Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1962, Side 4
10
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
og látið eftir sig gripina, og hefur það þá sennilega orðið skömmu
fyrir komu Norðmanna, því varla er gerandi ráð fyrir, að bækur
varðveitist lengi í yfirgefnum einsetumannskofa. Heimildir okkar
um Papa eru því engan veginn svo einhlítar, að þær fái úr því
skorið, hvernig viðskiptum landnemanna við þá var háttað, né held-
ur hversu fjölmennir Paparnir voru hér á landi. En af þeim fjölda
Papa-örnefna, sem nú eru kunn hér á landi, mætti ætla, að Pap-
amir hafi verið allmargir og dreifðir frá Austurlandi um Suðurland
til Vesturlands. Það má því teljast hart, að nú skuli ekki vera kunnar
neinar öruggar fornminjar um þá hér á landi, og meðan svo er, er
ekki unnt að fella rökstuddan dóm um gildi frásagnar Ara fróða né
örnefnanna, né heldur hvort Papamir dvöldust hér einir án nokkurs
fylgdarliðs. En allt eru þetta mjög mikilvæg atriði fyrir frumsögu
þjóðar vorrar, sem áríðandi er að kunna rétt skil á. Það er svo
annað mál, að torvelt kann að reynast að hafa upp á vistarverum
Papanna, en til þessa hefur engin ítarleg tilraun verið gerð til
þess, svo að óreyndu skal engu um það spáð. Landnáma bendir á
þann stað, sem álitlegast er að hefja slíka rannsókn á, en það er
Papey; þar fundust að sögn hennar munir eftir Papa og örnefnin
Papatættur og írskuhólar staðsetja nánar það svæði á eyjunni, er
hef ja skal leitina á. Annar álitlegur staður er Papatættur við Papós,
en auðvitað yrðu nánari athuganir á þeim stöðum, er til greina
kæmu, að skera úr því, hvar hafizt yrði handa. Aðalatriðið er, að
það verði gert, og tel ég það veglegt verkefni fyrir Fornleifafélagið
á þessum tímamótum Þjóðminjasafnsins að stuðla að því, að svo
mætti verða.
Ég hef hér aðallega dvalizt við það, sem óunnið er í fornfræði hér
á landi, og er það ekki af því, að ég kunni ekki að meta það, sem
áunnizt hefur með aldarlöngu starfi Þjóðminjasafnsins, heldur hinu,
að ég vildi beina hugum manna að þeim fjölmörgu verkefnum, sem
enn bíða hér úrlausnar á sviði fornfræðinnar, ef það mætti stuðla
að því, að fleiri ungir menn yrðu til þess að leita sér þar verkefna
en verið hefur. Til þessa hefur safnið aðallega verið til augnayndis
almenningi, munirnir dáðir sem dauð tákn horfinnar tíðar, en þeir
hafa verið of fáir, er hafa gætt þá lífi og máli og verið sér þess
meðvitandi að fortíð og nútíð eru aðeins mismunandi staðir í sama
straumi, breytilegir eftir farveginum á hverjum stað, en báðir jafn-
lifandi, séu þeir skoðaðir í réttu ljósi. Könnun skráðra heimilda
er mikilvæg, en hversu mjög getur það ekki aukið gildi niðurstöðu