Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1972, Blaðsíða 115
HÓLMAKIRKJA OG REYÐARPJARÐARKAUPMENN
115
sínu, einnig í kirkjulist lútherskra manna. Það hjálpaði ekki sízt
til, að snikkarar í löndum mótmælenda notfærðu sér koparstungur
af verkum frægra málara til þess að mála eftir helgimyndir á kirkju-
gripi sem þeir smíðuðu. Á þessum tíma leituðu snikkarar á Norður-
löndum einkum til koparstungna, sem gerðar voru eftir listaverkum,
sem gerð voru eftir fyrirmyndum hinna hollenzku ,,mannerista“.
,,Mannerisminn“ var listastefna, sem átti upphaf sitt á Ítalíu um
1520 og stóð til 1590 þar í landi. Hann byggðist á því, að menn viku
frá náttúrleika þeim, sem birtist í listaverkum endurreisnartímans,
og skreyttu listaverk sín meira með útflúri og skrauti en áður tíðk-
aðist. Sumum finnst stíll þessi vera tilgerðarlegur og bera á sér
hnignunarmerki. en öðrum finnst hér vera um að ræða tilraunir
manna til að finna sér nýjar túlkunarleiðir. Þessi stíll barst til Hol-
lands með listamönnum, sem lærðu list sína á Italíu á þessum árum.
Þeirra kunnastur varð Martin de Vos (1532—1603), sem lærði í
Feneyjum. Mörg af listaverkum hans urðu að fyrirmyndum kopar-
stungumeistara víða um lönd. Ein slík koparstunguröð hafði að
geyma myndir af Frelsara heimsins og postulunum tólf, og var hún
mikið notuð af snikkurum. Biblíumyndirnar á Hólma-stólnum má
rekja til þessarar listastefnu. Þar mun vera að leita fyrirmyndanna.
Mossis. (3. mynd). Hér sjáum við Móses, er hann gengur niður af
Sínaí-fjalli með lögmálstöflurnar. Hann er klæddur ljósum kyrtli
með bláum skuggum. Hefur hann bláleitan streng um sig miðjan,
og hallar strengurinn til vinstri. Heldur hann á lögmálstöflunum í
hægri hendi, en styður sig við hirðisstafinn með vinstri hendi. Hár
hans er hvítt, sömuleiðis alskegg hans. Kraginn undir skegginu er
dökkgulur. Þessi mynd ber með sér öll einkenni hins sígilda Móse í
kirkjulistinni. Engu að síður hefur mér ekki tekizt að finna ná-
kvæma hiiðstæðu myndarinnar í Danmörku eða Noregi og get ég
því ekki rakið mynd þessa til upphaflegrar fyrirmyndar.
Salvator Mundi. (4. mynd). Myndirnar af Kristi í kirkjulistinni
geta verið margvíslegar. Sumar lýsa hinum líðandi Kristi, aðrar dóm-
aranum, en aðrar góða hirðinum og svo framvegis. Þessi mynd lýsir
Kristi sem Frelsara heimsins og á sér m. a. hliðstæðu í prédikunar-
stólnum í Skálholtskirkju. Kristur stendur hér á kletti, geislakróna
er umhverfis höfuð hans. Höfuð hans hallar aðeins til hægri. Hár
hans og skegg eru jarplit. Hann blessar með tveim fingrum hægri
handar, en í vinstri hendi heldur hann á hnetti með krossi sem
hallar út á við. Þessi veldistákn merkja í kirkjulistinni friðþæg-
ingardauða hans fyrir syndugan heim. Hnötturinn er í svörtum og