Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1955, Page 61
EYÐIBÝLI 1 HELGAFELLSSVEIT
65
Þrátt fyrir ofeyðing skóga til húsagerðar, eldsneytis og smíða, hélzt
skógur hér við á mörgum býlum fram á 18. öld. Árið 1702 er talinn
nægur skógur hér á mörgum býlum til eldiviðar og kola. Á þremur
býlum var þá skylt að greiða í kvaðarnafni 3 tunnur kola af hverju
býli árlega, og af einu býli átti að greiða 9 tunnur kola sem hluta af
landskuld. Nú er skógur allra þessara býla fyrir löngum tíma þorrinn
með öllu. f stað grænna og ilmandi birkiskóga gefur nú víða að líta
gráar örfoka melabreiður og berar klappir.
íslenzka þjóðin stendur nú á vegamótum. Hún viðurkennir, að rán-
yrkja á landi og legi hefnir sín geipilega. Endurreisnarstarf er að
hefjast, þótt í of smáum mæli sé. Mætti þjóðin öðlast einhuga skilning
á því, að það er erfitt fyrir menningarþjóð að búa í skóglausu landi,
og að það er helg skylda að endurgreiða landinu það, sem frá því hefur
verið tekið ránshendi. Mætti þjóðinni einnig skiljast, að það leiðir til
ófarnaðar, að býli til sveita falla í eyði á sama tíma sem fólkið treður
hvað á öðru á mölinni og vantar þar bæði atvinnu og húsaskjól. Þegar
fenginn er fullur skilningur á þessu, má svo fara, að fjárframlög til
skóggræðslu og uppgræðslu örfoka landsvæða aukist ár frá ári. Mætti
ekki mega vænta þess, að sú þjóðarvakning sé ekki langt fram undan,
að mörg ungmenni rétti fram starfsfúsar hendur til landgræðslustarfs
og telji sér það í senn hollan skóla og til yndisauka? Þá mætti svo fara,
að sveitabýli hætti að falla í eyði, en í þess stað rísi upp ný býli í lund-
um nýrra skóga.
5