Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1962, Blaðsíða 94
ÞORKELL GRÍMSSON
RANNSÓKN Á SVONEFNDRI LÖGRÉTTU
AÐ GRÖF í HRUNAMANNAHREPPI
Hinn 30. 5. 1961 fór ég að beiðni þjóðminjavarðar austur að
Gröf í Hrunamannahreppi til að athuga þar fornminjar í túninu
heima við bæinn. Bóndinn í Gröf, Emil Ásgeirsson, hafði þá hafið
undirbúning að smíði hins nýja íbúðarhúss, sem nú stendur á
þessu svæði. Fór hann fram á úrskurð af hálfu safnsins um forn-
minjarnar. Staðurinn var ekki á friðlýsingarskrá, en fyrir mörgum
árum hafði þáverandi þjóðminjavörður, Matthías Þórðarson, farið
þess á leit við Grafarbóndann, að ekki yrði hróflað við fornminjum
þessum án leyfis og vitundar safnsins.
Þarna var að sjá stórar þúfur í óreglulegum hnapp og í breiðum
skákum, sem mynduðu ferhyrning út frá honum. Austan við var
vallgróin tóft, breið og ávöl. Allt var þetta efst á lágum og næstum
kringlóttum hól í túninu vestan heimreiðarinnar. Austan og norðan
við hólinn eru þurrar flatir upp að heimreiðinni og vegamótun-
um framan við bæinn, en að norðvestan, vestan og sunnan er
landið lægra og virðist auk þess votara. Er þar án efa gamall
vatnsfarvegur. Staðhættir sjást á 1. og 2. mynd.
Þúfnaklasinn hefur gengið undir nafninu Lögrétta, og var að
heyra á fólki á staðnum, að það nafn væri algengast, en einnig
var mér sagt frá örnefninu Þinghúsþúfur. Hafði bóndinn það eftir
gamalli konu úr sveitinni. 1 skrá Þjóðminjasafnsins yfir örnefni
í Gröf koma bæði fyrir Þinghúsþýfi, Þinghúshóll og Lögrétta. Er
lögréttan sögð vestan við heimreiðina, en hin örnefnin eru ekki
staðfærð í þessari skrá.
Gröf var þingstaður öldum saman. Er þegar talað um hann í heim-
ild frá byrjun 16. aldar. Um upphaf hans er ókunnugt. Það lá nú
fyrir að ganga úr skugga um, hvort örnefni þessi væru góð og gild og