Eimreiðin - 01.09.1902, Page 10
fengið að úr einhverjum lökustu sauðfjársveitum landsins, og þaðan
ætti framvegis hvorki að nota hrút né ær til undaneldis. Með-
ferð á sauðfé er nú hér í Heimaey miklu betri en hún var fram yfir
1870; þá var horfellir almennur, nú fágætur; þá var lambagjöf á
vetrum nær óþekt, nú eru lömb alment vel fóðruð.
Um sjávarútveginn er eigi margt að segja; eg hefi ekki
í höndum neina skýrslu um skipa- og bátafjölda hér um miðja
öldina — 1862 vóru hér 1 tíæringur, 8 áttæringar, 2 sexæringar,
alls 11 vertíðarsldp — (177O vóru 16 vertíðarskip: 1 tólfæringur,
6 tíæringar, 2 áttæringar, 7 sexæringar). Nú eru hér 16 tí- og
áttæringar, 13 sexæringar og 17 feræringar, og mun það hið mesta,
sem hér hefir lengi verið. Sjávarafli hefir, svo sem áður er á
drepið, verið fremur rýr mestan síðari hluta aldarinnar, aðeins fá
verulega góð aflaár komið, en nokkur fráleit fiskileysisár, svo sem
I872, 1875 og 1894. Fyrir fáum árum komst hér á almenn lóða-
brúkun, og hefir afli verið ólíku betri síðan, einkum lönguafli á
vorin, og vertíðin 1899 var eftir páska einhver hin arðsamasta,
sem komið hefir yfir eyjabúa á þessari öld, og má að líkindum
þakka hinu nýja veiðarfæri mest af þeim ágætisafla. Jafnframt
hafa nokkrir menn komið sér upp smáum ísgeymsluhúsum, til
þess að geta haft ís á vorum til að frysta með beitu fyrir löng-
una (lúðu, ýsu, lýsu), sem hér er oft mikill hörgull á. Menn hafa
hin síðari ár keypt talsvert af saltaðri síld úr öðrum landsfjórð-
ungurn til að hafa beitu, hefir hún reynst allvel, en stundum eigi
verið fáanleg. Nýja síld hefir hér enn eigi tekist að veiða. Á
vetrarvertíð reynast ný hrogn mjög góð beita svo og háfsgarnir.
Nokkru fyrir 1870 keyptu nokkrir bændur hér lítið þilskip til há-
karlaveiða. Hepnaðist þeim veiðin allvel; en eftir nokkur ár varð
skipið fyrir ásiglingu af frakknesku fiskiskipi, og tapaðist, sökk, en
skipshöfnin bjargaðist. Um 1880 vóru hingað aftur keypt 2 skip
(jagtskip »Josephine« og galeas »Neptunus«) bæði til hákarlaveiði;
öfluðu bæði allvel um nokkur ár, en svo fórst jagtin 1887 og
Neptunus hætti göngu; hafa menn síðan ekki reynt að fá hingað
þilskip. Mun það fremur vera hafnleysið fyrir allri suðurströnd
landsins og hin slæma höfn og innsigling hér, sem hamlað hefir
mönnum frá að fá sér þilskip að nýju, en efnaleysi.
Um fuglaveiðar er það að segja, að arður af súlu- og fýl-
ungaveiði hefir verið nokkuð líkur allan aldarhelminginn, nema að
nokkur hnekkir varð á fýlungaveiðinni við hin miklu jarðspell í