Morgunblaðið - 28.07.2001, Blaðsíða 29
árið 1988 og 1989. Áður hafði hann ró-
ið í nokkur ár á Sighvati Bjarnasyni,
en Gaui var almennt ekki að skipta
um pláss. Hann lagði sjómennsku fyr-
ir sig og var nýbyrjaður að róa er fað-
ir hans varð bráðkvaddur 19. mars
1984 um borð í Valdimar Sveinssyni.
Var það mikið áfall fyrir fjölskylduna.
Ég sem útgerðarmaður á Smáey
Ve þurfti ekki að hafa mikil afskipti af
Gauja. Hann var mjög samviskusam-
ur og prúður starfsmaður. Við sem
unnum fyrir útgerðina í landi vissum
varla af honum, hann var aldrei með
athugasemdir við störf eða stefnu út-
gerðarinnar. Hann var útgerðinni
mjög trúr starfsmaður og vann fyr-
irtækinu allt hið besta sem hann gat.
Hver útgerðarmaður er stoltur af
svona starfsmönnum. Þau skipti sem
við höfum þurft að halda fundi um
einhver mál og komið var að því að
spyrja hann sagði Gaui alltaf: „Ég er
sammála.“ En hann var ekki aðeins
meðmæltur öllu því sem til heilla
horfði fyrir útgerðina, heldur var
hann þannig maður að hann kunni
alla hluti sem þurfti að sinna. Hann
var góður sjómaður og netamaður,
þannig að vandi verður að fylla skarð
hans um borð í Smáey. Vegna ljúf-
lyndis hans og geðprýði er samferða-
mönnum hans ekki kunnugt um öll
þau viðvik sem hann innti af hendi.
Það er vegna þess að hann taldi aldrei
neitt eftir sér og síst af öllu safnaði
hann í opinbera afrekaskrá.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(V. Briem.)
Það er eftirsjá í Gauja Matt. Allir
sem að útgerðinni standa biðja algóð-
an Guð að blessa minningu um góðan
dreng. Við biðjum Guð að blessa Guð-
nýju og börnin þeirra, Ólaf Stefni,
Anitu og Agnesi, og móður hans,
Lilju Alexandersdóttur.
Magnús Kristinsson
útgerðarmaður.
Þegar einn af manns allra bestu
vinum fellur frá verða minningarnar
eftir. Minningar um gleði og góðar
stundir. Þær mun ég varðveita fyrir
börn Gauja sem misstu föður sinn allt
of ung svo þau geti vitað hvern mann
hann hafði að geyma.
Við vinirnir höfum misst góðan
félaga sem verður sárt saknað, hvort
sem er á góðri stundu eins og þjóðhá-
tíð eða þegar þurfti að leita ráða og
trúnaðar.
Góða skapið sem hélst, sama hvað á
gekk, og passlegt kæruleysi komu öll-
um í gott skap og leystu vandann.
Oft var langt á milli funda okkar
Gauja þar sem ég var í burtu vegna
náms og starfa og hann á sjó. Engu
skipti hve langt var á milli endur-
funda, faðmlagið alltaf jafn þétt. Ekki
var nóg að við værum vinir, heldur
hélt hann sambandi við foreldra mína
meðan ég var í burtu og rétt fyrir
andlát sitt var hugur hans hjá
mömmu til að vita hvort ekki þyrfti að
flaka fisk handa henni.
Gleðin yfir að flytja heim til Eyja
og hitta Gauja stóð ekki lengi því ekki
tókst okkur að hittast í þessari lotu,
en hve litlu munaði.
Elsku Guðný, Ólafur, Aníta, Agn-
es, Dúfa og fjölskylda, okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Erlendur, Anna og
Sævör Dagný.
Það voru hörmulegar fréttir sem
okkur bárust um hádegisbil sl. laug-
ardag, að skipsfélagi okkar og vinur,
Guðjón Matthíasson eða Gaui eins og
hann var alltaf kallaður, hefði látist
fyrr um morguninn í hörmulegu slysi
um borð í Smáey. Að maður á hans
aldri, hraustur og frískur, skuli vera
tekinn burt frá eiginkonu og þremur
ungum börnum svo snögglega er okk-
ur óskiljanlegt.
Gaui hóf störf um borð í Smáey á
vordögum 1988, fyrst sem afleysinga-
maður en var svo fastráðinn um sum-
arið sama ár. Hann var víkingur til
vinnu, hvort sem var niðri í lest, í að-
gerð eða á dekki í trollinu, betri sjó-
mann en hann Gauja er erfitt að finna
og er því stórt skarð höggvið í áhöfn
okkar.
Margar minningar koma upp í
huga okkar við þessi skrif og eru þær
allar góðar, hann var skapgóður með
afbrigðum og reiddist aldrei, sama
hvað gekk á. Hann gekk í sín verk
undantekningarlaust og þurfti ekki
að biðja hann að gera hlutina nema
einu sinni. Hann hafði mikið verksvit
og ef hann var á vakt og trollið kom
óklárt eða rifið var öruggt að hann
yrði búinn að greiða úr þeirri flækju
eða bæta trollið eins fljótt og hægt
var. Honum var svo sannarlega sjó-
mennskan í blóð borin.
Gaui talaði aldrei illa um nokkurn
mann, umbar alla og var alltaf tilbú-
inn að aðstoða aðra ef þess þurfti,
hvort sem það var um borð eða þegar
í land var komið. Þótt yfirleitt léti
hann lítið fara fyrir sér var stutt í
prakkarann í honum og var hann
hrókur alls fagnaðar þegar svo bar
undir. Hann reri yfirleitt stíft til að ná
endum saman og bar hag fjölskyld-
unnar fyrir brjósti. Hann vildi að
henni liði vel.
Það verður erfitt fyrir okkur að
átta okkur á að Gaui skuli ekki koma
með á sjó aftur og munum við hugsa
mikið og hlýtt til hans þar sem hann
er nú. Elsku Guðný, þér og börnum
ykkar sendum við okkar innilegustu
samúðarkveðjur í ykkar miklu sorg
og munum við gera það sem við get-
um til að aðstoða ykkur í framtíðinni.
Öðrum aðstandendum sendum við
einnig samúðarkveðjur. Megi minn-
ing Guðjóns Matthíassonar lifa í
hjarta okkar um ókomna framtíð.
Blessuð sé minning hans.
Í dimmum skugga af löngu liðnum vetri
mitt ljóð til þín var árum saman grafið.
Svo ungur varstu, er hvarfstu út á hafið
hugljúfur, glæstur, öllum drengjum betri.
Og því varð allt svo hljótt við helfregn þína
sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.
Og enn ég veit margt hjarta, harmi lostið,
sem hugsar til þín alla daga sína.
En meðan árin þreyta hjörtu hinna,
sem horfðu eftir þér í sárum trega,
þá blómgast enn, og blómgast ævinlega,
þitt bjarta vor í hugum vina þinna.
Og skín ei ljúfast ævi þeirri yfir,
sem ung á morgni lífsins staðar nemur,
og eilíflega, óháð því, sem kemur,
í æsku sinnar tignu fegurð lifir?
Sem sjálfur Drottinn mildum lófum lyki
um lífsins perlu í gullnu augnabliki.
(Tómas Guðm.)
Áhöfnin á Smáey VE 144.
Fleiri minningargreinar um Guð-
jón Kristin Matthíasson bíða birt-
ingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga.
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. JÚLÍ 2001 29
INGI Viðar Árnason kennari
frá Kleifunum við Ólafsfjörð,
færði mér þetta skemmtilega
bréf sem ekki þarf annarra at-
hugasemda en þakklætis:
„Kæri Gísli.
Um sumar 2000 hittumst við í
Amtsbókasafninu á Akureyri og
áttum stutt samtal. Var þá
minnst á þáttinn þinn í Morg-
unblaðinu og þú nefndir hve
mikilvægt væri að finna til þess
að eiga stuðningsmenn í barátt-
unni. Ég lofaði að senda þér línu
og skammast mín nú fyrir síð-
búnar efndir.
Mér verður tíðhugsað og tíð-
rætt um versnandi málfar í fjöl-
miðlum hvort heldur er í rituðu
eða mæltu máli. Þá er einkar
kvíðvænlegt að heyra og sjá
hvernig íslenskukunnáttu fer
hrakandi í kennarastétt. Þegar
þessi vígi eru ekki jafntraust og
áður var fer maður að óttast al-
varlega um framhaldið.
Ég tek þó þann kost að sinni
að sleppa þungum áhyggjum en
senda þér nokkur kátleg dæmi
um notkun móðurmálsins.
Einkar hvimleið er notkun
blaðamanna á „burðarliðnum“.
Allt frá því að Morgunblaðið
skýrði frá því í fyrirsögn að
Megas væri með nýja hljóm-
plötu í burðarliðnum gengur
þetta kauðalega orðlag aftur á
síðum þess blaðs. 24. nóvember
sl. voru „kjarasamningar í burð-
arliðnum“ í Morgunblaðinu.
Getur verið að einhver einn
starfsmaður blaðsins sé ábyrg-
ur fyrir því hversu oft þetta er
notað í fyrirsögnum? Íþrótta-
fréttamönnum er tamt að grípa
til orðatiltækja, líklega í því
skyni að gæða frásögnina meiri
krafti og hraða. Um skeið voru
boltamenn alltaf: „iðnir við kol-
ann að skora mörkin“ og nú:
„líta svo og svo mörg mörk
dagsins ljós“ í hverjum leik.
Annað dæmi um orðfæri
téðra fréttamanna. Þegar ein-
hver einn leikmaður hefur átt
drjúgan þátt í sigri síns liðs er
því gjarnan lýst svo að hann
hafi: „séð um andstæðingana“.
Í Morgunblaðinu 4. nóvember
sl. er eftirfarandi fyrirsögn á
íþróttafrétt: „Gísli sá um HK.“
Þá er furðu títt að blaðamenn
þekki ekki merkingarmun á
sögnunum að sigra og vinna.
Ærið oft er skýrt svo frá að ein-
hverjir hafi: „sigrað“ keppni eða
leik.
Í Morgunblaðinu sl. vetur er
skýrt frá söngvakeppni í grunn-
skóla Blönduóss. Fyrirsögnin
hljóðar svo: „Dagrún Jónasdótt-
ir sigraði Blönduvision.“
Viðleitnin til að auka áherslu,
einkum í fyrirsögnum, leiðir
blaðamenn oft út á hálan ís.
Í Morgunblaði 2. mars sl. var
skýrt frá góðri loðnuveiði í
Faxaflóa undir stórletraðri fyr-
irsögn, svohjóðandi: „Menn að
fá heiftarköst vestur af Garð-
skaga.“ (Var ekki ástæðulaust
að fá heiftarköst þegar veiðin
gekk svona vel?)
Skipting milli lína kemur oft
skringilega út á síðum dagblaða.
Nýlegt dæmi úr Morgun-
blaðinu er svohljóðandi: „Samið
um sölu á hvala-furðum“.
Áhrif enskunnar eru áleitin
og koma stundum fram í spaug-
sömum myndum. Eftirfarandi
dæmi er í senn, spaugilegt og
sorglegt.
Í stafsetningarverkefni á vor-
prófi í 9. bekk í mínum skóla nú í
maí var lesin eftirfarandi setn-
ing: Höfundurinn kleif brattan
eldgíg til að fá sem besta yfirsýn
yfir frumskóginn. Þrír nemend-
ur rituðu þetta á eftirfarandi
hátt:
„Höfundurinn Clave Brattan
... o.s.frv. og hefðu eflaust getað
borið nafn höfundarins lýtalaust
fram á enskunni!
Á kennsluferlinum hefur ým-
islegt rekið á fjörurnar úr próf-
um. Læt tvö svör fylgja með.
Spurt var um meginatriði í
ræðu Þorgeirs Ljósvetninga-
goða á þingi árið 1000. Eitt svar
var svohljóðandi: Þá sagði Þor-
geir: „En nú þykir mér að við
eigi þá ráða er mest í gegn svo
að málamiðlum að hvortveggja
hafi nokkuð sín til mála að
leggja allir eiga ein lög slíta og
friðinn og allir menn skyldu
krist taka og skírnir vera.“
Annað dæmi um knappan stíl
í prófsvörum, einnig úr prófi í
Íslandssögu.
Spurt var um landnám nor-
rænna manna í Vesturheimi.
Svar: Eiríkur rauði fann Am-
eríku og fluttist þá allmargt af
Íslendingum þangað. Og er
mikið af Vestur Íslendingum
þar enn þá. Búa þeir margir í
borg í Kanada sem heitir Winni-
peg. Tala Íslendingarnir þar
okkar mál mjög vel. Er þarna
heimili fyrir Ísleningana sem
heitir Gimli.“
(Engan skyldi undra þótt þeir
séu komnir á elliheimili búnir að
dvelja þarna svona lengi!)
Eitt skóladæmi að lokum,
fengið frá samstúdent úr M.A.
1959 sem m.a. fæst við íslensku-
kennslu.
Lesin var setning er hófst
svo: „Vegna bilunar í sendinum
á Gagnheiði ... en nemandi skrif-
aði: „Vegna bilunar í sendinum
á Ragnheiði“ o.s.frv.
Læt þetta nægja að sinni og
kveð með þökk fyrir góðar
stundir í M.A.“
Tíningur
1) Sjónvarpsfréttir á Stöð II
voru sérlega ánægjulegar laug-
ardagskvöldið 30. júní sl. Enn
ánægjulegri vegna þess að
stundum er eins og málvöndun
varpanna fari í frí um helgar.
Vilborg Davíðsdóttir sagði að
hlutabréf hefðu skipt um eig-
endur. Hvað eftir annað hefur
heyrst í fréttum að bréf hafi
„skipt um hendur“, og er það
líklega hrá þýðing úr ensku, en
bréfin eru handalaus, að því er
ég best veit. Vilborg sagði einn-
ig um tilteknar hljómsveitir að
þær hefðu stigið á svið, sem rétt
var. Umsjónarmanni til leiðinda
hefur hver étið eftir öðrum að
skemmtikraftar hafi „stigið á
stokk“.
2) Þó að enska orðið chall-
enge merki bæði áskorun og
ögrun, má ekki þýða það hugs-
unarlaust með þessum orðum. Í
sumum samböndum eiga önnur
íslensk orð miklu betur við, svo
sem viðfangsefni, vandi,
vandamál. Einhver talaði um að
Ríkisútvarpið stæði frammi fyr-
ir áskorun, þótt enginn hefði á
það skorað, en það stóð and-
spænis tilteknu vandamáli.
Mjög oft á við að segja að eitt-
hvað sé skemmtilegt viðfangs-
efni, þar sem menn hafa þrá-
stagast á orðinu ögrun.
3) Ítrekuð er tillaga um ný-
yrðið flúður fyrir ensku rafting.
Flúður er hvorugkynsnafnorð
og beygist eins og klúður og
múður; flúður, flúður, flúðri,
flúðurs. Af þessu nafnorði kem-
ur sögnin að flúðra um það er
menn fleygjast niður straum-
harðar vatnslitlar ár á bátkæn-
um sínum. Sögnin að flúðra fer
eftir fyrsta flokki veikra sagna
eins og múðra.
Salómon sunnan sendir:
Þegar hæst skein á himninum sól,
giftist Halldóra manni á kjól;
allt fór áfram svo greitt,
hún var yfir sig þreytt
og afgiftist rétt fyrir jól.
ÍSLENSKT MÁL
Umsjónarmaður Gísli Jónsson
1.120. þáttur
Breiðabólstað í Fljótshlíð. Að lok-
inni skólagöngu í Flensborgarskóla
og Samvinnuskólanum vann hann
um árabil á Selfossi, en sneri heim
árið 1950 og bjó eftir það á Hvoli
með systkinum sínum Önnu og Sig-
urði.
Þegar ég man fyrst eftir trítlaði
ég með honum við hin ýmsu störf.
Verkaskipting systkinanna var
skýr og hver gegndi sínu hlut-
verki. Honum var einstaklega vel
lagið að láta krakka vinna undir
sinni stjórn, en gat orðið gustmik-
ill ef honum fannst ekki rétt að
verki staðið. Hann vann mikið að
félagsmálum og því oft fjarverandi
af bæ, en það munaði um hann í
verki. Margar minningar á ég um
hann á engjunum þar sem hann
mokaði á heysleðana og ég rakaði
dreifarnar á eftir honum. Þegar
hann var kominn á miðjan aldur
bilaði heilsa hans nokkuð, hann var
fatlaður á fæti og átti einnig orðið
bágt með að vera í þurru heyi. Al-
veg framundir áttrætt rakaði hann
þó saman heyi á dráttarvél, og á
seinni árum safnaði hann saman
bréfum föður síns og setti í möpp-
ur, auk þess að vélrita nokkuð af
handritum hans. Ef tómstund
gafst las hann mikið og mundi allt
sem hann las, einnig hafði hann
mikið yndi af gestakomum. Tvö
síðustu árin dvaldi hann á dvalar-
heimilinu Hjallatúni í Vík, í fyrra-
sumar var Sigurður bróðir hans og
faðir minn þar með honum í her-
bergi og aðdáunarvert hvað Guð-
mundur annaðist vel um yngri
bróður sinn til hinstu stundar.
Nú er Guðmundur kominn heim,
þar sem afi og amma standa við hlið
himnaríkis og fagna blessuðum
Guðmundi sínum og amma er áreið-
anlega búin að setja upp spari-
svuntuna sína eins og þegar góða
gesti bar að garði forðum.
Arnþrúður.
Elsku Guðmundur frændi.
Mig langar til að þakka þér fyrir
allan þann stuðning, ást og kær-
leika sem þú sýndir mér gegnum
árin. Ég samgleðst þér því þú hefur
hlotið friðinn langþráða, ég mun
alltaf eiga minninguna um mikinn
og góðan frænda.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna,
Guð þerri tregatárin stríð.
(V. Briem.)
Elsku Guðmundur, Guð varðveiti
þig og geymi. Hvíl í friði.
Þinn frændi
Sigurður á Hvoli.
Elsku Guðmundur frændi.
Ég kveð þig með söknuði og
trega en innst inni veit ég að þetta
var það sem þú vildir öðlast, friðinn.
Þær minningar sem hvíla í hjarta
mínu eiga þar ætíð sess alla tíð.
Elsku frændi, þú kenndir mér og
Sigga bróður mínum svo margt og
gafst okkur ást og kærleika, þú
varst og ert besti frændi okkar sem
hugsast gat. Öll ljóðin sem þú
kenndir mér eru í tuga tali. Þó að ég
muni þau ekki öll verða þau alltaf til
staðar. Þú varst orðinn einn eftir af
systkinahópnum og þig langaði að
fara til himna að hitta öll systkinin,
þ. á m. afa sem kvaddi okkur í fyrra
og litla bróður þinn sem lést við
fæðingu. Þú talaðir um svo margt
þó að þú værir veikur og ættir bágt
en aldrei léstu það í ljós. Þú fórst
bara með vísur og sagðir sögur.
Elsku Guðmundur, þú sofnaðir
vært í rúminu þínu umvafinn kær-
leika vina og vandamanna, þú hafð-
ir hlotið friðinn langþráða. Nú, þeg-
ar þú ert kominn til allra vinanna
og ættingjanna hjá Guði veit ég að
þér líður vel og að ég þarf ekki að
hafa áhyggjur af því að þér líði illa.
Ég vil enda þessa kveðju til þín á
uppáhaldsljóðinu mínu sem þú
kenndir mér:
Frá því fyrst ég sá þig hér,
sólskin þarf ég minna,
á lífsleiðinni nægir mér
ljósið augna þinna.
Takk fyrir allt og allt.
Hvíl í friði.
Þín frænka
Sigurbjörg á Hvoli.
Fleiri minningargreinar um Guð-
mund Eyjólfsson bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu daga.