Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1955, Blaðsíða 40
GUÐBRANDUR SIGURÐSSON:
EYÐIBYLI I HELGAFELLSSVEIT,
NÖFN ÞEIRRA, STAÐSETNING OG UMHVERFI
Naumast. mun ,til sá hreppur hér á landi, sem ekki hefur innan
sinna endimarka fleiri eða færri eyðibýli. Nokkuð hefur verið gert
að því að skrásetja eyðijarðir, sem fallið hafa í eyði vegna eldgosa,
jökulhlaupa og uppblásturs. En mikill fjöldi eyðijarða er til um allt
land, sem ekki hafa lagzt í eyði vegna eyðingar náttúruafla. Hin
mörgu eyðibýli sýna það, að á tímabili hefur víða verið mikið þétt-
býli í sveitum landsins. Saga fólksins, sem eyðibýlin byggði, er í flest-
um tilfellum fyrir löngu gleymd og grafin og verður því aldrei skráð
til hlítar. En þótt fyrir löngu sé fennt í sporin, getur glöggt auga
enn merkt hin fornu býli og lesið eitt og annað úr rúnum þeim, sem
rústir og önnur mannvirki geyma um manndómslund og sjálfsbjargar-
hug horfinna kynslóða.
Eftir því sem fólki fækkar í sveitunum og nýtt fólk, oft úr fjar-
lægum héruðum, flytur inn aftur, eykst hættan á því, að mikið glat-
ist af örnefnum, þar á meðal nöfn fornra eyðibýla. Auk þess heldur
tímans tönn áfram með sígandi hraða að afmá kennimerki býlanna.
Það væri því réttmæt viðurkenning nútíðarmanna við minningu
horfinna kynslóða, að skrásetja öll eyðibýli í landinu. Það gæti orðið
merkur þáttur í sögu þjóðarinnar, sem óafsakanleg vansæmd væri
að glata. Mörg þessara býla hafa vafalaust byggzt á landnámsöld,
en um fæst þeirra verður nú vitað, hve lengi þau hafa haldizt í byggð.
Líklegt er, að mörg þeirra hafi fallið í eyði vegna harðæris og drep-
sótta á 14. —17. öld. Ég tek hér með nokkur býli, sem lögðust í eyði
um og eftir síðustu aldamót, og verður þess sérstaklega getið við
hvert þeirra. Hér koma svo nöfn, lýsing og staðhættir býlanna.