Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1979, Síða 12
12
HARALD L. TVETERÁS
Mikil þjóðleg sönghátíð var haldin þar þessa daga, og Björnson var
aðalmaðurinn, átrúnaðargoð stúdentanna með skáldalaun Stór-
þingsins upp á lífstíð. Ibsen átti sem fyrr í erfiðleikum með sig, og
Björnson varð strax Ijóst, að það yrði að gera honum eitthvað til
uppörvunar. Með hjartahlýju tók hann að lofsyngja vin sinn í ræðum
og á mannamótum. Avöxtur þessara heitu sumardaga varð fyrsta
fullmótaða leikrit Ibsens, Konungsefnin, vort ágætasta söguleikrit,
eins og það er kallað. Það var samið á hálfum öðrum mánuði.
Björnson hélt áfram að styðja við bakið á vini sínum. Hann efndi til
samskota handa Ibsen til að afla honum farareyris til útlanda. Hann
studdi hann og styrkti á allan hátt.
Það var á þessum áfanga æviskeiðsins, sem Ibsen varð fullkomlega
ljóst, að hann yrði að sætta sig við þær andstæður, sem bjuggu í
skapgerð hans.
Sumt í fari sínu var honum ógeðfellt, en hann fann þó, að það var
mannlegt. Hann næði því aldrei að vera jafnheill og Björnson. En
einmitt í slíkum andstæðum fann hann sjálfan sig, orkulind sína sem
skapandi listamaður. Hinn mikli boðberi nýrra siða, sem hann var
innra með sér, átti í stöðugri baráttu við efasemdamanninn og óbil-
gjarnan uppreisnarsegg. Hann samdi Brand til að aga og styrkja
sjálfan sig og norsku þjóðina. Það var einmitt um sama leyti, að
Prússar gerðu áhlaup á Dybböl, og hann skammast sín fyrir, að
Norðmenn og Svíar skyldu ekki koma Dönum til hjálpar. ,,Brandur“
byggir á því, sem segja mætti, að standi ofar daglegu lífi mínu, skrifar
hann seinna. Til að setja skýrt fram, hver hann sjálfur væri og hver
hann vildi vera, breytti hann skyndilega útliti sínu í Rómaborg. Fram
að þeim tíma hafði hann hirt lítið um klæðaburð sinn, enda oftast
gengið fátæklega til fara. Nú klæddist hann eftir ströngustu tízkukröf-
um heldri manna, svörtum lafafrakka, sem varð upp frá því eins konar
einkennisbúningur hans. Jarpa alskeggið, sem hann hafði áður falið
andlit sitt á bak við, var klippt og snyrt og gert að brúskmiklu vanga-
skeggi, svo að kröftug hakan fékk betur að njóta sín. Hann breytti um
rithönd. Hún hafði verið létt og losaraleg, vel til þess fallin að hripa
niður hjá sér hugdettur í flýti, en nú varð hún stílhrein og ósveigjanleg
líkt og með henni væri lýst yfir, að það sem skrifað væri skyldi standa
óhaggað. I raun og veru fólst ný lífsstefna í breyttu útliti hans. En
sýnilega hafði hann ekki ennþá haldið stefnu sinni svo eindregið fram,
að hún hefði hlotið viðurkenningu.