Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1928, Page 58
58
(Sælingsdalsheiði), en heiði sú er ekki talin hestum fær, nema snjó-
létt sé og færi gott. Þetta bendir á, að vetur hafi verið mildur og
um vorið snjólétt til fjalla. Einnig bendir það í sömu átt, að hross
Þorkels, þar inni á Svínadal, hafa ieitað frá bæ og ekki verið hýst;
annars hefði varla verið farið til þeirra snemmdegis eða um miðjan
dag, eins og Þorkell virðist gjöra. Kjartan hlýtur að vera kominn um
miðjan dag suður á Svínadal, þótt hann hafi komið víðar við en að
Hvítadal, því að hann fór snemma frá Saurhóli, en þaðan er ekki
nema þriggja tíma reið að Hafragili, en þá er Þorkell að koma frá eða
fara til hrossa sinna. Hrossin hafa sennilega leitað að vestan suður
fyrir Mjósund, þar sem var óbeitt vetrarland, en Þorkell ekki líkleg-
ur til þess að varna þeim að ganga í annara land, — og farið síðan
upp úr dalnum og haldið sig í Hafragilsbotnum, en þar eru flóar
nokkrir og gott beitiland, þegar snjó leysir eða snjólétt er. Hefi ég
bent á, að svo hafi þá verið. Hafa þeir Þorkell sennilega verið á leið
þangað eða þaðan og farið beina leið um hlíðina norðan Hafragils,
og einmitt verið þar staddir, þegar sagan getur þeirra. Þaðan gátu
þeir runnið í veg fyrir þá Kjartan, er þeir fóru suður dalinn og
einnig séð orustuna við Hafragil.
Flest virðist styrkja þá ætlun, að Hafratindar hafi verið vestan
Mjósunda. Munnmæli þau, sem tekin eru upp í Jarðabók Árna og
Páls, eru líkur fyrir hinu gagnstæða, en varlega er takandi mark á
slíkum sögnum, þegar líka eins er ástatt og hér, að allir eru í vand-
ræðum og enginn getur bent á staðinn vegna landslags og menja-
leysis. Vér höfum hér dæmi þess við hendina, hversu munnmælin
geta verið röng og villandi, þar sem er Kjartans-steinninn svo-kallaði,
vestan í Mjósundum, þar sem munnmælin segja að Kjartan hafi fallið.
En um stein þann, er Laxdæla segir frá, væri, ef til vill, ástæða til að
rita einhvern tíma rækilegar, en gjört hefir verið hingað til.
Búðardal, 24. nóv. 1828.
Þorst. Þorsteinsson.