Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1949, Blaðsíða 37
KLÉBERG Á ÍSLANDI
Eftir Kristján Eldjárn.
Kléberg kalla ég í ritgerð þessari nytjastein þann, sem á dönsku
er oftast kallaður vegsten, norsku klebersten, ensku soapstone, þýzku
Speckstein, en á öllum þessum málum eru þó fleiri nöfn á þessari
steintegund. Amund Helland segir í ritgerð um norska nytjasteina
á þessa leið (í þýðingu minni) :
„Kléberg er steintegund, sem er saman sett úr blöndu af talki og
klórít. Talkið getur verið yfirgnæfandi, svo að steinninn verði rétt-
nefndur talkskífer, en einnig getur klórít verið yfirgnæfandi. Senni-
legt er einnig, að önnur magnesíusíliköt komi til greina, og þar eð
magnesít finnst í mörgum klébergstegundum, myndast afbrigði, sem
vegna bergfræðilegrar samsetningar steinsins eru ýmist auðunnari
eða torunnari en hið réttnefnda kléberg. Hreinar talkskífertegundir
er auðveldara að saga en tré, en til eru einnig afbrigði, sem mjög
erfitt er að saga með venjulegri sög, vegna þess að í þeim eru harðari
steinefni. I réttnefndu klébergi eru agnir af talki og klórít í óreglu-
legri blöndu.
Talkskífer er olíugrænt á litinn, en klébergið grængrátt, dökk-
grænt eða blátt. Það er fitukennt viðkomu, auðrispað með nögl og
verður hæglega skorið með hníf, höggvið með öxi og sagað með
sög. Ekki syngur í því, þótt slegið sé með hamri, en undan hamars-
höggi merst það, svo að á sér. Stundum ólgar það undan sýrum, en
nauðsynlegt er að reyna það með sterkum sýrum, af því að magne-
sít er í því. Það stenzt ekki sterkar sýrur og leysist stundum alveg
upp, en þolir vel veikar lífrænar sýrur. Það er eldfast".1)
Klébergið, sem raunar er samheiti fyrir fjölmörg mismunandi
bergtegundaafbrigði, finnst frá náttúrunnar hendi í lögum og blettum
í krystölluðum skífertegundum. Það finnst víða um heim. Algengt er
það í Grænlandi og Noregi, Alpafjöllum, Súdetafjöllum og víðar.
1) Amund Helland: Takskifere, heller og vekstene. Norges geologiske
undersögelse no. 10, 1983, bls. 89—90.