Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1962, Page 12
18
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
ullarreyfum. Er útlitið áþekkt bæði hvað gljáa, liðun og þykkt snerti,
og við athugun kom fram, að lengdin er einnig samsvarandi. Þegar
mældir voru toglagðar á nokkrum reyfum, reyndust þeir vera frá
16 til 28 sm langir, flestir 18 til 25 sm. Röggvarnar á stærri bútn-
um eru mislangar, og sumar eru áberandi slitnar, en þær, sem
virðast vera óskemmdar, mældust 6 til 9 sm á lengd. Röggvarnar eru
samfastar tvær og tvær, og er miðhluta þeirra brugðið í grunn-
vefnaðinn (5. mynd). Með því að mæla heillegustu samföstu röggv-
arnar og bæta við lengdinni, sem fer í að bregða þeim í grunninn,
fæst sú niðurstaða, að röggvarnar séu myndaðar úr 15 til 19 sm
löngum endum. Sýna því þessar mælingar, að venjulegir toglagðar
hafa verið yfrið nógu langir til þess að mynda röggvarnar, og það
jafnt, þótt gert sé ráð fyrir einhverju sliti og því, að toglagðarnir
hafi ekki verið klipptir (skornir) af reyfinu alveg á mörkum þels og
togs.
Lýsing á stærri hlutanum. Stærri búturinn er 35x17 sm að stærð.4
Á hliðinni gegnt saumnum er 24 sm langur jaðar. Uppistaða og ívaf
er hvort tveggja úr eingirni. Er uppistaðan úr snúðhörðu, z-spunnu,
fremur smágerðu, en ójöfnu bandi, en ívafið er snúðlint, s-spunnið,
gróft, en fremur jafnt band. Vendin á efninu er venjuleg vaðmáls-
vend, yfir tvo, undir tvo þræði, og eru 9 þræðir á sm í uppistöðu,
en 4 í ívafi. Eftir hver fjögur fyrirdrög ívafsins er röð af röggvum,
sem eru hnýttar í uppistöðuna með nálega tuttugu þráða millibili.
Ekki er þeim að öðru leyti raðað niður eftir reglu eða munstri. Að
vísu má sums staðar sjá einstaka hnúta standast á í þrem, fjórum
röðum, en yfirleitt virðist afstaða þeirra frá einni röð til annarrar
vera tilviljunarkennd.
Röggvarnar eru hnýttar í með sérkennilegum hætti (5. mynd),
sem frábrugðinn er gerð annarra floshnúta, er finnst getið. Af
aðalgerðunum þremur virðist hann skyldastur spænska hnútnum
(8. mynd c). Er toglagðurinn lagður í skilið, að öllum líkindum
frá hægri, venjulega undir sex þræði, en stundum undir fjóra eða
átta. Síðan er vinstri enda hans brugðið aftur til hægri yfir tvo
þræði og smeygt til vinstri undir sömu tvo þræði neðan við þar sem
áður var farið.5 Koma þá fram tvær röggvar og lykkja á milli þeirra
(3. og 5. mynd). Ekki er lykkjan dregin þétt að, eflaust vegna þess
hve togið er stinnt, og fara um 1 til 2 sm af lengd toglagðsins í
lykkjuna. Röggvarnar úr hverjum hnút eru ámóta langar, og liggja