Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1949, Blaðsíða 75
79
Ekki verður með fullri vissu sagt, hver reisti fyrstur bú að Lækja-
móti, né hvenær það hefur gerzt. I Landnámu segir, að Auðun
Bjarnarson skökull á Auðunarstöðum hafi numið Víðidal og með
honum hafi komið út í félagi hans, Þorgils gjallandi, en bústaðar
hans er ekki getið í því sambandi, né heldur neins annars en Ás-
geirs, sonar Auðunar, er byggt hafi í landnámi hans. Síðar segir í
Landnámu, að Þorgils gjallandi hafi búið að Svínavatni. Hins vegar
telur Bárðar saga Snæfellsáss, að Þorgils gjallandi búi á Lækjamóti
í Víðidal. En hún mun, þótt tilbúin ýkjusaga sé að mörgu leyti, mjög
hafa farið eftir gömlum landnámahandritum um nöfn og bústaði
þekktra manna, en þau hafa um einstök atriði getað verið eitthvað
fyllri en þau endurteknu afrit af gerðum Landnámu, sem nú eru til.
Þótt Bárðar saga sé nú ein til frásagnar um þetta heimilsfang
Þorgils, mælir öll aðstaða með því, að það geti verið rétt. Er ekki
líklegt, að Auðun hafi látið félaga sinn þurfa að seilast til annarra
héraða um búsetu, er hann sjálfur átti allan Víðidal. Hitt er líklegra,
að hann hefði látið hann hafa rífan hlut af landnáminu og Þorgils
þá reist bú að Lækjamóti, enda hafi til þess legið miklu stærra land
en nú. Síðan hefði Þorgils, einhverra orsaka vegna, getað flutt byggð
sína að Svínavatni og sé hans því þar getið í þeim kafla Landnámu,
sem fjallar um austurhluta Húnavatnssýslu. En svo gæti einnig átt
sér stað, að höfundar Landnámuhandrita þeirra, er til eru, hafi villzt
í samnefnum og eigi við þann Þorgils gjallanda á Svínavatni, sem
frá er sagt í Vatnsdælu. En það verður að teljast nær útilokað sam-
kvæmt því, sem sagan getur um atburði og skyldleikaafstöðu hans,
að það sé sami maður og sá Þorgils gjallandi, er út kom í félagi við
Auðun skökul, sennilega þá sem fulltíða maður. Hitt er sanni nær, að
Þorgils á Svínavatni hafi verið sonur Þorgils gjallanda á Lækjamóti
eða sonarsonur.
Það má því telja líklegt, að Lækjamót sé meðal fyrstu landnáms-
jarða í Víðidal og landnámsmaðurinn hafi verið Þorgils gjallandi,
félagi Auðunar skökuls.
Að öðru leyti en þessu mun Lækjamóts ekki getið fyrr en á dög-
um Þorvalds víðförla. Þar taldist hann búa 982—986. Frá Lækja-
móti rak hann hið fyrsta kristniboð hér á landi, og þar byggði hann
sína kristniboðskirkju. Mun hún byggð ári fyrr eða samtímis kirkj-
unni að Ási í Hjaltadal og getur því talizt fyrsta kirkjan, sem reist
var á Islandi í þágu almenns kristnihalds og með það að markmiði.
Þá getur á Lækjamóti Þórarins spaka, er stundum er nefndur
goði. Hann kemur mjög við Heiðarvígasögu, hafði fóstrað Barða