Morgunblaðið - 15.09.1996, Side 46

Morgunblaðið - 15.09.1996, Side 46
46 SUNNUDAGUR 15. SEPTEMBER 1996 KNATTSPYRNA MORGUNBLAÐIÐ MEÐAN allt lék í lyndl. Bruce Rioch, þáverandi knattspyrnustjóri, býður Dennis Bergkamp velkominn á Highbury sumarið 1995 og David Dein fylglst glaðbeittur með. Handaskol á Highbury Aurslettur hafa gengið yfir nafn enska stórliðsins Arsenal á undanförnum misserum. Hvert hneyksl- ismálið hefur rekið annað og tveir knattspyrnu- stjórar fengið að fjúka á átján mánuðum. Þá viður- kenndi fyrirliðinn, Tony Adams, í gærmorgun að hann þyrfti á áfengismeðferð að halda. Qrri Páll Ormarsson veltir hér upp hugsanlegum skýring- um á ástandinu á Highbury. UM ÁRIÐ voru leikmenn og for- ráðamenn Arsenal að fljúga heim eftir vináttuleik í Austurríki. Ferðin hafði verið velheppnuð og góður sigur rúsínan í pylsuendanum. Við hæfi var að gera sér glaðan dag og þar sem þotan þaut um loftin blá bað stjórnarformaður félagsins, Denis Hill-Wood, um kampavín. „Mér þykir það leitt,“ sagði fiug- freyjan, „en við gleymdum kampa- víninu á flugvellinum." Ekki stóð á viðbrögðum frá formanninum. „Þá verðum við að snúa við og sækja það, er það ekki?“ Og það var gert. Þannig gengu hlutimir fyrir sig hjá Arsenal — með pompi og prakt. En nú er öldin önnur. Dennis gamli er allur og sonurinn, Peter, sestur í stólinn hans. Hann er hins vegar eingöngu peð í valdataflinu sem fram fer bak við tjöldin á Highbury enda nemur hlutur hans í félaginu ekki nema fáeinum prósentum. Sá sem deilir og drottnar er varafor- maður stjórnarinnar, David Dein, og dæmin sanna að menn verða að falla honum í geð ætli þeir sér að komast til metorða á Highbury. Fjölmargar umdeildar ákvarðanir hafa á hinn bóginn leitt til þess að stjórnunarhæfileikar Deins hafa verið dregnir í efa. Dein drakk knattspyrnuáhugann í sig með móðurmjólkinni enda uppalinn í nágrenni Highbury. Hann er af snauðu foreldri en komst í álnir í kjölfar velheppnaðra viðskipta snemma á síðasta áratug. Hófst hann þá handa við að kaupa hlutabréf í Ársenal og komst fljótt til áhrifa í stjóminni. En síðan hef- ur hallað undan fæti og Dein þurft að selja. í dag á hann ekki nema um 12% eignarhlut í félaginu. Ratar ekki á Highbury? En hvers vegna eru völd hans þá svona mikil? Sennilegasta skýr- ingin er sú að hann njóti verndar stærsta hluthafa félagsins, Dannys Fiszmans, sem keypt hefur hluta- bréf stíft síðasta kastið, meðal ann- ars af Dein sjálfum. Talið er að hlutur hans nemi allt að 42%. Fisz- man þessi er hins vegar sagður maður feiminn og óframfærinn sem hafi takmarkaðan áhuga á rekstri félagsins. Gárungarnir hafa meira að segja haldið því fram að hann rati ekki einu sinni á Highbury. Reyndar hefur því heyrst fleygt undanfarið að ekki sé allt sem sýn- ist í þessum efnum; Fiszman sé hinn raunvemlegi leiðtogi á High- bury en kjósi að stjórna í gegnum Dein og framkvæmdastjórann, Ken Friar. Þeirri kenningu trúa fáir. Dein lét snemma að sér kveða á Highbury og fyrsti knattspyrnu- stjórinn sem hann lenti upp á kant við var Terry Neill sem stjórnaði liðinu á árunum 1976-84. í bók sem sá síðarnefndi ritaði fyrir ellefu árum kvartar hann sáran undan framgöngu Deins sem mun hafa vanið komur sínar í búningsklefa leikmanna laust fyrir leiki. Segir Neill skilaboð stjórnarmannsins einatt hafa fallið í grýtta jörð. Þessu kyngdi Neill með semingi en þegar Dein lagði leið sína á æfingu kastaði tólfunum. „Mig rak í rogastans þegar Dein lýsti því yfír, eftir að hafa fylgst með æfing- unni, að hann væri sáttur við hana. Eftir tæplega þriggja áratuga reynslu af atvinnuknattspyrnu var slíkt hól úr munni nýskipaðs stjórn- armanns veruleg viðurkenning fyr- ir mig, Don Howe [þjálfarann] og hitt starfsliðið," segir Neill í hæðn- istón. Fróðir menn segja þessa dæmi- sögu draga upp sannferðuga mynd af Dein — hann hafi ekki hundsvit á knattspyrnu. Sú staðreynd komi þó ekki í veg fyrir að hann sé sýknt og heilagt að leggja knattspyrnu- stjórum félagsins línurnar — og ætlist til þess að vera tekinn alvar- lega. Sumir segja að þetta hafi orðið Bruce Rioch síðasta knatt- spyrnustjóra Arsenal að falli. Hann hafi einfaldlega ekki haldið andlit- inu þegar Dein var að afhjúpa van- þekkingu sína. Ekki venjulegt félag Ástand af þessu tagi væri ef til vill ekki alvarlegt hjá venjulegu knattspyrnufélagi — en Arsenal er ekki venjulegt knattspyrnufélag. í sögulegu samhengi myndar félagið innsta kjarna enskrar knattspyrnu, ásamt Manchester United og Li- verpool, en einungis síðarnefnda félagið hefur unnið fleiri meistara- titla en Arsenal. Allt frá því á fjórða áratugnum, þegar Herbert Chap- man réð ríkjum á Highbury, hafa önnur félög því litið upp til Ársenal — tekið félagið sér til fyrirmyndar. Skyldu þeir dagar vera liðnir? I það minnsta er ímyndin orðin giska blettótt. Snemma á 9. ára- tugnum, þegar kappar á borð við Graham Rix, Tony Woodcock og Charlie Nieholas voru í herbúðum Arsenal, bentu gárungarnir fólki reglulega á laus bílstæði á æfinga- velli félagsins, London Colney, því leikmennirnir væru upp til hópa próflausir eftir að hafa verið góm- aðir góðglaðir undir stýri. Veturinn 1990-91 gisti Tony Adams, núver- andi fyrirliði liðsins, gtjótið um nokkurra vikna skeið eftir að hafa hlotið dóm fyrir glæfralegan ölv- unarakstur. í nóvember 1994 viðurkenndi annar dáðadrengur, Paul Merson, opinberlega að hann þyrfti að leita sér aðstoðar vegna spilasýki og fíkniefnamisnotkunar. Í dag virðist hann reyndar hafa náð undirtökum í glímunni við gjálífíð. Þá fékk þriðji leikmaðurinn, Ray Parlour, skömm í hattinn vorið 1995 fyrir að ganga í skrokk á rosknum leigubílstjóra á æfinga- ferð liðsins í Hong Kong. Svona mætti lengi telja. Rót ringulreiðarinnar sem nú ríkir á Highbury má á hinn bóginn rekja til brottvikningar George Grahams úr starfi knattspyrnu- stjóra í febrúar 1995. Hann hafði þá verið við stjórnvölinn í rúm átta ár og unnið sex titla, sem er ein- stakur árangur á Highbury. Reynd- ar voru stuðningsmenn Arsenal ekki alltaf sáttir við leikaðferðir hans, einkum síðari árin, en til- gangurinn helgar meðalið. Dein og Graham var vel til vina og ekkert bendir til þess að sá fyrr- nefndi hafi verið knattspyrnustjór- anum Þrándur í götu. Graham hafði sína hentisemi og staða hans var sterk. En svo bregðast krosstré sem önnur tré og Graham varð uppvís að óheilindum í starfi — þáði ólög- legar greiðslur frá umboðsmannin- um og syndaselnum Rune Hauge í tengslum við kaup Arsenal á Norðurlandabúunum John Jensen og Pál Lydersen, eins og frægt er orðið. Hann varð því að víkja. Síðbúinn samningur Aðalþjálfarinn Stewart Houston tók þá við liðinu til bráðabirgða á meðan Dein og félagar í stjórninni leituðu logandi ljósi að arftaka Grahams. Sneru þeir sér fyrst til Bobbys Robsons, fyrrverandi landsliðseinvalds Englendinga sem þá var hjá Porto í Portúgal en hann gekk úr skaftinu. Næstur á óska- listanum var Bruce Rioch, knatt- spyrnustjóri Bolton, og við hann náðist samkomulag. Já, samkomu- lag því Rioch skrifaði ekki undir samning við Arsenal fyrr en örfáum dögum áður en honum var gert að taka pokann sinn í haust. Rioch er skörungur í hvívetna og gekk vasklega til verks. Festi meðal annars kaup á hollenska landsliðsmanninum Dennis Berg- kamp og þáverandi fyrirliða enska landsliðsins David Platt fyrir metfé frá Ítalíu. Báru þeir stjóranum báð- ir vel söguna — sögðu hann mann hugsjóna og metnaðar. Arsenal virtist hafa sett stefnuna toppinn. En fljótlega kom á daginn að ekki var allt með felldu. Rioch hélt að sér höndum, þrátt fyrir augljósa löskun á liðinu og skýringin sem margir aðhylltust fékkst síðar stað- fest: Rioch og Dein áttu ekki skap saman. Fyrir vikið átti knatt- spyrnustjórinn á brattann að sækja enda hefur stjórn Arsenal, eðli málsins samkvæmt, annast öll kaup og sölur á leikmönnum frá því Gra- ham féll í freistni. Fyrirkomulag þetta er alþekkt á meginlandi Evrópu, þótt Bretum sé það framandi, og hefur þótt gefa góða raun. Grundvallaratriði er hins vegar að knattspyrnustjór- inn og stjórnin talist við. Því var á hinn bóginn ekki að heilsa á Hig- hbury. Rioch hefur til að mynda staðfest að frá því gengið var frá kaupunum á Platt í júlí 1995 og þar til honum var vikið úr starfí hafi hann lagt fyrir stjórnina lista með nöfnum 29 leikmanna sem hann vildi sjá klæðast búningi Ars- enal. Einn leikmaður gekk til liðs við Arsenal á þessum tíma, gamla brýnið John Lukic sem fékk fijálsa sölu frá Leeds — og nafn hans var ekki á listanum. Lista þessum virð- ist því einfaldlega hafa verið stung- ið undir stól. Rioch bar skarðan hlut frá borði í öðru máli, orðaskaki sínu við eina skærustu stjörnu liðsins á undan- förnum árum, Ian Wright. Á miðj- um vetri sló í brýnu þeirra í millum en Rioch þótti framheijinn ódæll og vandaði því reglulega um við hann. Að því kom að mælirinn fyllt- ist og Wright fór fram á sölu frá félaginu. Þeirri beiðni vísaði stjórn félagsins snarlega á bug enda Wright skjólstæðingur Deins og góðvinur. Rioch lét sem allt væri með felldu og fékk víða bágt fyrir eins og hjá orðháknum Brian Clo- ugh. „Eg hefði selt Wright á stund- inni,“ lét hann hafa eftir sér. Ýms- ir telja að upphlaupið hafi einungis verið herbragð af hálfu Wrights og skilaboðin skýr. „Haltu þig á mottunni, Bruce Rioch, þú ræður engu hér!“ Hugsanlega hefði Rioch, æru sinnar vegna, átt að segja starfi sínu lausu þegar hér var komið sögu. Það gerði hann ekki. Niöuriægingin fullkomnuð Ljóst má vera að Rioch var ekki vært í starfí og brottvikning hans kom því ekki á óvart — það gerði hins vegar tímasetningin, fimm dögum fyrir mót. Við þetta má síð- an bæta að tveimur sólarhringum eftir að Rioch hafði verið rekinn gekk ArsenaL frá kaupum á frönsku leikmönnunum Rémi Garde frá Strasbourg og Patrick Vieira frá AC Milan. Sumir segja til að full- komna niðurlægingu hans. Síðar- nefndi leikmaðurinn hefur um skeið þótt einn efnilegasti knattspyrnu- maður Frakklands og fáeinum dög- um áður en hann skrifaði undir samning við Arsenal reyndi hol- lenska stórveldið Ajax að fá hann í sínar raðir. Fengu Hollendingarn- ir þá þau svör að hann væri á för- um til Arsenal. Er þetta merkilegt í ljósi þess að Rioch hafði þá ekki enn fengið reisupassann. Þessi leikmannakaup þóttu með- al annars taka af öll tvímæli um að Frakkinn Arsene Wenger yrði næsti knattspyrnustjóri Arsenal — Garde og Vieira væru keyptir að hans undirlagi. Rúmum mánuði síð- ar hefur þetta ekki enn verið stað- fest. Wenger, sem er sem sakir stendur við stjórnvölinn hjá jap- anska félaginu Grampus Eight, fullyrðir reyndar sjálfur að hann sé á leið til Highbury — í síðasta lagi þegar samningur hans í Japan rennur út í janúar 1997 og helst fyrr. Hefur hann boðað til blaða- mannafundar á morgun, mánudag. Stjórn Arsenal þegir hins vegar þunnu hljóði og dregur áðdáendur félagsins og ekki síst leikmennina áfram á asnaeyrunum. Til að bæta gráu ofan á svart tilkynnti Stewart Houston, sem stjórnað hefur liðinu til bráðabirgða það sem af er þessari leiktíð, af- sögn sína á föstudag. Gaf hann þá skýringu að tímabært væri að fíkra sig fram veginn eftir tíu ár sem undirtylla hjá Arsenal. Houston er með öðrum orðum ekki lengur til- búinn að halda sæti knattspyrnu- stjóra volgu fyrir einhvern annan. Hefur næsti maður í röðinni, að- stoðarþjálfarinn Pat Rice, tekið við stjórntaumunum — til bráðabirgða. Málið í heild sinni er orðið ákaf- lega pínlegt, ekki eingöngu fyrir stjórnina heldur félagið í heild, nafn þess og virðingu, og eru bresk- ir fjölmiðlar þegar farnir að líkja því við sápuóperu. Þykja vinnu-' brögð Deins og félaga varla sæma litlu áhugamannafélagi, hvað þá einu nafnkunnasta atvinnumanna- félagi heims. Aðdáendur Arsenal ljúka því sundur um það einum munni að eitthvað verði að gerast — og það strax. Verði Arsene Wenger næsti knattspyrnustjóri Arsenal, eins og allt bendir til, bíður hans mikið verk — sumir segja ókleifur ham- ar. Ferill hans er hins vegar glæsi- legur og menn sem starfað hafa með honum, svo sem Glenn Hoddle landsliðseinvaldur Englands og George Weah knattspyrnumaður Evrópu, hafa keppst við að bera á hann lof. Þá er Frakkinn vinur Deins frá fornu fari, sem er ekki svo slæmt veganesti. Hugsanlega er hann því vandanum vaxinn. Hvernig sem Wenger vegnar býður valdakerfið á Highbury hins vegar upp á að upp úr sjóði á ný og þá er eins gott að vera á bandi Davids Deins!

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.