Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1962, Qupperneq 44
50
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
saman við lýsingar á íslenzkum feldum og taka eftir hliðstæðum,
svo sem hlaðbúnum feldum, (15. mynd), röndóttum feldum (t. d.
16. mynd) og tvíloðnum feldum (18. mynd).64 Aðeins ein mynd
fannst frá þessum tíma, er virðist sýna röggvað klæði (skikkju?)
notað sem teppi eða ábreiðu. Á Bayeuxreflinum, sem nú er venjulega
talinn vera frá lokum 11. aldar og sennilega enskur, er að sjá sem
röggvað teppi sé breitt undir lík Játvarðar konungs (19. mynd).
Hefur verið bent á, að þar megi ef til vill sjá gamlan hefðbundinn
greftrunarsið.65
Úr heimildum þeim, sem fundust, verður þá helzt lesið, að
leifar af röggvuðum dúkum í Vestur- og Norður-Evrópu frá því
um 600 fram til um 1200 eru svo illa varðveittar margar hverj-
ar, að ógerlegt mun að segja, hvort um saumaðar eða ofnar
röggvar — eða jafnvel ýfðar — sé að ræða. Auk spönsku flostepp-
anna og veggteppisins frá Quedlinburg, eru í rauninni aðeins dúk-
leifarnar frá Valsgárde, Kildonan og Jurby örugglega með íofnum
röggvum, að Heynespjötlunni íslenzku ógleymdri. Að öðru leyti
benda heimildir til þess, að röggvuð efni, einkum yfirhafnir, hafi
snemma á þessu tímabili verið verzlunarvara hjá Frísum og Irum
og a. m. k. á seinni hluta þess í notkun víða í Norðvestur-Evrópu.
Röggvarvefnaður eftir 1200.
Þótt íslenzkur röggvarvefnaður muni hafa lagzt niður fyrir alda-
mótin 1200, finnast víða annars staðar í Evrópu eftir þann tíma
heimildir um röggvuð klæði, bæði skikkjur, kyrtla og teppi. í
franskri, enskri og þýzkri myndlist er Jóhannes skírari iðulega
með röggvaða skikkju eða í röggvuðum kyrtli, að minnsta kosti
fram á 14. öld;66 eru flíkurnar stundum greinilega úr ofnum dúk-
um, röggvuðum, því að sjá má einskeftu- eða jafavend á innra
borði þeirra (20., 21. og 22. mynd). Einnig finnast myndir frá
ýmsum löndum, svo sem Englandi, Irlandi, Þýzkalandi og Italíu,
allt frá 13. öld og fram yfir aldamótin 1600, af pílagrímum, ein-
setumönnum o. fl. búnum röggvuðum kyrtlum og kápum.67
Gera verður ráð fyrir, að sum þau röggvuðu efni, sem á mynd-
um þessum sjást, séu ekki röggvarofin, heldur röggvuð með öðrum
hætti, t. d. með hinni fyrrgreindu, írsku ýfingaraðferð eða með
ísaumuðum röggvum. Dæmi um hið síðarnefnda virðist hafa fund-
izt í Skotlandi á kyrtli, sem að vísu er ótímasettur, en talinn vera
frá seinni hluta miðalda, að því er helzt verður séð. Kyrtill þessi