Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1972, Blaðsíða 61
SÖGUALDARBYGGÐ í HVÍTÁRHOLTI
65
vatn í Hvítá, en einnig er lítil lind sunnanvert í holtinu, sem þomar
að vísu á sumrin. Hins vegar er ekki ólíklegt, að þetta atriði, skort-
ur á góðu vatnsbóli við bæinn, hafi átt sinn þátt í að bærinn lagðist
í eyði eða var fluttur. Hvítá leggur á vetrum og þá getur hafa verið
erfitt um vatn, einkum fyrir búfénaðinn. Einnig kann að vera að
Hvítá hafi á annan hátt stuðlað að eyðingu byggðarinnar, hún hafi
flætt yfir mýrarnar að vetri til, eins og stundum gerist enn, og
búpeningurinn farizt að miklu eða öllu leyti. Slík flóð verða helzt
í asahlákum að vetrum, áin bólgnar upp og ryður sig og fer fram
allar mýrar, þannig að búpeningi, sem þar er, er hætta búin. I upp-
hafi hafa menn verið óviðbúnir slíkum ákomum og ekki varazt að
bjarga búpeningi sínum, sem kann að hafa verið úti, og hafi bóndinn
liðið alvarlegar búsifjar af slíkum völdum, eða þá að hann hefur séð
þá hættu, sem staðurinn bauð upp á að þessu leyti, er ekkert lík-
legra en að hann hafi tekið þann kostinn að flytja bæinn á hentugri
stað.
Eins og fyrr segir var ekki vitað um byggð á þessum stað fyrr
en rústirnar fundust af tilviljun 1968. Fornritin geta hvergi um
byggð hér. Landnáma getur landnáms í Hrunamannahreppi þannig,
að bræðurnir Bröndólfur og Már Naddoddssynir hafi numið hrepp-
inn svo vítt sem vötn deila, og hafi Bröndólfur búið að Berghyl
en Már að Másstöðum. Berghylur er enn bær með því nafni en
Másstaðir eru ekki þekktir lengur. Fornbærinn 1 Hvítárholti gæti,
tímans vegna, verið Másstaðir, en óljóst er til orða tekið í Landnámu,
enda örnefnið Selslækur, sem nefnt er og gæti skipt máli í þessu
sambandi, týnt nú. Augljóst er þó af Landnámu, að Þorbjörn laxa-
kappi keypti neðsta hluta landnáms Más og bjó að Hrepphólum,
þannig að Másstaðir virðast augljóslega hafa verið á svæðinu milli
Hrepphóla og Berghyls og ekki er vitað um aðra fornbæi á þessu
svæði en þann, sem hér hefur verið skýrt frá23.
FORNGRIPASKRÁ
Yið rannsóknina fundust margir smáhlutir, merkir og ómerkir, eins og al-
titt er við rannsóknir af þessu tagi. Var allt slíkt hirt, sem einhverju máli
þótti skipta. Síðar var svo sumt tínt úr, sem ekki var talin ástæða til að geyma,
svo sem mikið af járngjalli, sem allmikið var hirt af í upphafi, en síðar aðeins
geymd sýnishorn af, svo og steinar, sem geta hafa verið kljásteinar og voru
hirtir sem slíkir, en sem vissa er ekki fyrir, að verið hafi. Þar var yfirleitt
um að ræða steina með götum frá náttúrunnar hendi, sem skáru sig í rauninni
ekki frá öðrum steinum. Sama er að segja um ókennileg járnbrot, flest örsmá.
Þeim var yfirleitt ekki haldið til haga, nema einhver lögun sæist á þeim eða
þau væru því stærri.
5