Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1979, Side 44
44
JÓN STEFFENSEN
bráðlega. Það má ætla, að það hafi orðið að samkomulagi með þeim að
hinkra við með greiðslu, þar til séð yrði, hvort bærust frá rentukamm-
eri fyrirmæli um frekari greiðslu til Sveins, og stiftamtmaður heitið að
sjá til, að þær yrðu inntar af hendi, en jafnframt hefur hann ráðlagt
Sveini að sækja um lektorsstöðuna. Ólafi hefur eflaust verið ljóst, að
hér var hann að troða beiskum bita ofan í Magnús son sinn, en þar sem
þeir feðgar stóðu í miður vinsælum aðgerðum gegn Skúla, væri ekki á
þær bætandi augljósu lögbroti á Sveini, sem auk þess var náinn vinur
Stefáns sonar Ólafs og einnig fyrrum tengdasonar hans, Hannesar
biskups Finnssonar, og þess vegna æskileg sem friðsamlegust lausn
þessa máls. Að stiftamtmanni hafi borizt frá rentukammeri beiðni um
enn eina greiðslu til Sveins, má ráða af því, sem hann ritar í dagbók
sína 10. júlí 1794: bbr [bréf] frá Rentek[ammer] og N[aturhistorie]
Sfelskabet].
Þess verður ekki vart, að Eldrit Sveins beri nokkru sinni á góma í
dagbókum hans á árunum 1795 -1799, en tvívegis er þess getið, að
hann láni journal ársins 1794, og má þá vera, að honum hafi fylgt
Eldritið, hafi verið líkt gengið frá því og nú er í ÍB. 3 fol. í ágústyfirliti
Dagbókar 1797 segir: „Den Reisende Thorlacius [Þórður Thorlacius,
f. 1774] besögte mig d. llte, ham laant minjournal for 1794,“ og 13.
nóvember 1799 stendur: „Profastr [Gísli Þórarinsson, f. 1758] hér etc.
honum led min Reisejournal pro 93-4.“
Nú kemur stór eyða í dagbækur Sveins eða öll árin 1800 - 1805, en
1806 er þessi athyglisverða frásögn í þeim 8. ágúst: „Kom hingað
B[jarni] m[inn] Thorarensen, H[ei]m kominn um m[or]g[uninn] den
6te reid med honum ad Hlídarenda.“ og 8. sept.: ,,Skr[ifadi] B[iarna]
Thorarensen frá Oddg[eirs]h[ólum] með Eldskrifinu.“ Bjarni skrapp
þetta sumar frá námi í Hafnarháskóla í stutta heimsókn til foreldra
sinna á Hlíðarenda, en um það leyti er Sveinn Pálsson önnum kafinn
við bólusetningu og lækningar, þannig dvelst hann í Arnessýslu sam-
fellt frá 18. ágúst til 11. september ýmist hjá séra Eggert Bjarnasyni á
Klausturhólum, sem var að eignast erfingja, eða hjá Steindóri sýslu-
manni Finnssyni á Oddgeirshólum. Svo virðist sem Sveini hafi verið í
mun að koma Eldskrifi sínu á Bjarna áður en hann færi aftur til
Kaupmannahafnar og í þeim tilgangi hafi Sveinn tekið með sér journal
ársins 1794 í Arnessýslu að fá hreinskrift af Eldritinu, sem hann gæti
komið á Bjarna, þegar hann færi til skips sennilega á Eyrarbakka. Hér
er sýnilega komið IB. 23 fol., sem Sveinn er að keppast við að gangafrá,
ef Bjarna mætti auðnast að fá einhvern í Höfn til að gefa það út.