Morgunblaðið - 13.09.2001, Page 44
MINNINGAR
44 FIMMTUDAGUR 13. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Hún var amma
frumburðar míns
Klöru, sem hún um-
vafði alla tíð sinni ein-
stæðu hjartahlýju –
alla barnæskuna, unglingsárin – og
fram á fullorðinsár, af þeirri ein-
stæðu dýpt, er aðeins þeim er gefin
sem mikið hlotnast í vöggugjöf af
óendanlegum þroska. – Hún minnti
mig ætíð á undurfagurt blóm er
brosti mót sólu og regni, hversu
miskunnarlaust og kalt sem vind-
urinn blés.
Hún var fögur kona er hlaut í
vöggugjöf þá dýrmætu hæfileika að
gefa af sjálfri sér, afdráttarlaust
öllum er urðu þeirrar blessunar að-
njótandi að fá að kynnast henni, og
verða vinur hennar.
Hún lagði aldrei illt til nokkurrar
manneskju – sá aðeins það góða og
uppbyggilega. – Hún var Dimma-
limm, fyrirmyndin er Muggur
frændi hennar hafði í huga er hann
myndskreytti ævintýrið sem verður
ódauðlegt um ókomna tíð! Henni
var ekkert óviðkomandi. Allt skipti
máli. Einhver fegursta brúðarmynd
sem tekin hefur verið er myndin af
henni og Rögnvaldi, manninum,
sem hún elskaði afdráttarlaust og
dáði, og stóð við hlið alla tíð af
kvenlegri mýkt, reisn og óendan-
legu stolti. – Hún var alla tíð stelp-
an hans Rögnvaldar, sem hann
elskaði, dáði og virti – þau voru
eitt!
Elsku Rögnvaldur, Geir, Þór og
fjölskylda – Guð varðveiti ykkur
um ókomna tíð.
Rósa Ingólfsdóttir.
Mér hefur lengi fundist að kynni
mín af Helgu Egilson væru eins og
gefandi og skemmtilegt ferðalag.
Helga var einstök – svo stór sál í
HELGA
EGILSON
✝ Helga Egilsonfæddist í New
York 13. nóvember
1918. Hún lést á
Landspítalanum við
Hringbraut 1. sept-
ember síðastliðinn
og fór útför hennar
fram frá Dómkirkj-
unni í Reykjavík 11.
september.
svo nettum líkama að
ég óttaðist mest að
brjóta hana þegar við
föðmuðumst, og það
var bara nokkuð oft.
Svo áhugasöm um
menn og málefni að
aldrei skorti umræðu-
efni, enda vinmörg og
virt. Þaðvar svo gam-
an að segja henni frá
einhverju sem hafði
glatt mig, áhuginn
skein úr andlitinu og
stundum lyfti hún
höndunum aðeins og
hossaði sér létt í sæt-
inu af einskærri gleði og kátínu. Já,
áhugasöm, forvitin (aldrei hnýsin),
glaðvær, skemmtileg, góð og
greind.
Nú er hún horfin þessi yndislega
kona sem elskaði Rögnvald sinn,
synina og fjölskylduna alla, listina,
menninguna og lífið sjálft, en á
langri ævi tókst henni alltaf með
miklum glæsibrag að varðveita litlu
stúlkuna í sjálfri sér.
Farðu á Guðs vegum, elsku vin-
kona mín, inn í eilífa birtu og yl.
Bergljót Gunnarsdóttir.
Dimmalimm er dáin.
Helga Egilson er eina alvöru æv-
intýraprinsessan sem ég hef kynnst
um dagana. Örlögin höguðu því svo
til að þegar ég og maður minn fór-
um út í að byggja okkur hús í
gömlu Reykjavík þá reis það beint
á móti húsi því sem Helga og mað-
ur hennar Rögnvaldur Sigurjóns-
son bjuggu í. Þau sýndu fram-
kvæmdunum strax áhuga en höfðu
af því ofurlitlar áhyggjur að við
myndum byggja fyrir útsýnið
þeirra til suðurs. En þannig er að
búa í borg. Í stað útsýnis til fag-
urra fjalla fyllast götur af húsum
og fólki. Þessi hjón þekktu þó til
þéttbýlli borga en Reykjavíkur og
höfðu dvalið langdvölum erlendis.
Þau gerðu sér því ekki frekari rellu
út af húsbyggingunni en buðu okk-
ur þess í stað vináttu sína. Þó voru
milli þrjátíu og fjörutíu ár sem
skildu okkur að í aldri.
Við fengum strax miklar mætur
á Helgu og Rögnvaldi. Og ekki
bara þeim heldur á Egilsonsystr-
unum þrem á Þórsgötunni, því
systur Helgu, Lóló og Tótó, bjuggu
sitt til hvorrar handar við hana.
Þær gengu oft þrjár saman eftir
gangstéttinni og voru svo hændar
hver að annarri. Þær voru allar
listakonur. Lóló var þýðandi en
Helga og Tótó bjuggu til fræga
jólasveina og svuntukerlingar sem
báru hlýju skopskyni þeirra glöggt
vitni. Í vinnustofu þeirra var allt
fullt af tuskum og garni í föt og
búka, pípuhreinsarar voru notaðir í
útlimi, hnetur í andlit og allra
minnstu flíkurnar prjónuðu þær
með tannstönglum! Verk þeirra var
einstaklega gaman að gefa vinum
sínum í útlöndum og geta sagt um
leið: Ég þekki listakonurnar. Þær
búa í götunni minni.
En svo flutti Lóló burt og ég
saknaði hennar. Og svo flutti Tótó
og ég saknaði hennar. En Helga og
Rögnvaldur voru kyrr lengi enn og
gluggarnir okkar kölluðust á yfir
götuna. Og við vorum alltaf að hitt-
ast á gangstéttunum og hjá kaup-
manninum á horninu og spyrja
frétta; og hvernig gengur? og
hvernig líður? og hvað eruð þið að
fást við? og hvert fóruð þið í fríinu?
og mikið er gott að sjá ykkur aftur.
Þau voru höfðingjar heim að
sækja. Það þekkja svo margir. Og
yfir heimili þeirra var alveg ein-
stakur þokki. Þau bárust ekki á,
það var nú eitthvað annað, en þau
áttu samt mikla dýrgripi, flygil
Rögnvalds uppi á loftinu, þaðan
sem etíður, valsar og prélúdíur
hljómuðu um götuna, og á stofu-
veggnum eina alveg sérstaka
mynd. Mynd af andliti lítillar
stúlku með ljósan koll og kringlótt
augu. Málverk eftir Mugg af Helgu
litlu Egilson sem í ævintýrinu var
kölluð Dimmalimm. Hann var stóri
frændi hennar sem málaði ef henni
þessa mynd. Hún var litla frænka
hans sem blés honum í brjóst ein-
hverju fallegasta ævintýri sem við
Íslendingar eigum.
Dimmalimm var rúmlega sextug
þegar ég sá hana fyrst. Viðmót
hennar var alveg jafn hýrlegt og
elskulegt og lýst er í ævintýrinu,
fas hennar svo unglegt þegar hún
trítlaði léttstíg eftir gangstéttun-
um. Þannig var hún líka þegar hún
var orðin áttræð, farin að heilsu og
næstum blind. Hún hrópaði enn:
Mikið er gott að sjá ykkur! Það er
svo langt síðan við höfum hist!
Hvar hafið þið eiginlega verið?
Þegar ég vissi að hún var í raun
hætt að sjá mig tók ég utan um
hana ef við mættumst á gangstétt-
unum. Það var sjónarsviptir að
Helgu og Rögnvaldi þegar þau
fluttu burt úr Þórsgötunni. Þau
voru fallegustu hjónin í götunni.
Og nú er ævintýrinu um Helgu
Egilson lokið. Það var yndislegt að
fá að kynnast því í alvörunni. Hún
skilur eftir fagra mynd. Rögnvaldi,
sonum þeirra og fjölskyldum send-
um við Einar Karl innilegar sam-
úðarkveðjur.
Steinunn Jóhannesdóttir.
Það var fyrir rúmlega hálfum
öðrum áratug að undirritaður hóf
að ganga upp tröppur Nýja Tón-
listarskólans og sækja þar tíma í
píanóleik. Kennari minn til margra
ára var hinn þjóðkunni píanósnill-
ingur Rögnvaldur Sigurjónsson.
Þegar fram í sótti og á tíðum nem-
endatónleikum mátti alltaf treysta
því að við hlið Rögnvaldar sæti
kona hans, Helga Egilson, sem við
kveðjum í dag með miklum sökn-
uði.
Helga fylgdist af miklum áhuga
með nemendum Rögnvaldar enda
sjálf tónelsk og mannblendin. Með
árunum kynntumst við öll þrjú bet-
ur; heimsóknir sem og píanótímar
urðu algengari á Þórsgötu 21a, þar
sem þau Helga og Rögnvaldur
bjuggu lengi, og tengslin urðu
sterkari. Ekki aðeins þannig að um
væri að ræða nemanda sem sótti
stundum kennslu heim til þeirra
hjóna, heldur var tilfinningin sú
eins og um eina liðsheild væri að
ræða, vini. Það að heimsækja
Rögnvald var að heimsækja Helgu.
Á meðan spilað var uppi á efri hæð
íbúðarinnar, hlustaði Helga á at-
hugasemdir Rögnvaldar og við-
brögð nemandans á meðan hún
sinnti sínum störfum. Eftir kennslu
urðu fjörugar umræður þar sem
margt bar á góma.
Ég minnist Helgu sem konu, sem
gædd var óvenju mikilli gæsku og
vinsemd, konu sem var sem klettur
við hlið manns síns, stoð hans og
stytta á viðburðaríkum og glæsi-
legum æviferli. Þau bjuggu um
tíma austan hafs og vestan, ferð-
uðust víðar en þá var vani, komu
loks heim eftir langt ferðalag. Ljóst
er, að þetta langa ferðalag var mót-
að af Helgu, gáfum hennar og
gæsku.
Ég og fjölskylda mín sendum
Rögnvaldi og fjölskyldu hans allri
innilegar samúðarkveðjur.
Ólafur Reynir Guðmundsson.
Það hefur dregið fyrir sólu.
Haustbirtan umlykur okkur. Við
minnumst gleðidaganna, þegar sól-
in skein á þessu sumri. Nú umlyk-
ur okkur haustbirtan, hlý en trega-
full. Sólin skein alltaf skært í návist
Helgu vinkonu minnar. Það lýsti af
henni og gleði hennar hreif okkur
ævinlega. Gleðin hennar svo rík af
bjartsýni, vonum og góðvild í garð
allra, ekki síst þeirra sem minna
máttu sín. Húmorinn og hláturinn
hennar hljómar í eyrum.
Heimskonan, sem fæddist í New
York, lifði bernsku sína í Barcelona
á Spáni en fluttist þá heim til Ís-
lands með móður sinni og systk-
inum. Þá hafði faðir hennar látist
langt um aldur fram.
Ég kynntist Helgu og Rögnvaldi
fyrst 1944 í New York. Ég hafði
verið nemandi við Tónlistarskólann
en Rögnvaldur kennari. Í fyrsta
skipti sem ég kom á heimili þeirra í
New York setti Rögnvaldur plötur
á fóninn fyrir mig. Sinfónía nr. 40
eftir Mozart og B-dúr píanókonsert
eftir Brahms – ég gleymi því aldrei
– síðan hefi ég átt vináttu þeirra.
Helga var listakona. Allt lék í
höndunum á henni og allt varð að
einhverju sérstöku, einhverju, sem
maður hafði aldrei séð áður. Tregi
og haustbirta léku aldrei um
Helgu. Þegar maður kom til henn-
ar og kvartaði kanske yfir smá-
munum og kveinaði undan ósann-
girni heimsins hlustaði hún á með
athygli, gaf kannske ráð, en sjálf
kvartaði hún aldrei. List Rögnvald-
ar og frami var henni mikilvægast.
Heimili þeirra með sonunum tveim
var heimur út af fyrir sig – fallegur
og menningarlegur búnaður, laus
við hégóma, en smekkvísin í fyr-
irrúmi.
Síðustu árin voru oft erfið, en lit-
ið var yfir örðugleikana, öll hugsun
var heil og gefandi öðrum þótt
sjónmissir væri mikill og heyrn
dofnaði. Rögnvaldur og Helga
stóðu saman og þreyttu lífið án um-
kvörtunar, en öðrum til fyrirmynd-
ar.
Við Gunnar, Helga og Rögnvald-
ur áttum margar ógleymanlegar
stundir saman. Minningarnar
minna mann á að varðveita gleðina
og vináttuna.
Við getum ekki kvatt Helgu, hún
mun alltaf lifa með okkur.
Við Gunnar deilum söknuði með
Rögnvaldi.
Hans fólki biðjum við að líta til
sólarinnar, þegar hún skín skærast.
Guðrún J. Þorsteinsdóttir.
Látinn er vinur minn og ná-
granni Jóhann T. Bjarnason.
Við Jóhann hittumst fyrst árið
1952, þá í Samvinnuskólanum
Standford Hall í Bretlandi.
Skólameistarinn tilkynnti mér að
þar væri einn Íslendingur fyrir
og héti „Bjarnason“. Fyrir Ís-
lending voru þetta ekki miklar
upplýsingar, en svo var ég kynnt-
ur fyrir þessum landa mínum sem
reyndist vera sérlega prúður og
hlýr ungur maður, en hlédrægur.
JÓHANN T.
BJARNASON
✝ Jóhann TómasBjarnason
fæddist á Þingeyri
við Dýrafjörð 15.
febrúar 1929. Hann
andaðist á Heil-
brigðisstofnun Ísa-
fjarðarbæjar að-
faranótt
þriðjudagsins 4.
september síðast-
liðins og fór útför
hans fram frá Ísa-
fjarðarkirkju 12.
september.
Það er skemmst frá
því að segja að frá
þessum fyrstu kynn-
um hefi ég fengið að
njóta vináttu hans.
Sambandið rofnaði
aldrei frá okkar
fyrstu kynnum í Eng-
landi, því nokkrum
árum síðar tók hann
við starfi kaupfélags-
stjóra Kaupfélags Ís-
firðinga og urðum við
því nánir samstarfs-
menn allt frá 1. febr-
úar 1957 til 1. febr-
úar 1970. Á sjöunda
áratugnum byggðum við hús okk-
ar við Sætún 5 og 7 og höfum bú-
ið hér með fjölskyldum okkar í
hartnær 40 ár. Nú er hann horf-
inn yfir þessi landamæri sem
okkur er öllum ætlað að fara, við
ræðum því ekki lengur landsins
gagn og nauðsynjar eða ætti ég
heldur að segja málefni Vest-
fjarða sem voru honum hjartfólg-
in mjög allt til hinstu stundar. Án
þess ég vilji vanmeta störf manna
sem unnið hafa að málefnum
Vestfjarða, þá er það ýkjulaust
mál, að enginn einn maður hafi
unnið Vestfjörðum meira gagn á
þeim árum sem hann gengdi
starfi framkvæmdastjóra Fjórð-
ungssambands Vestfjarða. Þessi
hógláta framsetning mála, studd
nákvæmum útreikningum, skap-
aði honum þá virðingu sem kom
viðmælendum hans til að átta sig
á því, að þennan mann bar þeim
að hlusta á. Öll þau verkefni sem
Jóhann beitti sér fyrir standa hér
sem minnismerki um starf hans,
en það eru fáir í dag sem vita
hversu mikið starf var unnið til
þess að koma þeim í kring. Ég
ætla ekki að tína þau öll til nú í
stuttri grein, en jöfnun sím-
gjalda, jarðgöng og stofnun
Orkubús Vestfjarða, kemst ég
ekki hjá að nefna. Eitt er víst að
hvar sem framfaraverkefni til
bætts mannlífs hér á Vestfjörðum
blöstu við, var ekki spurt um
vinnutíma og fyrirhöfn, en gengið
ótrauður til verks. Eiginkona
hans Sigrún studdi hann í öllum
hans störfum og skapaði honum
heimili sem alltaf var gott að
koma á. Við áttum langt samstarf
innan Frímúrarastúkunnar Njálu,
en það starf leiddi hann farsæl-
lega í 11 ár. Fyrir nokkrum árum
greindist Jóhann með erfiðan
sjúkdóm sem batt hann þeim
böndum sem erfitt er fyrir flesta
að bera, en þá kom berlega í ljós
þrek hans og einbeitni. Æðruleysi
hans gagnvart sjúkdómnum og
hve stutt var oft í léttan húmor
var einkennandi fyrir hann hin
síðari ár. Við hjónin kveðjum nú
góðan vin og nágranna með þakk-
læti í huga. Blessuð sé minning
hans.
Gunnar Jónsson.
Mannkynið er litríkt samansafn
af alls konar fólki. Þó verða heil-
steyptir og sannir menn allt of
sjaldan á vegi manns, menn sem
skynja samhengi hlutanna, leitast
við að lyfta samfélagi sínu á hærra
plan og gleyma sjálfum sér við
verkið. Jóhann T Bjarnason var
þannig maður. Ég kynntist honum
ung þar sem faðir minn og hann
unnu á sama vinnustað, seinna
hjálpuðust þeir að við að byggja
fjölskyldum sínum hús og bjuggu
síðan hlið við hlið í áratugi. Sigrún
og Jóhann voru tillitssamir og góð-
ir nágrannar, þeim fylgdi líka ann-
að andrúmsloft en ég átti að venj-
ast, ég tengdi það við Dýra-
fjörðinn. Þetta voru dálítið aðrar
áherslur, aðrar venjur og jafnvel
önnur áhugamál. Það er ekki lang-
ur vegur milli Dýrafjarðar og Ísa-
fjarðar og nú orðið er þetta eitt og
sama sveitarfélagið, en samt sem
áður hafa samfélögin í hverjum dal
og firði þróað með sér sín sér-
kenni, sem ennþá eimir eftir af.
Fyrstu minningarnar um þau
hjónin eru líklega frá ferðalagi
sem starfsfólk Kaupfélags Ísfirð-
inga ásamt fylgdarliði fór um Ísa-
fjarðardjúp til að þjónusta sveita-
fólkið í Djúpinu. Þá var farið með
stóran vörubíl fullan af varningi
og settur upp markaður á fleiri en
einum stað. Kaupfélagsstjórinn
Jóhann gekk í öll störf með sínu
fólki. Komið var upp borðum,
varningi raðað og svo var hleypt
inn. Markaðurinn var mjög líf-
legur, allir íbúar sveitarinnar
mættu á staðinn, tóku hundana
með og stöldruðu við lengi dags.
Jóhann var mikill sjentilmaður og
ákaflega kurteis, hann hljóp iðu-
lega til og opnaði dyr fyrir fólki,
þá sjálfsögðu tillitssemi ætla Ís-
lendingar seint að læra. Á leiðinni
heim úr þessum markaðsleiðangri
var farið yfir Breiðadalsheiðina
þar sem Vestfjarðagöngin liggja
nú undir. Þá var farið eftir gamla
veginum upp á fjallið og á honum
voru margir hlykkir og krappar
beygjur. Jóhann var á undan upp
og gaf stefnuljós í hverri einustu
beygju, pabbi gaf þá skýringu að
þetta gerði Jóhann af einskærri
samviskusemi og tillitssemi við
okkur sem á eftir komum.
Sjálf á ég Jóhanni margt að
þakka, hann hvatti mig og studdi á
margan hátt þegar ég kom aftur
heim að námi loknu, til að takast á
við verkefnin sem mér fannst hrópa
á mig hvert sem ég leit. Hann
kunni að gefa ungu fólki tækifæri
án þess að ráðsmennskast of mikið
með það. Ég dáðist að því hvernig
hann vann, hann var hugsjónamað-
ur með fæturna á jörðinni. Hann
hafði aldrei hátt, ekki einu sinni
þegar hann hló, þá hristist hann
bara allur af hlátri og húmorinn var
líka góður, þessi fíni húmor sem sér
kómíkina í hversdagslegustu hlut-
um.
Ég vil þakka honum allt sem
hann hefur gert fyrir okkur og kveð
með söknuði. Fjölskyldunni allri
sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Elísabet Gunnarsdóttir.
Handrit afmælis- og minningargreina skulu vera vel frá gengin, vélrituð eða tölvusett. Sé
handrit tölvusett er æskilegt, að disklingur fylgi útprentuninni. Senda má greinar til blaðsins
í bréfsíma 569 1115, eða á netfang þess (minning@mbl.is). Nauðsynlegt er, að símanúmer höf-
undar/sendanda fylgi. Nánari upplýsingar má lesa á heimasíðum. Það eru vinsamleg tilmæli
að lengd greina fari ekki yfir eina örk A-4 miðað við meðallínubil og hæfilega línulengd — eða
2.200slög. Höfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.