Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1962, Qupperneq 111
ALÞINGISHÁTlÐARPENINGARNIR
117
falið að ræða við nokkra þekkta íslenzka listamenn um gerð minnis-
peninga og annarra minjagripa, og varð árangur þessara viðræðna
sá, „að framkvæmdastjóra var heimilað á næsta fundi, 15. október,
að láta gera uppdrætti að 5 og 10 kr. minnispeningum, er gefnir yrðu
út 1930 sem íslenzk skiptimynt“.
Framkvæmdastjóri skrifaði nokkrum listamönnum og bað þá um
tillögur eða fyrirmyndir að minnispeningunum, og varð niðurstað-
an sú, að samþykkt var að greiða listamönnunum Einari Jónssyni,
Baldvin Björnssyni, Tryggva Magnússyni og Guðmundi Einarssyni
þóknun fyrir tillögur þeirra. Höfðu þeir að áliti dómnefndar orðið
hlutskarpastir, enda voru peningarnir gerðir eftir tillögum þessara
manna.3
Hinn 10. apríl 1929 samþykkti nefndin „að biðja allsherjarnefnd
efri deildar alþingis að flytja frumvarp til laga, er ritari hafði samið,
um heimild fyrir ríkisstjórnina til nokkurra ráðstafana vegna al-
þingishátíðarinnar 1930“. Fyrsta atriðið var ,,um útgáfu minnispen-
inga og að þeir séu gjaldgeng mynt“. Nefndin virðist sem sagt hafa
hugsað sér í upphafi, að minnispeningarnir yrðu þegar í stað lögleg,
gjaldgeng skiptimynt. Hefðu þeir þá að öllu leyti orðið sambærilegir
t. d. við 2 kr. minningarpeningana, sem Danir gáfu út á 25 ára rík-
isstjórnarafmæli Kristjáns konungs tíunda (og fleiri slíkir peningar
eru til) .
1 lagafrumvarpi því, er ritari samdi, er hins vegar ekki gert ráð
fyrir þessu,, heldur aðeins að hægt sé með konungsúrskurði að ge,ra
minnispeningana að gjaldgengri mynt, og verður nú ekki séð, hvers
vegna á þetta ráð var brugðið. Það atriði laganna, sem minnispen-
ingana varðar, er svohljóðandi:
„Ríkisstjórninni er heimilt: Að láta slá sérstaka minnispeninga í
tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis 1930. Má með konungsúrskurði
ákveða, að peningar þessir skuli vera skiptimynt, er gjaldgeng sé
hér á landi, og sé gildi þeirra 10 kr., 5 kr. og 2 kr.“
Úr greinargerðinni:
„I. liðurinn er um útgáfu minnispeninga. Er ætlazt til þess, að þeir
3 Geta má þess til gamans, að í gögnum alþingishátíðarnefndar er langt
bréf frá Hannesi Ilannessyni í Dældarkoti, dags. 22. október 1928, þar sem
hann gerir ítarlega tillögu um minnispening. Skyldi vera lögsögumanns-
mynd framan á (Hrafn Hængsson), en aftan á andlitsmyndir þeirra ráð-
herra, sem við völd yrðu 1930. Kvaðst bréfritari hafa séð gerð þessa penings
fyrir sér í draumi.