Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1962, Page 120
126
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
en peningurinn var gefinn konungi, ríkisstjórn, þingmönnum og
fleirum.".25
Því miður hefur þeim er þetta ritar ekki tekizt að finna bréf
það til forsætisráðherra, sem hér er til vitnað, og yfirleitt hefur
gengið örðuglega að fá staðgóðan fróðleik um sögu þessa penings.
Ásmundur Sveinsson myndhöggvari, sem staddur var í París, fór
fyrir meðalgöngu danska konsúlsins þar á fund forstjóra frönsku
myntsláttunnar (Administration des Monnaies & Médailles), herra
André Dally, vorið 1929. Bað Dally hann þá að móta minnispen-
ing, sem hann ætlaði að láta gera í tilefni af alþingishátíð Islendinga.
Kvaðst hann stundum gera slíkt við merkileg tækifæri. Má af þessu
skilja (og þannig skildi Ásmundur það), að Dally sjálfur var aðal-
hvatamaður að gerð þessa minnispenings og peningurinn raunar gef-
inn af frönsku myntsláttunni, en „nefnd íslandsvina“ mun að lík-
indum fyrst og fremst hafa verið formsatriði. Kann Dally að hafa
fengið þessa hugmynd eftir að stofnun hans hafði gert tilboð um
að gera alþingishátíðarpeningana, sbr. bls. 118.
Ásmundur Sveinsson tók að sér að móta peninginn, og gerðu
þeir Dally samning með sér; er sá samningur enn í eigu Ásmund-
ar. Samkvæmt honum skyldi hann fá 200 eintök af peningnum
fyrir sína vinnu og mega selja þau að vild. Gekk þetta eftir. Ás-
mundur gerði nokkrar tillögur að peningnum, m. a. eina, sem átti
að tákna fund Islands, en Dally valdi þá, sem nú er á peningnum,
nakinn mann með sverð í hægri hendi. Með vinstri hendi bendir
maðurinn á stílfærða kletta, og á öll myndin að tákna það, er Grím-
ur geitskór finnur Þingvöll. Inntak hennar er: „Þetta er staður-
inn“.26
Árið 1954 spurðist sendiráð íslands í París fyrir um minnispen-
inginn hjá myntsláttunni, og kom þá fram að hann hafði verið sleg-
inn bæði í brons og silfur. Verðið var 5900 frankar fyrir silfurpening,
en 970 fyrir bronspening. Þjóðminjavörður skrifaði sendiherra Is-
lands í París 1959 og bað hann enn grennslast fyrir um sögu pen-
inganna, og einkum lék honum hugur á að fá vitneskju um upplag
þeirra, hversu stórt hefði verið. Sendiherra brást vel við þessu, en
25 Alþingishátíðin, bls. 337, mynd á bls. 95. Ögn er vikið að þessum
peningi og mynd birt af honum í Nordisk numismatisk unions medlemsblad
1959, bls. 29.
26 Ásmundur Sveinsson hefur góðfúslega sagt höfundi greinarinnar allt,
sem hann man um sögu peningsins.