Morgunblaðið - 07.02.1996, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 07.02.1996, Blaðsíða 29
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 7. FEBRÚAR 1996 29 MINNINGAR GISLI HANNESSON + Gísli Hannesson var fæddur í Ueykjavík 24. júní 1909. Hann lést á heimili sínu i Garðabæ 28. janúar síðastliðihn. For- eldrar hans voru Ólafía Sigríður Ein- arsdóttir, f. á Stóra- Nýjabæ í Krísuvík 16. október 1886, d. 16. nóvember 1970, og Hannes Stígsson, sjómaður, f. á Brekkum í Mýrdal 29. október 1876, d. 9. desember 1966. Gísli var elstur átta sona þeirra hjóna. Hinir voru Kornelíus, f. 3. júlí 1911, d. 31. ágúst 1987; Einar Sigurbergur, f. 17. sept- ember 1913, d. 1. desember 1930; Jóhann, f. 30. október 1916; Stígur, f. 15. ágúst 1920, d. 3. mai 1988; Einar, f. 23. desember 1922, d. 5. mars 1925; Gunnar Þorbergur, f. 5. mars 1925; og Gunnlaugur, f. 16. júní 1928. Hinn 28. júlí 1933 kvænt- ist Gísli eftirlifandi konu sinni, Bryndísi Sigurðardóttur, hár- greiðslumeistara, f. 8. júlí 1911 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Þuríður Pét- ursdóttir og Sig- urður Arnason, vél- stjóri í Reykjavík. Börn Gísla og Bryndísar eru: 1) Elísabet Erla, f. 15. apríl 1934, gift Braga Jóhannes- syni og eiga þau þrjú börn og fimm barnabörn, 2) Þur- íður Hanna, f. 5. maí 1942, gift Guð- jóni Tómassyni og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn. 3) Sigurður Örn Gíslason, f. 26. juní 1944, var kvæntur Svölu Lárusdóttur og eiga þau þrjú börn og eitt barnabarn. Núver- andi eiginkona hans er Margrét Margrétardóttir. Gísli og Bryndís bjuggu í Keykjavík til ársins 1973, en þá fiuttust þau í Garðabæ. Gísli var rafvirki að mennt og vann lengst af hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur sem yfirverkstjóri og síðar deildarstjóri fram- kvæmdadeildar. Útför Gísla verður gerð frá Áskirkju í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 15.00. ÞEGAR ungt fólk fellir hugi saman og ákveður að fylgjast að upp frá því, hvarflar sú hugsun ekki að þeim, að með makanum fylgja oft- ast náin tengsl við nánustu fjöl- skyldu hans. Fyrir fjórum áratugum stóð ég í þessum sporum. Mér varð þó fljótt ljóst, að ég hafði verið sérlega heppinn að eignast sem tengdaforeldra Gísla Hannesson og Bryndísi Sigurðardóttur. Öll sam- skipti mín við þau síðan hafa verið með þeim hætti, að þar vildi ég engu breyta. Gisli var borinn og barnfæddur Reykvíkingur, ólst upp við Lauga- veginn og bjó alltaf í austurbænum, þar til þau hjónin keyptu sér hús í Garðabæ fyrir rúmum tveimur ára- tugum. Hann var atorkusamur og dugmikill strax á unga aldri, fór snemma að vinna sér inn aura með ýmsum störfum, t.d. sem sendill í verslunum. Hann starfaði mikið í skátahreyfíngunni og fékk þar út- rás fyrir kappið og orkuna í ferða- lögum, sem jafnan voru gönguferð- ir. Gísli hóf ungur nám í rafvirkjun hjá Ormsbræðrum, og var Jón Ormsson meistari hans þar. Náminu lauk hann 1929 og réðst þá til Rafmagns hf. og vann þar næstu þrjú ár. Þar fékkst hann mikið við uppsetningu rafstöðva víða á Suð- urlandi ásamt raflögnum. Á þessum árum voru ekki tekin sveinspróf, en þess í stað fengu menn iðnbréf. Gíslí tók aldrei iðnbréfíð, en tók aftur á móti nokkrum árum síðar sveinspróf í húsalögnum, enda þótt nám hans hafi verið meira í rafvéla- virkjun, en starf hans var blanda af þessu tvennu. í níu ár vann Gísli síðan á raftækjaverkstæði Júlíusar Björnssonar. Á þessum fyrstu árum sínum sem rafvirki vann hann mjög fjöl- breytt störf. Auk hefðbundinna rafvirkjastarfa vann hann t.d. mik- ið við raflagnir í skipum og setti upp lyftur í mörgum húsum hér í bæ. Snemma hefur komið í ljós mikil verklagni og verksvit hjá Gísla og var honum treyst fyrir flóknum og vandasömum verkum og fékk snemma mannaforráð. Hann hafði eldlegan áhuga á öllum störfum, sem unnin voru kringum hann, og var- almenn verkþekking hans ótrúlega yfírgripsmikil. A þessum tíma var ekki alltaf hlaup- jð að því að fá þá hluti, sem þurfti til verksins, sem unnið. var við. Varð Gísli mjög fær að bjargast við það sem tiltækt var og smíðaði það sem vantaði eða endurbætti hluti, sem til náðist. Sagði hann mér oft frá þessu og var gaman að heyra hann lýsa þessu basli á kreppuárunum. Gísli hóf störf hjá Rafmagns- veitu Reykjavíkur 1. desember 1942 og var þá komið að þeim þætti í lífi hans, sem hann helgaði alla krafta sína í meira en þrjá áratugi, og flestir þekkja hann af. Hann var ráðinn sem aðstoðarverk- stjóri, en var fljótlega settur yfir spennistöðvarnar. Arið 1946 varð hann yfirverkstjóri bæjarkerfisins og heyrði undir hann allur rekstur og nýbyggingar jarðlínu, loftlínu og götulýsingar, spennistöðvar, flutninga-deild Og vaktadeild. Þessu umfangsmikla starfi gegndi Gísli síðan í tvo áratugi, en var þá skipaður deildarstjóri fram- kvæmdadeildar, en síðustu starfsár sín hjá rafveitunni hafði hann eftir- lit með verktökum, sem voru farn- ir að taka að sér æ fleiri verkefni þar. Afburða verkþekking, skipu- lagsgáfur, ósérhlífni og einstaklega gott minni Gísla, ásamt mikium áhuga á öllu, sem hann fékkst við, gerðu honum kleift að gegna þess- um störfum með miklum ágætum. Allt dreifíkerfí rafveitunnar var sem greypt í minni hans og var nánast hægt að fletta þar upp öllu því við- komandi eftir því sem gamlir starfs- menn þar sögðu. Þessu góða minni hélt Gísli allt til æviloka. Það gilti ekki eingöngu um starfíð, heldur líka um menn, hús, staðhætti og atburði. Reykja- vík, eins og hún var á uppvaxtarár- um hans og meðan umsvif hans voru mest í starfi, var eins og kort- lögð í höfði hans. Sem lítið dæmi um minni hans get ég nefnt smáat- vik, sem gerðist um tíu dögum fyr- ir andlát. hans. Þegar ég var að byggja hús mitt fyrir nær aldar- fjórðungi, teiknaði Gísli raflögnina og lagði að hluta. Ég hef verið að gera smálagfæringar í kjallaranum að undanförnu, og fylgdist Gísli með því öllu, þótt hann kæmist ekki til að sjá það. Meðal annars þurfti að bæta við raflögnina tengl- um og ljósum, og sagði ég Gísla að ég þyrfti að láta leggja nýja grein frá töflu vegna þess. Nei, sagði Gísli, það væri hægt að leggja frá ákveðinni loftdós, því það mætti bæta þessu við á syðri greinina í kjallaranum, og taldi hann síðan upp tenglana og ljósin, sem fyrir væru á þessari grein. Eftir að Gísli hafði látið af störf- um hjá rafveitunni, sat hann ekki auðum höndum. Hann hjálpaði börnum sínum við að koma sér upp húsum og gekk þar fram af sama dugnaði og kappi, sem alltaf fylgdi honum. í nokkur ár gegndi hann, starfi umsjónarmanns í Flataskóla og var þar afi, eins og börnin kalla það. En einmitt í því starfí nýttist Gísla sá eðlisþáttur sem var svo ríkur í skapgerð hans. Hann hafði einstaklega gott lag á börnum svo jafnvel mestu ólátabelgir urðu stillt- ir í návist hans. Hann var ákaflega barngóður og skildi börnin vel, og þau hændust að honum, bæði barnabörnin og barnabarnabörnin og aðrir krakkar sem hann um- gekkst. Þrátt fyrir annríki og amstur i starfi og utan, reyndi Gísli að sinna ýmsum áhugamálum sínum. Hann smíðaði ýmsa gripi úr tré fyrir börnin sín og fleiri á sínum yngri árum og skreytti þá með máluðum myndum. Um tíma smíðaði hánn einnig úr kopar og eru til listafagr- ir hlutir eftir hann, en þeir eru allt of fáir. Ég hefði viljað að hann hefði sinnt þessum þætti meira, því þar kom fram listrænn streng- ur, sem hefði mátt leggja meiri rækt við. Gísli var mjög óánægður með sig, ef hann mundi eitthvað ekki nægilega vel, t.d. nafn úr ein- hverri blaðagrein, sem hann hafði lesið nýlega, og sagðist vera farinn að kalka. Ég vissi að hvorki ég né aðrir gætu munað öll þessi nöfn í upplýsingaflóði fjölmiðlanna. Gísli las mikið síðari ár ævinnar, þegar betri tími gafst til þess, sérstaklega það sem fróðleikur var í. Það var honum þung raun, að sjón hans dapraðist mikið síðustu misserin, og gat hann því lesið minna en hugur stóð til og þreyttist mjög við lestur og varð undir það síð- asta að leggja blöð og bækur á hilluna. Þegar umsvifin í starfi Gísla voru mest, má segja að allur hans tími væri bundinn því, ekki bara hinn eiginlegi vinnutími heldur drjúgur hluti þess sem átti að heita frístundir. Oftman ég eftir honum heima yfir teikningum eða öðrum pappírum, eða löngum stundum í símanum að tala við undirmenn sína eða yfirmenn um verkefni dagsins. Þegar tími vannst til var hann alltaf reiðubúinn að gera öðr- um greiða og aðstoða. Ófáar voru þær ferðir, sem hann ók okkur og börnum okkar meðan við vorum enn bíllaus, og afabíll var fastur hluti af tilveru barnanna. Hann var alltaf boðinn og búinn að rétta okkur hjálparhönd, þegar við vor- um að byggja og taldi ekki eftir sér tímann né erfiðið, sem hann lagði á sig. Það þurfti ekki að biðja hann, því hann fylgdist með því sem til stóð við bygginguna og birtist þá oft vinnuklæddur á staðnum og tók til starfa. Þá var gott að njóta verkkunnáttu hans og verklagni. Gísli og Bryndís héldu heimili sitt allt til æviloka hans. Þótt við höfum við reynt að vera þeim innan handar síðustu árin eftir að Gísli var hættur að aka bíl og átti erfið- ara með að sinna sínum málum, hðfum við aldrei getað endurgoldið nema brot af þvi sem hann gerði fyrir okkur. Gísli eltist mjög vel. Hann var vel á sig kominn fram á síðustu ár, þar til gigtin fór að þjaka hann, óvenju lipur og léttur í hreyfíngum. Hann var alia tíð grannvaxinn þótt örfá kíló bættust við, þegar hann fór að hægja á sér, kominn á níræð- isaldur. Hárið var silfurgrátt, liðað og þykkt og fór vel. Svipurinn var alltaf sterkur, en drættirnir í and- liti hans voru mildir, ekki síst þegar árin færðust yfir. Hann hélt skýrri hugsun til loka. í 63 ár stóð Bryn- dís við hlið Gísla og bar þar hvergi skugga á. Gísli gat dvalið á heimili sínu til hinsta dags og fékk þar friðsælt andlát í návist Bryndísar og dætranna beggja. Genginn er maður, sem jafnframt því að vera harður framkvæmda- maður var góður eiginmaður, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, sem sárt verður saknað. Að lokum get ég aðeins sagt: Þakka þér fyrir samfylgdina. Bragi Jóhannesson. Með örfáum orðum langar okkur að minnast mágs okkar og vinar sem við kveðjum í dag. Gísli Hannesson kvæntist systur okkar, Bryndísi, 28. júlí 1933, þeg- ar við vorum börn að aldri. Við munum því ekki eftir okkur án þess að hann hafi verið einn af fjölskyld- unni. G.ísli var mikill vinur allra á heim- ili foreldra okkar og hvers manns hugljúfi. Það var mikið fj'ör hjá okkur krökkunum þegar Gísli kom í heim- sókn. Við komum hlautpandi á móti honum með miklum fagnaðar- látum. Hann kunni að leika við okkur og var allra manna glaðlynd- astur. Alltaf var hann boðinn og búinn að rétta hjálparhönd og lagfæra hvaðeina sem aflaga fór heima, jafnt raftæki sem annað enda var hann hagur svo af bar og hug- kvæmur við gerð ýmissa fagurra gripa. Gísli lærði rafvirkjun hjá Bræðrunum Ormsson og eftir 12 ára starf hjá Rafmagni hf. og Júlíusi Björnssyni réðst hann til Rafmagnsveitu Reykjavíkur sem verkstjóri og yfirverkstjóri varð hann í desember 1946. Þá var hann í stjórn Starfs- mannafélags Reykjavíkur og for- maður stjórnar Verkstjórafélags Reykjavikur um sinn og einnig í stjórn skátafélagsins Væringja um tíma. Gísli og Biddý áttu hugmyndina og stóðu fyrir jólaskemmtunum fjöl- skyldunnar sem enn eru haldnar í Félagsheimili rafveitunnar. Þar sem annars staðar var Gísli hrókur alls fagnaðar. Gísli byggði hús við Laugarás- veginn og þjuggu þau þar i 20 ár, en fluttu síðan í Goðatún í Garðabæ og bjuggu þar í önnur 20 ár, en síðustu árin hafa þau búið í Boða- hlein í Garðabæ. Hvar sem þau áttu heima var einstaklega notalegt að koma til þeirra. Af hlýju og vin- semd áttu þau nóg. Við erum þakk- lát fyrir að hafa átt Gísla að vin. Sendum fjölskyldu hans og ættingj- um bestu kveðjur. Af eilífðar ljósi bjarma ber, sem brautina þungu greiðir. Vort líf sem svo stutt og stopult er, það stefnir á æðri leiðir. Og upphiminn fegri en auga sér mót öllum oss faðminn breiðir. (E. Benediktsson.) María og Haraldur. Ég kynntist Gísla Hannessyni fyrst árið 1969 þegar ég varð tengdadóttir hans og það var gott að eignast slíkan tengdaföður. Gísli var ekki bara einstakt ljúf- menni, heldur líka skemmtilegur og einstaklega fróður. Frásagnargleði og lífskraftur einkenndu hann, svo og þolinmæði og þrautseigja. Húsið sem Gísli og Bryndís byggðu í Laugarásnum bar vott um stórhug þeirra og dugnað. Þangað var gott að koma, snyrtimennskan í háveg- um höfð og mikið safn góðra bóka sem ekki voru bara til skrauts held- ur í stöðugri notkun. Ef í umræðum bar á góma málefni sem menn þekktu ekki gjörla þá var alltaf flett upp í bókum og efnið gjörkannað. Þótt Bryndís og Gísli flyttu búferl- um þá var heimilið þeirra alltaf óbreytt, þ.e. þau rækuðu garðinn sinn svo af bar og til þeirra var alltaf gott að koma. Gísli hafði mjög gaman að garðyrkju og var iðinn við að planta og ala upp trjá- plöntur og naut öll fjölskyldan góðs af. Nú þegar komið er að kveðju- stund er margs að minnast, t.d. ferðalaganna sem við fórum í sam- an á Snæfellsnesið, í Þórsmörkina og í Þingvallasveitina. Skemmti- legri ferðafélaga var vart hægt að hugsa sér. Gísli var maður léttur í spori og göngugarpur mikill. Alltaf þegar á þurfti að halda innan fiöl- skyldunnar var hann boðinn og búinn til hjálpar. Hann átti margar vinnustundirnar í sumarbústaðnum okkar í Ögri og óteljandi voru þær stundir sem fóru í að hjálpa okkur við húsbygginguna í Lindarseli. Erfíðleikarnir eru til að yfírstíga þá vildi Gísli meina og oft sýndi . hann mér mikla þolinmæði. Þegar við fluttum búferlum til Noregs mætti Gísli til að aðstoða við að pakka niður. Þegar ég gafst upp á að troða öllu dótinu í kassana tók hann við og síðan var öllu raðað niður aftur, stundum sami hluturinn tekinn oft upp og handleikinn þar til allt var slétt og fellt og allt komst niður. Þannig vann. Gísli markvisst og yfirvegað, svo verkið virtist leik- ur einn. Gísli var frábær fjölskyldu- faðir og barnabörnin hans hændust að honum. Ef eitthvað bilaði, hvort sem um var að ræða leikföng eða annað, þá var viðkvæðið hjá börn- unum okkar, hann afí getur örugg- lega gert við þetta. Samhentari hjón en Bryndís og Gísli voru eru vandfundin. Eitt gott dmæi um samvinnu þeirra var þeg- ar Gísli smíðaði dúkkuhúsið fyrir dóttur okkar, þá veggfóðraði Bryn- dís, dúklagði og valdi liti, síðan var húsið búið húsgögnum og að lokum upplýst með litlum lömpum sem gengu fyrir rafhlöðum sem Gísli tengdi og útbjó af einstakri ná- kvæmni. Svona gæti ég endalaust haldið áfram, svo margs er að minnast. Ég þakklát fyrir að hafa verið svo lánsöm að hafa kynnst Gísla- Hannessyni. Þótt leiðir okkar sonar hans skildu bar aldrei skugga á vináttu okkar Gísla og Bryndísar. Gísli er einn sá besti maður sem ég hefí kynnst. Guð blessi minningu hans. Þú skalt ekki hryggjast, þegar þú skilur við vin þinn, því að það sem þér þykir vænst um í fari hans getur orðið þér ljósara í fjarveru hans, eins og fjallgöngumaður sér fjallið best af sléttunni. (Kalihl Gibran). Svala Lárusdóttir. Ég vil þakka þér fyrir allar þær yndislegu stundir sem ég, þú og amma áttum saman. Það var alltaf svo gaman að koma í heimsókn til ykkar. Ég man svo vel þegar við Arnar komum í heimsókn og þú settir vatnsslönguna út í garð. Þar máttum við leika okkur að vild og það var allt í lagi að blotna. Eða þegar ég fékk að standa við eldhús- vaskinn og sulla tímunum saman og þið amma tókuð þátt í hvaða leik sem mér datt í hug. Takk fyrir allt, elsku afí minn. Þín, Berglind Lóa. Elsku afi. Það er erfítt að ætla að skrifa aðeins nokkrar línur um jafn góðan mann eins og þú varst. Þú varst alltaf til staðar og studdir við bakið á okkur. Við munum eftir sunnu- dögum, sem voru ekki sunnudagar nema farið væri til þín og ömmu í „Góðatún", þegar við löbbuðum til ykkar og fengum jafnvel að gista, sem var það allra bésta. Við munum eftir litla herberginu þar sem ,þú geymdir öll verkfærin þín, þar sem alltaf var hægt að koma með hluti sem biluðu hjá okkur. Eða þegar við vorum í sóíbaði hjá ykkur ömmu, hoppandi yfir vatnsúðann úti á grasi og skemmtum okkur konunglega. Mikið voruð þið amma dugleg að sýsla í garðinum. Það var svo gam- an að hlusta á þig segja frá því þegar þið amma voruð ung og hvemig Reykjavík leit út í þá daga, þú mundir þetta allt svo vel. Ekki er hægt að hugsa til þín nema að muna eftir slaufunum þínum, þær urðu að vera þannig að þú gætir hnýtt þær sjálfur, það gerðir þú- alltaf vandlega og af kostgæfni. Við þökkum þér, elsku afi, fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman. Mikið er ég þakklát að þú skyldir lifa það að sjá Steinar Leó, son minn, um jólin. Þín barnabörn, Bryndís Erla og Arnar Þ6r.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.