Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1955, Blaðsíða 35
MANNAMYNDADEILD ÞJÓÐMINJASAFNSINS
39
til að taka kvikmyndir og fann upp nýjung í ljósmyndagerð — hinar
svonefndu 15-foto-myndir. Kgl. hirðljósmyndari sænsku hirðarinnar
var hann útnefndur 1929. 1945 gaf hann Þjms. allt plötusafn sitt,
sem þá þegar var orðið gríðarlega umfangsmikið, um eða yfir 150
þúsund skráð númer, talan verður ekki sögð nákvæmlega að svo
stöddu, vegna þess að enn hefur ekki unnizt tími til að raða safninu
upp og ganga frá því, svo að það sé fyllilega aðgengilegt, og nokkur
hluti þess er, ásamt bókunum, enn þá í vörzlu ljósmyndastofunnar.
En samkvæmt bókunum hefur þó verið gerð spjaldskrá yfir það.
4. Jóhanna Pétursdóttir, prests á Kálfafellsstað, og Anna Jóns-
dóttir, fræðslumálastjóra Þórarinssonar (hin síðarnefnda rekur nú
ljósmyndastofu í Hafnarfirði). Þær ráku ljósmyndastofu hér í
Reykjavík á árunum 1920 — 1924, en þá tók Jón Kaldal við henni og
hefur rekið hana síðan. Hann keypti plötusafn þeirra, er þær hættu,
og gaf það Þjms. 1954. Eru í því 4800 skráð númer. Yfir það hefur
verið gerð spjaldskrá.
Þess ber að geta í sambandi við öll þessi fjögur plötusöfn, að mynd-
irnar í þeim eru jafnan talsvert færri en númerafjöldinn segir til um,
því að þau eru skráð samkvæmt bókun ljósmyndaranna, en plöturnar
eru „brothætt gler“, og af skiljanlegum ástæðum hafa orðið á þeim
nokkur vanhöld. Mest brögð munu vera að þessu i Dahlmannssafni.
Það segir sig sjálft, að plötusöfnin eru Þjms. mjög mikils virði og
mikilsverð sem menningarlegur arfur, sem vonir standa nú til að
varðveitist frá glötun og skemmdum um ófyrirsjáanlega framtíð. —
í því sambandi verður ekki komizt hjá því að átelja það hirðuleysi,
sem átt hefur sér stað með ljósmyndaplötur margra látinna ljós-
myndara, þar sem heil slík söfn hafa lent í reiðuleysi og glatazt, ef
þeim þá ekki beinlínis hefur verið fleygt. Með því hefur allri mynda-
söfnun verið unnið óbætanlegt tjón, að því ótöldu, að vel varðveitt
ljósmyndaplata geymir myndina, sem á henni er, betur og lengur
óskemmda en hin fullunna ljósmynd, sem oft vill litast upp og hverfa
með aldrinum.
III.
Stundum er spurt um, hver tilgangurinn sé með mannamynda-
söfnun eins og þeirri, sem Þjóðminjasafnið nú hefur með höndum.
Ég vil svara þessu fyrst með annarri enn þá víðtækari spurningu:
Hvers vegna eru menn að safna ýmsum minjum, skjölum o. s. frv.?
Og af hverju eru stofnuð söfn og starfrækt til slíkra hluta?