Morgunblaðið - 01.07.2001, Side 12

Morgunblaðið - 01.07.2001, Side 12
ERLENT 12 SUNNUDAGUR 1. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ „ÉG veit að hvert sem þeir fara bíður þeirra einhver einhvers staðar,“ sagði Denise Fer- gus, móðir James Bulger, í viðtali við eitt síð- degisblaðanna eftir að úrskurðað var að tveir átján ára drengir, Robert Thompson og John Venables yrðu látnir lausir úr fangelsi. Þann 12. febrúar 1993, þegar þeir voru á tíunda ári, tóku þeir tveggja ára snáða, James Bulg- er, þar sem hann stóð fyrir utan kjötbúð í verslanamiðstöð í Liverpool, leiddu hann á afvikinn stað rúma þrjá kílómetra í burtu og drápu. „Frjálsir. En fyrir hvaða framtíð?“ spyr Guardian og talar fyrir hönd margra. Undir fyrirsögninni eru myndir af drengjunum, teknar 18. og 20. febrúar 1993. Á skólamynd hefðu þetta verið sætir, litlir strákar en í ramma lögreglumyndar er samhengið óskilj- anlegt. Á sínum tíma urðu strákarnir tveir skot- spónar svo gífurlegrar hatursherferðar að hún hafði áhrif á dómstólinn sem dæmdi þá í lífstíðarfangelsi, þar sem þeir þyrftu að dúsa í að minnsta kosti átta ár. Því var síðar breytt í tíu ár og að lokum í fimmtán ár. Mál tvímenninganna fór fyrir Mannréttindadóm- stólinn í Strassborg sem ályktaði 1999 að málsmeðferðin bryti gegn evrópska mann- réttindasáttmálanum. Ein af ástæðunum fyr- ir því að drengjunum verður nú sleppt úr sérdeild fyrir unga afbrotamenn er að þegar þeir verða nítján ára nú í sumar biði þeirra líf í alvöru fangelsi sem óttast er að myndi ónýta þá meðferð sem þeir hafa fengið og á að búa þá undir sjálfstætt líf. Lífið sem tekur við líkist þó ekkert venju- legu lífi. Þeir fá ný nöfn og þeim fylgir nýtt líf með nýrri ævisögu og þeir mega aldrei nefna hverjir þeir raunverulega eru. Þeir verða líka undir nákvæmu eftirliti, bæði til að hindra hugsanleg brot en ekki síður til að hindra að þeim verði gert mein. En andstætt móður Bulgers, sem kyndir undir hatri, hvet- ur faðir hans til yfirvegunar. Þyngra en tárum taki Það er erfitt að halda aftur af tárunum þegar saga Thompsons og Venables er hug- leidd. Pabbi Thompsons var ofbeldishneigður og flutti að heiman þegar strákurinn var sex ára. Anne, mamma hans, var drykkjusjúk- lingur. Thompson á þrjá yngri bræður og einn sem er eldri. Thompson var sá ákveðnari og Venables hélt því fram að hann hefði átt hug- myndina að því að drepa Bulger, þótt Vena- bles ætti hugmyndina að því að þeir tækju hann með sér. Þegar morðið var framið bjó Neil, faðir Venables, ekki heima en foreldr- arnir hafa síðan tekið saman. Bæði Susan, mamma Venables, og Anne, sem hætti að drekka um leið og uppvíst varð um morðið, hafa staðið eins og klettar við hlið sona sinna. Pabbi Venables hefur ekki haft samband við son sinn eftir að hann var handtekinn. Hann brotnaði niður á fyrsta degi réttarhald- anna. Susan, Neil og Anne hafa öll tekið sér ný nöfn og flutt í nágrenni við samastað strákanna og verið hluti af daglegu lífi þeirra eftir því sem hægt var. Ný nöfn voru nauðsynleg því viðbrögðin voru strax óskaplega sterk. Nöfn strákanna voru ekki birt strax og réttarhöldin hafin með því að tala um Thompson sem barn A og Venables sem barn B. Þegar nafnleyndinni var hnekkt máttu fjölskyldurnar þola aðsúg öskrandi múgs sem hrækti á þær á götum úti. Er rétt að draga börn fyrir dóm? Hegðun drengjanna fyrir dómi var ólík og ferill þeirra í fangelsinu hefur verið ólíkur. Thompson var kallaður sá kaldi, grét aldrei en horfði framan í þá sem horfðu á hann. Hann játaði ekki á sig verknaðinn fyrr en 1999 þótt blóð hefði verið á skónum hans og játning Venables lægi fyrir.Thompson virtist slyngur, vel gefinn og ógnvekjandi, hafði aldrei verið ofbeldishneigður en undir hörðu yfirborðinu var hann aumur og meyr að sögn þeirra er áttu við hann. Venables grét og grét við réttarhöldin, var skelfingu lostinn yfir fólkinu sem horfði á hann og óskaplega skekinn yfir myndbirt- ingu fjölmiðla af þeim. Af málsgögnum kem- ur í ljós að hvorugur þeirra skildi nokkuð af því sem fram fór í réttarsalnum en þjáðust við að heyra spilaðar upptökur frá lokuðum yfirheyrslum þar sem þeir grétu ákaft. Fyrir þá báða voru réttarhöldin viðbót- aráfall sem þeir komast líklega seint yfir. Eitt af því sem hefur verið rætt í sam- bandi við réttarhöldin er að strákarnir skyldu vera leiddir fyrir dóm en ekki með- höndlaðir sem börn utan réttarsalarins eins og tíðkast í flestum öðrum Evrópulöndum. Röksemdin er meðal annars sú að það geti hvorki verið rétt né þjónað nokkrum tilgangi að draga börn í gegnum ferli sem þau skilji hvorki upp né niður í og skilji eftir andleg mein. Nýtt líf skapað á skrifborðinu Í Bretlandi eru 28 sérdeildir með pláss fyrir 300 unglinga undir nítján ára aldri sem brotið hafa alvarlega af sér. Strákarnir tveir hafa verið sinn á hvorri deildinni og aldrei hittst eftir að þeir voru leiddir út úr rétt- arsalnum, dæmdir drengir. Á þessum deild- um er mikil vinna lögð í að kenna krökk- unum og þeim veitt meðferð enda eru þau oft illa farin sálrænt. Deildirnar eru lokaðar en innan dyra eru ekki rimlar og allar dyr opnar. Meðferðin byggist á því að kenna þeim jákvæða hegðun sem þeim er svo umbunað fyrir með betri að- búnaði, til dæmis herbergi búnu sjónvarpi og bókum eða gæludýrum. Meðferðin er miðuð við það að undirbúa þá undir sjálfstætt líf. Vitað er að Venables hefur staðið sig vel í námi og tekið góð próf, þótt hann virtist í fyrstu eiga erfitt með nám. Hann hefur líka sýnt hæfileika í hönnun og listum, saumað brúðarkjól og gert veggteppi. Thompson hef- ur ekki tekið nein próf en getað tekið á gerð- um sínum. Þeir fara út með ný nöfn og nýja lífssögu þar sem atvikið í verslanamiðstöðinni í febrú- ar 1993 og eftirköst þess hefur verið þurrkað út. Aðgerðin, sem felur í sér að búa til nýtt líf, yfirgengur það sem flestir geta ímynda sér. Auk nýrra nafna hefur þurft að búa til sögu í opinbera kerfinu. Undanfarna mánuði hafa strákarnir verið kallaðir nýju nöfnunum og þeim kennd nýja ævisagan, sem felur ekki aðeins í sér nýja fæðingarstaði, nýja skóla og annað slíkt, heldur öll litlu smáatriðin sem fylla út í lífsmynd hvers og eins. Til undirbúnings fyrir nýtt líf hafa þeir verið á ferðinni hér og þar með umsjón- arfólki sínu, farið í verslanir, bíó og leikhús til að venjast lífinu sem við hin lítum á sem sjálfsagðan hlut. Þeir hverfa því út í lífið með þetta veganesti en hvort nokkuð getur und- irbúið þá undir það sem koma skal er annað mál. Það er vitað að fyrir alla sem hafa verið í fangelsi eru viðbrigðin við óheft líf mikil. Fyrir þá sem eru dæmdir til að skipta um líf er byrðin meiri heldur en hægt er að ímynda sér. Þeir mega engum segja sína fyrri sögu, heldur ekki kærustum eða eiginkonum. Leyndarmálinu um fyrra líf deila þeir aðeins með fjölskyldu sinni og þeim aðilum innan dómskerfisins sem hafa samið sögu þeirra. Þessi lausn er ávísun á nýtt líf en hún er líka ávísun á einangrun frá öllum þeim sem þeir eiga eftir að kynnast síðar meir í lífinu og um leið ævilangt álag. Er hægt að verjast fjölmiðlunum? Fyrstu tvö árin verður eftirlitið sérlega mikið. Ef þeir verða uppvísir að afbroti verða þeir umsvifalaust settir í fangelsi, þaðan sem þeir munu vart eiga afturkvæmt. Það er einnig fylgst með hegðun þeirra og tekið í taumana ef þeir fara til dæmis að drekka mikið. Og svo er það auðvitað sú hótun sem vofir yfir þeim að það komist upp hvar þeir séu. Þeim er bannað að umgangast hvor annan, bannað að nálgast fjölskyldu Bulgers og bannað að koma til Liverpool. Fjölmiðlum er bannað að birta upplýsingar um samastað þeirra, myndir eða annað er gæti afhjúpað þá. En bannið nær tæplega til Netsins og heldur ekki til birtingar erlendis. Spurningin sem allir spyrja er hvort það takist að halda nýju lífi strákanna leyndu fyrir fjölmiðlablóðhundum. Allur fréttaflutn- ingurinn af úrskurðinum og viðbrögð fjöl- miðla við honum sýna enn einu sinni þann mikla mun sem er á morgunblöðunum annars vegar og síðdegisblöðunum hins vegar, sem óspart hafa talað um hatrið á strákunum tveimur. Þetta andrúmsloft haturs er bæði óhugn- anlegt og sem betur fer sjaldgæft. Ástæðan er vísast ungur aldur þeirra en það gæti líka haft sín áhrif hvað móður Bulg- ers verður tíðrætt um hatur. Þau hjónin skildu og hún býr nú með nýjum manni og þremur börnum sínum. Ýmsir telja líka að réttarhöldin hafi kynt undir þessu óhugn- anlega andrúmslofti sem er svo gjörólíkt því sem varð í Noregi fyrir nokkrum árum er barn myrti barn. Það var ekki dregið fyrir dóm heldur málið meðhöndlað í kyrrþey. Mesta hættan á afhjúpun kemur frá fjöl- miðlunum sem hafa fé til að leggja í leit að strákunum. Blað í Manchester hélt því fram að það hefði í fórum sínum nýlega mynd af Venables sem tekin hefði verið á eftirlits- myndavél þegar hann var á ferð undir eft- irliti. Einhverjir hafa hugleitt að taka barna- myndirnar af þeim og láta tölvu gera þær eins og þeir gætu litið út nú. Þótt mál drengjanna sé einstakt eru þeir ekki þeir fyrstu sem fá nýtt líf eftir glæp. Mary Bell, sem myrti tvö börn á sjöunda áratugnum, var sleppt úr fangelsi og hvarf í mannhafið þótt hún væri áfram undir eft- irliti. En 1997, um tuttugu árum eftir að hún hvarf, birti eitt síðdegisblaðanna frásögn af nýju lífi hennar. Fræðilega séð væri hugs- anlegt að piltarnir flyttu til útlanda en um það eru engin dæmi. Þá væri líka eftirlit með hegðun þeirra miklu erfiðara. Dæmið sýnir að drengirnir tveir og þeirra nánustu eiga aldrei eftir að geta verið örugg- ir um að saga þeirra komist ekki upp. Ein- hvers staðar í Bretlandi eru tveir átján ára feitlagnir strákar sem eru um það bil að hefja líf sem fáa getur órað fyrir hvernig verður. Líf í skugga stöðugs ótta Tveir enskir átján ára strákar, sem myrtu tveggja ára strák fyrir átta árum, eru um það bil að hefja nýtt líf. Sigrún Davíðsdóttir segir marga velta því fyrir sér hvernig það verði að lifa með fjölmiðlablóðhunda á hæl- unum og vitundina um verknaðinn. AP Robert Thompson. AP John Venables. sd@uti.is BILL Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkj- anna, hefur nú loksins tjáð sig um ástandið í Miðausturlöndum og vonbrigðin með að fá ekki Ísraela og Palestínumenn til að undirrita friðarsamning í Camp David fyrir tæpu ári. Beinist gremja hans fyrst og fremst að einum manni: Yasser Arafat. Var skýrt frá þessu í netútgáfu bandaríska tímaritsins Newsweek. Clinton var nýlega gestur í dálítilli veislu, sem Richard Holbrooke, fyrrverandi sendi- herra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðun- um, og kona hans, rithöfundurinn Kati Mar- ton, efndu til og sagði hann þá, að Arafat hefði hringt og óskað honum velfarnaðar þremur dögum áður en hann hvarf úr forsetastóli. „Þú ert merkismaður,“ sagði Arafat við Clinton, sem svaraði að bragði: „Nei, aldeilis ekki. Ég er gjörsamlega misheppnaður og það er þér að kenna.“ Vatn á myllu Sharons Clinton kvaðst hafa sagt Arafat, að með því að hafna besta friðarsamningi, sem honum myndi nokkurn tíma bjóðast, þeim, sem Ehud Barak, forsætisráðherra Ísraels, samþykkti fyrir áeggjan Clintons, væri hann aðeins að tryggja kjör harðlínumannsins Ariels Sharons sem forsætisráðherra Ísraels. Það gekk líka eftir 6. febrúar sl. og síðan hefur Sharon stöðugt verið að þrengja að Pal- estínumönnum þrátt fyrir vopnahléið, sem George Tenet, yfirmanni bandarísku leyni- þjónustunnar, CIA, tókst að semja um. Clinton, sem hefur yfirleitt ekki léð máls á neinum viðtölum eftir að hann lét af embætti, naut óskiptrar athygli í veislunni er hann sagði frá því, sem gerðist á bak við tjöldin í Camp David. Kom það flestum á óvart er hann sagði, að hann hefði í raun ekki búist við að ná fram samningi milli Ísraela og Palestínumanna. Þessi mál og ástandið í Miðausturlöndum eru honum hins vegar mjög ofarlega í huga. Strandaði á flóttafólkinu Clinton lýsti Arafat sem öldnum leiðtoga, sem hefði nautn af því að vera í hlutverki fórn- arlambsins og virtist ófær um að semja frið. „Hann tók aðeins fimm skref þegar tíu þurfti til,“ sagði Clinton, sem kvaðst þó bjartsýnn á ungu leiðtogaefnin meðal Palestínumanna. Clinton upplýsti einnig, að það, sem hefði gert út um Camp David-viðræðurnar, hefði ekki verið skipting Jerúsalems milli Ísraela og Palestínumanna eins og almennt hefur verið talið, heldur sú krafa Palestínumanna, að pal- estínsku flóttamennirnir fengju að snúa aftur til Ísraels. Sagði hann, að viðræðurnar um Jerúsalem hefðu að lokum aðeins snúist um orðalag á yfirlýsingu um það hverjir réðu til- teknum hlutum Grátmúrsins. Arafat hefði hins vegar haldið áfram að krefjast þess, að stórir hópar flóttamanna, aðallega úr stríð- unum 1948 og 1967, fengju að snúa aftur. Sagði Clinton, að öllum hefði verið ljóst, að Ísraelar hefðu aldrei getað fallist á allan þann fjölda. Clinton segist einu sinni hafa mótmælt Ara- fat en það var þegar hann fór að draga í efa, að leifar gamla musterisins í Jerúsalem væru undir Al Aqsa-moskunni. Þetta var mikilvægt atriði vegna þess, að Grátmúrinn, leifar must- erismúrsins, er helgasti staður gyðingdómsins og Ísraelar ætla sér að hafa yfirráð yfir hon- um. Yfirstandandi uppreisn Palestínumanna hófst er Ariel Sharon heimsótti musterishæð- ina í september sl. haust. Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, um viðræður Ísraela og Palestínumanna í Camp David Kennir Arafat um hvernig fór

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.