Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1962, Síða 7
B’ORN röggvarvefnaður
13
myndir (höggmyndir, handritamyndir, málverk o. fl.). Því fer fjarri,
að í ritgerð þessari felist tæmandi rannsókn á efninu, sem fjallað er
um, enda var ætlunin aðeins sú, auk lýsingar á fyrrnefndum fundi, að
reyna að bregða upp nokkurri mynd af því, af hvaða rótum íslenzki
röggvarvefnaðurinn og notkun hans kynni að vera runninn.
I. Gerðir flosvefnaðar.
Áður en lengra er haldið, skal gerð í stuttu máli grein fyrir
röggvarvefnaði og öðrum skyldum vefnaðargerðum. Nokkuð eru á
reiki heiti þessara vefnaðargerða á íslenzku. Hafa orðin flos og
flosvefnaður yfirleitt verið látin ná til allra þeirra handunninna
vefnaðargerða, sem á ensku eru nefndar pile weaving. Var við samn-
ingu þessa rits ákveðið að nota þessi orð á framangreindan hátt sem
samheiti og auk þess sem sérheiti, þegar átt er við hið klippta,
snögga og þétta afbrigði þessa vefnaðar, sem fyrst mun hafa heitið
þessu nafni hér á landi, þ. e. togflosið, er svo mjög tíðkaðist á 18.
og 19. öld. Hins vegar var ákveðið að nota orðið röggvarvefnaður
(sbr. röggvarfeldur), þegar rætt er um flosvefnað með löngum,
fremur gisnum endum (þ. e. röggvum) á yfirborði dúksins, en nota
orðið lykkjuvefnaður um allan vefnað, sem á eru lykkjur, hvort
heldur stuttar eða langar. Ljóst er, að þessar skilgreiningar eru ekki
fullkomnar, en annarra betri var ekki völ að sinni.
Flos, hvort heldur um er að ræða röggvar, snöggt klippt flos eða
lykkjuflos, má vefa í dúk með ýmsu móti: einfaldlega leggja það í
skilið og draga það fram á yfirborðið (hnútalaust flos), eða vefja
því eða hnýta utan um uppistöðuþræðina (hnýtt flos). Draga má
flos í ofinn dúk á einhvern ofangreindan hátt, en þá er ekki um
ofið flos að ræða, heldur saumað. Óskyld flosofnum efnum að gerð,
en stundum lík að áferð, eru ýfð efni; er þá yfirborðið á sléttum dúki
kembt að vefnaði loknum.
Ekki var hægt að fella nákvæma lýsingu á mismunandi gerðum
floshnúta inn í þessa ritgerð. Aðalgerðirnar þrjár, tyrkneskur
(ghiordes- eða Smyrna-) hnútur, persneskur (eða senna-) hnútur og
spænskur hnútur sjást á 6. mynd a, b, c. Afbrigði af þeim frá
ýmsum stöðum og tímabilum, auk nokkurra afbrigða af hnútalausu
flosi, sjást á myndum 7 a, b, c og 8 a, b.