspör á að stinga að okkur
krökkunum. Hún átti hjartahlýju
sem ég lærði betur að meta þegar
ég fór að eldast. Hún sagði mér
nýlega að þegar hún var bam fyrir
vestan átti hún kött og á heimilinu
voru líka hundur og hænsni og þeg-
ar hún fór í skólann fylgdu henni
úr hlaði kisan, hundurinn og haninn
sem rak lestina, þau vissu hvaðan
gott kom.
Bína var hluti af ævi minni alveg
frá fyrsta minni og aldrei féll skuggi
á í rúm fimmtíu ár. Hún var hluti
af Vesturbæjarkoppaklúbbnum sem
samanstóð af konum búandi við
Vesturvallagötu, Holtsgötu og
Brekkustíg sem tóku sig saman einu
sinni á sumri og leigðu rútu til að
skreppa út úr bænum. Þegar ég
hringdi í hana fyrir einum og hálfum
mánuði til að tilkynna henni lát
móður minnar beygði hún af og
sagði að nú væru þær allar farnar
þessar góðu vinkonur úr Vestur-
bænum. Ég hef þá trú að þær séu
allar saman að ylja sér við skemmti-
legar minningar.
Ég á eftir að sakna símtalanna
okkar Bínu og ég fínn að það fer
hluti af manni með öllum sem fara,
sem manni hefur þótt vænt um.
Elsku Palli, Lilla og Baddi og aðrir
aðstandendur, ég sendi ykkur mínar
innilegustu samúðarkveðjur. \
Elsku Bína mín, far þú í Guðs
friði og þökk fyrir allt.
Guðrún Siguijóns.
Þeim fækkar óðum, sem áttu
bernsku sína í upphafi þessarar ald-
ar og nú hefur kvatt ein besta vin-
kona mín úr þeim hópi eftir langa
og á köflum erfíða starfsævi. Þegar
ég nú sest niður og minnist þessarar
sæmdarkonu, sem ég hélt að ég vissi
allt um, verður mér ljóst, að ég veit
næsta lítið um ættir hennar og upp-
runa nema hvað hún var að vestan
og átti sín fyrstu ár á Patreksfirði.
Ég veit þó, að hún tilheyrði þeim
hópi íslendinga, sem kynntust mold-
argólfinu í uppvextinum og að hún
hafði tæplega slitið barnsskónum,
er hún var komin í fulla og erfiða
vinnu í þeirri lífsbaráttu, sem flestir
af hennar kynslóð komust ekki hjá.
Og mér er til efs, að henni hafi síð-
an nokkurn tíma fallið verk úr hendi
fyrr en nú hin síðari ár, er tímans
tönn hafði sett sitt mark á stoðkerfi
hennar og sjón. Mér virtist hún
a.m.k. alltaf vera að, þegar fundum
okkar bar saman á liðnum meira en
50 árum.
Það má ekki skilja mig svo, að
Bína hafi ekki gefið sér tíma til
þess að lesa og spjalla, síður en svo.
Hún var hafsjór af fróðleik um menn
og málefni, fylgdist vel með öllu, sem
gerðist nær og fjær, hún var stálm-
innug og vel greind. Já, hún hafði
gaman af að ræða hin margvísleg-
ustu mál en aldrei heyrði ég hana
tala illa um nokkurn mann. Þvert á
móti fannst mér hún gera sér far
um að skýra það og afsaka í fari
fólks, sem mörgum þótti miður fara.
Hún var á sinn hátt í raun mikill
heimspekingur en nú verður því
miður ekki lengur sóttur fróðleikur
eða skemmtun í hennar brunn.
Þó ég hafi ekki vitað nema fátt
eitt um Bínu, ættir hennar og upp-
runa, þá finn ég samt nú, að ég vissi
raunar allt um hana. Því að sú hlýja
og það viðmót, sem ég mætti hjá
henni aðeins nokkurra ára gamall
og ævinlega síðan hefur sagt mér
allt um hana, sem skiptir máli. Ég
fæ aldrei þakkað að fullu fyrir þá
vinsemd, er hún sýndi mér, aldrei
þakkað fyrir öll þau ótal skipti, sem
ég fékk að koma inn í hlýjuna hjá
henni og finna til öryggis að
ógleymdum öllum þeim bitum, er
hún gaf mér í svanginn.
í mínum huga er fallin mikilhæf
kona, sem fór í gegnum lífið með
reisn, bar sig aldrei illa eða kvart-
aði, reyndi ávallt að gera gott úr
öllu því, sem miður fór og var alltaf
góður leiðbeinandi. Hún var jafn
mild í dómum sínum eins og hún
var staðföst og réttlát. Hún var af-
rekskona.
Blessuð sé minning hennar.
Isak G. Hallgrímsson.
Hún elsku amma okkar er látin.
Þessi yndislega og góða kona fékk
loksins hvíldina.
Bína amma var sterk kona, með
mikinn baráttuvilja, lífsglöð og hrók-
ur alls fagnaðar hvar sem hún kom.
Hún átti marga vini og ekki má
gleyma þeim eiginleika sem mest
bar á, umhyggjuseminni. Það var
sá þáttur í hennar fari sem við
barnabörnin fundum hvað mest fyr-
ir. Ávallt þegar leið okkar lá á Hring-
brautina og síðar á Litlu-Grund, var
spurt um líðanina, þrátt fyrir að hún
sjálf þjáðist af miklum kvölum í
mjöðminni. En hún kvartaði sjaldan,
því að þannig var hún amma.
Amma tók mikinn þátt í lífi okk-
ar, hlustaði með mikilli athygli á
okkur og ráðlagði okkur ávallt heilt.
Hún hafði frá mörgu að segja og
var minni hennar slíkt að undrun
sætti. Sögur hennar voru svo
skemmtilegar að fólk og staðir urðu
ljóslifandi í hugskotum okkar.
Eftirlifandi eiginmaður ömmu er
Páll Guðbjartsson en þau bjuggu
saman í um 60 ár. Þau eignuðust
tvö börn, Guðbjart og Ingu Valdísi.
Guðbjartur, fæddur 24. september
1935, giftist Nítu Pálsson og eiga
þau dæturnar Helenu og Kristínu, .
Inga Valdís, fædd 24. september
1937, giftist Ingibergi B. Þorvalds-
syni, en hann lést fyrir rúmu ári.
Þau eignuðust þrjár dætur, Jakob-
ínu, Astu Brynju og Kolbrúnu.
Barnabarnabörnin eru orðin sex að
tölu.
Það er ljóst að mikið skarð hefur
verið rofið í fjölskylduna við fráfall
Bínu ömmu. Þessi hláturmilda kona
fór í gegnum lífið af mikilli bjart-
sýni og góðmennsku og leikur eng-
inn vafi á að vel hefur verið tekið á
móti henni í andans heimi. Elsku
amma, Guð geymi þig og við þökkum
þér samveruna.
Dótturdætur.
Innheimta
Kristín Einarsdóttir,
Kvenfélagi Hallgrímskirkju.
„Nú er einfalt að vera
gjaldkeri því innheimta
féJagsgjaldanna fer öll í
gegnum Félagasjóð.
Við fáum yfirlit mánaðarlega
og ársreikning um áramót.“
Innheimta félagsgjalda
Greiðsluþjónusta
Yfirlit yfir félagsgjöldin
Rekstrarreikningur árlega
Bókhaldsmappa í kaupbæti
L
Lapdsbanki
íslands
Banki allra landsmanna
• •