Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1949, Blaðsíða 35
39
mun fleiri, sem nafn bæjarins er styttra og svo sem þau áhrif stækka,
sem ábúendur annarra jarða hafa á nafngiftirnar í landi jarðarinnar.
En þessi áhrif eru þeim mun meiri, sem jörðin er minni og býlið
ómerkilegra, og land hennar minna einangrað og aðskilið frá landi
annarra jarða, og mest eru þau þar, sem jörð er komin í eyði, því
að þar ráða nábúarnir einir öllum nafngiftum.
í landi Reykhóla eru talin um 200 örnefni, en meðal þeirra aðeins
3 nöfn, sem eru dregin af nafni bæjarins: Reykhólaeyjar, Reykhóla-
hverir og Reykhólastekkur. Tvö fyrstu nöfnin taka yfir marga eyja-
klasa og mörg hverastæði, sem liggja undir jörðina, og eru því tæp-
lega kallandi örnefni. Um Reykhólastekk er aðeins sagt, hvar hann
hafi verið, svo þar er ekki síður vafasamt, hvort telja eigi nafnið með
örnefnunum. En í landi þessarar jarðar hefur fyrrum verið hjáleiga,
Grund að nafni, og þarna heitir nú Grundará, Grundardalur, Grund-
arfoss, Grundargata, Grundarhjalli, Grundarhryggur, Grundarkrók-
ur, Grundartún, Grundarvatn og Grundarvogur. Eg gizka á, að þetta
muni vera upp undir helmingur örnefnanna í því landi, sem fylgt hefur
þessari hjáleigu, eða jafnvel meira. I örnefnaskrá Gilsstaða í Stein-
grímsfirði eru talin 174 nöfn, en ekkert, sem dregið er af nafni bæjar-
ins, og ekkert heldur dregið af nafni annars bæjar, sem fyrrum stóð
í landi hans og hét Kolbjarnarstaðir. Mönnum er ekki vel við að kenna
staði við nöfn af slíkri lengd. En þar sem þessi bær hefur staðið, eru
nú 11 örnefni dregin af orðinu kot, sem í vestfirzkum örnefnum merk-
ir eyðibýli — Kothlíð, Kotkvísl, Kottún o. s. frv. —. Á þessum Kot-
nöfnum má sjá um leið, svo sem og á mörgu öðru, að byggðin hefur
ekki hætt að valda miklum breytingum á sviði örnefna, þó að hún
væri fallin niður.
Áhrif bæjarnafna á örnefni af því tæi, sem nú var greint frá,
eiga heima innan takmarka sérhverrar jarðar. Þar fer svo, að þau
vilja vera mest, þar sem jarðirnar eru minnstar eða bæirnir horfnir.
En með áhrifin út á við, á örnefnin, sem ná út fyrir landareignina,
fer öðruvísi. Þau eru að jafnaði því meiri, sem jarðirnar eru stærri
og þekktar lengra að. Sveitirnar hafa ekki verið kenndar við kotbæi.
Þó að enginn staður í landi Reykhóla sé kallaður Reykhóla-nafni,
heitir þó öll sveitin Reykhólasveit. Bæjarnöfnin eru almennt með þeim
nöfnum, sem menn þekkja bezt og lengst að. Því er lítil furða, þó
að víðast þar, sem gömul nöfn á dölum eða fjörðum hafa týnzt, séu
í þeirra stað komin nöfn, sem dregin eru af helztu bæjarnöfnunum
á þeim slóðum. Það er og svo, að langflest slík nöfn á dölum, ám
og fjöllum, fjörðum og nesjum, sem nokkuð kveður að, eru ekki