Morgunblaðið - 12.12.1996, Blaðsíða 65
MORGUNBLAÐIÐ
FIMMTUDAGUR 12. DESEMBER 1996 65
MAMMA með okkur bræðurna. UNGUR matreiðslunemi á veitingahúsinu Frascati.
jafnfábrotinn og lífið í þorpinu en
ekki stórbrotinn eins og náttúran
allt um kring. Árátta þorpsbúa var
að vilja vita allt um annarra hagi
en trúa samt í hrekklausri ein-
feldni að enginn vissi neitt um þá
sjálfa. Mannlífsflóran samanstóð
mestmegnis af smágerðum en
harðgerðum jurtum, rótföstum og
dreifðum um allar jarðir.
Sumarið sem ég
varð tólf ára
Um sumarið opnaði ég sjoppuna
hans pabba á morgnana þegar ég
vaknaði. Hún stóð niðri við sjó og
var kölluð Viggóssjoppa. Þegar
farskipin komu í land var hátíð.
Þá voru seld smygluð ilmvötn frá
Bandaríkjunum, nælonsokkar og
tyggigúmmí. Það liðu einungis
tveir eða þrír tímar eftir að slíkir
farmar komu þar til allt var selt
upp og ég stóð eftir með skókassa
í höndunum fullan af peningum.
Það var enginn að amast við þessu.
Kraftakarlinn Úrsus kom til
bæjarins með sýningu um sumarið.
Hún var auglýst í kaupfélaginu og
Markúsarbúð og á öllum síma-
staurum. Hann hélt mikla sýningu
á yfirburðum sínum, tætti sundur
símaskrár og rak nagla í gegnum
tré með berum höndum. Einn helsti
íþróttakappi bæjarins var þá orð-
inn sýslufulltrúi. Hann og Úrsus
urðu mestu mátar og gengu saman
að skrifstofu sýslufulltrúans með
þanið bijóstið til að setjast þar að
drykkju. Eitthvað hefur orðið til
þess að kærleikskeðjan slitnaði og
þeim varð sundurorða því heljar-
mennið gerði sér lítið fyrir og lú-
barði kappann. Þetta tengdist víst
ósætti í kvennamálum því krafta-
karlinn lét í veðri vaka að hinn
hefði gerst fjölþreifinn við konu
sína.
Pabbi missti af sýningunni en
hann var á sjó þegar hetjan mætti
til bæjarins. Þeir Úrsus voru kunn-
ugir frá ísafirði og pabbi hafði
sagt mér margar sögur af aflsmun-
um hans. Sýslufulltrúinn mætti
hins vegar illa timbraður morgun-
inn eftir, með himinblátt glóðar-
auga og keypti sér kalt kók en við
feðgarnir höfðum afrekað það að
færa Eskfirðingum þá guðaveig.
Það sem stóð eftir af menningar-
ferð Úrsusar var því glóðarauga
sýslufulltrúans og hrifning okkar
krakkanna sem reyndum í margar
vikur að líkja eftir kappanum,
hvernig hann útfærði þetta og hitt.
Mörgum árum seinna fann ég út
að ég gat rifið símaskrár á sama
hátt. Þetta er raunverulega brella
en það vissum við ekki þá heldur
streittumst við að afhjúpa leyndar-
dóminn með nær engum árangri.
Of nálægt náttúrunni
Ég hélt að konur hefðu tvö
göt, annað til að pissa með og
hitt til að fæða með börn. Seinna
bættust ný púsl við myndina, ást-
in og unaðurinn. Þorpið var of
nálægt náttúrunni til að við gæt-
um alist upp algerlega fáfróð um
kynferðismál. Allt sem foreldrar
okkar þögðu um svo varðveita
mætti sakleysi okkar barnanna
afhjúpuðu dýrin í sakleysi sínu.
Hestarnir elskuðust í haganum án
þess að leiða nokkurn tímann hug-
ann að því að það væri dónalegt.
Kýrnar dilluðu rössunum og þegar
leitt var undir lyftu þær halanum
með sveiflu og hleyptu graðnaut-
inu að. Hanar hoppuðu á hænur.
Kettir breimuðu sárt um nætur
og hundarnir hnýttu sig saman á
rössunum í trylltum unaði. Við
gengum ekki fáfróð um þorpsgöt-
una með þvílíkar skrautsýningar
á annarri hverri þúfu.
Sagður vera hommi
Ungur maður í þoipinu var
sagður vera hommi. Hann var
reyndar fluttur suður til Reykjavík-
ur en dvaldi stundum langdvölum
hjá fjölskyldu sinni í þorpinu. Hann
tilheyrði virðulegri ætt, norska
aðlinum, og af honum stafaði ljómi
ríkidæmis. Hann var ljós yfirlitum,
með liðað hár, vel klæddur og
starfaði sem ljósmyndari en stund-
um brá honum fyrir með mynda-
vélina á götunum. Hann var þægi-
legur í umgengni en yfir honum
var einmanaleiki, hann blandaði
lítið geði við fólk en drakk ótæpi-
lega. Þegar það var uppi á teningn-
um snerist hann upp í andhverfu
sína. Hann kom einn daginn inn í
sjoppuna en ég stóð fyrir aftan
búðarborðið. Enginn annar við-
skiptavinur var inni. Hann var
nokkuð við skál og horfði stíft á
mig. Ég vissi hvað hann hafði í
hyggju, án þess að hafa nokkurn
tímann heyrt á skotspónum, eða
leitt að því hugann, að hann ætti
slíkt til. Ég fraus í sporunum en
hann fór inn fyrir borðið, greip í
mig með báðum höndum og dró
mig inn í herbergið fyrir innan.
Þar var bekkur sem hann lagði
mig á. Hann þuklaði á mér, og var
lagstur ofan á mig, þegar maður
kom aðvífandi inn í sjoppuna,
heyrði átökin og bjargaði mér frá
honum.
Nístandi einmana
Eftir að allt var um garð gengið
fann ég engar tilfinningar gagn-
vart þessum atburði, hvorki reiði
né ótta. Mér fannst þessi maður
vera sjúklingur og slíkur atburður
var eins og fjarlægar náttúruhamf-
arir, sjálfum var mér borgið.
Mamma og pabbi áttu erfitt með
að trúa mér en mamma átti sér-
lega erfitt með að trúa öllu því sem
að einhveiju leyti var óvenjulegt.
Slíkir hlutir voru þagðir í hel. Þeg-
ar maðurinn birtist aftur fullur í
sjoppunni hjá mér skömmu seinna
tók ég járnrör undan afgreiðslu-
borðinu og sagðist myndi mölva á
honum höfuðkúpuna ef hann kæmi
sér ekki burtu eins og skot. Hann
fór en áður leit hann við og horfði
í augun á mér með nístandi ein-
mana augnaráði, og í senn tóm-
legu.
í hjónabandi
Næsta kaflabrot er úr fyrri hluta
bókarinnar og greinir frá því
hvernig Þorsteinn kynnist ástinni
með ínu Thomsen en upp úr slitn-
ar þegar hún fær vinnu utan Kaup-
mannahafnar. Þá verður hann ást-
fanginn af Krúsu, íslenskri læknis-
dóttur áður en ína Thomsen verður
aftur á vegi hans og verður fyrri
eiginkona hans:
Við Krúsa fórum í skógarferðir
með nesti, gönguferðir um götur
borgarinnar og stundum fórum við
út að dansa. En þó að ég ætti ást
Krúsu gegndi ekki sama máli um
móður hennar. Hún hafði göfugt
og þóttafullt yfirbragð arnarins og
var eins og gefur að skilja haldin
þeirri grillu að fjölskyldan stæði
öðru fólki framar. Henni var ekki
gefið um það að dóttir sín væri
að slá sér upp með óbrotnum mat-
reiðslunema. Þær mæðgurnar
fengu allt upp í hendurnar sem var
falt fyrir peninga og ég, sem vann
mér inn sjötíu og sex krónur á
mánuði á Frascati, velti mikið
vöngum yfir því þegar Krúsa sagði
mér að mamma hennar hefði ætlað
að kaupa pels fyrir tólf þúsund
krónur en pabbi hennar hefði ekki
fengið yfirfærða næga peninga og
móðirin hefði þurft að sætta sig
við herðaslá sem kostaði fjögur
þúsund og fimm hundruð krónur.
Faðirinn stóð í bakgrunni þessarar
fjölskyldumyndar. Hann virkaði
traustur og virðingarverður en það
sópaði ekki að honum eins og kven-
kosti fjölskyldunnar. Þær mæð-
gurnar höfðu fyrir sið að fara á
sólskinsdögum út á ströndina í
Charlottenlund. Þær óku þá saman
í Bentley með blæjuna niðri en ég
vildi ekki sjá af Krúsu og elti þær
á reiðhjóli, móður og másandi.
Eftir að hafa lagt bílnum gengu
þær út á bryggjuna sem var byggð
utan um sjólaug. Á sína hvora hlið
almenningslaugarinnar voru svo
nektarlaugar fyrir karla á hægri
hönd og fyrir konur á vinstri hönd.
Mæðgurnar settust í baðfötunum
undir sólhlífar við almenningslaug-
ina og létu geislana gæla við sig
meðan þær flettu vikublöðum. Þeg-
ar ég komst kófsveittur á leiðar-
enda leitaði ég þær uppi, setti upp
tilgerðarlegan undrunarsvip og
sagði:
„Eruð þið hér?“
Því næst leitaði ég uppi annan
stól, blandaði mér í selskapinn og
skeytti engu um hvort mamman
hleypti brúnum. Ósjaldan ákváðum
við Krúsa stefnumót um kvöld við
þessar aðstæður en þegar Bentley-
inn brunaði aftur inn til Kaup-
mannahafnar með þóttafullt reyk-
ský aftan úr sér hunskaðist ég á
reiðhjólinu á eftir þeim til að ná
að skipta um föt í tæka tíð fyrir
dansinn. Það kom að því að fjöl-
skyldan sneri heim til Islands. Við
aðskilnaðinn fór ég að fá grillur
um ínu sem má sjálfsagt rekja
beint til kynhvatarinnar. 011 ástin
sem ég hafði uppgötvað og ætlað
Krúsu sat nú eins og klumpur í
bijóstinu á mér og leitaði út. Ég
greip til þess ráðs að færa hana
yfir á ínu. Þrátt fyrir að við Krúsa
héldum uppi bréfaskriftum urðu
þær æ stopulli. Krúsa gat ekki lif-
að án þess að baða sig í ljóma
karlmannlegrar aðdáunar og ég
gat ekki lifað án kvenna. Ég hélt
samt ótrauður áfram að setja sam-
an ástarbréf til Krúsu þó að hún
ætti orðið annan kærasta á ís-
landi. Þegar ástarvíman fór að
renna af mér nokkru eftir brottför
hennar, tilveran hætti að vera ljós-
rauð og göturnar fengu aftur á sig
gráleitan lit fóru að setjast að mér
undarlegar grunsemdir um að
bréfin mín sem voru orðin full af
sársauka væru lesin í saumaklúbb-
um Krúsu og mínum einlægustu
hugrenningum væri jafnvel mætt
með hlátrasköllum og lófataki
þakklátra áheyrenda. Ég fann svo
til þess að vera bara sveitadrengur
frá Eskifirði að smæð mín varð
mér nærri því ofviða gagnvart
heldra fólkinu að sunnan. Ég held
að varla hafi gengið drengur fyrr
né síðar um götur Kaupmanna-
hafnar sem liðið hefur aðrar eins
ástarraunir og ég.
• Bókarheiti er Götustrákur &
spariskóm - Þættir úr lífi
Þorsteins Viggóssonar athafna-
og ævintýramanns, 250 bls.
Höfundur er Þóra Kristín
Ásgeirsdóttir. Útgefandi
Skjaldborg. Leiðb. verð 3.480 kr.