Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1968, Blaðsíða 54
5fi
hvernig með þetta skyldi fara framvegis. Anzaði Guðmund-
ur því, að nú mundi bezt, að dýralæknirinn sæi um fram-
haldið, og fann ég á öllu, að nú þóttist hann hafa gengið
helzt til langt yfir á verksvið annars manns. Þó sagði hann
mér, hvenær og með hvaða hætti ég skyldi taka sauminn úr,
og svo bætti hann við: „Ef þetta verður ekki í lagi, geturðu
náttúrlega hringt". En ég þurfti ekki að hringja. Aðgerðin
bar tilætlaðan árangur.
Við hjónin buðum kaffi, en það kváðust þeir ekki mega
þiggja, væru þeir boðnir í kvöldkaffi hjá Guðmundi Karli
og hefðu aðeins ætlað að skreppa ofurlítið inn í fjörðinn,
á meðan kaffið væri að hitna og nú mundi það heitt fyrir
stundu. Já — þeir ætluðu aðeins að skreppa, en Eyjafjörður
laðaði og seiddi og áfram héldu þeir í kvöldkyrrðinni, unz
þjóðveginn þraut við innstu bæi. Er þeir komu að veginum,
sem liggur upp í Villingadal, sveigði ökumaður og farar-
stjóri, Jóhann héraðslæknir, inn á þann veg með góðu sam-
þykki ferðafélaganna og hélt á brattann upp í dalinn. Þang-
að hafði hann áður komið í lækniserindum og þótti dalur-
inn einkennilegur og fagur. Sagði hann, að sér hefði ekki
fundizt Eyjafjörður allur séður, fyrr en þangað væri komið,
og taldi ekki eftir sér að aka þennan vonda veg til þess að
sýna ferðafélögum sínum þetta einkennilega fyrirbæri í ís-
lenzkri náttúru, sem svo mjög líkist hinum búsældarlegu
útilegumannadölum, sem þjóðsögurnar segja okkur frá. En
þannig stóð á ferðum landlæknis og berklayfirlæknis, að
þeir höfðu tekið sér ferð á hendur með Esju umhverfis land-
ið í læknisfræðilegum erindum, og nú var Esja einmitt stödd
á Akureyri.
Eftir nauðsynlega hreingerningu, kvöddu þeir í skyndi,
hröðuðu sér upp í bifreiðina og óku af stað. En á hlaðinu
stóðum við hjónin og horfðum á eftir hinum kærkomnu
ferðalöngum með þakklátum huga fyrir kvöldstundina, sem
þeir gáfu okkur.
Eg bauð ekki borgun, því ég minntist sögunnar af ferða-
manninum, sem kom með áætlunarbifreiðinni til Akureyr-
ar. Efann sá nálægt afgreiðslunni mann sitjandi í bifreið og