Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1972, Page 99
KOLBEINN ÞORLEIFSSON
HÓLMAKIRKJA OG
REYÐARFJARÐARKAUPMENN 1665-1743
1 Þjóðminjasafni fslands og í kirkjum víða um land er að finna
gamla gripi, sem gefnir voru kirkjunum fyrir löngu, en fáir vita
nú um gefendur gripanna eða sögu þeirra. Feril margra þessara
gripa má þó rekja með hjálp kirkjustóla og vísitazíubóka biskupanna.
Séu gripirnir nógu ungir, má kannske sjá nöfn gefendanna skráð,
þá er gripanna er fyrst getið. 1 ritgerð þessari verður reynt að fara
í ofurlitla rannsóknarferð um þessar gömlu bækur og komast að
þeim fróðleik, sem leynast kann á bak við hinar gömlu frásagnir,
einkum þó ef svo heppilega vill til, að umræddir gripir séu enn
varðveittir.
Fyrir vali mínu verður hin gamla Hólmakirkja í Reyðarfirði og
dótturkirkjur hennar á Eskifirði og Reyðarfirði. Þetta er nærtækt
rannsóknarefni, þar eð ég var prestur þar í 4 ár (1967—71) og hafði
því tök á því að kynna mér þá gripi, sem ég notaði við helgihald safn-
aðanna. Varð mér fljótt ljóst, að sumir gripanna voru um 260 ára
gamlir og sumir eldri. Þessi staðreynd vakti hjá mér áhuga á því
að kynna mér feril þessara gripa nánar. Las ég því kirkjustól Hólma-
kirkju og kynnti mér einnig gripi þá úr kirkjunni, sem varðveittir
eru á Þjóðminjasafni. Við þann lestur varð mér ljóst, að enn eru
varðveittir margir gripir úr hinni gömlu Hólmakirkju, annaðhvort á
Þjóðminjasafni eða heima í héraði. Tókst mér jafnframt með nokk-
urri vissu að komast að því, hvenær þessara gripa var fyrst getið
í vísitazíum. Samanburður við kirkjugripaskrá Matthíasar Þórðar-
sonar hjálpaði mér einnig nokkuð áleiðis. Vil ég nú taka saman skrá
yfir alla þá gripi, sem mér er kunnugt um að varðveittir séu úr þess-